Leita í fréttum mbl.is

Offjölgun mannyns

er hið raunverulega vandamál sem við er að fást. Hlýnun af mannavöldum, útblástur gróðurhúsalofttegunda, plastmengun í höfunum, stríðshætta og hryðjuverk, trúarbragðadeilur, útrýming villtra dýra, eyðing skóga, umhverfisslys og gríðarleg aukning í vinnslu jarðefnaeldsneytis . Allt eru þetta afleiðingar af hinu raunverulega vandamáli sem er offjölgun mannkyns.

Einhverra hluta vegna sperri ég eyrun og hvessi sjónir þegar ég sé mynd í blaði af Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi. Hann ritar stutta grein í Morgunblaðið í dag sem vert er að taka eftir:

"Að undanförnu hafa birst myndir í blöðum og sjónvarpi af kröfugöngum barna, bæði hérlendis og erlendis. Börnin krefjast þess að hinir fullorðnu geri átak í umhverfismálum því að framtíð unga fólksins sé í veði.

Óskin er almenns eðlis fremur en að tilteknar aðgerðir séu nefndar. Þessu framtaki barnanna hefur yfirleitt verið vel tekið, þótt örlað hafi á þeirri skoðun að börnin líti á þetta sem tækifæri til að losna við nokkrar stundir af skólasetu. Ástæðulaust er að taka undir þær grunsemdir.

Á hinn bóginn mætti benda börnunum á, að þau geti sjálf sett sér markmið. Þau gætu til dæmis farið að fordæmi sænsku stúlkunnar Gretu Thunberg, sem var upphafsmaður þessara aðgerða. Greta hafnaði því að vera viðstödd ráðstefnu í Reykjavík um sjálfbæran lífsstíl því að hún vildi ekki ferðast með flugvél vegna mengunarinnar sem af því hlytist.

Hér á landi tala menn um að draga úr akstri mengandi bifreiða. Ef hugur fylgdi máli myndi fólk draga stórlega úr flugferðum og jafnvel setja háa skatta á flugfargjöld, því að flugið er margfalt meiri mengunarvaldur en annar ferðamáti. En slíkt verður seint gert – fólk vill ekki neita sér um það frelsi sem ódýrt flug veitir, að ekki sé minnst á tekjurnar af ferðamönnum.

Er líklegt að þetta viðhorf breytist þegar börnin sem nú mótmæla verða fullorðin? Þær aðgerðir í umhverfismálum sem menn hafa rætt um í alvöru eru góðra gjalda verðar. Þær munu þó ekki ná tilgangi sínum ef ekki er tekist á við rót vandans sem við er að glíma, en það er fólksfjölgunin í heiminum.

Mannfjöldi á jörðinni er nú sagður 7,7 milljarðar og hefur þrefaldast á síðustu 70 árum. Það þarf engan speking til að sjá að í óefni stefnir. Eina þjóðin sem reynt hefur að stemma stigu við fólksfjöldanum er Kínverjar sem gáfu út tilskipun þess efnis árið 1980 að fjölskyldur mættu aðeins eiga eitt barn.

En jafnvel í því mikla stjórnvaldsríki sem Kína er reyndist þetta illframkvæmanlegt og hafði reyndar þær ófyrirséðu afleiðingar að drengjum fjölgaði mjög umfram stúlkur.

Frá árinu 2015 hefur hjónum í Kína verið heimilt að eiga tvö börn. Er því spáð að öllum hömlunum á barneignum verði senn aflétt því að stjórnvöld hafi þungar áhyggjur af fjárhagslegum afleiðingum þess að ungu starfandi fólki fækki hlutfallslega meðan öldruðum fjölgi.

Kona nokkur í Þýskalandi, Verena Brunschweiger, menntaskólakennari á fertugsaldri, hefur vakið talsverða athygli og nokkurn úlfaþyt með bók sem hún gaf út nýlega þar sem hún hvetur fólk til að draga úr barneignum og segist sjálf ætla að neita sér um að eiga barn. Bendir hún á tölur sem sýni að slík stefna yrði miklu áhrifameiri en að draga úr flugferðum eða selja bílinn.

Ólíklegt verður að þó teljast að Verena fái miklu breytt. Meðfædd hvöt fólks til barneigna er sterkari en svo að fortölur sem þessar hafi veruleg áhrif.

Ef ekki tekst að stöðva fjölgun mannkyns og snúa þróuninni við, missa allar aðrar aðgerðir í umhverfismálum marks. Þá verða menn að sætta sig við orðinn hlut og búa sig sem best undir það sem koma skal: breytt veðurfar, bráðnun jökla, hækkandi sjávarstöðu, sívaxandi flóttamannastraum, þverrandi auðlindir og alls kyns mengun sem óhjákvæmilega leiðir af fjölgun fólks.

Menn ættu ekki að láta blekkjast af þeirri tálsýn að sársaukalitlar aðgerðir muni leysa þann stórfellda vanda sem við okkur blasir. Vonlítil barátta Eftir Þorstein Sæmundsson » Ef ekki tekst að stöðva fjölgun mannkyns missa allar aðrar aðgerðir í umhverfismálum marks."

Ég venjulega fletti Fréttablaðinu þegar ég er búinn að lesa Morgunblaðið. Stöku sinnum hnýt ég um eitthvað áhugavert. Í dag var slíkur dagur þegar ég sá að í leiðaranum er fjallað um bókina sem ég las fyrr margt löngu; Raddir Vorsins Þagna eftir Rachel Carson.

Þar fjallar Kjartan Hreinn Njálsson um mál sem snertir grein Þorsteins með beinum hætti.

Hann segir:

"Á haustmánuðum árið 1962 gaf bandaríska vísinda- og náttúruverndarkonan Rachel Carson út stórvirkið Silent Spring, eða Raddir vorsins þagna.

Þetta einstaka og innblásna verk var afrakstur þrotlausra og ítarlegra rannsókna Carson á breiðvirkum skordýraeitrum, hörmulegum áhrifum þeirra á vistkerfi og blekkingarleik efnaframleiðenda um skaðlega eiginleika þeirra.

Titill bókarinnar er vísun í þann dapra heim sem blasir við með áframhaldandi eyðingu og útrýmingu vistkerfa og dýrategunda. Heim þar sem vorfuglarnir og söngur þeirra er á brott; heim þar sem vistkerfin eru fátækari.

Raddir vorsins þagna var neisti sem tendraði hugsjónabál á seinni hluta síðustu aldar, þar sem sjónum var beint að þeirri staðreynd að náttúran er berskjölduð fyrir áhrifum og gjörðum mannanna.

Tilurð bókarinnar, efnistök og áhrif ættu að gera Raddir vorsins þagna að skyldulesningu í öllum skólum. Núna þegar 57 ár eru frá útgáfu bókarinnar höfum við fengið fullkomið fylgirit hennar.

Milliríkjanefnd um leiðir til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika og vistkerfum (IPBES) birti í gær samantekt á niðurstöðum umfangsmestu úttektar sem gerð hefur verið á áhrifum mannsins á náttúru Jarðar. Á öllum landsvæðum plánetunnar – frá regnskógum Suður-Afríku og hitabeltisgresjum Afríku til sífrerasvæða norðurhvelsins og akra Suðuraustur-Asíu – ógna gjörðir mannanna líffræðilegum fjölbreytileika.

Nefndin telur að ein milljón tegunda dýra og plantna sé í hættu á að deyja út. „Stöndugleiki vistkerfa sem við reiðum okkur á er að hrörna hraðar en nokkru sinni fyrr,“ sagði Sir Robert Watson, formaður IPBES, í fréttatilkynningu.

„Um allan heim erum við að eyða sjálfum grunni hagkerfa okkar, lífsviðurværis okkar, fæðuöryggi okkar, heilsu okkar og lífsgæðum.“ Vopnin sem maðurinn beitir í þessu stríði sínu gegn náttúrunni eru land- og sjávarnýting, landbúnaður og hvers kyns notkun lífvera, auk losunar gróðurhúsalofttegunda og mengunar.

En hvatirnar sem knýja okkur til að beita vopninu eru knúnar áfram af neyslu, græðgi og yfirlæti gagnvart því ríkulega lífi sem þrífst á þessari litlu plánetu. Þetta eru kenndir sem fela í sér það hörmulega, og mjög svo mannlega, viðhorf að við séum ofar náttúrunni sett.

Þessar hvatir eru nákvæmlega þær sömu og Rachel Carson skrifaði um í Raddir vorsins þagna árið 1962.

Ekkert hefur breyst, nema það að við erum nú að tala um hrun hnattrænna vistkerfa, en ekki staðbundinna.

Rétt eins og sláandi niðurstöður milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hafa kallað á tafarlausar aðgerðir til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda og breytingum á veðrakerfum plánetunnar, þá krefjast niðurstöður IPBES þess að eitthvað sé gert.

Til þess þurfum við ábyrgar og djarfar ákvarðanir af hálfu þeirra sem við höfum kosið til að vernda hagsmuni okkar. Kjörnir fulltrúar bera ábyrgð, rétt og eins og almenningur. Það er okkar ábyrgð – það er okkar byrði – að taka þessar erfiðu en nauðsynlegu ákvarðanir og fylgja þeim eftir"

Raddir vorsins þagna vegna þess að mannkyninu hefur fjölgað stjórnlaust. Mannfjöldinn hefur þrefaldast á 70 árum í 7.7 milljarða sem brenna, menga og eyða öllu sem fyrir verður. Og mest af þeim sem síst eiga erindið í þennan heim vegna fátæktar og fárra úrkosta vegna hennar. 

Vísindin sem nauðsynleg eru til að skapa betri heim eiga erfitt uppdráttar vegna hins sama. Væri mannkynið aftur orðið 2.5 milljarðar væri jörðin snöggt um byggilegri og betri. Hvernig náum við því til baka?

Náttúran mun líklega sjá til þess með sínum ráðum að stöðva fjölgunina ef mannkynið gerir það ekki sjálft.

Offjölgun mannkyns mun taka enda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Malthusarlögmálið svonefnda fyrir rúmum tveimur öldum gerði ráð fyrir endanlausri og veldishlaðinni mannfjölgun. 

Þetta gekk aðeins eftir að hluta til því að þegar þjóðirnar urðu betur stæðar, fækkaði barneignum oftast af sjálfu sér. 

Tveggja barna tískan í Frakklandi var ein af ástæðum hnignunar veldis Frakka og uppgangs og fyrirferðar Þjóðverja og þess, hve langt Þjóðverjar komust nokkrum sinnum í að verða drottnarar Evrópu. 

Nú hefur frjósemisminnkunin hitt Evrópuþjóðirnar fyrir á þann hátt að innflutningur vinnuafls úr suðri heldur efnahagslífinu gangandi. 

Það verður ekki nóg að einblína á mannfjöldann, heldur einnig á þá sóun og bruðl sem skefjalaus neyslufíkn leiðir af sér. 

Ómar Ragnarsson, 7.5.2019 kl. 10:08

2 Smámynd: Hörður Þormar

Dæmi um fólksfjölgun:

Afríkubúar hafa tvöfaldast síðan um 1970.

"Palestínumenn" hafa fimmfaldast síðan 1948. 

Hörður Þormar, 7.5.2019 kl. 11:29

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð samantekt Halldór. Það eina er að loka ölum landamærum þá fyrst getur hver þjóð ræktað sitt kyn. Það myndi aldrei ganga upp takmörkun barneigna á Heimsvísu en hvernig er hægt að takmarka þjóð sem á 6 til 10 börn á fjölskyldu. Lokum öll landmæri á þann veg að fólk búi í sýnu landi þar sem það fæddist. 

Svartir í sínu fæðingalandi, Múslímar þar sem þeir fæddust en þeir eru búnir að ná allri afríku ásamt mörgum öðrum þjóðum. Þá verður að stoppa.

Eins og ég segi hver þjóð fyrir sig. 

Valdimar Samúelsson, 7.5.2019 kl. 12:16

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þrátt fyrir mikla fjölgun mannkyns brauðfæðir jörðin mun fleiri nú en fyrir 40 árum. Það er leitt að sjá svona grein frá dr. Þorsteini, þeim ágæta manni. Það hefur stórlega dregið úr fæðingatíðni fólksfjölgun í stórum hluta heims, og víða er fólksfækkun í gangi, m.a. í Evrópu og Japan. Og hin mikla Afríka getur með tækniframförum brauðfætt alla sína íbúa og tvöfalt fleiri í reynd. Hvorugt hinna fólksflestu ríkja heims, Kína og Indlands, búa við hungursneyð.

Jón Valur Jensson, 7.5.2019 kl. 12:27

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

.... fæðingatíðni og fólksfjölgun ...

Jón Valur Jensson, 7.5.2019 kl. 12:28

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Jón Valur. Ég tel að það sé ekkert vandamál vegna fólksfjölgunar ef horft er raunsæjum augum á hlutina. Það er vitað að hækki CO2 þá eykst gróður en þetta eru engin vísindi. 

Það er ekki hægt að stjórna þessu á heimsvísu  svo hver þjóð verður að hafa sín landamæri og ráða sínum barneignum á heilbrigðan hátt.

Vísindamenn vita eða eiga að vita að norður með Bresku Kólumbíu og inn í Alaska er jarðvegur það frjór að garðávextir stækka tvöfalt ef ekki þrefaldar sig að stærð miðað við á mörgum öðrum stöðum en jarðvegurinn er næri svartur sem kol og hvað er það annað en CO2 sem gróðurhúsin á Íslandi dæla inn í gróðurhúsin þar til þeir ná 900ppm Semsagt CO2 er það sem mannkynið þarf.

Valdimar Samúelsson, 7.5.2019 kl. 12:59

7 identicon

Dómsdagsspár og algjör bölsýni litar allar fréttir núorðið

samt hafa lífskjörin aldrei verið betri

en ef hundinum leiðist þá fer hann

að naga húsgögnin

Grímur (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 13:15

8 identicon

Sæll Halldór - sem og aðrir gestir, þínir !

Halldór !

Mjög vönduð samantekt: af þinni hálfu.

Hörður Þormar !

Ekkert ofsagt - sem fram kemur, hjá þér.

Valdimar !

Auknar landamæralokanir: gætu hjálpað til við ótímabæra fólksfjölgun víða, en: ,............... kæmu þá ekki óhljóð úr ranni ferðaþjónustunnar (innlendrar / sem útlendra) ef brugðið yrði á það ráð: líkast til ?

Jón Valur !

Hvað væri annarrs að því - að Indverjum: já, sem og Kínverjum og mörgum annarra, yrði boðnar ríflegar þóknanir fyrir 1 faldar geldingar, t.d. ?

Er tegund okkar: (burtséð frá Kynþáttum eða litarhætti) ekki orðin úrelt, hvort eð er ?

Og - er þá hinn frækni Guli kynstofn meðtalinn / að öllum hinum ólöstuðum, meira að segja.

Hvað um það: mér finnst alveg tímabært, að okkar tegund taki að fækka / ekki svo geðsleg víða:: framkoman við Dýraríkið og Jörðina sjálfa t.d.- á landi, sem og til Sjávar, og í lofti (Fuglaríkið).

Alveg orðið tímabært - að við förum að hverfa, til þess að gefa manntegund:: okkur öflugri að allum vitsmunum og atgerfi tækifæri til, að hazla sér völl, á Hnettinum.

Ekki satt ? Jón Valur.

Með beztu kveðjum: sem oftar, af Suðurlandi /  

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 17:11

9 identicon

Þegar JVJ gargar hástöfum hlæja púkarnir á bitanum hrossa hlátri. Maðurinn er snýkudýr sem er að éta öll gæði jarðarinnar upp til agna og fátæktin í dýraflórunni er að verða átakanleg. Fólk eins og JVJ á ekkert gott skilið þegar það jarmar hugsunarlaust að jörðina verði að uppfylla. Best væri fyrir mannkynið að fá skæða drepsótt þannig að Ísland gæti með góðri samvisku skellt í lás meðan fækkaði ærlega svo jörðin og hennar gæði fengju frið til að jafna sig eftir aldalanga rányrkju og mengun. Þá verður allt tal um fóstureiðingar léttvægt.
P.s
Óskar Helgi.. ertu haldin sjálfspíningarhvöt eins og þú eiðir orðum á JVJ?

DSJ (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 17:54

10 identicon

Veröldin er grimm.

Frá upphafi hefur mannskepnan þurft að berjast fyrir tilveru sinni og oft hefur hún þurft að lúta í lægra haldi. Má þar t.d. minna á örlög  frænda okkar á Grænlandi.

Sem dæmi um ástand heilbrigðismála fyrir rúml. 300 árum má nefna það að Anna Stuart Bretadrottning, sem ríkti um aldamótin 1700, ól 17 börn, af þeim náði aðeins eitt 11 ára aldri. Hvernig var þá ástandið hjá alþýðunni?

Með tæknibyltingunni og stórstígum framförum í læknavísindum hefur orðið gjörbylting í heilbrigðismálum í heiminum öllum. Þeim börnum sem ná fullorðins aldri hefur stórfjölgað. Fæðingum á Vesturlöndum  hefur að sama skapi fækkað svo að fólksfjölgun hefur stöðvast.

En víða í löndum utan Evrópu hefur orðið önnur þróun. Barnadauði þar hefur stórminnkað, en fæðingum hefur ekki fækkað að sama skapi. Við það hefur orðið "sprenging" í fólksfjölgun. Ekki er séð fram á að þar verði breyting á næstunni.

Hagsæld hefur aukist víðast hvar í heiminum og er afleiðingin sú að ágangur á auðlindir jarðarinnar hefur margfaldast.

Það er auðsætt að slík þróun gengur ekki til lengdar og er þá um að ræða áratugi en ekki aldir.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 18:02

11 identicon

.... 

DSJ !

Nei - reyndar ekki, en ég mátti til, að svara Jóni Val á þann máta, sem duga ætti, að nokkru.

Tal Jóns Vals: sem ýmissa annarra, um nauðsyn marg feldis manna á Hnettinum, er aftur á móti meinloka, sem ekki á sér nokkra stoð - og hefur aldrei átt, DSJ.

Um það atriði - er ég alveg sammála þér, svo sem.

ÓHH  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 18:03

12 identicon

.... 

Hörður Þormar (kl. 18:02) !

Mjög góður viðbætir: af þinni hálfu, sem vænta mátti.

ÓHH

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 18:06

13 identicon

Sá mikli fjöldi fólks sem starfar í/við og meðfram Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar

vill endilega flytja sem flest fólk inn til að "bjarga" því frá einhverju ímyndaðri ógn en það sem gerist fyrir fram nefið á þeim er hunsað

"seg­ir eng­an vilja hafa verið af hálfu skóla­yf­ir­valda að leysa málið inn­an veggja skól­ans" þ.e.a.s. innan Reykjavíkurborgar

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/05/07/logreglan_tyndi_adalsonnunargagni/

Borgari (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 18:50

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvergi hef ég hér talað um "nauðsyn margfeldis manna á hnettinum," þótt Óskar Helgi fullyrði svo. Þið eruð einmitt, margir hverjir, illa að ykkur að hafa ekki fræðzt um þá staðreynd, sem dr. John Finnis (síðar Oxfordprófessor) o.fl. voru farnir að skrifa um fyrir nokkrum áratugum, að af eðlilegum, félagslegum ástæðum var þá strax farið að draga mjög úr hlutfallslegri fjölgun mannkyns. Það þarf ekkert að hjálpa til með þá breytingu, sem er þar í gangi og ekki sízt í þriðkja heiminum.

Hef verið of upptekinn og lúinn eftir daginn til að fjalla hér nánar um þetta í kvöld, en get skýrt betur orsakaferlið í þessu síðar.

Jón Valur Jensson, 7.5.2019 kl. 21:29

15 identicon

Komið þið sælir - sem fyrr !

Jón Valur !

Sérstakt má telja: vaxi annríki þitt frekar, með aldrinum / fremur en hitt, kann að vera fagnaðarefni útaf fyrir sig þegar gott heilsufar eða þolanlegt, leyfir mönnum viðauka ýmsa, í hinu daglega lífi.

Jú - ég var að skírskota, til marg- tugginnar þvælunnar úr Biblíunni, hvar Mannkynið skyldi fjölga sér:: algjörlega von úr viti, án nokkurra skynsamlegra marka.

Með: mögulegri tilkomu nýrrar manntegundar á Hnettinum (eftir cirka 5 - 20 Þúsund ár: jafnvel, eða síðar) er ég einfaldlega að gera mér vonir um, að sá mannskapur gengi betur um Jörðina og í umgengni við Dýraríkið ekki síður / ekki svo beysið, hvernig núverandi Kynþættir özla um:: oftlega með algjörum drazlara hætti, Jón Valur.

Reikna með - að þú getir verið mér sammála um það, að einhverju leyti, eða hvað ?

Sömu kveðjur: sem áður og fyrri /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 22:49

16 identicon

Vandamálin í Afriku,Arabíu og almennt í heiminum,er varla ÍSLENDINGUM að kenna. Við erum landamæralaus,fámenn,friðsæl þjóð sæfara,rithöfunda,víkinga og landnámsmanna.

OKKAR fyrsta verk er að vera sjálfstæð,stolt og örugg þjóð varðandi viðskipta vini okkar. NATO, Keflavíkurflugvöllur er okkar sterka samband við USA. Við erum eftirsótt í viðskiptum og á TOPPUM í öllum gæðum frá SJÁVARÚTVEGI og BÆNDUM.

ÁLAPPAGANGUR í vistinni með ESB (sem við tilheyrum ekki) er eitthvað, sem verður að kjósa um með ÞJÓÐARKOSNINGU.

Búum nýtt ÞjóðarKLAPP eða nýtt ÓHÓ-ÓHÓ, ÞRUMAÐ frá Fjöru til Fjalla. ALÞINGI hefur gjörbreytt fámenni OKKAR.

GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 23:06

17 identicon

 "Lífið finnur sér alltaf leið " Er ein frægasta setning úr Jurasic Park. Ætli náttúran bregðist ekki við offjölgun mannkyns með því að maðurinn minnki. Við verðum hálfgerðir Hobbítarcool

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 8.5.2019 kl. 08:29

18 identicon

Sæll Halldór.

Eins og sést á þessari frétt
í Vísi í dag eru Afríkubúar fullfærir um
að sjá um sín mál sjálfir og leysa allan
aðsteðjandi vanda:

"Mokgweetsi Masisi, forseti Botsvana, færði kollegum sínum frá Namibíu, Sambíu og Simbabve kolla gerða úr fílafótum að gjöf, á fundi leiðtoganna um framtíð dýranna."

Húsari. (IP-tala skráð) 8.5.2019 kl. 09:15

19 identicon

REPOST @animalrevenge : Killed to make footstools from his feet. A poacher response when asked what he and his killing crew specifically poach:

Húsari. (IP-tala skráð) 8.5.2019 kl. 10:47

20 Smámynd: Halldór Jónsson

Þeir eru álíka vinsamlegir í garð Afríkufílsins og íslenski veiðifrömuðurinn sem elti einn  slíkan í heimskynnum sínum  í Afríku með grjótkasti þangað til fíllinn snéri sér við í áttina til hans. Þá skaut Íslendingurinn fílinn, væntanlega í sjálfsvörn. Og skrifað svo stoltur um afrekið í íslensk sportveiðiblað.  Þessi maður ber höfuðð hátt í veiðmálum Íslands.

Halldór Jónsson, 8.5.2019 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 3419716

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband