Leita í fréttum mbl.is

Í ESB og engar refjar

er inntakið í hreinskilinni greinar Óla Antons Bieltved í Mbl.í dag. Lofsvert hvernig hann skrifar Z-una eins og ég vil.

"Í gegnum EESsamninginn komumst við með allar okkar framleiðsluvörur og afurðir frjálslega og að mestu leyti tollalaust inn á stærsta markað heims; ESB/EES, 30 ríki, með vel yfir 500 milljónir íbúa.

Á sama hátt opnaðist okkur að mestu vegabréfalaust frelsi til heimsókna, dvalar og búsetu í öllum þessum löndum, með fullum réttindum til starfa, atvinnu og eigin reksturs. Okkar heimur fimmtánhundruðfaldaðist.

Þökk sé EES-samningnum getum við líka sótt erlenda starfskrafta frá ESB-löndunum til okkar, til að manna og styrkja okkar eigin atvinnuvegi, einkum ferðaþjónustu og byggingariðnað. Lengi virtist það þó hafa verið lenzka hér að hallmæla Evrópu og evru, þó að einmitt aðild okkar að EES og Schengen-samkomulaginu hefði tryggt okkur efnahagslegar framfarir og margvíslegt frelsi langt umfram það, sem áður hafði þekkzt eða ella hefði getað orðið. Sem betur fer hefur orðið mikil breyting á afstöðu flestra til EES/ ESB og Evrópu síðustu misserin.

Upplýst umræða hefur leitt til þess að fleiri og fleiri skilja nú hversu mikilvægur og dýrmætur EESsamningurinn er.

Ef miðað er við afstöðu þingmanna til þriðja orkupakkans, sem í umræðu og afstöðu er orðinn nokkurs konar „persónugervingur“ EESsamningsins, þá virðist yfirgnæfandi meirihluti þeirra vera hlynntur þriðja orkupakkanum – enda sjálfsagður hluti af EES-samningnum, eins og frjálsar flugsamgöngur, frjálsir skipaflutningur, frjáls fjarskipti og önnur frjáls og gagnkvæm viðskipti – en ætla má, að flestir þessara þingmanna meti EESsamninginn í heild sinni að verðleikum.

Hvað varðar almenning og afstöðu hans þá sýnir nýleg skoðanakönnun Maskínu að 57% landsmanna eru hlynnt eða í meðallagi hlynnt fullri aðild Íslands að ESB. Meta má umfang EES-samningsins – með Schengen – í núverandi formi sem 80-90% af fullri ESBaðild. Það, sem upp á vantar fulla ESB-aðild, er einkum tvennt: Samkomulag um fiskveiðar við Ísland og stjórn þeirra. Endanlegt samkomulag um landbúnaðarmál. Maltverjar voru um margt í svipaðri stöðu og við gagnvart ESB. Lítil eyþjóð, háð fiskveiðum og ferðaþjónustu. Þegar landið gekk 2003 í ESB, fékk það full yfirráð yfir sínum fiskimiðum og fulla stjórnun fiskveiðilögsögu sinnar á grundvelli sögunnar en þeir höfðu sjálfir og einir farið með þessi yfirráð í gegnum tíðina.

Það sama gildir um fiskveiðilögsögu okkar og fiskimið og virðist það fyrirsjáanlegt og öruggt að við myndum fá sömu góðu úrlausnina fyrir þessi mál og Malta. Við inngöngu Svía og Finna í ESB 1995 fengu þeir líka sérákvæði inn í samninginn fyrir landbúnað sinn, honum til verndar og styrktar, vegna þess, sem nefnt var „norræn lega“. Ljóst virðist vera að við myndum fá sömu sérkjör fyrir íslenzkan landbúnað við fulla inngöngu.

En hví er full ESB-aðild, í stað 80- 90% aðildar með EES og Schengen nú, svo mikilvæg!?

EES-samningurinn var alltaf hugsaður sem fyrsta skref inn í ESB; til bráðabirgða.

Samningurinn veitir því ekki aðgang að nefndum, ráðum og framkvæmdastjórn ESB; m.ö.o. við undirgengumst það – sem átti að vera í bili – að taka upp lög, tilskipanir og reglugerðir ESB – sem reyndar eru nær allar af hinu góða – án þess að hafa nokkuð um þær að segja; án nokkurrar umsagnar eða áhrifa, nánast án nokkurrar fyrirfram hugmyndar um, hvað koma skyldi.

Þetta var og er auðvitað ófært til langframa. EES-samningurinn veitir heldur ekki aðgang að öflugasta og stöðugasta myntkerfi heims, evrunni, sem bæði tryggir lægstu vexti sem völ er á fyrir almenning og atvinnuvegina og stórfellt aukalegt öryggi í formi launa, tekna og eigna, jafnt sem kostnaðar, gjalda og skulda í einni og sömu traustu myntinni. Íhalds- og afdalamenn landsins fullyrða að stóru þjóðirnar ráði öllu í ESB; þó við værum inni myndum við engu ráða. Þetta er enn ein rangfærslan og ósannindaklisjan.

Minnstu þjóðirnar hafa hlutfallslega langmest að segja í ESB. Við fengjum sex þingmenn á Evrópuþingið. Það þýðir 57.000 Íslendinga á bak við hvern þingmann. Þjóðverjar, með sínar 82,4 milljónir íbúa, hafa 96 þingmenn; hjá þeim standa 858 þúsund landsmanna á bak við hvern þingmann.

Danir, sem eru 5,8 milljónir, hafa 14 þingmenn; 414 þúsund Danir standa á bak við hvern þingmann þeirra á Evrópuþinginu. Svona er það í öllu; þess er gætt, að líka þeir „minnstu“ hafi fullan aðgang að áhrifum og völdum. Hver aðildarþjóð, stór eða smá, fær þannig einn ráðherra eða kommissar. Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir fá líka bara einn hver. Oft veljast fulltrúar smærri aðildarþjóða til forustu; Jean-Claude Juncker, frá Lúxemborg, næstfámennasta ríki ESB, hefur t.a.m. verið annar valdamesti maður sambandsins síðustu 5 ár.Margrethe Vestager, frá Danmörku, kynni að taka við af honum.

Skandinavar hafa alltaf haft mikið að segja í ESB, enda menn valdir eftir persónuleika og hæfileikum, en ekki eftir stærð þjóða. Hver aðildarþjóð hefur auk þess í raun neitunarvald, þar sem þjóðþing allra – nú 28 – aðildarríkjanna verða að samþykkja alla meiriháttar samninga, sem ESB gerir, og alla meiriháttar löggjöf eða breytingar á fyrri löggjöf. Loks skal bent á, að ESB er nú með fríverzlunarsamninga við þrjú mikilvæg lönd – öfluga markaði með samtals 216 milljónir íbúa; Japan, Suður Kóreu og Kanada – en þessir fríverzlunarsamnngar eru ekki með í EES-samkomulaginu.

Full ESB-aðild tryggir þannig í dag frjálsan og tollalausan aðgang að markaði með nær 730 milljónum manna með verulega kaupgetu. Hvernig getum við enn verið að væflast með þetta!?"

Maðurinn er baráttumaður fyrir sínum málstað svo mikið er víst. 

Ég er ekki sammála fullyrðingum hans um að við höfum bara fengið það sem við höfum með þessum samningum við EES. Af hverju er það svo víst ?  

Er ekki eðli viðskipta beggja hagur?

ESB og EES eru engin forsenda fyrir verslun í allar áttir við stærri heim en ESB eftir Brexit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Meðal annars segir Óli Anton í greininni; "Ef EES er fallegt þá er ESB enn fallegra".  Hversu mikið mark er hægt að taka á svona bulli?  Það er komið í ljós með orkupakka þrjú og málið með frosna kjötið að EES samningurinn er farinn að verða okkur ansi dýrkeyptur og komin veruleg ´qastæða til að segja honum upp í það minnsta að endurskoða hann og þá ekki með "kattarklóri" eins og Björn Bjarnason virðist ætla að gera...

Jóhann Elíasson, 1.7.2019 kl. 08:33

2 identicon

Það er ótrúlegt bullið sem kemur frá þessum manni varðandi fiskveiðar Möltubúa, hann hefur greinilega ekki kynnt sér þau mál. Þeir fengu að halda 12 mílna landhelgi fyri sig. Fiskiskip þeirra eru smábátar, rétt aðeins stærri en árabátar, svo segir hann að þeir hafi verið "háðir fiskveiðum" Menn ættu að slá inn "Fisheries in Malta" á netinu til að lesa sannleikann.Jóhönnustjórnin treysti sér ekki til að semja við ESB um að þeir stjórnuðu okkar fiskveiðum, þess vegna strandað umsóknarferlið og myndi gera enn á ný ef reynt væri aftur að troðast þarna inn. 

Örn Johnson (IP-tala skráð) 1.7.2019 kl. 08:53

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Svona ruglumbull er afar gagnlegt í umræðunni um EES/ESB. Þá sjá menn ruglumbullið í réttu ljósi. 

Júlíus Valsson, 1.7.2019 kl. 17:34

4 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Rök andstæðinga EES/ESB eru flest á sama veg. Órökstuddar fullyrðingar og gersamlega horft framhjá kostunum sem við höfum haft af EES samningnum.

Tryggvi L. Skjaldarson, 1.7.2019 kl. 20:12

5 identicon

Þessi "alþjóðlegi viðskiptamaður" var eigandi eins stærsta gjaldþrotafyrirtækis Íslandssögunnar og er nú kominn aftur á Frón ef tir flótta úr landi. Nú rekur hann Enok (ódýr sjónvarpstæki) og Heimkaup. Hann lofaði fyrr að koma aldrei aftur til Íslands en svo bregðast.....................

Örn Johnson (IP-tala skráð) 1.7.2019 kl. 23:08

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Möltubúar fiska innan við 1.800 tonn á ári í heildina!!!

En hvað ertu að rugla hér, Halldór, um að "57% landsmanna [séu] hlynnt eða í meðallagi hlynnt fullri aðild Íslands að ESB."?

Þetta er ekkert annað er útúrsnúningur á illa orðaðri skoðanakönnun, og þessi túlkun hennar gengur gegn staðfestri meirihlutaandstöðu þjóðarinnar gegn ESB-inngöngu allan tímann frá því að Össurar-umsóknin sviksamlega var samþykkt með litlum meirihluta á Alþingi 2009 og síðan framið stjórnarskrárbrot með því að bera hana ekki undir samþykki forsetans (sjá 16.-19. gr. stjórnarskr.).

Jón Valur Jensson, 2.7.2019 kl. 03:27

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Þessi "alþjóðlegi viðskiptamaður" var eigandi eins stærsta gjaldþrotafyrirtækis Íslandssögunnar og er nú kominn aftur á Frón ef tir flótta úr landi. Nú rekur hann Enok (ódýr sjónvarpstæki) og Heimkaup. Hann lofaði fyrr að koma aldrei aftur til Íslands en svo bregðast.....................

Væri ekki gagnlegt að heyra ögn meira um viðskiptasögu þessa alþjóðlega fjæarfestis fyrir okkur sem ekki þekkjum hana? Það bylur oft hæst í tómum tunnum er ekki svo?

Jón minn Valur, talan 57 % er ekki frá mér heldur Ola Anton

Halldór Jónsson, 3.7.2019 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband