Leita í fréttum mbl.is

Óður til einkabílsins

er eftirfarandi færsla á Andríki-Vefþjóðviljanum:

"

Bíll veitir mönnum óviðjafnanlegt frelsi til að fara hvert sem er hvenær sem er. Er það þetta frelsi sem margir stjórnmálamenn þola ekki?

Andúð á fjölskyldubílnum birtist með nýjum hætti um þarsíðustu helgi sem „bíllaus ganga“ á  „bíllausa deginum“ á vegum „Samtaka um bílausan lífsstíl“ á akbrautum Miklubrautar og Hringbrautar.

Nýlega voru þó lagðir nýir göngu- og hjólreiðastígar meðfram Miklubraut og Hringbraut. Markmiðið með þessari bíllausu göngu virtist ekki að þakka fyrir hina bættu aðstöðu og nýta stígana, sem bíleigendur greiða fyrir í gegnum skattkerfið, heldur að loka akbrautum og koma bílstjórum í vandræði.

Því hefur verið haldið sífellt stífar fram að undanförnu að almenningur sé viljalaust fórnarlamb gamaldags „úthverfaskipulags“ og þess vegna séu menn neyddir til að eiga bíl. Það vilji í raun enginn eiga bíl. Þarna líta menn framhjá því frelsi og sjálfræði sem bíll hefur í för með sér. Þessi litli vagn á hjólum margfaldar stærð þess svæðis sem menn geta sótt vinnu, skóla, tómstundir, fundi og mannfagnaði. Þegar þeim hentar. Hann gefur mönnum kost á að kynnast landinu, komast í veiði, gönguferðir, haustlitaferðir, á skíði og heimsækja vini og ættingja hvarvetna. Það eru kannski ekki mjög áþreifanleg lífgæði að geta farið hvert sem er hvenær sem er með hverjum sem er, enda eru menn orðnir þeim vanir eftir að bílaeign varð almenn. En þau eru þarna. Og flestir eru tilbúnir til að greiða stórfé fyrir þessi gæði með kaupum á ofurskattlögðum bíl og bensíni á hann.

Það er auðvitað pólitísk ákvörðun að leggja allt að 60% vörugjald auk 24% virðisaukaskatts á nýjan bíl. Verðið á bensínlítranum lækkar heldur ekki við það að ríkið taki 90 krónur í sérstaka skatta auk virðisaukaskatts. Og svo eru það bifreiðagjöldin sem áttu að vera tímabundin fyrir rúmum þrjátíu árum. En þrátt fyrir þessa hömlulausu skattheimtu heldur hinn almenni maður áfram að kaupa bíl. Íslandsmetið í bílakaupum var síðast bætt árið 2017 og metið í akstri (umferð) hefur verið slegið á hverju ári undafarin 7 ár þrátt fyrir þéttingar, þrengingar, bílastæðaútrýmingar og aðrar æfingar fólksins sem telur að skipulagsvaldið sé framlenging á almættinu.

Með fullri virðingu fyrir þeim áhrifum sem menn telja „borgarskipulag“ hafa á ákvarðanir fólks þá er það líklega óraunhæft að stór hluti manna muni í bráð afþakka frelsið og sveigjanleikann sem einkabíllinn býður upp á.

Á undanförnum áratugum hefur líka tekist að draga mjög úr neikvæðum áhrifum bíla á umhverfið. Mengandi útblástur bíla hefur snarminnkað. Blý og brennisteinn eru til dæmis horfin úr eldsneyti. Aðrir orkugjafar en bensín og Dieselolía eru að ryðja sér til rúms þannig að jafnvel er enginn útblástur er frá bílinum sjálfum, þótt vissulega þurfi þá virkjanir eða önnur orkuver til að framleiða orkuna sem knýr bílana áfram. Um leið minnkar útblástur gróðurhúsalofttegunda frá bílunum en allar vegasamgöngur eru nú með um 6% heilarlosunar Íslands. Menn þurfa því að beina athyglinni annað vilji menn draga að gagni úr útblæstri hér á landi. Hið hvimleiða svifryk er að stærstum hluta óþrif frá götunum sjálfum (uppspænt malbik) og mætti ná verulegum árangri gegn því með betri umhirðu gatna. Með bættu flæði umferðar, nýjum vélum, hreinna eldsneyti og bættum útblásturskerfum minnkar sót frá bílunum sjálfum einnig þótt ríkisvaldið hafi tekið þá undarlegu ákvörðun með hækkun á bensínsköttum árið 2009 að beina fólki frekar í Dieselbíla en bensínbíla. Sem kunnugt er hafa Dieselbílar gefið frá sér meira svifryk en bensínbílar þótt báðir taki miklum framförum ár frá ári.

Bílarnir verða sömuleiðis öruggari með hverju árinu sem líður. Ekki aðeins fyrir bílstjóra og farþega heldur einnig fyrir aðra vegfarendur. Nýr öryggisbúnaður í bílunum sjálfum og á ekki síður á vegunum mun vonandi tryggja að alvarlegustu slysunum fækki áfram líkt og undanfarna áratugi. Á árunum 1975 – 1984 létust 238 í umferðarslysum á Íslandi. Á árunum 2005 – 2014 lést 131. Þrátt fyrir stóraukna umferð. Mikilvægur þáttur í auknu öryggi er að vegirnir beri hæglega þá umferð sem um þá fer og gangandi og hjólandi geti farið á öruggan hátt yfir eða undir vegina. Þess vegna er undarlegt að ekki sé gert ráð fyrir nýjum mislægum gatnamótum á Miklubraut í þeim samgönguáætlunum sem kynntar voru í vikunni. Það á sérstaklega við um hættulegustu gatnamót landsins á mótum Miklubrautar við Kringlumýrarbraut og Grensásveg. Þar mætti koma í veg fyrir fjölda slysa með því að leyfa umferð, bæði gangandi, hjólandi og akandi, að fljóta hindrunarlaust áfram í mislægum gatnamótum. Að því ógleymdu að spara öllum tíma og draga úr útblæstri frá bílum í lausagangi. Reynslan af mislægum gatnamótum á Miklubraut við Skeiðarvog og Reykjanesbraut bendir til að slysum fækki um 90% þegar mót eru gerð mislæg. Hvernig í ósköpunum geta borgarfulltrúar meirihlutans ekki haft áhuga á aðgerðum sem fækka slysum um 90%?

Þá má ekki heldur gleyma því að ný fjarskiptatækni hefur sömuleiðis gert vistina í bílnum, jafnvel í umferðateppum, bærilegri en áður þótt auðvitað myndu flestir kjósa að geta rennt viðstöðulítið heim í faðm fjölskyldunnar að vinnudegi loknum. Bílstjórar hafa nú aðgang að öllu heimsins hlaðvarpi, útvarpi og öðrum fróðleik. Afþreyingin fyrir farþega er nánast orðin sú sama og heima í stofu.

Þessi nýja tækni hefur sömuleiðis gert hefur mönnum mögulegt að sinna óteljandi erindum úr lófanum í stað þess að fara á staðinn. Hún hefur sparað margfalt fleiri bílferðir en allir samanlagðir tilburðir stjórnvalda til að þvinga fólk úr bílunum og „temja“ það til nýs lífsstíls. Þessi þróun mun vafalítið halda áfram og sífellt fleiri erindum verður hægt að sinna án þess að fara af stað.

Að öllu þessu samanlögðu má hiklaust segja að það hafi aldrei verið minni ástæða til að leggja fæð á einkabílinn. Hann hefur aldrei verið betri en einmitt nú."

Þetta er einmitt sannleikurinn um mannlífið. Það gengur út á að eiga bíl og hafa frelsi til ferðalaga. Allt Borgarlínubullið er útópía sem á ekkert erindi til nútímamannsins. Hann hefur valið sér lífsstílinn sem er hvorki að labba né hjóla heldur keyra.

Óðurinn til einkabílsins er verðskuldaður sú dásemd sem hann er fyrir nútímamamninn.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú eru nýjustu tölurnar fjölgun íbúa á höfuðborgarbúa um 70 þúaund til ársinas 2050, úr 200 þúsund í 270 þúsund. 

Ég er sammála þér um óð til einkabílsins eða réttara sagt óð til  einkafarartækisins, því að það gefur auga leið, að það er hvorki pláss fyrir alla þessa brunandi bíla né fé til að ná fram því frelsi að allir geti alltaf farið á hraðferð á eigin bíldreka hvert sem er, og að hluti af lausninni liggur í minni einkafarartækjum.  Það þarf ekki nauðsynlega 1700 kíló af stáli til að flytja að meðaltali 100 kíló af mannakjöti. 

Ómar Ragnarsson, 13.10.2019 kl. 21:39

2 identicon

Þetta er hverju orði sannara, sem í þessarri grein segir, og ég er sammála því, sem þar er sagt, og þú segir líka. Það er líka undarlegt í meira lagi, að í þessum samgönguáætlunum er aldrei gert ráð fyrir okkur eldri borgurum, eða hvernig okkur er ætlað að komast milli staða, eins og það sé sjálfsagt, að við getum farið hjólandi og gangandi um allar trissur, jafnvel þótt fæturnir leyfi það ekki, enda varða margir eldri borgarar fótafúnir með árunum. Það er eins og við skiptum ekki máli, þegar verið er að gera svona áætlanir. Við eigum engan tilverurátt. Talandi um borgarlínuruglið, þá las ég nýlega viðtal í Jótlandspóstinum við borgarstjóra Árósa, sem sagðist sjá eftir að hafa leyft og innleitt borgarlínuna þar, því að það hefði komið í ljós, að það er margra milljóna tap af borgarlínunni hjá þeim. Það verður áreiðanlega ekkert skárra hjá okkur. Þetta er allt saman eitt allsherjar hneyksli og svínarí. Það verður að reyna að losa okkur borgarbúa við þetta jólasveinalið, sem hefur greinilega límt sig fast við ráðastólana í borgarstjórn. Þetta gengur ekki lengur, og allir búnir á fá sig meira en fullsadda af þessu rugli og vitleysu, sem kemur daglega frá þeim. Mál er að linni.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 14.10.2019 kl. 00:01

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það má segja Halldór að landinn er sjálfum sér vestur.

Þeir einir sverta sig mest og vilja vera mestu umhverfissóðar og ef þeir gætu þá myndu þeir falsa mengunartölur til þess að komast efst á lista þjóða sem menga mest. þetta gera þeir í stað þess að segja að við sköpum þjóða mest fæðu fyrir mannkynið með fiskiskipum okkar sem ættu að vera undanskilin þessu kjaftæði. Nei ekki aldeilis þeir halda áfram og segja að við mengum mest við að kynda húsin en þessi þjóðaróhollusta á sé hvergi neinar hliðstæður á þessari jörð.

Látum þá sorglegu staðreynd vera en hverjar myndu minningar okkar vera ef ekki hefði komið til bílsins. Líklega svipað og Afríkubúa sem komst vart lengra en í næsta vatnsból til þess að lifa af.

Sem betur fer gátum við ferðast um lönd og láð áður en þessi fáu undarlegu afsprengi núkynslóðar byrjaði að kyrja um hamfaraveður og vá án þess að nokkur gæti gert neitt nema horfa upp í himininn  eins og ...eymíngja... svertingjarnir í Afríku sem eru og verða í hlekkjum umhverfissinna næstu aldir.   

Valdimar Samúelsson, 14.10.2019 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband