Leita í fréttum mbl.is

Villi Bjarna

skrifar eina af sínum skemmtilegu greinum í Mogga dagsins.

Þar rifjar hann upp feril stjórnmálaflokka sem hafa aðeins hagsmunagæslu á sinni stefnuskrá og úthlutun takmarkaðra gæða.

Gamall kall eins og ég þarf ekki lengi að velta þessu fyrir sér án þess að detta í Hug Framsóknarflokkurinn og SÍS veldið gamla. Hvernig Landsbankinn var rekinn af þessum aðilum í eigin þágu.

Gefum Villa orðið:

íhugun um stjórnmál þá er hann var 7 ára gamall. Í framhaldi af því leiddist hugsun hans að atvinnulífi eftir að hafa dvalið í bæ á landsbyggðinni. Sá bær var næstlengst frá höfuðborginni ef um veg var að fara en sjóleiðin var nokkru styttri. Þessi íhugun hefur því staðið sem næst í 60 ár. Niðurstaðan af íhuguninni er einföld. Yfirburðir einstaklinga ráðast ekki af stundarstærð eða stöðu á einum tíma, heldur fyrst og fremst að aðlögun og framsýni. Það sama á við um skipulagsheildir, hvort heldur þær eru sveitarfélög, fyrirtæki eða stjórnmálaflokkar.

Stjórnmálaflokkar

Stjórnmálaflokkar kunna að vera í afleitri stöðu þegar þeir hafa byggt tilveru sína á sérhagsmunum og úthlutun gæða. Þegar almennar reglur eru innleiddar verður sértæk úthlutun næsta lítils virði. Völd herforingja eru ekki mikil í samanburði við völd birgðavarðarins í herdeildinni. Birgðavörðurinn hefur gæði til úthlutunar en herforinginn getur aðeins skipað til verka. Þegar gæðin þrjóta verður hugsjónin að hafa eitthvert gildi. Þegar herstöðinni á Miðnesheiði var lokað misstu sósíalistar glæp en eftir stendur „Ísland úr NATO“. Það verður heldur fátækleg hugsjón þegar flest þau ríki er aðild áttu að Varsjárbandalaginu eru gengin í NATO og Evrópusambandið til að öðlast skjól til frelsis. Sósíalistar í Múlasýslum höfðu aðeins eina hugsjón, en hún var sú að allir hefðu nóg að gera. Þó er vert að geta þess að í byrjun lögðu þeir áherslu á bindindi. „Ísland úr NATO, herinn burt“ er orðið viðundur.

Stöðnun í sauðfjárbúskap

Það var ungur maður sendur í sveit í bæ þegar hann var níu ára gamall. Það var á tíma mikilla umbreytinga í þeim bæ. Flestir höfðu sína kú og tún til að heyja. Það kom mjólkurbú í bæinn og þá hurfu kýrnar og sjálfsþurftarbúskapurinn. Nú er aðeins eitt kúabú í sveitinni og mjólkurbúið hætt starfsemi. Ekið er með alla mjólk á Selfoss. En, allri mjólkurframleiðslu í nýbýlahverfinu undir Ingólfsfjalli er hætt! Enda of nærri markaðnum! Eða er landið orðið of verðmætt fyrir mjólkurframleiðslu? Margir höfðu kindur, en umhverfis bæinn voru 50 sveitabýli í byggð. Sennilega var slátrað um 15 þúsund fjár í sláturhúsi Kaupfélagsins. Kjötframleiðslan var eins og af 200 gyltum. Nú er fjárbúskapur sennilega á 15 bæjum og öllu fé er keyrt til slátrunar á Húsavík eða Hvolsvelli. Alla liðina öld var reynt að viðhalda óbreyttu ástandi í sveitum, með nýbýlalögum og Marshallaðstoð, með dráttarvélum og sérúthlutun á jeppum. Hver er árangurinn? Beingreiðslur og fátækt. Aðlögun sem aðeins hefur skilað eymd.

Umbreyting í sjávarútvegi

Í þessum bæ var útgerð þriggja dragnótabáta og tveggja síldarbáta undirstaða atvinnulífs. Í stað síldarbátanna kom togari. Nú er aðeins smábátaútgerð í bænum, og laxeldi í firðinum. Það kom síldarbræðsla og síldarplan. Svo hvarf síldin. Hið hefðbundna frystihús er úrelt en þess í stað verður byggt nýtt laxasláturhús. Fjörðurinn hvar bærinn stendur er vel fallinn til laxeldis vegna strauma og dýptar. Þetta er umbreyting í sjávarútvegi. Enda ekki ástæða til annars þar sem stór hluti af matfiski í heiminum kemur úr eldi.

Tækifæri í ferðaþjónustu

Með auknum kaupmætti og bættum samgöngum varð skyndilega til ferðaþjónusta. Á tíma unga mannsins í bænum voru þar fjögur gistiherbergi og það komu í mesta lagi tuttugu ferðalangar í bæinn dag hvern að sumri en enginn um veturinn. Enginn lét sig dreyma um að til bæjarins kæmu skemmtiferðaskip. Nú er talið að um 150 manns í þessum litla bæ hafi viðurværi sitt af ferðaþjónustu.

Aðlögun að breyttum tíma hefur tekist. Auðvitað með þeirri áhættu sem kann að fylgja breytingum. Það var áhætta í útgerð og það er áhætta í sauðfjárbúskap. Á komandi árum mun ferðaþjónusta vaxa á ný þótt öðru hvoru kunni á móti að blása, eins og drápspestin nú. Ferðalangar í heiminum hafa aðrar þrár en Íslendingar, sem vilja flatmaga í sól. Vont veður og slydda er ákjósanleg söluvara. „Ekkert er í ríki náttúrunnar jafnfjarri því að vera yfirnáttúrulegt einsog kraftaverk. Ekkert er yfirnáttúrulegara en náttúran sjálf.“ Ef til vill kemur nútímalistasafn á heimsmælikvarða í bæinn ef vilji snillinga í myndlist nær fram að ganga.

Hvernig er ástandið í Reykjavík?

Á þeim tíma sem ungi maðurinn var í sveit í bæ voru gerðir út 25 togarar í Reykjavík sem öfluðu hráefnis fyrir 5 frystihús, þar af eina bæjarútgerð. Núna eru gerðir út 6 togarar frá Reykjavík og eitt frystihús. Nú eru þrjú frystihús horfin úr borginni, eitt er orðið að safni og annað var banki, sem bíður þess að vera rifinn. Í eðlilegu árferði er ekki fjöldaatvinnuleysi í Reykjavík.

Í stað fjárframlaga til bæjarútgerðar gat borgin byggt ráðhús og sinnt öðrum nærtækari viðfangsefnum hins opinbera. En útgerðin fór að bera sig og hóf að greiða skatta. Nú er fjöldi hótela í Reykjavík meiri en tölu verður á komið. Aðlögun að breyttu mannlífi hefur gengið áfallalaust. Ekki með skipun að ofan, með stjórnlyndi, heldur með framtaki að neðan, með frjálslyndi.

Sá er munur á sameignarstefnu að þar eru ákvarðanir teknar af elítu að ofan en í auðhyggju eru ákvarðanir teknar niðri í grasrót. Þannig hefur Reykjavík þróast úr framleiðsluhagkerfi í þjónustuhagkerfi og þekkingarsamfélag án boðvalds að ofan.

Þótt á móti blási um stund má það ekki gleymast að hlutverk stjórnvalda er að skapa almenn rekstrarskilyrði. Það er hlutverk einkaaðila að sjá tækifærin sem kunna að skapast og grípa þau. Allt tal um tollvernd og fæðuöryggi á ekki rétt á sér. Hagvöxtur framtíðar byggist á þekkingu og nýsköpun. Það er alls ekki víst að sú nýsköpun leiði af sér gífurlega orkuþörf. Nýsköpunin getur leitt af sér orkunýtni.

Umhugsun um stjórnmál

Í öll þessi 60 ár hefur sá er þetta ritar íhugað stjórnmál til þess að bæta mannlíf en ekki til að þjóna sérhagsmunum. Stjórnmálaflokkar sérhagsmunanna deyja þegar þeir hafa ekki gæði til úthlutunar. Stjórnmálaflokkar með leiðtoga sem hafa óljósar hugsjónir deyja líka.

Er nokkrum of gott að vera fífl." 

Vilhjálmur Bjarnason

Höfundur var alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og vann öruggt sæti í prófkjöri.

Formaður flokksins lét sig hafa það að hunza niðurstöðu prófkjörsins  og svínbeygði Kjördæmisráðið með mér innanborðs til að hafa þingsætið af Villa.

Bjóði Villi sig fram aftur þá mun ég ekki taka neinu prófkjörsfitli þegjandi því það eru kjósendur sem velja listann.

Ég stöðvast líka við setninguna:

"Stjórnmálaflokkar með leiðtoga sem hafa óljósar hugsjónir deyja líka."

Mér verður hugsað til Pírataflokksins. Hver er leiðtogi hans og hefur nokkur orðið var við einhverja sérstaka Píratahugsjón? Eða hjá flokki Fólksins? Formaðurinn vill hinsvegar borga fólki ómælt út, það er þó ljóst.

Og svo hugsa ég til Sjálfstæðisflokksins míns gamla og hvað sé í rauninni erfitt að bregðast við aðstæðum eins og við nú lifum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

VILLI BJARNA er OFT GÓÐUR og SANNGJARN.

GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 9.5.2020 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband