1 Töluverð reynsla hafði fengist af því að skima á landamærum og þótt við næðum flestum sýktra þá náðum við ekki öllum.
2 Það var líka ljóst að þótt það tækist að takmarka útbreiðslu veirunnar frá flestum sem komust í gegn þá voru á því undantekningar.
3 Um hríð hafði verið sú regla að þeir sem höfðu búsetu á Íslandi urðu að fara í skimun við komuna til landsins og viðhafa síðan smitgát í fimm daga og fara svo aftur í skimun. Þegar búið var að skima 8.000 manns sem höfðu viðhaft smitgát fundust tveir með mikið magn veiru og hefði hvor um sig getað byrjað nýja bylgju farsóttarinnar hérlendis.
Smitgátin er illa skilgreind og að fenginni þessari reynslu var eðlilegast að krefjast sóttkvíar í hennar stað.
4 Andstætt því sem þú gefur í skyn, Hörður, þá var fjöldi þeirra sem greindust á landamærum ekki að minnka heldur að aukast mikið um það leyti sem núverandi landamærareglu var komið á. Það var við því að búast vegna þess að fjöldi nýgreindra tilfella var að aukast í heimalöndum þeirra sem helst ferðast til Íslands.
5 Það er engin ástæða til þess að ætla annað en að fjöldi þeirra sem sleppa sýktir fram hjá skimun á landamærum sé í réttu hlutfalli við þá sem þar greinast.
6 Reynslan af núverandi tilhögun er sú að af 4.500 sem höfðu lokið seinni skimun voru þrír sýktir, sem er næstum þrisvar sinnum hærra hlutfall en fannst í fyrstu 8.000 sem fóru í seinni skimun íbúa.
7 Sú reynsla sem er lýst í atriðunum sex hér að ofan bendir sterklega til þess að án þess að viðhafa skimunsóttkvískimun yrðum við að reikna með því að fá yfir okkur hverja bylgjuna á fætur annarri.
Með atriði númer sjö lýkur lýsingu staðreynda sem falla innan ramma þess sem ég kalla staðbundna reynslu og hefst nú sá kapítuli þessa bréfs sem er sambland staðreynda og skoðana. Ég er sammála þér, Hörður, að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegri efnahagskreppu en ég er ósammála því að hún eigi rætur sínar í sóttvarnaaðgerðum á landamærum. Hún á rætur sínar í veirunni illvígu sem hefur vegið að alls konar um allan heim og meðal annars efnahagslífi.
Ég er alls ekki viss um að íslenskt efnahagslíf sé að fara verr út úr veirunni en efnahagslíf landa sem hafa tekist á við hana af miklu meira kæruleysi en við. Ég er heldur ekki viss um að íslensku efnahagslífi farnaðist betur með míglek landamæri, fjölda manns í sóttkví og slíkar fjöldatakmarkanir að það væri erfitt að reka verslanir, frystihús, skóla, leikhús og tónleikasali.
Ferðaþjónustan er merkileg atvinnugrein og gjöful en við viljum hvorki né getum lifað af henni einni saman.
Hörður, það er ekki skynsamlegt að gera ráð fyrir því að faraldurinn sé í mikilli rénun á sama tíma og nýjum tilfellum er að fjölga í mörgum löndum Evrópu, heildarfjöldi nýrra tilfella í heiminum sólarhringinn áður en þú birtir ritstjórnargreinina var 241 þúsund og í Bandaríkjunum einum saman 44 þúsund. Og hún heldur áfram að meiða og deyða þessi veira.
Hún er líka búin að sýna okkur að þótt hún virðist vera að hverfa er fullt eins líklegt að hún sé bara að hvíla sig fyrir næstu árás.
SARS-CoV-2 veiran er ólíkindatól. Hún er bara búin að vera í mannheimum í átta mánuði og við vitum lítið um hana en erum að læra hratt.
Eitt af því sem við höfum lært er að það er mikilvægt að vera stöðugt að afla gagna um veiruna í okkar samfélagi og láta gögnin hverju sinni hjálpa okkur að ákveða hvað gera skal, í stað fyrir fram ákveðinna hugmynda um hvernig ástandið ætti að vera. Þess vegna var það í sjálfu sér ósköp eðlilegt að Sigmundur Davíð kvartaði undan því í fyrirspurnatíma um daginn að það vantaði hjá ríkisstjórninni áætlun um hvað skyldi gera næst, vegna þess að það var engin áætlun til, meitluð í stein, önnur en að láta gögnin tala og bregðast við þeim á hverjum tíma fyrir sig eins skynsamlega og hægt væri. Þannig á það að vera en það þarf ekki bara þekkingu og vit heldur líka kjark til þess að skilja það.
Að lokum er þér svo sannarlega fyrirgefið fyrir að langa til þess að enda greinina þína á eftirminnilegan hátt. Ég fell fyrir þessari freistingu næstum því alltaf þegar ég drep niður penna svo ég skil hana vel. En þetta er alltaf vandmeðfarið vegna þess að ef of langt er seilst er hætta á því að hvellurinn eftirsóknarverði breytist í hjáróma væl.
Lokasetningin í greininni þinni er eitt slíkt í mjög háum tóni. Þú gefur sterklega í skyn að ríkisstjórnin hafi komið á núverandi fyrirkomulagi við landamærin af því að ég hafi hótað henni. Hverju átti ég að hóta henni? Að Íslensk erfðagreining myndi hætta að skima? Við vorum hætt að skima og ákvörðunin hafði ekkert með skimunargetu að gera heldur þá staðreynd að ein skimun nægir ekki. Eða var það kannski að ég myndi hætta að gagnrýna ríkisstjórnina og fara að styðja hana?
Það er nefnilega almannarómur að það sé ekkert til verra fyrir góðan málstað en ég fari að styðja hann. Það er öllum ljóst að í þessari staðhæfingu þinni ferðu ekki bara yfir línuna heldur hagar þér eins og línan sé ekki til.
Þú endaðir ekki úti í mýri sem er sá göfugi partur af landslaginu sem verður gjarnan áfangastaður þeirra sem fara yfir línuna heldur lentirðu í ekkert-aðmarka landinu þar sem vex lítið annað en ósannindi innan um rembing og þvælu."
Af hverju látum við ekki vísindamennina ráða ótruflaða næstu 2 vikur. Sjáum til hvað gerist? Ástandið versnar varla við að hætt að þrasa við Kára í tvær vikur?
Athugasemdir
Kári tekur nákvæmlega ekkert tillit til heildarmyndarinnar. Þess vegna eru rök hans öll ógild.
Þorsteinn Siglaugsson, 3.9.2020 kl. 13:10
Blessaður Halldór.
Ég er svo gamall að ég man ekki alveg hvenær ég las þín skrif fyrst, veit samt að það var löngu fyrir öld netheima sem þú svo seinna meir náðir að virkja og höndla.
Ég varð fyrir vonbrigðum með þennan pistil þinn, það var eins og að fyrri bandalög gerðu þig hikandi í að verjast.
Eins og að þú vitir ekki að Frakkar áttu bæði fjölda flugvéla sem og skriðdreka að mæta innrásinni 1940.
Sem þeir gerðu ekki því eitthvað ógnarafl greip inní.
Þú ert ekki Frakki Halldór, hvað að þú sért á þeim aldri sem ógnaraflið gerði öflugasta her Evrópu að einhverju sem stöðvaði ekki framrás illskunnar með þekktum afleiðingum.
Þá var ekki varist, og þú heykist á að verjast, með vísan í hvað Halldór??
Að þú verðir útskúfaður??, að illskan sem að baki býr til dæmis leiðara Harðar, sé aðeins angi sem þú óttist, og viljir frekar kóa með, frekar en að verjast, líkt og alvöru fólk gerði í den.
Það er enginn vafi að með orð Kára, þá þarf heimsku til að skilja ekki þau orð.
Það er ómaklega vegið að Bjarna, fyrir að vera leiðtogi, næstum því sömu úrtöluraddir, sem vógu að Churchill á sínum tíma.
Hörður er vissulega skynsamur maður.
En þú átt að spyrja þig grundvallarspurningar, hvert er gjaldið að vera það ekki?
Það er jú ekki líf og limir annarra sem eru undir.
Heldur þú Halldór minn, heldur þú.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2020 kl. 16:38
Ómar minn, þú ert eitthvað að misskilja mig. Ég er 100% með ykkur Kára og vil að á ykkur sé hlustað.
Halldór Jónsson, 3.9.2020 kl. 22:22
Ég er ekki sammála Þorsteini.
Halldór Jónsson, 3.9.2020 kl. 22:22
Æ, fyrirgefðu Halldór, þetta kom kannski öfugt út úr mér, ég las þessa setningu; "Hann skrifar Herði Ægissyni sem er þó oftar en ekki með óvitlausustu mönnum:", og fannst þú eitthvað veiklulegur, vísan í fyrri skrif er vísan í mann sem talar mannamál, og hirtir oft svo undan svíður.
Kannski var ég alveg eins að skammast út í Styrmi eða aðra flokksholla, sem geta ekki sagt það tæpitungulaust sem þarf að segja.
Og undir er formaður ykkar sem eyðir kvöldum í að reyna að græða sár eftir rýtingsstungur samflokksmanna sinna að degi.
Mér finnst lítil hjálp í hálfvelgjunni, en þú verður að virða mér það til vorkunnar Halldór, að ég var líka hvass út í ykkur þegar mér fannst svipuð hálfvelgja einkenna stuðning ykkar við Geir Harde, þegar hann var dreginn fyrir Landsdóm.
En ég veit að það er erfitt að fara gegn sínu eigin fólki, láttu mig vita það, ég var margar vikur að mana mig upp í að fara gegn fyrrum félögum í kjölfar ICEsave, það er alltaf auðveldara að skamma andstæðinga sína.
Það er bara svo og ekki sanngjarnt að halda öðru fram.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2020 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.