Leita í fréttum mbl.is

Tvíhyggja

okkar Sjálfstæðismanna gagnvart grunnhugsun Sjálfstæðisstefnunnar og Kvótakerfisins í sjávarútvegi kemur fram í grein Gunnars Inga Birgissonar í Morgunblaðinu í dag.Þar segir Gunnar Ingi:

"Ég skrifaði grein í þetta blað í fyrra með sömu fyrirsögn. Margir höfðu samband og voru ánægðir. En þáverandi yfirboðarar í Fjallabyggð brugðust hins vegar ókvæða við, því ég hafði ekki fengið leyfi þeirra fyrir birtingu greinarinnar. Þannig er nú málum háttað á þeim bæ.

Aðför verkalýðshreyfingarinnar, Pírata og Samfylkingarinnar að Flugleiðum hefur verið alveg með ólíkindum. Þetta fólk vildi knésetja fyrirtækið með öllum ráðum og beitti fyrir sig meðal annars lífeyrissjóðum. En þeim varð ekki að ósk sinni þar sem 11.000 einstaklingar keyptu hlut í félaginu, margir hverjir til að sýna stuðning í verki, þannig að atlaga þessara niðurrifsafla geigaði.

Þegar fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar lagðist á árar með niðurrifsöflunum fannst mörgum að langt væri seilst. Mér virðist forysta verkalýðshreyfingarinnar þjást af pólitísku ofstæki og skilningsleysi á hvaðan lífsviðurværi þeirra eigin félagsmanna er upprunnið, sem minnir óneitanlega á máltækið „vitið verður ekki í askana látið“.

Kvótakerfið er vinsælt deiluefni meðal þjóðarinnar og sitt sýnist hverjum. Ég hef verið dyggur stuðningsmaður þessa kerfis og stutt með ráðum og dáð. Nú eru hins vegar farnar að renna á mig tvær grímur.

Veiðiheimildum er úthlutað af ríkinu til útgerðanna til mjög langs tíma, á ríflega 10 krónur fyrir hvert þorskígildiskíló. Veiðiskylda útgerðanna er á bilinu 50- 70% og útgerðirnar geta því framleigt 30-50% af úthlutuðum aflaheimildum til annarra kvótalítilla eða kvótalausra útgerða.

En þá kemur að merg málsins, leiguverðið á þessum vægast sagt skrítna markaði er í kringum 200 krónur á hvert þorskígildiskíló. Ég tel að þetta hafi aldrei verið meiningin með kvótakerfinu.

Tökum dæmi; útgerð sem aðallega er með uppsjávarkvóta og einnig botnfiskkvóta getur leigt botnfiskkvótann frá sér. Tvö þúsund þorskígildistonn gefa 400 milljónir í leigutekjur á ári, en greiðsla til ríkisins er 20 milljónir, þannig að nettó-ávinningurinn fyrir útgerðina er 380 milljónir króna.

Það er því augljóslega hagkvæmara að leigja frá sér kvóta en veiða. Breyta þarf tilhögun kvótakerfisins til að skiptingin verði sanngjarnari fyrir ríkissjóð í slíkum tilfellum.

Þetta er því miður í boði míns flokks, Sjálfstæðisflokksins. Fólk og fyrirtæki í landinu fara stöðugt fram á fjármuni úr ríkissjóði vegna kórónuveirunnar. Það sér það hver heilvita maður að slíkt er ekki gerlegt nema með endalausri seðlaprentun og lántökum sem einungis getur endað með skelfingu.

Rétt er að minna landsfeðurna á afleiðingar slíkrar aðferðar í Úganda forðum. Þegar prentvélarnar biluðu og ekki fengust varahlutir varð einræðisherrann, Idi Amin, að flýja land."

Tölur Gunnars um þan gífurlega hagnað sem fólginn er í kvótaeign tala sínu máli. 10 krónu kostnaður gefur tekjur upp á 200 krónur.Árlega!

Vissulega eru glæsileg sjálfbær fiskvinnslufyrirtæki með útópíska tækni um landið aðdáunarverð meðan fiskveiðar í öðrum löndum berjast í bökkum. Og mikið af kvótanum hafa útgerðir keypt til sín ofan ú fyrri úthlutanir.  Einkaleyfisrekstur er auðvitað allstaðar glæsilegur þar sem engin samkeppni er til staðar.En mér er til efa að höfundar Sjálfstæðisstefnunnar um atvinnufrelsi og einstaklingsfrelsi  hafi séð þetta fyrir 1929.

Hvað er þá að?

10 krónur verða að 200 krónum. Er það ekki málið að ríkið sem eru við almenningur fær of lítið í sinn hlut? Stýrikerfið er að virka en það er bara vitlaust gefið eins og skáldið sagði.

Þjáumst við Sjálfstæðismenn ekki af tvíhyggju sem við þurfum að horfast í augu við ef við eigum að ná sáttum við okkur sjálfa?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

 

„Sjávarútvegsgagnagrunnur Deloitte var kynntur á sjávarútvegsdeginum 2020 sem haldinn var 16. september sl. Gagnagrunnurinn inniheldur rekstrarupplýsingar úr 89% sjávarútvegsgeirans en fjárhæðirnar uppreiknaðar þannig að þær endurspegli hann allan. Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 10,3 milljarða kr. í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 milljarða kr. til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur vænkast um 479,2 milljarða kr. frá hruni. Í gagnagrunninum kemur fram að tekjur sjávarútvegsfyrirtækjanna hafi vaxið um 33 milljarða kr. milli ára og verið 280 milljarða kr. í fyrra. Þær hafa aldrei áður verið jafn miklar. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta var 73 milljarðar kr. og jókst um 20 milljarða kr. í fyrra. Endanlegur hagnaður var 43 milljarðar kr. árið 2019.“

Þetta sagði Oddný Harðardóttir og bætti við:

„Vissulega fengum við hærri skatttekjur í ríkissjóð með hærri tekjum en tekjuskattur er ekki auðlindagjald. Veiðigjöld lækkuðu hins vegar umtalsvert á milli ára og voru 6,6 milljarðar kr. sem er 4,7 milljörðum kr. minna en þau voru árið ár. Og enn lækka veiðigjöldin. Þau eru áætluð 4,65 milljarða kr. á árinu 2021.“

Næst spurði hún Bjarna Benediktsson:

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á ÞESSUM

 

Bjarni: RÚV er með ræturnar í ríkissjóði

8. október 2020

 

„Fjármálaráðherra fer ekki eftir lögum“

7. október 2020

Svarið er nei.

„Finnst hæstvirtum ráðherra upphæð veiðigjalda ásættanleg? Kemur ekki til greina á erfiðum tímum að hækka hlutfallið sem veiðigjaldið er miðað við? Þjóðfélagið þarf nú sem aldrei fyrr að reiða sig á atvinnugreinar sem standa af sér skakkaföllin af völdum kórónuveirunnar.“

Bjarni svaraði:

„Svarið er nei, þegar ég er spurður að því hvort það sé ekki núna góður tími til að hækka álögur vegna þess að ríkinu gangi illa. Nei, við eigum einmitt að byggja á sanngjörnum álögum á þessa atvinnugrein eins og allar aðrar og það er alveg sérstaklega mikilvægt þegar við erum í efnahagslægð.“

Halldór Jónsson, 10.10.2020 kl. 14:26

2 identicon

Ég get ekki betur séð en að því meiri fjármunir sem fara í ríkiskassann því stærra verður báknið. Opinberir starfsmenn eru gífurleg byrði á landsmönnum. Þjóðfélagið er orðið svo gegnsýrt af kommúnisma að sjálfstæðisflokkurinn er orðinn vinstrisinnaður. Heldur þú í alvöru Halldór að ef tekjur ríkissjóðs aukist að það sé betra fyrir landsmenn?

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 11.10.2020 kl. 04:49

3 identicon

Allt veiðileyfagjaldið er sama upphæð og ríkissjónvarpið fær frá ríkinu. 

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 11.10.2020 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 3419716

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband