Leita í fréttum mbl.is

Skyggnst inn í Islam

getur maður gert með að lesa grein eftir Imaminn  Mansoor Ahmad Malik .

Það er ástæða til að lesa þessa grein til að skynja eðli kenninga Islam og spyrja sig að því hvaða erindi þessi trúarbrögð eigi við Íslendinga nútímans.

En Imaminn skrifar svo:

"Morgunblaðið birti hinn 10. desember 2020 grein með titlinum „Íslam – Medínuárin“ eftir Hauk Ágústsson. Hún virðist meinlaus á yfirborðinu, eins og aðrar greinar um sögu íslams sem höfundurinn hefur birt undanfarið þar sem hann kynnir ýmsa atburði frá persónulegu sjónarhorni.

Samt sem áður ber mér að segja að hún sé ónákvæm að miklu leyti hvað varðar staðreyndirnar. Hún er alls ekki réttmæt lýsing á kenningum íslams og atburðum í sögu þess og er frekar villandi fyrir almenning.

Ég er mjög forvitinn um hvaða heimildir höfundurinn hefur stuðst við fyrir greinina sína. Hér ætla ég ekki að fjalla um atriði eins og andlega næturferð spámannsins (friður sé með honum) eða um það þegar hinir fimm bænatímar voru fyrirskipaðir, þó að umfjöllun höfundarins um þau segi þegar mikið um hversu nákvæmur afgangur greinarinnar sé. Heldur ætla ég að fjalla um það sem ég hef aðallega áhyggjur af í sambandi við innihald þessarar greinar.

Mér finnst áhugavert að sjá hvernig höfundurinn tekur saman með aðeins einni setningu 13 ár óteljanlegra ofsókna og pyntinga sem spámaðurinn Muhammad (friður sé með honum) og fyrstu múslimar urðu fyrir:

„Á þessum tíma jókst andúð Mekkubúa á Múhameð stöðugt …“ En þegar fjallað er seinna um „einræði“ spámannsins (friður sé með honum) eftir flótta hans til Medínu – þar sem hann náði völdum og varð ofbeldisfullur að sögn höfundarins – verður frásögnin rækileg allt í einu. Virðum sannleikann og rangfærum ekki söguna.

Það er munur á því annars vegar að vera ósammála eða sýna andúð á einhverjum og á því hins vegar að fremja grimmdarverk gegn einhverjum. Það síðara lýsir nákvæmlega því sem Quraish-ættflokkurinn gerði þegar Muhammad (friður sé með honum) lifði meðal þeirra.

Af hverju er höfundurinn ekki búinn að nefna að múslimar þess tíma voru skaðbrenndir, afmyndaðir og einnig dregnir um götur Mekku bara vegna þess að þeir héldu því fram að einn Guð væri til?

Af hverju er hann ekki búinn að nefna þá múslima sem voru pyntaðir með því að vera togaðir af tveimur kameldýrum hlaupandi hvort í sína áttina? Meira að segja hefur Khadija, eiginkona Muhammads (friður sé með honum), ekki látist af elli. Múslimarnir í Mekku voru útilokaðir frá samfélaginu og voru látnir svelta lengur en þrjú ár og bæði Khadija og frændi spámannsins, Abu Talib, dóu vegna þessa.

Samkvæmt höfundi greinarinnar breyttist allt eftir að hann flutti til Medínu. Múslimarnir hafi tekið völdin smám saman og svo byrjað að koma fram harkalega við hræsnara og þá sem voru á móti eða ósammála þeim. Þetta er alveg ósatt og besta dæmi til að afsanna slíkar fullyrðingar er svar spámannsins (friður sé með honum) við Abdullah bin Ubayy bin Salul, höfðingja hræsnaranna, sem gerði grín að honum og svívirti hann takmarkalaust.

Sonur Abdullahs bin Ubayy, sem var orðinn múslimi, bað um leyfi til að drepa föður sinn vegna þess að hann hafði margsinnis ráðist munnlega á spámanninn (friður sé með honum) og misboðið honum með verstu skammaryrðum. En Muhammad (friður sé með honum) bannaði ofbeldisfull viðbrögð og gaf fordæmi um þolinmæði og umburðarlyndi, ekki aðeins fyrir förunauta hans, heldur líka fyrir múslima framtíðarinnar, og sagði: „Ég skal koma fram við föður þinn með samúð og hugulsemi.“

Þar að auki, ef það sem höfundurinn heldur fram er satt og er hluti af íslömskum kenningum, af hverju fyrirgaf Muhammad (friður sé með honum) sínum verstu óvinum allt það sem þeir höfðu gert þegar hann kom sigursæll til Mekku? Þetta er einsdæmi, þar sem hann gaf fordæmi um miskunnsemi í stað þess að ákveða að refsa þeim öllum. Enn fremur, ef væntanlega refsingin fyrir að yfirgefa íslam er dauði – sem er ekki – hvernig myndi höfundurinn útskýra eftirfarandi versin: „Það er engin þvingun í trúnni?“ (2:257) og „Allah mun ekki fyrirgefa þeim sem trúa og svo afneita, og svo trúa aftur, og svo afneita og auka vantrú sína, og Hann mun ekki leiðbeina þeim“ (4:138)

Ef skylda er að drepa mann ef hann yfirgefur íslam, hvernig er þá hægt að endurtaka ferlið sem lýst er í versinu og halda einnig áfram að afneita eigin trú? Meginreglan er sú að hverri frásögn sem er í mótsögn við Kóraninn er hafnað. Það að vitna í vers eða frásögn án samhengis, án sögulegra heimilda og án þess að taka tillit til þess að íslam leyfði Muhammad (friður sé með honum) og múslimum að berjast einungis til að verja sig en aldrei til að hefja stríð (22:40) er svipað því að halda því fram að Jesús (friður sé með honum) sé einungis kominn til þess að færa sverð eins og sagt er í Matteusarguðspjalli 10:34: „Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.“ En það getur ekki verið þannig. Í síðasta lagi er algjör fjarstæða að halda því fram að íslam eða múslimar hati gyðinga og að atburðirnir sem varða Banu Qurayzah styðji slíka fullyrðingu.

Þvert á móti hefur Muhammad (friður sé með honum) verið líkt við Móses í hinum heilaga Kórani. Ég er viss um að spámanni íslams yrði ekki líkt við uppsprettu gyðingatrúar ef múslimar hefðu í alvöru hatur á gyðingum. Það að segja ekki frá því sem leiddi til ákvörðunarinnar sem var tekin gegn Banu Qurayzah er frekar ósanngjarnt frá sögulegu og fræðilegu sjónarhorni. Banu Qurayzah, eins og aðrir ættflokkar sem bjuggu í Medínu, höfðu fallist á 49. grein sáttmála Medínu, þar sem kveðið var á um að öllum aðilum bæri að aðstoða hver annan í tilfelli árásar á Medínu.

En í gryfjubardaganum, þegar herlið Quraishættflokksins sem samanstóð af miklu meira en 10.000 mönnum var að fara að ráðast á Medínu og herlið múslima sem var ekki meira en 1.500 manns, ákvað Banu Qurayzah að svíkja múslima og standa ekki við sáttmálann með því að sameinast andstæðingunum. Hafið í huga að þetta voru ekki fyrstu svik þeirra, en þeim hafa hin fyrri verið fyrirgefin.

Áhugavert er að Muhammad (friður sé með honum) tók ekki neina ákvörðun um refsingu gegn þeim, heldur samþykkti hann beiðni Banu Qurayzah um að þeir sjálfir útnefndu dómara sem myndi taka ákvörðunina og allir aðilar hefðu átt að sættast við hana, hvort sem refsingin væri létt eða hörð. Þeir útnefndu Sa’d bin Mu’adh til þess. Hann tilheyrði Aus-ættflokknum, sem var bandafólk gyðinga. Mjög mikilvægt er að ákvörðun Sa’d bin Mu’adh um að hálshöggva Banu Qurayzah var ekki byggð á Kóraninum, heldur á refsingu fyrir svik sem fyrirskipuð er í Mósebókum (5. Mósebók 20:10- 18).

Þeir frömdu svik, útnefndu sinn eigin dómara sem refsaði þeim samkvæmt þeirra eigin bók, þ.e. samkvæmt kenningum Tóru – þá af hverju er Muhammad (friður sé með honum) eða Kóraninum að kenna? Mín auðmjúka beiðni er sú að maður sé hreinskiptinn við samfélagið þegar það snýst um að kynna sögulega atburði. Annaðhvort gerum við grein fyrir slíkum atburðum og smáatriðum á einlægan hátt með því að styðjast við áreiðanlegar heimildir, eða það er best að sleppa því að gera það! Mín auðmjúka beiðni er sú að maður sé hreinskiptinn við samfélagið þegar það snýst um að kynna sögulega atburði."

 

Ekki hef ég neina hugmynd um prédikanir þessa manns yfir söfnuði sínum eða hver hans boðskapur er. En  menn geta getið sér til hvort þær boði víðsýni  eða umburðarlyndi. Hvort þær byggist á skilyrðislausri játun boðskaparins svipað og ef við krefðumst algerrar hlýðni við Gamla Testamentið og texta þess?

Ég held að það sé nokkur lærdómur fólginn í því að lesa þennan texta hins trúaða manns sem gefi örlitla innsýn inn í hinn Islamska veruleika sem boðaður er í Öskjuhlíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er þetta ekki bara ágæt og upplýsandi grein hjá manninum (friður sé með honum)?

Þorsteinn Siglaugsson, 19.12.2020 kl. 20:44

2 identicon

Ekki las ég greinina en það vakti athygli mína að höfundurinn var sagður klerkur ahmadiyya-safnaðar. Ahmadiyya er í mörgum múslímaríkjum talin villutrú og ofsótt. Þú getur lesið um það hér.

https://en.wikipedia.org/wiki/Persecution_of_Ahmadis#:~:text=Ahmadis%20are%20considered%20non%2DMuslims,and%20proselytizers%20for%20the%20faith.

Jón (IP-tala skráð) 20.12.2020 kl. 09:39

3 identicon

Ég er sáttur við okkar Kristnu ríkistrú og þá BLESSUN að fá að lesa litlu bibliusögurnar með þekktum virtum prestum í barnaskólunum í gamla daga.  Þetta byrjaði í Landakotsskólanum og hélt áfram í öðrum barnaskólum. þETTA MÁ TAKA UPP AÐ NÝJU? 

PERLAN er fallega staðsett og áberandi í Reykjavíkurborg. STRANGT BANN skal setja á sölu PERLUNNAR og landsins, allt um kring til erlendra aðila og trúarhópa.

Margir muna átökin með stálteinunum utanhúss í Öskjuhlíðinni samkvæmt frétt frá Sjónvarpinu.

GÍSLI HOLGERSSON (IP-tala skráð) 20.12.2020 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband