Leita í fréttum mbl.is

Þórarinn Hjaltason

ritar frábæra vísindalega greiningu á almenningssamgöngum í Morgunblaðið í dag.

"Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 er gert ráð fyrir því að auka hlutdeild ferða með strætó úr 4% upp í 12%. Í umræðunni er oft talað um að þrefalda eigi hlut strætó á skipulagstímabilinu. Þegar sveitarfélögin á svæðinu sömdu við ríkið árið 2012 um að fresta stórframkvæmdum í uppbyggingu þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2022 var ákveðið að sveitarfélögin fengju um einn milljarð á ári til að gera átak í þjónustu strætó. Sveitarfélögin settu sér það markmið að auka hlutdeild strætó í ferðum á höfuðborgarsvæðinu úr 4% í 8% á tímabilinu 2012-2022. Það hefur vægast sagt gengið mjög brösuglega. Hlutur strætó virðist vera óbreyttur frá 2012.

Ferðavenjukönnun 2019

Í fyrra létu samgönguráð og SSH framkvæma umfangsmestu könnun á ferðavenjum Íslendinga sem gerð hefur verið. Ein af niðurstöðum könnunarinnar var sú að hlutdeild ferða með strætó á höfuðborgarsvæðinu væri 5%. Í ferðavenjukönnun 2017 var hlutur strætó 4%. Þetta þóttu mér mikil tíðindi og ástæða til að sannreyna þetta með því að glugga í ársskýrslur Strætó bs.

Samkvæmt ársskýrslum Strætó bs. var heildarfarþegafjöldinn 11,7 milljónir á árinu 2017 og tæpar 12,2 milljónir á árinu 2019. Aukning um hálfa milljón farþega var nú allt og sumt. Eins og öllum er kunnugt hefur bílaumferð aukist mikið á höfuðborgarsvæðinu síðustu árin. Ég efast því um að hlutdeild ferða með strætó hafi aukist milli 2017 til 2019. Niðurstöður ferðavenjukannananna 2017 og 2019 voru ekki gefnar upp með aukastaf. Það var því hugsanlegt að hlutdeild ferða með strætó hefði t.d. verið 4,4 % árið 2017, afrúnnað niður í 4%, og 4,6% árið 2019, afrúnnað upp í 5%.

Nærtækasta skýringin er þó e.t.v. tölfræðileg óvissa, einfaldlega vegna þess að farþegar með strætó eru lítill hluti af þátttakendum í þessum könnunum. Fróðlegt væri að sjá hlutdeild farþega með strætó gefna upp með einum aukastaf ásamt tölfræðilegu öryggisbili. Þannig mætti auðveldlega sjá hvort munur á hlutdeild ferðamáta milli ára sé tölfræðilega marktækur.

Raunveruleg hlutdeild ferða með strætó

Í ársskýrslum Strætó bs. er sett samasemmerki milli farþegafjölda og fjölda innstiga. Hingað til hefur fjöldi ferða með strætó verið talinn jafn mikill og fjöldi innstiga. Það er fjarri sanni. 25% innstiga eru farþegar að skipta um vagn til að komast milli a og b. Fjöldi ferða með strætó er því fjöldi innstiga margfaldaður með 0,75. Þegar samgönguyfirvöld segja að hlutdeild ferða með strætó á höfuðborgarsvæðinu sé 4% af öllum ferðum, þá er raunveruleg hlutdeild ferða með strætó aðeins 4 x 0,75 = 3%.

Í umdeildri skýrslu Cowi & Mannvits um félagslega ábatagreiningu fyrir fyrstu framkvæmdalotu borgarlínu eru niðurstöður byggðar m.a. á tveimur umferðarspám í nýju samgöngulíkani fyrir höfuðborgarsvæðið. Báðar spárnar eru reiknaðar fyrir árið 2024. Önnur spáin er reiknuð fyrir ástand án borgarlínu og með óbreyttu strætókerfi, þannig að gera má ráð fyrir að spá um hlutdeild ferða með strætó sé svipuð eða hærri en árið 2019 (ekki lægri ef við trúum á breyttar ferðavenjur!). Þessi spá gerir ráð fyrir 1.204.875 ferðum með fólksbílum og 41.492 ferðum með strætó á sólarhring. Í samgöngulíkaninu eru ferðir með strætó skilgreindar á réttan hátt, þannig að ég beið spenntur eftir útkomunni. Ferðir íbúa með vélknúnum ökutækjum eru samtals 1.204.875 + 41.492 = 1.246.367 ferðir á sólarhring. Hlutdeild ferða með strætó er (41.492/ 1.246.367) x 100 = 3,3% af ferðum með vélknúnum ökutækjum.

Þá á eftir að taka ferðir gangandi og hjólandi með í reikninginn. Í samgöngulíkaninu er spáð 79.844 ferðum á reiðhjóli á sólarhring. Hins vegar eru ferðir gangandi ekki með í líkaninu. Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 er gert ráð fyrir að hlutdeild gangandi og hjólandi sé 20% af öllum ferðum 2015 og markmiðið er að sú tala hækki í 30% 2040.

Ef við gerum ráð fyrir óbreyttri hlutdeild gangandi og hjólandi áður en borgarlínan og breytt strætókerfi eru tekin í gagnið verður hlutdeild ferða með strætó aðeins 3,3 x 0,8 = 2,66% af öllum ferðum.

Ef við trúum á aukna hlutdeild gangandi og hjólandi af öllum ferðum og hún verði t.d. 23% árið 2024, þá verður hlutdeild ferða með strætó af öllum ferðum aðeins 3,3 x 0,77 = 2,54%.

Ég trúði vart mínum eigin augum.

Með fullri virðingu fyrir hinu nýja samgöngulíkani kann að vera einhver ónákvæmni í líkaninu sem gerir hlutdeild ferða með strætó minni en hún er í raun og veru. Rétt er að taka fram að þessar umferðarspár voru ekki gerðar með endanlegri útgáfu af líkaninu.

Við skulum því leyfa strætó að njóta vafans og gera ráð fyrir að hlutdeild ferða með strætó af öllum ferðum á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 sé 3%. Þá vaknar spurningin hvort markmið um þreföldun á hlutdeild ferða með strætó á tímabilinu 2015-2040 muni leiða til þess að markmiðið verði 9% í stað 12%."

Höfundur er umferðarverkfræðingur og fv. bæjarverkfræðingur í Kópavogi. thjaltason@gmail.com

Þarna sýnir Þórarinn Hjaltason fram á það hversu mjög meirihluti Borgarstjórnar Reykjavíkur hefur fegrað forsendur almenningssamgangna og þar með forsendur þess að hafa fengið sveitarstjórnir ´höfuðborgarsvæðinu og ríkisvaldið til að veita risavöxnum fjárhæðum í gæluverkefni sitt Borgarlínuna. Til viðbótar því að hafa valdið afturför í gatnakerfinu í þéttbýli sem mun taka mörg ár að vinna upp. 

Þórarinn sýnir að talnaturnar meirihlutans eru reistir á sandi og miklar efasemdir eru um það að þær fjárfestingar skili sér nokkurn tímann nema sem risavaxið tjón almennings á öllu höfuðborgarsvæðinu vegna þeirra blekkinga sem beitt hefur verið.

Fólkið hefur fyrir löngu valið sér einkabílinn sem sitt samgöngutæki svo sem allstaðar er raunin á og lífskjör leyfa vestan hafs og austan. Meirihlutinn er því besta falli að reyna að láta vatn streyma upp í móti sem engum hefur tekist til þessa. 

Þórarinn Hjaltason á miklar þakkir skilið fyrir þessa verkfræðilegu athugun á staðreyndum samgangna á höfuðborgarsvæðinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Fólkið hefur fyrir löngu valið sér einkabílinn sem sitt samgöngutæki svo sem allstaðar er raunin á og lífskjör leyfa vestan hafs og austan. Meirihlutinn er því besta falli að reyna að láta vatn streyma upp í móti sem engum hefur tekist til þessa. 

Ég  hef gert mér far um að horfa á farþegana sem stíga inn í strætóana í Orlando. Það er auðsætt úr hvaða þjóðfélagshópum þeir koma.Á meðan streyma bílarnir eftir mrgra akreina götum í allar áttir og maður sér varla árekstur. Fólkið þarna hefur valið. Hví skyldi það vera öðruvísi hér?

Hugmynd um sjálfkeyrandi bíla er að mínu viti bull sem aldrei verður að veruleika. Fólk vill keyra sjálft. En sjálvirk bremsun í stað þess að keyra  á er þegar raunveruleiki.

Halldór Jónsson, 29.12.2020 kl. 12:16

2 identicon

HÖFUÐBORGIN ER STÓRHUGA VARÐANDI BORGARLÍNU, SEM FÁIR VILJA OG REYKJAVÍK HEFUR ENGIN EFNI Á FREKAR EN NÁGRANNA BÆIR OG SKULDUGUR RÍKISSJÓÐUR.  VIÐ ÞÖKKUM ÞÓRARNI HJALTASYNI VERKFRÆÐING FYRIR SKOÐUN HANS Á borgarlínunni, sem kostar milljarða.

Hressið uppá ykkar bestu STRÆTÓA og málið í fánalitunum. Ráðið 2 góða menn í hvern bíl til AKSTURS og hinn til EFTIRLITS. FRÍTT verður í alla vagnana 1-2ár til að sjá "aukningu" farþega.

Styttið biðtímann í biðskýlum.

Þetta mundi gleðja RÍKIÐ og nágrannabæina.

GÍSLI HOLGERSSON (IP-tala skráð) 29.12.2020 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 3420167

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband