Leita í fréttum mbl.is

Komandi kosningar

nálgast hægt en örugglega.

Styrmir Gunnarsson er farinn að hugsa þétt um þetta enda maður framsýnn.

Hann segir í dag:

"Við lifum á óvenjulegum tímum og það er kannski ástæðan fyrir því að bæði þeir sem taka virkan þátt í stjórnmálum og áhugamenn um stjórnmál velta því fyrir sér hvort búast megi við óvæntum úrslitum af einhverju tagi í þingkosningunum síðar á þessu ári.

Síðasta skoðanakönnun Gallup gefur að vísu ekki tilefni til slíkra vangaveltna en það eru kannski frekar undirstraumarnir í samfélaginu sem koma þeim af stað. Þeir eru af margvíslegu tagi. Hrunið fyrir rúmum áratug hefur skilið eftir sig bæði sár og reiði og tortryggni í garð þeirra sem ráða ferðinni hverju sinni. Og kannski allra þeirra sem koma nálægt stjórnmálum. Samtrygging innan þess hóps hefur lengi verið til umræðu en sennilega í ríkari mæli seinni árin og áratugi. Það má finna í umræðum manna á milli um kjaramál kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna og í vaxandi mæli um fjármögnun skattgreiðenda á starfsemi stjórnmálaflokka, sem mörgum finnst vera komin úr böndum. Óútkljáð deilumál á borð við fiskveiðistjórnarkerfið hafa haft svipuð áhrif.

En hvað sem slíkum vangaveltum líður er nokkuð ljóst að baráttan í þingkosningunum í haust mun snúast um kjósendur á miðjunni, sem er svo sem ekkert nýtt en verður líklega harðari en oft áður.

Sú var tíðin, að kjósendur á hægri kantinum söfnuðust saman í Sjálfstæðisflokknum, sem náði líka inn á miðjuna, en sundrungin var meiri á vinstri kantinum. Svo fóru að koma brestir í Sjálfstæðisflokkinn, fyrst með Borgaraflokki Alberts Guðmundssonar, sem átti sér ekki langa lífdaga, síðan með Frjálslynda flokki Sverris Hermannssonar, sem varð heldur ekki langlífur, og loks með Viðreisn, sem spratt upp úr skoðanaágreiningi innan flokksins um hvort Ísland ætti að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu.

Raunar varð líka til flokksbrot úr þeim flokki fyrir tæpum 70 árum þegar Lýðveldisflokkurinn (fallegt nafn) varð til en að honum stóðu ýmsir kaupsýslumenn í Reykjavík. Sundrungin á vinstri kantinum átti sér margvíslegar rætur. Ágreiningur í röðum jafnaðarmanna varð til þess að snemma á síðustu öld var Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður og um áratug síðar gekk vinstri armur Alþýðuflokksins undir forystu Héðins Valdimarssonar til samstarfs við kommúnista um stofnun Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokks. Sá leikur var endurtekinn á sjötta áratug 20. aldar þegar Hannibal Valdimarsson klauf Alþýðuflokkinn aftur og myndaði kosningabandalag með Sósíalistaflokknum undir nafninu Alþýðubandalag. Rúmum áratug eftir það var Alþýðubandalagið gert að formlegum stjórnmálaflokki, sem klofnaði svo nokkrum árum síðar þegar Hannibal og Björn Jónsson klufu þann flokk og stofnuðu Samtök frjálslyndra vinstri manna.

Grundvallarágreiningur í röðum vinstrimanna um kalda stríðið setti svip sinn að hluta á þessi átök. Það varð svo til þess að með lokum kalda stríðsins fóru vinstrimenn alvarlega að hugsa um sameiningu og til varð Samfylkingin, sem þó varð ekki meiri samfylking en svo að eftir stóðu Vinstri-grænir sem sjálfstæð eining og standa enn.

Nú eiga átta flokkar fulltrúa á þingi og líklegt má telja að sá níundi, Sósíalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar, bjóði fram í haust.

Hrunið varð til þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins hrundi. Áður var flokkurinn áratugum saman með 37- 42% fylgi í þingkosningum en fékk í þingkosningunum 2017 25,3% og í könnun Gallup fyrir skömmu 23,7%.

+Umræður um þetta fylgishrun eru af skornum skammti á vettvangi flokksins og málið afgreitt með því að vísa til fjölgunar flokka. Það er yfirborðsleg skýring en hins vegar ljóst að þetta langvarandi fylgistap auðveldar vinstriflokkunum að ná því markmiði að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá aðild að stjórn landsins eftir kosningarnar í haust.

Einu sinni var það hættulegt vegna þess að því fylgdi viðleitni til þess að kljúfa Ísland frá varnarbandalagi frjálsra þjóða heims á tímum kommúnismans. Nú er það hættulegt vegna þess að of miklar líkur eru á að því fylgi tilraun til að draga aðildarumsóknina upp úr skúffunni í Brussel og endurvekja hana.

Viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við þessari stöðu hljóta að verða þau að hefjast handa um að endurheimta sitt fyrra fylgi. Það verður ekki gert nema með því að hefja gagnsókn inn á miðjuna og sú sókn tekst ekki nema með því að breyta áherzlum og ásýnd flokksins.

Fyrir nokkrum dögum átti greinarhöfundur samtal við ungan mann, sem kvaðst hafa hafið eigin atvinnurekstur 19 ára gamall. Þá fannst honum Sjálfstæðisflokkurinn standa með einyrkjum í atvinnurekstri. Nú finnst honum flokkurinn standa með stóru fyrirtækjunum en hunza „litla karlinn“.

Getur verið að eitthvað sé til í því?

En hvort sem þessi vandi er ímyndarvandi eða á sér dýpri rætur tala tölurnar sínu máli, þ.e. úrslit þingkosninga frá hruni svo og skoðanakannanir á milli kosninga.

Það er mikilvægt að þessi mál verði rædd á vettvangi flokksfélaga Sjálfstæðisflokksins um land allt á næstu mánuðum og á landsfundi, hvenær sem hægt verður að halda hann. Fjarfundir eru hins vegar auðveld leið til slíkra fundarhalda að óbreyttu. Og niðurstöður þeirra umræðna þurfa að endurspeglast í kosningabaráttu sjálfstæðismanna fyrir þingkosningarnar í haust.

Raunar er æskilegt að frambjóðendur í prófkjörum, sem væntanlega fara fram á vegum flokksins í vor og snemma sumars, lýsi sínum skoðunum á þessum álitamálum."

Nú sanna fyrri dæmi að að það er tilgangslítið að byrja kosningabaráttu of snemma. Jón Baldvin og Ólafur Ragnar voru búnir með þolinmæði landsmanna löngu fyrir kosningar á rauða ljósinu.

Áróður virkar aðeins í ákveðinn tíma en grunnsannfæring, sem við Styrmir höfum báðir, sem kommarnir myndu kalla íhaldsforpokun, ræðst ekki af áróðri fyrir kosningar. Okkur verður ekki snúið svo auðveldlega með pólitískum blikkljósum. Við viljum hinsvegar að íhaldsmennskan sé ekki fótum troðin og að sjálfstæðisstefnan frá 1929 sé ekki sett út í horn.

Kosningarnar munu snúast um ESB að miklu leyti og hlutfallslega ef að ríkisstjórninni tekst að lifa bóluefnisklúðrið af. Leysist það hinsvegar mun skiptingin gagnvart ESB ná að kristallast samkvæmt grunnsannfæringu landsmanna sem ég tel að að sé aðildarumsókn ekki hagstæð.

Stefnuleysi og ruglandi sem birtist í fylgi "ekkiflokks" eins og Pírötum er hinsvegar áhyggjuefni og ber greindastigi og stjórnmálaþekkingu hluta kjósenda heldur slakt vitni.

Um Gunnar Smára og hans hatursflokk þarf ekki að fjölyrða en furðu gegnir hvernig honum hefur tekist að hnýta upp í Sólveigu Önnu svona fyrirhafnarlaust.Hvort þau ná lágmarkinu skal ekki spáð hér.

Varðandi söluvilja Bjarna Benediktssonar á Íslandsbanka þá er sú hugmynd að gera alla Íslendinga að hluthöfum áreiðanlega góð kosningabeita fyrir Sjálfstæðisflokkinn en veltur á samstarfsflokkunum. Og þó góð sé má hún ekki notast sem skiptimynt í viðskiptum við Guðmund Inga og VG fyrir Vatnajökuls- eða Vestfjarðaþjóðgarð svo vitlausar og þjóðhættulegar sem þær hugmyndir eru.

Komandi kosningar verða um margt merkilegar en úrslitin eru fráleitt komin í kortin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Halldór.

Píratar er sá flokkur sem býr yfir mestu frjómagni hugmynda.
Hann gæti náð langt.

Gunnar Smári er einhver snjallasti
skipuleggjandi sem um getur.
hann er því ekki ólíklegur ásamt sínu liði til
að setja mark sitt á komandi kosningar.

Fylgistap VG er óumflýjanlegt en Samfylking
er ólikindatól.

Miðflokkurinn er sennilega betur skipulagður en aðrir
flokkar, stjórnin traust og örugg og þeir kunna að
halda spilunum að sér mun betur en nokkrir aðrir.

Framsókn er fölnuð rós sem senn hnígur að velli.
Ekki sjálfgefið og reyndar nokkuð víst að henni
tekst ekki að grafa sér gröf að þessu sinni en
Flokkur fólksins gæti bætt það sinnuleysi upp.

Hvað sem menn gera fyrir þessar kosningar ættu þeir að
varast að láta kannanir hvaðan sem þær koma snúa sér
eins og þeytispjaldi.

Samstarf Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks
gæti verið það sem þjóðinni reyndist farsælasta stjórnarmynstrið en algerlega víst að vinstriöflin munu
stefna að sama munstri og Reykjavíkurborg býr við;
þeir munu reyna að mynda starfhæfa stjórn fljótt og vel.
Ekki er ólíklegt að þeim takist það. En slík stjórn
yrði ekki langlíf og við tæki Sjálfstæðisflokkur, etc.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu og sjá hvernig fer!

Húsari. (IP-tala skráð) 10.1.2021 kl. 09:20

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Atburðarásin á komandi mánuðum í USA mun snúa kosningum á íslandi á haus.

Guðmundur Jónsson, 10.1.2021 kl. 10:27

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Ja hérna Húsari

Halldór Jónsson, 11.1.2021 kl. 17:21

4 identicon

Þetta hljómar eins og stjörnuspá, næstu kosningar. Þetta verða mikilvægar kosningar eftir ósómann "að-austan", sem hamrar á getu Vesturlanda andlega og peningalega.

ÍSLAND magnast með þjóðernissinnuðum flokkum og einstaklingum. Miðflokkurinn og Framsóknarmenn verða að sameinast undir merkjum fullveldis og sjálfstæðis og ómengaðri framleiðslu í og á Landinu okkar. Sjálfstæðisflokkurinn er ávallt mikil vægur og kann til verka. Bjarni Ben og Sigmundur Davíð kunna til verka, sem sóma sér vel innanlands og erlendis.

Flokkur Fólksins er mér kær varðandi aldraða og öryrkja. 

Kjósendur verða að gera upp hug sinn varðandi Sócialista og ESB sinna á virtu Alþingi. ESB er gagnlítið og getulaust. 

Samstarf við Brexit er mér kært.

GÍSLI HOLGERSSON (IP-tala skráð) 12.1.2021 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband