Leita í fréttum mbl.is

Stjórnvöld okkar féllu á prófinu

á ömurlegan hátt. Í stað þess að negla niður afhendingardagsetningar þá bulluðu þau um skammtafjölda einhversstaðar út í heiðríkjunni.

Bara bull út í loftið.

Bjarni Jónsson tekur eftirfarandi saman:

 

"Það runnu á marga lesendur Fréttablaðsins tvær grímur á Gamlaársdag, þegar þeir lásu óvænta frétt með viðtalsslitrum við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, ÍE, þar sem komu fram upplýsingar, sem stangast algerlega á við það, sem heilbrigðisráðherra hefur haldið fram um komu bóluefna.  Hvort þeirra ætli sé nú merkilegri pappír ?  Næstu mánuðir munu leiða það í ljós. Það er líklega leitun að fólki hérlendis með jafngóða sýn yfir lyfjaiðnað heimsins og jafngóðan aðgang að stjórnendum lyfjaiðnfyrirtækja og forstjóri dótturfyrirtækis Amgen í Vatnsmýri Reykjavíkur. Heilbrigðisráðherra, aftur á móti, er eins og hún er úr garði gerð í sínum ranni.

Fyrirsögn téðrar stórfréttar Fréttablaðsins var:

"Lítið brot þjóðarinnar verði bólusett fyrir lok næsta árs".

Fréttin hófst þannig:

"Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur líklegt að óbreyttu, að einungis lítið brot af þjóðinni verði bólusett fyrir COVID-19 fyrir lok næsta árs [2021].  Hann segir það mikið áhyggjuefni, að enginn af þeim samningum, sem Ísland hefur undirritað við lyfjafyrirtækin Pfizer, Moderna og AstraZeneca, innihaldi afhendingardagsetningar. [Hið sama á við samninginn við Janssen.  Hins vegar er búið að bóka mikið magn eða 843 k skammta, sem er tæplega 30 % umfram líklega þörf.] 

"Það hefur bara verið samið um magn, en ekki um afgreiðslutíma", segir Kári.  "Það eru engar dagsetningar í þessu.  Þetta byggir náttúrulega á samningum Evrópusambandsins, og enn einu sinni virðist Evrópusambandið vera að klúðra málum.  Ef svo heldur fram sem horfir, þá er hætta á því, að við verðum ekki búin að bólusetja, nema pínulítinn hundraðshluta af þjóðinni í lok næsta árs", segir Kári."

 

Þessar upplýsingar kunnáttumanns eru grafalvarlegar af tveimur meginástæðum: 

Þær gætu þýtt framlengingu dýrkeyptra og umdeilanlegra sóttvarnarráðstafana í samfélaginu í megindráttum út 2021, þótt léttir verði hjá framlínufólki í heilbrigðisgeira og á hjúkrunar- og dvalarheimilum vegna forgangsbólusetninga þar. Framlenging sóttvarnarráðstafana, t.d. á landamærum, jafngildir væntanlega nokkur hundruð milljarða tekjutapi samfélagsins, áframhaldandi skuldasöfnun og atvinnuleysi í hæstu hæðum. Afleiðingar sóttvarnaraðgerða á heilsufar margra eru svo alvarlegar, að þær vega líklega upp ávinninginn af sóttvarnaraðgerðunum og rúmlega það mælt t.d. í dauðsföllum.  Rannsóknir styðja þetta viðhorf.

Þessi langi afhendingartími mun valda áframhaldandi álagi á heilbrigðiskerfið og enn meiri töfum á s.k. valkvæðum aðgerðum sjúkrahúsanna með lengingu biðlista sjúklinga sem afleiðingu.  Þetta þýðir áframhaldandi kvalræði og lyfjaát margra ásamt vinnutapi.  

Það eru þess vegna gróf mistök heilbrigðisyfirvalda að binda allt sitt trúss í þessum efnum upp á ESB-truntuna, algerlega að þarflausu, því að þessi mál eru utan EES-samningsins og reyndar gera sáttmálar ESB enn ekki ráð fyrir miðstýringu Framkvæmdastjórnarinnar á heilbrigðismálum aðildarþjóðanna. Það var vanræksla að sýna ekkert eigið frumkvæði við útvegun bóluefna, heldur leggja þau mál Íslendinga öll upp í hendurnar á ESB.  Það var dómgreindarbrestur að treysta alfarið á ESB, þótt hafa mætti það bágborna apparat í bakhöndinni. 

Íslenzk heilbrigðisyfirvöld máttu vita, hvernig í pottinn er búið hjá ESB.  Þar er reynt að gæta jafnræðis á milli Þýzkalands og Frakklands, sem í þessu tilviki þýðir, að ESB-ríkin verða að kaupa jafnmikið af frönskum og þýzkum lyfjafyrirtækjum. Það hefur lengi verið vitað, að franska Sanofi er ekki á meðal hinna fyrstu, eins og þýzka BioNTech, með vörn gegn SARS-CoV-2 á markaðinn.  Sanofi er  enn í prófunarfasa 2, og þess vegna var ESB jafnseint fyrir og raun bar vitni um.  Aðrar ríkisstjórnir, t.d. sú brezka og ísraelska, báru sig upp við framleiðendurna í sumar og tryggðu sér bóluefni. 

Ísraelsmenn bólusetja nú u.þ.b. 1 % þjóðarinnar á dag með fyrri skammti, og höfðu bólusett um 11 % þjóðarinnar í byrjun janúar 2021 með fyrri skammti, þegar hér var búið að bólusetja rúmlega 1 % þjóðarinnar með fyrri skammti.  Hér virðast afköstin ætla að verða að jafnaði aðeins tæplega 3 % þjóðarinnar á mánuði fullbólusett vegna skorts á bóluefni.  Þetta dugar varla til hjarðónæmis fyrir árslok 2021, þótt bót verði í máli, en Ísraelsmenn verða með sama áframhaldi komnir með hjarðónæmi í maí 2021.

Þessi VG-seinagangur (bólusetningaafköst eru meira en  5 föld í Ísrael vorin saman við Ísland m.v. horfurnar) verður samfélaginu ofboðslega dýr að því tilskildu, að engar alvarlegar aukaverkanir komi í ljós við notkun þessarar nýju tækni við ónæmismyndun, sem nú er verið að gera tilraun með á mannkyninu í örvæntingu. Heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra gætu verið  sekar um vanrækslu í lífshagsmunamáli þjóðarinnar. 

  Kári Stefánsson / ÍE vakti enn frekar athygli á þessu stjórnsýslulega og pólitíska klúðri ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:  

"Það er furðulegt að hlusta á fulltrúa heilbrigðismálaráðuneytisins gefa út yfirlýsingar um, að við séum búin að tryggja nægjanlega mikið bóluefni, þegar það lítur út fyrir, að þetta nægjanlega mikla bóluefni komi ekki fyrr en 2022." [Fyrir 3/4 þjóðarinnar 2022 - innsk. BJo.]

"Þessi staða er því að kenna, að við, eins og hin Norðurlöndin, ákváðum að vera samferða Evrópusambandinu, og Evrópusambandið klúðraði þessu.  Það var eðlilegt, að við færum í hóp með hinum Norðurlandaþjóðunum.  Það hefur oft reynzt okkur gæfuríkt spor, en við erum bara því miður á þeim stað, að Evrópusambandið klúðraði þessu.  Við verðum að horfast í augu við það og ekki reyna að sannfæra okkur og aðra um, að þetta sé allt í lagi, því [að] þetta er ekki í lagi."

""Við verðum að leita úti um allt, og við megum ekki núna halda því fram, að það sé lífsbjargarspursmál að halda þennan samning við Evrópusambandið, því [að] það er búið að gera í buxurnar", segir Kári."

"Ef heilbrigðismálaráðuneytið getur upplýst um eitthvað annað og sýnt fram á, að ég hafi rangt fyrir mér, þá yrði ég mjög glaður.  Þetta er eitt af þeim augnablikum, sem ég vildi, að ég hefði rangt fyrir mér."

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki hrakið staðhæfingar Kára.  Við búum við vond stjórnvöld á sviði heilbrigðismála.  Þessi stjórnvöld leggja allt undir með því að veðja á ESB án þess að sinna  rannsóknarskyldu sinni.  Evrópusambandið var ekki og hefur aldrei verið traustsins vert. Hvers vegna var ekkert spurt um dagsetningar, þegar íslenzka trússið var bundið upp á ESB-merina ? Heilbrigðisstjórnvöld sýndu þar með dómgreindarbrest og fá í kjölfarið falleinkunn.  Um þriðjungur þjóðarinnar bólusettur um næstu áramót er staðan, sem við blasir.

Morgunblaðið reyndi að bregða birtu á staðreyndir málsins gegnum áróðursmökk heilbrigðisyfirvalda, t.d. móttöku tveggja kassa frá Pfizer/BioNTech á milli jóla og nýárs.  Þann 2.1.2021 birtist þar frétt með fyrirsögninni:

"Seinvirkt ferli við kaup á bóluefni skapar vandamál".

Fréttin hófst þannig:

"Ugur Sahin, forstjóri þýzka lyfjafyrirtækisins BioNTech, segir, að Evrópusambandið hafi verið hikandi við að útvega bóluefni við kórónaveirunni.  "Ferlið í Evrópu var ekki eins hraðvirkt og í öðrum löndum", sagði Sahin við þýzka blaðið Spiegel.  "Að hluta til vegna þess, að Evrópusambandið getur ekki veitt leyfið eitt og sér, og aðildarríki geta haft eitthvað til málanna að leggja", sagði Sahin.  Hann bætti við, að ESB hefði einnig veðjað á framleiðendur, sem gátu ekki útvegað bóluefnið eins fljótt og BioNTech og Pfizer gerðu." 

Íslenzkum heilbrigðisyfirvöldum er ljóst, hversu miklu máli skiptir að skapa hjarðónæmi í samfélaginu á sem stytztum tíma.  Þeim mátti vera ljóst, að ESB yrði á seinni skipunum við útvegun bóluefnis vegna þess, sem Herr Sahin segir hér að ofan.  Á meðal þessara uppáhaldsfyrirtækja ESB, sem verða sein fyrir, er franska lyfjafyrirtækið Sanofi.  Frakkar heimta, að sinn lyfjaiðnaður sé með í spilunum gagnvart Evrópu, og Ursula von der Leyen, forseti Framkvæmdastjórnarinnar, féllst á það. 

Hún dró líka taum Frakka sem landvarnaráðherra Þýzkalands.  Þá lét hún Luftwaffe gera þróunarsamning við Frakka um nýja fransk-þýzka orrustuþotu í stað þess að festa kaup á nýjustu útgáfu af hinni bandarísku F35.  Luftwaffe bráðvantar nýjar flugvélar, og það tekur yfir 10 ár að þróa nýja orrustuþotu og 20 ár að fá nægan bardagahæfan fjölda. Óánægja Bundeswehr með von der Leyen varð að lokum svo mikil, að Kanzlerin Merkel varð að losa sig við hana úr ríkisstjórninni í Berlín.  Brüssel tekur lengi við. 

""Þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið", sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í samtali við mbl.is um framvindu bólusetninga gegn kórónuveirunni. 

Spurð, hvers vegna ekki liggi frekari áætlanir fyrir um afhendingu bóluefnis, segir Svandís, að framleiðsla á bóluefnum standi enn yfir.  Í framhaldi af þeim komi áætlanir um dagsetningar afhendinga.  Meginmálið sé, að samningar um kaup á bóluefni séu í höfn."

 Þetta furðusvar Svandísar sýnir, að keisarinn er ekki í neinu.  Vankunnátta hennar og óhæfni á þessu sviði er alger.  Hún gefur í skyn, að ekki tíðkist að semja um afhendingartíma fyrr en búið sé að framleiða vöruna.  Vantraust hennar á einkaframtakinu er svo mikið, að hún hefur ímyndað sér, að það geti ekki samið framleiðsluáætlun.  Hið rétta er, að það er engin alvörupöntun fyrir hendi, nema samið hafi jafnframt verið um afhendingartíma. 

Iðulega eru settir í samninga skilmálar um dagsektir vegna tafa á afhendingu vöru. Heilbrigðisráðherra fer með helbert fleipur, þegar hún fullyrðir, að "þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið" m.v. þær upplýsingar, sem nú eru fyrir hendi, eins og Kári Stefánsson hefur bent á. 

Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, ritaði vandaða hugleiðingu um efnahagsmál í Tímamót Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:

 "Hinn vandrataði vegur".

Þessum hugleiðingum Stefáns lauk undir millifyrirsögninni: 

"Forsætisráðherrann féll á prófinu":

"Ummæli bankastjórans voru látin falla í samhengi við nýlegar fréttir um, að bóluefni væri handan við hornið, sem tryggt gæti hjarðónæmi gegn kórónuveirunni.  Þau tíðindi hafa raungerzt og víða um heim er byrjað að bólusetja fólk af miklum móð, sem færir heimsbyggðina nær því marki að færa lífið í eðlilegt horf á ný.  Stærsta ógnin á þessum tímapunkti fyrir okkur Íslendinga virðist vera sá sofandaháttur, sem íslenzk stjórnvöld sýndu, er kom að öflun bóluefnis.  Virðast þau hafa lagt allt sitt traust á Evrópusambandið [ESB], og að í krafti þess yrði hlutur Íslands í heimsframleiðslunni a.m.k. ekki hlutfallslega minni en annarra þjóða.  Nú er því miður komið á daginn, að ESB féll á prófinu - og þar með Ísland.  Var hreint út sagt vandræðalegt, þegar fréttist, að forsætisráðherra hefði nokkrum dögum fyrir jól varið heilum degi í að hringja í forstjóra Pfizer og búrókrata í Brussel í veikri von um, að rétta mætti hlut íslenzku þjóðarinnar í þessu efni.

Þau viðbrögð komu alltof seint, mörgum mánuðum eftir, að forystumenn á borð við Justin Trudeau og Boris Johnson höfðu af alefli og með fulltingi embættismanna sinna tryggt löndum sínum veglega hlutdeild í því magni, sem þó hefur tekizt að framleiða og framleitt verður á komandi mánuðum.  

Langstærsta verkefni stjórnvalda næstu vikurnar verður að tryggja nægt bóluefni til landsins, koma því í rétta dreifingu og hefja samhliða þeirri vinnu markaðssetningu á Íslandi sem öruggri höfn fyrir ferðamenn.  Hvort sem fólki líkar það betur eða verr, mun ekki takast að sigla hagkerfinu úr hinum mikla öldudal, nema með endurreisn ferðaþjónustunnar.  Innviðirnir eru til staðar og flugfélagið - jafnvel þótt stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi tekið afstöðu gegn félaginu og hagsmunum sjóðfélaga og íslenzku þjóðarinnar um leið."

Þetta er hörð ádrepa á 2 ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en fullkomlega réttmæt í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem í húfi eru. 

Vanræksla þessara tveggja ráðherra VG ætti að færa fólki heim sanninn um, hversu hættulegt er að styðja eintrjáningslega og löngu úr sér gengna hugmyndafræði til valda á Íslandi.  Í þessum þrönga og þröngsýna stjórnmálaflokki er eðlilega lítið mannval, og fólk kann þar lítt til verka, þegar að krefjandi verkefnum kemur, og er ekki treystandi til stórræða.

Þrátt fyrir hægagang mun á fyrsta ársfjórðungi 2021 takast að bólusetja þá, sem í mestri lífshættu eru við C-19 sýkingu, og framlínustarfsfólk heilbrigðisgeirans.  Eftir það er varla nokkur hætta á yfirálagi heilbrigðisstofnana vegna margra C-19 sjúklinga. 

Þar með falla brott helztu röksemdir fyrir alls konar höftum í samfélaginu í nafni sóttvarna.  Þess vegna ættu sóttvarnaryfirvöld í janúar 2021 að gefa út áætlun um afléttingu hamlana innanlands og á landamærum.  Það verður grundvöllur endurræsingar þeirra geira athafnalífsins, sem lamaðir hafa verið í Kófinu á meira eða minna hæpnum forsendum."

Þvilikur aukaháttur!

Þvílíkur ræfildómur okkar stjórnvalda.

Hversu margir munu lúta í gras í þessari fallhrinu Svandísar og Katrínar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

    • Fámenni okkar þarf tafarlausa bólusetningu við plágunni frá Wuham í Kína.

    • Allir erlendir ferðamenn og Íslendingar erlendis frá verða að vera bólusrttir.

    • Þannig verðum við frjáls og óttalaus í bullandi samskiftum við alheim.

    Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 14.1.2021 kl. 17:58

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Höfundur

    Halldór Jónsson
    Halldór Jónsson

    verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

    -ekki góður í neinu af þessu-

    Heimsóknir

    Flettingar

    • Í dag (22.11.): 4
    • Sl. sólarhring: 5
    • Sl. viku: 41
    • Frá upphafi: 3419714

    Annað

    • Innlit í dag: 4
    • Innlit sl. viku: 35
    • Gestir í dag: 4
    • IP-tölur í dag: 4

    Uppfært á 3 mín. fresti.
    Skýringar

    Eldri færslur

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband