Leita í fréttum mbl.is

Gott yfirlit

um heimsmálin skrifar Vilhjálmur Bjarnason í Mbl.í dag.

Þar sem ekki lesa allir Mogga þrátt fyrir augljósa yfirburði hans ef menn bera saman blöð dagsins, Fréttablaðið og Morgunblaðið,  þá tek ég þessa grein upp hér í þeirri von að einhverjir fleiri lesi þetta góða yfirlit Villa Bjarna um heimsmálin:

Nýr heimur og nýr veruleiki í frjálsum heimi.

"Þeim, er þetta ritar, hefur orðið tíðrætt um hinn frjálsa heim. Um langt árabil var hinn frjálsi heimur bandalag ríkja í Norður-Ameríku og VesturEvrópu. Vissulega voru Bandaríkin ekki í bandlagi við frjáls ríki og frjálslynd ríki í Suður-Ameríku. Sama var að segja um ríki í Vestur-Evrópu þar sem lýðræði átti undir högg að sækja. Einræðisstjórnir á Spáni og í Portúgal voru skuggi á lýðræði og frelsi í VesturEvrópu. Um tíma átti lýðræði undir högg að sækja í vöggu lýðræðisins, Grikklandi. NATO sá í gegnum fingur við einræðisstjórnir í þessum löndum, með von um bjarta tíð. Evrópusambandið og undanfarar þess veittu Grikklandi aðild að sambandinu um leið og einræðisstjórn hrökklaðist frá völdum, án þess að efnahagsleg skilyrði sambandsins væru uppfyllt.

„Ljótu börnin“ og hlutlausu ríkin

Spánn og Portúgal voru skuggar á lýðræðishefð í Evrópu. Evrópusambandið vildi nálgast þessi lönd með það fyrir augum að tryggja lýðræði í löndunum án beinna afskipta. Þannig varð til sameiginlegur markaður í Evrópu. Fyrir utan Evrópusambandið starfar Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA). Þar voru löndin með skort á lýðræði, og lönd sem kenndu sig við hlutleysi og mikla lýðræðishefð. Þau lönd eru Sviss, Svíþjóð, Finnland og Austurríki. Um leið og Sovétríkin leystust upp, gengu þrjú „hlutlaus“ ríki í Evrópusambandið. Og síðan gjörvöll bandalagsríki Sovétríkjanna í Austur-Evrópu. Þau lönd eiga sín vandamál í þjóðernissinnuðum lýðsleikjuflokkum.

Rússland og hrávara

Eftir stendur Rússland með undarlegt stjórnarfar, land sem gefur lítið fyrir mannréttindi og lýðræðisgildi frá Vestur-Evrópu. Landið er háð útflutningi á hrávöru og reynir að vera sjálfu sér nógt í matvælaframleiðslu með innflutningsbanni á matvæli frá Íslandi. Hin nýja stétt auðmanna í landinu er háð frönskum vínum, skartgripum og tískufatnaði. Neysluvörur eru ekki framleiddar í Rússlandi. Rússnesk alþýða þarf ekki á vestrænni neysluvöru að halda.

„Hlutlausu löndin“

Svíþjóð, Finnland og Austurríki gengu í Evrópusambandið 1995 og yfirgáfu EFTA. Sviss er með gilda aðildarumsókn að Evrópusambandinu, án viðræðna, líkt og Ísland. Noregur hefur hafnað aðild að Evrópusambandinu. Ísland hafnaði hlutleysi í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Ekki var látið af þjóðrembingi í viðskiptaháttum. Verndarstefna kreppunnar eftir 1930 lét ekki undan síga fyrr en að hluta með Viðreisnarstjórninni upp úr 1960 og með aðild að Evrópsku efnahagssvæði (EES), sameiginlegum markaði Evrópu. Það undanhald var í áföngum og með dekstri við íslenska þjóðhyggju. Þannig þurfti viðauka við samning um aðild að EFTA, fríverslunarsamningi um iðnaðarvöru, sérstök ákvæði um útflutning á lambakjöti til Noregs, án matvælaskorts í Noregi. Það var dúsan sem landbúnaðarforystan í Sjálfstæðisflokknum þurfti til að samþykkja aðild að EFTA.

Lýðræði að lokinni styrjöld

Það var alls ekki augljóst að Evrópa að lokinni seinni heimsstyrjöld þróaðist í átt að lýðræði. Þýskalandi var skipt upp í fjögur hernámssvæði. Sambandslýðveldi var stofnað 1949, sama ár og NATO. Ismey lávarður, fyrsti aðalritari NATO, sagði varnarbandalagið stofnað „til að halda Bandaríkjunum inni, Sovétríkjunum úti og Þýskalandi niðri“. Þýskaland reis úr rústum stríðsins og varð sem betur fer ekki haldið niðri. Flest bandalagsríki Varsjárbandalagsins hafa gengið til liðs við NATO. Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið og Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA) eru bandalög lýðræðisríkja til að tryggja frelsi og frið í Evrópu. Hvorugt er sjálfsagt í álfu, sem barist hefur um aldir. Hundrað ára styrjöld, þrjátíu ára styrjöld og heimsstyrjöldum milli Þýskalands og Frakklands lauk með Élyséesáttmála Adenauer og de Gaulle 1963.

Nýr veruleiki

Fyrir utan þennan veruleika í Evrópu þróaðist nýr heimur við Kyrrahaf. Þar var til aldalöng menning en neysluvörur frá Kyrrahafssvæðinu voru sjaldgæfar. Stundum finnst mér að fyrsta kynning austrænnar iðnmenningar hafi birst Íslendingum í japönskum veiðarfærum. Japanskt nótaefni gjörbreytti nótaveiðum við strendur Íslands. Japanskir bílar gerðu bíla að almenningseign á Íslandi. En risinn svaf. Alþýðulýðveldið Kína átti sína erfiðleika með menningarbyltingu. Útlagastjórn á Taívan fór með neitunarvald Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Maó dó og Deng Xiaoping ræsti risann með stóru stökki. Hinn nýi leiðtogi taldi að ekki skipti máli hvernig kötturinn væri á litinn sem veiddi mýsnar. Alþýðulýðveldið tók sæti útlagastjórnarinnar, þar sem erfitt var að kjósa því kjördæmin voru hernumin.

Efnahagslegt risaveldi

Áður en hinn frjálsi heimur vissi af varð til efnahagslegt risaveldi í Kína. Bandarískt „auðvald“ er háð því að kínverskir bankar samþykki bandarísk ríkisskuldabréf sem greiðslu fyrir kínverskar vörur. Greiðsluhalli Bandaríkjanna er háður því að bandarísk ríkisskuldabréf eru almennt samþykkt sem gjaldeyrisvarasjóður ríkja. Ellefu af fjörutíu stærstu bönkum veraldar eru kínverskir. Að auki er til þjóðarsjóður. Allt eru þetta eignir í tölum af þeirri stærðargráðu, sem dauðlegt fólk hefur engan skilning á. Í Kínverska alþýðulýðveldinu er sparnaðarhneigð um 40% af tekjum. Það verður álitamál hve lengi Wall Street í New York verður fjármálamiðstöð veraldar. Sennilega munu flestar flugvélar í VesturEvrópu verða í eigu kínverskra banka innan 10 ára. Kínverskir bankar bjóða kjör, sem bankar í Vestur-Evrópu ráða ekki við.

Belti, braut og áhrif

Alþýðulýðveldið Kína byggir ekki á þeirri lýðræðishefð sem hinn frjálsi heimur þarf að búa við. Lýðræði að forngrískri fyrirmynd er ekki vandamál í Kína. Mannréttindi og þau gildi sem þeim fylgja, eins og þau sem reynt er að verja í Evrópu, eru ekki vandamál í Alþýðulýðveldinu Kína. Fyrsta maí sem almennan frídag „vinna menn af sér“ síðar í Kína. Bretland, hið sameinaða konungdæmi, reynir að viðhalda breskum mannréttindum og gildum í samskiptum við sínar gömlu nýlendur í Breska samveldinu. Þar fer með forystu Karl Bretaprins, sem að öðru leyti er atvinnulaus. Ríki hins frjálsa heims þurfa að svara mörgum spurningum í samskiptum við Alþýðulýðveldið Kína áður en þátttaka í „Belti og braut“ verður samþykkt. Verkefni sem býður upp á uppbyggingu og eignarhald á innviðum í ríkjum er ekki síður varhugavert en netárásir á innviði í frjálsum ríkjum.

Gildi, mannréttindi og kalt stríð

Vestræn gildi og mannréttindi hins frjálsa heims eru ekki frjáls gæði. Gildi og mannréttindi kunna að falla fyrir kínverskri kurteisi, eftir að hafa staðið af sér stríðsátök fasista og nasista fyrir miðja síðustu öld. Þessi gildi stóðu einnig af sér hið kalda stríð um járntjald í hugum ráðamanna í Evrópu eftir síðara stríð. Minnumst þess að járntjaldið féll ekki í styrjaldarátökum, það féll vegna gjaldþrots Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra."

Það er fróðlegt að lesa um það hvernig Vilhjálmur skyggnist yfir viðskiptasögu heimsins og inn í framtíðina eins og hann sér  hana. Hvað er rétt og hvað er rangt ætla ég ekki um að dæma en mér finnst stundum að Villi sé einum of hallur undir Evrópusambandið á kostnað heimsviðskipta fyrir minn smekk.

En ég tek undir með undirskriftinni:

"Höfundur var alþingismaður og verður það aftur."

Ég held að almennt þekkingar-og vitsmunastig á Alþingi muni ekki lækka með endurkomu Vilhjálms Bjarnasonar þangað inn.Þó áskil ég mér allan rétt ef Villi vill ganga í ESB með Loga og Þorgerði Katrínu.Þá verður mér að mæta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband