Leita í fréttum mbl.is

Merk grein

frá 2011 um íslensku krónuna eftir Gunnar Rögnvaldsson birtist í Þjóðmálum veturinn 2011.

Mér finnst þetta vera ein skarpasta greining á myntmálum heimsins sem ég hef lesið lengi og vera í rauninni sígild. Hún marfletur röflið í hinum sjálfskipuðu evruspekingum úr Samfylkingarflokkunum að maður ekki tali um kjósendur litlu fíflaflokkanna sem engar skoðanir né vit hafa á nokkrum hlut.

Þó liðin sé áratugur síðan greinin var skrifuð er hún algerlega sjálfstæð í dag og jafnsönn

Gunnar segir þarna árið 2011:

"

Gunnar Rögnvaldsson

Áhlaupið á íslensku krónuna

Íslenska krónan er undir áhlaupi. Þetta áhlaup er hið fyrsta og eina sem krónan hefur orðið fyrir. Áhlaupið kemur ekki frá fjármálamörkuðum. Það kemur frá skynsemi manna, eða réttara sagt, frá skorti á skynsemi og heilbrigðri hugsun. Það kemur frá stjórnmálamönnum, hagsmunasamtökum og hópum sem vilja leggja íslensku krónuna niður og gera „eitthvað annað“ án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Veruleikafirringin varðandi myntmálin á Íslandi er hættuleg sjálfstæði, fullveldi og framtíð Íslands.

Misstu skipin, misstu gengið, misstu myntina, sjálfstæðið og fullveldið

Nokkrum árum áður en fullveldi, sjálfstæði og lýðræðislegri sjálfsstjórn Nýfundnalands og 380 þúsund íbúa þess sjálfstæða ríkis var hent sem endanlegu veði inn í bankahólfin í sambandsríki Kanada árið 1949, hafði landið misst allt bankakerfi sitt til útlendinga. Það sama gerðist með fragtskipaflotann og alla vinnu þjóðarinnar við hann. Það sama gerðist í myntmálum Nýfundnalendinga. Þeir höfðu álpast til að bindast við og taka síðar upp Kanadadal.

Ein afleiðing þess að bankakerfi Nýfundnalands komst alfarið á erlendar hendur, og gengið hvarf með gengisbindingu Nýfundnalandsdals við Kanadadal, varð sú að Evrópa og Bretland versluðu frekar við Íslendinga, því þeir voru skyndilega komnir með vélknúin gufuskip og gátu afhent fiskinn á samkeppnishæfu verði samkvæmt stundaskrá. Þetta gátu Nýfundnalendingar ekki því að þeir réðu ekki lengur yfir samkeppnishæfum skipaflota, gátu ekki endurnýjað hann, því að þeir höfðu misst gengið, bankakerfið og þar með markaðina. Þeir gátu lítið annað gert en það sem Grikkland, Spánn, Portúgal og Írland hafa nú orðið fyrir — að deyja lokuð inni innan eigin landamæra við umsátur þeirra sem ráða orðið alfarið peningamálum þessara landa.

Undir myntum annarra ríkja á Íslandi yrði erfitt að starfrækja alvörubankakerfi sem þjónað gæti íslenska hagkerfinu eins og er frómasta hlutverk alvörubankakerfa. Nýfundnaland missti bæði fullveldi og sjálfstæði sitt sem ríki árið 1949 vegna skulda. Í aðdraganda ferlis, sem hófst með þátttöku Nýfundnalands í heimsstyrjöldinni fyrri og í kjölfar mikillar skuldsetningar landsins vegna hennar, lenti Nýfundnaland í svipuðu skuldafangelsi og Grikkland og fleiri myntbandalagslönd Evrópusambandsins eru nú komin í. Þá var óhugsandi að þjóð í heimsveldi bresku krúnunnar yrði leyft að fara í nauðsynlegt ríkisgjaldþrot. Þvinguð björgunaraðgerð, sem bjarga átti mannorði breska heimsveldisins, kostaði hins vegar Nýfundnaland tilveru sína. Það hætti að vera til sem ríki.

Firrt umræða á Nýfundnalandsnótum

Til marks um þá umræðu sem fram fer á Íslandi þessi árin og sem náð hefur fótfestu í þjóðmálaumræðunni í kjölfar stríðsþátttöku og ævintýramennsku íslenska bankageirans, er gagnlegt að rifja upp það liðna. Í tímaritinu Vísbendingu 11. ágúst 1997 birtist athyglisverð grein eftir íslenskan hagfræðing, sem nokkrum árum síðar varð yfirmaður greiningardeildar Kaupþings banka. Í greininni kom eftirfarandi fram:

Kanada hefur frá 1987 verið með staðfasta peningastefnu og verðbólgu á svipuðu róli og gerist í Bandaríkjunum, en það gildir einu. Landið er lítið og fylgdi áður óstöðugri gengisstefnu og á gjaldeyrismarkaði er gjaldmiðli þess aldrei treyst, sama hversu góðri efnahagsstjórn er fylgt. Kanadamenn greiða nú um 1 % hærri í vexti en Bandaríkjamenn, sem er e.k. aukaálag fyrir þann munað að slá sína eigin mynt. Þannig er einungis sá ávinningur sem felst í lægri vöxtum umtalsverður fyrir utan það hagræði að fá gjaldmiðill sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar.


Tíu árum síðar eru Kaupþing, Landsbanki, Glitnir, Baugur og allar Groups horfin, evra Evrópusambandsins komin í upplausn og Kanadadalur álitinn vera ein besta mynt veraldar. Getur firringin orðið meiri? Ég leyfi mér að efast. Alltaf má fyrirgefa ungum og óreyndum hagfræðingum, svo lengi sem þeir þroskast, ráða ekki neinu, ráðleggja ekki stjórnmálamönnum og eru ekki í pólitík. Litla myntin frá Kanada, sem var svo lítil að hún átti ekki að geta staðið ein, er orðin skínandi borg á hæstu hæð. Kletturinn margumtalaði í hafi forystu Alþýðusambands Íslands ásamt forystu Samfylkingar og Vinstri grænna, evran, er komin í upplausn. Það kann að vera að hún sé að hverfa af yfirborði jarðar. Eftir standa íslenska krónan sem bjargaði Íslandi í gegnum bankahrunið og þessi of litli Kanadadalur vestanhafs. Án fullveldis- og sjálfstæðiskrónu Íslands hefðu neyðarlögin aldrei getað orðið til og lýðveldi okkar væri orðið Nýfundnaland. Við værum búin að vera, en gengið væri hins vegar og hugsanlega allhátt, engum til gagns en öllum til ógagns.

Enginn hefur né getur sýnt fram á að íslenska krónan sé í eðli sínu gölluð mynt. Reyndar er íslenska krónan í eðli sínu hin fullkomna mynt. Nú þarf enginn að efast lengur um að myntvafningurinn evra, sem gefin er út af seðlabanka án ríkis, er í eðli sínu meingölluð mynt, því að löndin, sem nota hana, geta hvorki látið myntina endurspegla fullkomleika né ófullkomleika hagkerfa sinna. Löndin, sem nota evruna sem lögeyri, eru höfnuð í tilvistar- og myntáhættu í stað gengisáhættu. Myntáhættan er síðan að brjótast út sem ríkisgjaldþrotsáhætta og fullveldisáhætta. Þessu gerðu aðeins fáir sér grein fyrir þegar myntin var steypt. Sjálf myntin evra er komin í upplausnarferli og þau lönd sem búa við hana búa nú við mynt sem er að leysast upp. Það er markaðurinn sem er að leysa myntina evru upp. Hann hefur, eftir aðeins 12 ára reynslutíma, gert sér grein fyrir hinum eðlislæga ófullkomleika þessarar myntar. Sambærilegt getur aldrei gerst þegar um mynt eins og íslensku krónuna er að ræða, því að hún er mynt sem fer aldrei í upplausnarferli nema að hún verði fyrir áhlaupi stjórnmálamanna og verði lögð niður með löggjafarvaldi eða tilskipunum frá Brussel.

Eftir að markaðurinn fékk loks skilið hinn eðlislæga ófullkomleika evrunnar munu flest ríkin sem búa við hana, það sem eftir er líftíma hennar, þurfa að búa við háa raunvexti, fötluð bankakerfi, djúpa kreppu, hátt atvinnuleysi og skort á fjárfestingum, áratugum saman.

Evran varð til við áhlaup á skynsemi stjórnmálamanna í Evrópu. Hún er pólitísk mynt og var hönnuð til að gegna ákveðnu pólitísku hlutverki. Efnahagslega hefur hún verið skaðvaldur því að hún hefur stöðvað hagvöxt og valdið miklu langvarandi atvinnuleysi sökum skorts á frelsi í spennitreyju Evrópusambandsins, sem aðeins hefur þýtt stóraukin ríkisafskipti af öllu, stóru sem smáu. Og nú er þessi mynt sem sagt í upplausn. Öll áframhaldandi tilvist hennar krefst þess sem fyrrverandi seðlabankastjóri Þýskalands, Hans Tietmeyer, varaði við áður en myntin var steypt og hleypt í umferð. Tietmeyer sagði:

Myntbandalag ESB verður eins og lokaður hraðsuðuketill án útöndunar. Þegar gengið er farið og möguleikinn á að laga verð og vexti gjaldmiðilsins að þörfum hagkerfisins er horfinn, þá þarf að sjóða samfélagsleg og fagleg réttindi almennings og verkalýðshreyfinga í graut og helst í mauk. Svo þarf að auglýsa andlát lýðræðisins. Stjórnmálamenn ættu að skilja að frá og með þessari stundu verða þeir komnir algerlega undir vald, náð og miskunn fjármálamarkaða.


Það sem er um að vera á evrusvæðinu þegar þetta er skrifað er einmitt þetta og enn meira. Líklega miklu meira en Hans Tietmeyer gat ímyndað sér á árunum áður en evran fór í umferð þegar hann talaði um hraðsuðuketilinn, sjá hér að ofan. Það sem raunverulega þarf til svo að evran geti lifað áfram er að sjálf þjóðríkin verði leyst upp. Setja þarf sjálf löndin í hraðsuðuketilinn og sjóða þau saman í einn graut.

En jafnvel upplausn þjóðríkja myntbandalagsins og samruni þeirra í eitt ríki eða ríkisfjárlagasvæði er ekki nóg. Fljótlega eftir að fjármálamarkaðir heimsins gerðu sér grein fyrir slíkum fyrirætlunum, myndu þeir fara að óttast þá ófriðarhættu sem  óhjákvæmilega skapaðist á myntsvæðinu vegna einmitt þannig tilrauna. Þjóðir myntbandalagsins, sjálft fólkið, vill hvorki leggja niður þjóðríki sín né lúta yfiráðum annarra yfir skatta- og ríkisfjármálum sínum. Stjórnmálamenn evrulanda og embættismannaverkið í Brussel eru þó nægilega heimsk til að reyna þetta. Hjá þeim er „meiri Evrópa“ alltaf svarið við öllu. Úr vandamálum evrunnar geta allir sem sjá og vilja lesið hversu gríðarlega mikilvægur hluti sjálfstæðis og fullveldis þjóðríkja sjálf myntmálin eru.

Það eru yfirleitt aðeins vanþróuð eða styrjaldarhrjáð ríki, nýlendur og bananalýðveldi sem taka upp myntir annarra ríkja. Næsta skref þeirra á þróunarbrautinni er eigin mynt undir fullu sjálfstæði. Þegar það skref hefur verið tekið, verður ekki aftur snúið án þess að afsala sér um leið stórum hluta þeirra sigra sem náðst hafa. Ágætt er að muna að viðskiptabönn á þjóðir geta náð til afhendingar mynta og seðla sem þau ríki ráða yfir sem setja slík bönn. Slíkt hefur gerst. Afhending seðla og mynta til myntbandalagsríkja er einnig hægt að stöðva eftir geðþótta.

Já, en Bandaríkin? er þá spurt

Þegar hingað er komið í umræðunni um gjaldmiðilsmál er oft gripið til þeirra raka, að fyrst myntbandalag Bandaríkjadals virki mjög vel að þá eigi myntbandalag evru Evrópusambandsins að geta virkað álíka vel. Þetta er mikil vanhugsun. Best er að útskýra málið með því að snúa því á haus. Hvernig getum við búið til evrusvæði úr Bandaríkjunum? Það er reyndar mjög auðvelt: fyrst fjarlægjum við forsetaembætti Bandaríkjanna, vald þess og sjálfa ríkisstjórn forsetans. En við skiljum seðlabanka Bandaríkjanna eftir. Ásamt með forsetanum og ríkisstjórninni hurfu sameiginleg ríkisfjárlög Bandaríkjanna sem nema næstum því 30 prósentum af allri landsframleiðslu þeirra. Þarna höfum við búið til bandarískt evrusvæði. Frá og með þeirri stundu þurfa 50 fylki Bandaríkjanna að koma sér saman og samþykkja hvern einasta dal sem sameiginlegur seðlabanki þeirra gefur út. Sjá menn fyrir sér að 50 fylkisstjórar Bandaríkjanna hefðu getað tekist á við öll þau verk og vandamál sem Bandaríkin hafa staðið frammi fyrir og sem þau hafa leyst síðustu 237 árin frá því að þau lýstu yfir sjálfstæði sínu? Nei, svo sannarlega ekki. Það sem gerði Bandaríkin að stórveldi var sameining þeirra í eitt ríki. Bandaríkin eru eitt land, eitt ríki. En það var fyrst þá, eftir stofnun þeirra, að þau fengu þann sameiginlega gjaldmiðil sem heitir Bandaríkjadalur.

Þetta er ástæðan fyrir því að 50 fylki Bandaríkjanna geta búið við sömu myntina, eina stýrivexti og eitt gengi. Þegar áföll ríða yfir í Nevada eða Flórída sökum fjármálabólu svipaðri þeirri sem reið yfir Spán, Írland, Grikkland og fleiri ríki ESB undir yfirumsjón m.a. seðlabanka Evrópusambandsins, þá gerir það ekki svo mikið til, því að heilbrigðis- og félagsmálin eru fjármögnuð af alríkisstjórninni í Washington. Þess utan þá hefðu laun og kostnaður ekki farið svona úr böndunum í Nevada eða Flórída því vinnuaflið hefði einfaldlega flutt þangað sem hlutirnir voru að gerast og þannig minnkað áhættuna á bólumyndun frá byrjun. Þetta þekkjum við vel frá Íslandi. Hér bera menn sig eftir björginni og flytja þangað sem atvinnu er að fá. Þannig reis minn gamli heimabær, Siglufjörður. Þegar áföllin dynja yfir í landshlutum hér á landi þá eru það sameiginleg ríkisfjárlög íslenska ríkisins sem koma til bjargar í formi útgjaldaliða. Öll vandamálin lenda ekki á sveitarstjórnum landsins.

Gengisbinding: afneitun veruleikans

Það peningapólitíska fyrirbæri sem á undan evrunni kom og sem hélt Evrópu í greipum sams konar stöðnunar og háu atvinnuleysi til langs tíma, var fyrirbærið „gengisbinding“. Fyrirbærið var kallað ERM eða „Exchange Rate Mechanism“ og var hluti af því gengis- og peningafyrirbæri Efnahagsbandalagsins sem kallaðist EMS eða „European Monetary System“, áður en sjálft myntbandalag Evrópusambandsins kom til sögunnar. ERM fólst í bindingu gjaldmiðla margra landa Evrópu gagnvart hver öðrum. Þetta var innbyrðis gengisbinding, annaðhvort sem gagnkvæm binding eða einhliða binding. ERM endaði sem stórslys árið 1992, en þá hrundi þetta gengis- og gjaldmiðlasamstarf Evrópusambandsins svo að segja til grunna. Það eina sem stóð eftir var óbreytt gengi á milli mynta Hollands og Þýskalands. Í Bretlandi var ERM-fyrirkomulagið oft uppnefnt sem „the Extended Recession Mechanism“ eða „hið framlengjandi kreppufyrirkomulag“, því að ERM-bindingin hafði valdið miklum búsifjum í efnahag Bretlands og atvinnuleysi varð þar hrikalegt.

ERM reyndist þarna vera slæm tilraunastarfsemi ESB með líf þegnanna í þeim löndum sem áttu aðild að samstarfinu og jafnframt víðar í Evrópu. Þetta fyrirkomulag kemst einna næst því að geta kallast útópía Evrópusambandsmanna. Það er alltaf jafn ótrúlegt að hugsa til þess nú að þetta fyrirbæri skyldi ná að komast í tísku hjá mönnum með fyrsta flokks hagfræðimenntun, á þessum tímum. En það eru þó einungis 19 ár síðan stjórnmálamenn, seðlabankastjórar og hagfræðingar  margra landa ESB trúðu á þetta ERM/EMS-fyrirkomulag. Þegar áhlaup markaða á ERM stóð sem hæst árið 1992 náði sænski seðlabankinn að hækka stýrivexti hjá sér upp í fimm hundruð prósent til að verja bindingu sænsku krónunnar við ERM. Það ferli var svona:
 
  • 10. janúar: Fjárlög Svíþjóðar kynnt og reynast vera með 71 milljarða sænskra króna halla.
  • 26. ágúst: Sænski seðlabankinn hækkar stýrivexti í 16 prósent til að verja einhliða bindingu sænsku krónunnar gagnvart ERM.
  • 8. september. Sænski seðlabankinn hækkar stýrivexti í 24 prósent, bindingin skal varin fram í rauðan dauðann.
  • 9. september: Sænski seðlabankinn hækkar stýrivexti í 75 prósent.
  • 16. september: Sænski seðlabankinn hækkar stýrivexti í 500 prósent.
  • 23. september: Sænska ríkisstjórnin gefur út ábyrgð fyrir alla banka í landinu, „enginn banki má verða gjaldþrota“.
  • 30. september: Enn einn áfallapakkinn frá ríkisstjórninni kynntur.
  • 19. nóvember: Alger uppgjöf. Skynsemin nær völdum á ný. Klukkan 14:28 er einhliða fastgengi sænsku krónunnar gagnvart gengis- og gjaldmiðlasamstarfi EB lagt niður og á sömu stundu fellur sænska krónan 10 prósent.
Í heild hrundi ERM-gengisbinding landanna svona:
  • 14. nóvember 1991: Finnska markið er fellt með 12,3%.
  • 8. september 1992: Finnland gefst upp á einhliða ERM-bindingu.
  • 17. september 1992: Bretland gefst upp og getur ekki lengur varið gagnkvæma ERM-bindingu, pundið flýtur aftur.
  • 17. september 1992: Ítalía gefst upp á ERM-bindingunni, líran flýtur aftur.
  • 17. september 1992: Spánn gefst upp á þröngri ERM-bindingu.
  • 19. nóvember 1992: Svíþjóð gefst upp á einhliða ERM-bindingu eftir að hafa hækkað stýrivexti í 500% til að verja hana.
  • 23. nóvember 1992: Spænski peseta og portúgalski escudos eru felldir um 6%.
  • 10 desember 1992: Noregur gefst upp á einhliða ERM-bindingu.
  • 2. ágúst 1993: aðeins Þýskaland og Holland halda uppi +/- 2,25% gagnkvæmri ERM-bindingu.

Sænska krónan: bjargvættur

Í kjölfarið á þessu hruni og bankakreppu þeirra sem í Svíþjóð geisaði sökum bólu á fasteignamarkaði atvinnuhúsnæðis, var sænska krónan sett á flot og gengi hennar gagnvart öðrum gjaldmiðlum leyft að falla þar til sænska krónan náði botni með um það bil 33 prósent gengisfalli gagnvart þýska markinu á fyrri hluta ársins 1995. Það var þessi gengisfelling sem bjargaði Svíþjóð. Hjól atvinnulífsins héldu áfram að snúast og skattatekjur ríkissjóðs þornuðu því ekki upp sökum óbærilegs atvinnuleysis. Greiðslugeta og þar með alþjóðlegt lánstraust ríkissjóðs var því varðveitt. Hér á landi hefur því verið haldið fram að innganga Svíþjóðar í Evrópusambandið árið 1994 hafi bjargað efnahag Svíþjóðar. Það er ekki rétt. Til samanburðar er hægt að nefna það hér, að í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins á Íslandi féll íslenska krónan um tæplega 48 prósent gagnvart evru og er fallið í dag í kringum 40 prósent. Við höfum nú í tímarúmi fengið svipað ráðrúm og Svíþjóð fékk. 

Finnska markið: bjargvættur

Í Finnlandi hafði á sama tíma gengið mikið á vegna bankabólu á fyrirtækjamarkaði sem leiddi til ofurskuldsetningar fyrirtækja, of mikilla launahækkana og of hás gengis finnska marksins sem meðal annars var afleiðing bindingar þess við ERM. Ofan í þetta kom upplausn Sovétríkjanna sem leiddi til hruns útflutningstekna. Áföllin voru margþætt og komu hvert ofan í annað. Finnland gafst upp á einhliða bindingu finnska marksins gagnvart ERM þann 8. september 1992, eftir að hafa fyrst fellt gengið um rúmlega 12 prósent þann 14. nóvember árið áður. Finnska markið var sett á flot í september 1992 og verðbólgumarkmið tekin upp. Finnska markið féll þá rúmlega 35 prósent gagnvart þýska markinu og botnaði fyrri hluta ársins 1993. Finnland gekk í Evrópusambandið árið 1995. Hið frjálsa flot finnska marksins endaði í október 1996 þegar landið rann inn í myntbandalag Evrópusambandsins. Síðustu fréttir af upptöku evru í Finnlandi eru meðal annars þær að árið 2009 féll landsframleiðsla Finnlands um 8,2 prósent, sem er mesta hrun hennar á einu ári frá upphafi mælinga árið 1918 og útflutningur dróst saman um fjórðung. Til samanburðar féll landsframleiðsla á Íslandi um 6,7 prósent árið 2009 og útflutningur jókst. Í dag þarf finnska ríkið að greiða tvöfalt hærri vexti en sænska ríkið fyrir lán til 10 ára á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þetta er m.a. verðið fyrir að kasta sjálfstæðri mynt Finnlands fyrir róða.

Dönsk króna bundin í hafti

Frá árinu 1985 hefur dönsk króna verið bundin við gengisskráningu þýska marksins og síðar evru. Danska krónan fylgir því verðlagi evru á mörkuðum. Gagnvart öllum öðrum gjaldmiðlum heimsins hoppar og skoppar danska krónan á degi hverjum. Þá útflutningsmarkaði Danmerkur sem eru í vexti er ekki endilega að finna í Evrópu lengur. Mark de Broeck, fulltrúi sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Danmörku, sagði í viðtali við fréttaveitu Bloombergs í nóvember 2010, að þessi binding dönsku krónunnar við evru hefði ekki skilað neinum árangri, væri kostnaðarsöm, krefðist sífelldra breytinga og oft óþægilegra hækkana á stýrivöxtum umfram þær sem gerast hjá öðrum seðlabönkum. Bindingin krefst einnig daglegra aðgerða af hálfu danska seðlabankans og de Broeck sagði enn fremur að bindingin hefði ekki verndað Danmörku gegn áföllum fjármálakreppunnar. Þetta var auðvitað sagt þá til þess að reyna að þrýsta Danmörku inn á evrusvæðið. Staðan er hins vegar öll önnur í dag því að þökk sé sjálfstæðri mynt verðlauna nú fjármálamarkaðir Danmörku fyrir að hafa eigin mynt — sem þó getur rifið sig lausa frá evrunni — með lægri vöxtum en ríkissjóður Þýskalands nýtur nú á mörkuðum. Þó ekki eins lágra vaxta og sænska ríkið nýtur með sænsku flotkrónuna. Röksemdafærsla AGS gildir þó enn, en bara á hinn veginn.
 
Árið áður gaf danski hagfræðiprófessorinn Jesper Jespersen við háskólamiðstöðina í Hróarskeldu út rit dönsku hugveitunnar „Ny Agenda“, sem bar yfirskriftina: „Dönsk peningamálastefna síðustu 10 árin í ljósi efnahagsmála myntbandalags Evrópusambandsins“. Mikilvægustu niðurstöður skýrslunnar eru þær að séu efnahagsmál myntbandalags Evrópusambandsins skoðuð í ljósi síðustu 10 ára hafa þau lönd sambandsins, sem tekið hafa í notkun sameiginlega mynt Evrópusambandsins, notið minni hagvaxtar og efnahagslegra framfara en þau lönd sem haldið hafa sinni eigin mynt. Skýrslan bendir sérstaklega á þann æskilega möguleika að Danmörk taki upp sömu peningastefnu og Svíþjóð og Bretland, þ.e.a.s. að Danmörk rjúfi bindingu dönsku krónunnar við evru og láti mynt sína fljóta frjálsa á gjaldeyrismörkuðum.
 
Höfundurinn kemur inn á ýmsar tegundir peningamálastefnu og nefnir m.a. að myntir, sem fljóta frjálsar, séu stundum gerðar að skotmarki spákaupmennsku ef það eru fyrst og fremst færslur alþjóðlegrar banka- og fjármálastarfsemi sem eru ráðandi á markaði myntarinnar. En höfundur nefnir þó að þetta eigi nær eingöngu við um stórar myntir sem séu m.a. notaðar í gjaldeyrisforða á alþjóðamarkaði. Þetta eigi því fyrst og fremst við um myntir eins og dollar, evru og yen. Þessar stærri myntir geti því sveiflast mjög kröftuglega, sem á tíðum hefur neikvæðar afleiðingar fyrir skipulagningu innflutnings og útflutnings á vörum og þjónustu. Litlar myntir minni landa eiga ekki við þetta vandamál að stríða nema alveg sérstakar aðstæður séu ríkjandi, eins til dæmis þær sem voru á Íslandi, með ofvöxnu, áhættusæknu bankakerfi í dauðateygjunum haustið 2008. Fáir gera sér grein fyrir hversu háa bankavexti neytendur þurfa oft að greiða í Danmörku og mörgum evrulöndum. Sem dæmi má nefna að dönsk bílalán hjá Danske Bank bera 8,3 til 12,6 prósent vexti í 2,7 prósent ársverðbólgu nú í nóvember 2011. Vextir fara mikið eftir því hversu miklar eignir menn eiga enn eftir óveðsettar. Innlánsvextir eru oft engir og eignalaust fólk greiðir hæstu vexti.

Sjálfstæð mynt er verkfæri fullvalda ríkja

Munurinn á myntmálum Finnlands í dag miðað við finnsku kreppuna í lok síðustu aldar er gífurlegur því að Finnland á enga mynt lengur. Landið tók upp evru og er komið í órjúfanlega læst gengissamband við öll önnur evrulönd. Frá því að Finnland rann inn í myntbandalag Evrópusambandsins hafa Þjóðverjar ekki fengið launahækkun í 13 ár. Þýskaland hefur á þessum tíma stundað það sem kallað er „innvortis gengisfelling“ því að það hefur stanslaust lækkað kostnað og laun í hagkerfi sínu miðað við öll önnur lönd myntbandalagsins. Frá því að fjármálakreppan skall á í byrjun 2008 hefur Þýskaland fellt innra gengi sitt miðað við önnur lönd myntbandalagsins um heil 6 prósent. Og nú krefst Þýskaland þess að hin löndin bjargi sér úr ógöngum sínum í myntbandalaginu með því að gera það sama og Þýskaland hefur gert; lækka laun og skera niður kostnað. Og hvað halda menn svo að Þýskaland geri ef svo ólíklega skyldi vilja til að hin löndin nái sér niður á þýskt launa- og kostnaðarhlutfall? Jú, Þýskaland mun þá bara lækka laun og kostnað enn meira hjá sér og draga þannig enn meira úr eftirspurn innan myntbandalagsins. Þetta er skrúfa án enda og frekar kapphlaup niður á botn samfélagsins en allt annað. Löndin í myntbandalaginu eru komin inn í vítahring. Það eina sem lönd eins og Þýskaland skilja er gengisfelling beint í andlitið. Löndin, sem eru í myntbandalagi með Þýskalandi, munu aldrei geta keppt við það án sinnar eigin myntar. Í þýskri þjóðmenningu þýðir hugtakið ábyrgð aðeins eitt; sparnaður. Hann liggur djúpt og dýpra í þýsku þjóðarsálinni en hjá flestum öðrum þjóðum.

Þýskaland myndi svelta sig til að viðhalda samkeppnishæfni útflutningsgreina landsins. Vert er að minnast þess að meira en helmingur þýskra kjósenda eru orðinn sextugur eða eldri. Í öldrunarhagkerfi eins og því þýska hefur neysla þjóðarinnar að miklum hluta þegar farið fram og þjóðinni fækkar hratt vegna lítilla barnsfæðinga áratugum saman. Þetta er gjörólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast. Hvað ætti Ísland að gera með mynt, peningapólitíska stefnu og stýrivexti eins stærsta ellihagkerfis heimsins? Það sama á við um Íra. Þessi tvö hagkerfi eru gjörólík því þýska. Ég endurtek: það eina sem lönd eins og Þýskaland skilja er gengisfelling.

Það er engin algild og eina-heilaga-sannleiks-ástæða til að ætla að verðbólga yrði svo miklu lægri á Íslandi þó að við værum með evru eða aðra erlenda mynt. Það er veðmál sem enginn ætti að hætta sér í. Ég er handviss um að verðbólgan yrði ekki til muna lægri, því að Ísland er svo ólíkt flestum löndum ESB og sérstaklega löndum evrusvæðis. En ef Ísland væri með evru sem gjaldmiðil er ég hins vegar 100 prósent viss um að Ísland myndi mjög hratt verðleggja sig út úr myntbandalaginu og reyndar heiminum öllum og gæti ekki lengur selt svo mikið sem einn fisksporð til útlanda sökum innri verðbólgu sem ekki væri lengur hægt að lagfæra gegnum gengið.

Hér er ekki um 77 sardínur í 28 Bandaríkjadala dós á mann að ræða, eða 2000 tonn á ári eins og aflinn er t.d. á Möltu. Hér er um að ræða 1,3 milljónir tonna af fiski á hverju ári. Þetta eru þeir fjármunir sem notaðir eru til að byggja íslenska hagkerfið upp með, grunnur efnahagslegrar tilveru Íslendinga. Sjávarútvegur er mun mikilvægari atvinnugrein fyrir Ísland er allur iðnaður er fyrir Þýskaland. Eina leiðin til að nýta landhelgi og auðæfi sjávar Íslands væri þá að láta útlendinga um að veiða fiskinn okkar. Þeir einir gætu keppt á mörkuðunum með því að borga lág laun, lítinn kostnað, miklu lægri skatta og með því að sigla um íslensku landhelgina í ryðdöllum. Þetta yrði ekki skínandi falleg útgerð, heldur þrælakista. Þá myndu Íslendingar brátt þurfa að flytja inn fisk sér til matar, einungis vegna ógæfulegrar framtíðarsýnar heimskra stjórnmálamanna og hagsmunasamtaka sem myndu banna Íslendingum að fella gengið, því þá væri ekki lengur til neitt gengi sem hægt væri að fella. Það væri horfið. Horfið um alla eilífð til Þýskalands og kæmi aldrei þaðan aftur. Það er því sannarlega mikið í húfi hér fyrir land okkar og þjóð. Sjálf tilvera þjóðarinnar er hér í húfi. Var það þetta sem árið 1944 snerist um? Snerist það um afsal á framtíð Íslands? Mynt önnur en okkar eigin króna hefði oft og iðulega hindrað framkvæmdir og uppbyggingu á Íslandi eftir að fullt sjálfstæði vannst árið 1944. Bandaríkin væru getu- og varnarlaus og hefðu aldrei orðið stórveldi ef þau hefðu orðið að evrusvæði. Ísland hefði aldrei orðið svo ríkt land sem raun ber vitni án sjálfstæðrar myntar. Við hefðum aldrei getað nýtt auðlindir okkar án eigin myntar. Samanlagðar beinar erlendar fjárfestingar á Íslandi eru sem dæmi enn stærra hlutfall af landsframleiðslu en í t.d. Danmörku. En beinar erlendar fjárfestingar eru hins vegar að vissu leyti óæskilegar því að þær loka á eignarhlutdeild Íslendinga nema að þær séu skráðar á hlutabréfamarkað opnum almenningi. Og það verða fjárfestingar fyrrverandi yfirmanns úr áróðursráðuneyti Kína líklega aldrei.

Umgangast þarf sjálfstæða mynt með virðingu

Vegna þess að íslenska krónan er ekki enn alþjóðlegur gjaldmiðill — og það á reyndar við um flesta gjaldmiðla heimsins — þá getur íslenska ríkið ekki alfarið haft allar sínar skuldir í eigin gjaldmiðli. Þetta þýðir að íslenska ríkið mun ávallt skulda hluta heildarskulda sinna í mynt sem það getur ekki prentað né stýrt sjálft, eins og Bretland, Bandaríkin og Japan geta. Við þessari staðreynd og annmarka er aðeins eitt svar; íslenska ríkið má aldrei skulda hærra hlutfall af landsframleiðslu þjóðarbúsins í erlendri mynt en sem nemur um það bil 30–50 prósentustigum. Við verðum að geta sýnt erlendum lánardrottnum fram á að við höfum skilið eftir svigrúm fyrir áföll og að það sé aldrei fullnýtt nema til styttri tíma litið. Þetta er svigrúmið fyrir gengisáhættuna sem erlendir lánardrottnar vita ofurvel að alltaf er til staðar þegar um minni sjálfstæðar myntir er að ræða. Að við skiljum ávallt aukagreiðslugetu eftir til að mæta áföllum með gengisbreytingum því það er einmitt þetta svigrúm til gengisbreytinga sem byggir upp lánstraustið. Lánardrottnar vita að greiðslugeta ríkisins verður áfram sterk undir áföllum vegna þess að tekjulindir þess, sem allar renna frá atvinnurekstri í landinu, þorna ekki upp sökum þess að þá yrðu of margir atvinnulausir. Lánardrottnar vita sem sagt um gengisáhættuna sem þeir geta ávallt lagt mat sitt á. Í staðinn fá þeir mynt sem leysist ekki upp; þeir losna við myntáhættuna. Evruríkin geta nú boðið lánardrottnum hvorugt. Sú er staða þeirrar myntar í dag.

Staðan á fjármálamörkuðum heimsins er orðin þannig að fjárfestar vilja helst ekki lengur fjárfesta í löndum sem þurfa alfarið að reiða sig á alþjóðlega fjármálamarkaði hvað varðar líf eða dauða ríkissjóða og bankakerfa landa sinna. Þau lönd sem þurfa að reiða sig alfarið á alþjóðlega fjármálamarkaði eru löndin sem geta ekki prentað sína eigin peninga því að þau eiga ekki þá mynt sem þau nota. Og þau skulda alfarið í mynt sem þau eiga ekki sjálf. Engin evrulönd eiga sína eigin mynt.

Íslendingar ættu ekki að horfa til Evrópusambandsins eftir lausnum í mynt- og efnahagsmálum. Þessa djarflegu staðhæfingu treysti ég mér til að standa við eftir 25 ára samfellda búsetu og atvinnurekstur í Evrópusambandinu. Evrusvæði ESB er að minnsta kosti hálfglatað, svo að ekki sé meira sagt.

Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvort verja þurfi íslensku krónuna mikið lengur gegn evruáhlaupi íslenskra stjórnmálamanna. Enginn veit hvort evran verður enn á lífi við næstu sólarupprás. En eins og áður er sagt, þá virðast nýjar hugdettur íslenskra gjaldmiðlamanna fæðast á hverjum degi. Best er því að standa vörð um krónuna áfram og það fast. Það er gott að búa í landi sem á sína eigin mynt. Íslensk króna er í senn bæði sverð og skjöldur fullveldis íslenska lýðveldisins. Umgöngumst hana því með virðingu.

Skorradal, haustið 2011
© Gunnar Rögnvaldsson
 

Nokkrar heimildir

  • Tímaritið Vísbending: 14. tbl. 15. árgangur.
  • Financial Times/Alphaville 22. júlí 2011: Joseph Cotterill, "Doing a Newfoundland".
  • The International Economy, sumar 2003: David Hale; "The Newfoundland Lesson".
  • Ny Agenda 2009: "Dansk valutakurspolitik i et EU-økonomisk perspektiv".
  • Rebecca Wilder, Roubini Economonitor, nóvember 2011: European Policy Makers Don’t Understand But Markets Do.
  • The Research Programme of the Academy of Finland, nóvember 2001: "Down from the heavens, up from the ashes". The Finnish economic crisis of the 1990s in the light of economic and social research.

Það er þýðingarmikið fyrir Íslendinga sem eru farnir að treysta eigin Seðlabanka Íslands fyrir sínum peningamálum sem aldrei fyrr, að kynna sér stöðu myntarinnar íslensku í alþjóðlegu heimi síbreytileika og sviptinga.

Allar sögulegar röksemdir Gunnars eru í fullu gildi enda breytist sagan ekki þó að pólitískir lukkuriddarar vilji endurskrifa hana sér í hag til atkvæðakaupa og blekkinga og birti langhunda í blöðum því til stuðnings. 

Myntir eru mælieining sem sveiflast hver um aðra af eðlilegum orsökum. Það skyldu menn vita sem hafa úthald til að lesa þessa merku grein Gunnars Rögnvaldssonar frá 2011. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk kærlega Halldór að birta þessa þörfu tímalausu grein meistara Gunnars, ef eitthvað var þá fannst mér hún stutt, kannski vantað kafla 2 sem væri skrifaður í dag, og þá síðustu 9 ár vegin og metin.

Sjálfstæð mynt er forsenda byggðar okkar, það er hún sem gerir okkur kleyft að lifa góðu lífi á auðlindahagkerfi, sem er og verður alltaf sveiflótt og því útilokað að búa við mynt sem endurspeglar ekki þær sveiflur.

En það er ekki nóg að hafa sjálfstæða mynt Halldór ef það er ekki vilji til að verja sjálfstæði okkar.

Hvað sagði Arnar aftur??, æ já var að peista það þar sem við ræddum kvenskörunga versus ekki kvenskörunga.

Segðu mér Halldór, hvað skiptir meiru máli í dag, en að verja sjálfstæði þjóðarinnar??

Hvað verður um svona sker útí ballarhafi sem lýtur erlendu valdi í einu og öllu??

Þú ættir að fara að spyrja þína menn að því.

Ekki þarf að spyrja Gunnar, hann hefur þegar svarað.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.2.2021 kl. 20:17

2 identicon

Margar sögulegar "staðreyndir" Gunnars eru rangar og hreinn skáldskapur, enda breytist sagan ekki þó að pólitískir loddarar vilji endurskrifa hana til blekkinga og birti langhunda því til stuðnings. Það er frekar billegur málflutningur að ætla að draga ályktanir af upploginni sögu, en ótrúlega algengt meðal hægri öfgamanna. Og þannig málflutning má daglega sjá frá vafasömum fréttaveitum þeirra í Bandaríkjunum. En hvað gera ekki óprúttnir þegar engin skynsamleg rök eru fyrir pólitískri afstöðu þeirra?

Vagn (IP-tala skráð) 25.2.2021 kl. 03:06

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Því miður Vagn þá finn ég engan  rökstuðing hjá þér fyrir fullyrðingu þinni um rangfærslur hjá Gunnari. Ég get því ekki tekið neitt mark á þessum orðum þinum og dæmi þau ómerk með öllu en tel að Gunnar standi óhaggaður.

Halldór Jónsson, 25.2.2021 kl. 10:25

4 Smámynd: Halldór Jónsson

En það er ekki nóg að hafa sjálfstæða mynt Halldór ef það er ekki vilji til að verja sjálfstæði okkar.

Hvað sagði Arnar aftur??, æ já var að peista það þar sem við ræddum kvenskörunga versus ekki kvenskörunga.

Segðu mér Halldór, hvað skiptir meiru máli í dag, en að verja sjálfstæði þjóðarinnar??

Hvað verður um svona sker útí ballarhafi sem lýtur erlendu valdi í einu og öllu??

Þú ættir að fara að spyrja þína menn að því.

Ekki þarf að spyrja Gunnar, hann hefur þegar svarað.

Kveðja að austan.

Ómar , ég tek undir þessi orð þín. Það er annaðhvort að verja fullveldið eða ganga í lið með Samfylkingarflokkunum og litlu ljótu flokkunum um ekki neitt eins og Pírötum. Vioð höfum báðir valið.

Halldór Jónsson, 25.2.2021 kl. 10:27

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Halldór við höfum valið, hinn möguleikinn er réttilega sá sem þú bendir á, Samfylkingarflokkarnir og Píratar eru sannarlega í þeirri deild, Evrópusinnaður frjálshyggjuflokkur.

Ástæða þess að ég hamra á þessu (endurræsti bloggið í þeim eina tilgangi að henda inn pistil þar um en vantar frétt til að tengja) er einmitt sú að næstu kosningar eru þær síðustu sem við höfum áhrif á hvort þjóðin haldi sjálfstæði sínu gagnvart Brussel eður ei.  Og það stendur svo nær ykkur eldri sjálfstæðismönnum að árétta þetta mikilvægi sjálfstæðisins, að það sé forsenda tilveru okkar sem nútíma þjóðar.

Og að sjálfsögðu gerið þið það innan flokks, lausnin er ekki að stökkva frá borði og finna sér einhvern smáflokk, framsóknarmenn geta rifist um hvort þeir eigi að kjósa Miðflokkinn eða ekki.

Það eru gífurleg mistök bæði fyrir flokk og þjóðina ef þið látið forystuna komast upp með að þagga þessa umræðu.  Því það er hún að gera, rök Arnars Þórs Jónssonar eru svo kristaltær, að hún á ekki rök á móti, eins og sannaðist í orkupakkamálinu, flokk þínum til ævarandi skammar og smánar, ef Davíð hefði ekki staðið vaktina, þá væri auðnin algjör, þá væri flokkurinn Wasteland varðandi sjálfstæði þjóðarinnar og framtíð hennar.

En eitthvað er verra en þöggun, sem í þessu tilviki tjáir hið algjöra rökþrot, þá er það óumræðan, líkt og Björn Bjarnason ástundar gagnvart hjáleigusambandi okkar við Brussel sem kennt er við EES samninginn.

Björn hefur greinilega lesið bókina 1984 sér til gagns og fróðleiks á gamals aldri, með því að gefa orðum eins og sjálfstæði nýja merkingu, þá telur hann sig standa vaktina fyrir sjálfstæði þjóðarinnar líkt og ættbogi hans hefur gert frá því í byrjun 20. aldar.

Vaktin er ykkar hlutverk Halldór og þjóðin á það inni hjá ykkur að þið standið hana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.2.2021 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband