Leita í fréttum mbl.is

Borgarlínuheilkennið

er Jónasi Elíassyni prófessor viðfangsefni í Morgunblaðinu í dag.

Jónas veltir fyrir sér hvort hægt sé að lækna þráhyggjuna í Borgarstjórnarmeirihlutanum varðandi fjandskap við mislæg gatnamót og Borgarlínuþráhyggjuna.

Jónas skrifar:

"Samtökin ÁS hafa leitt í ljós offjárfestingu í borgarlínuverkefninu sem er að minnsta kosti 40 milljarðar króna umfram faglega þörf. Umframfjárfesting sem skilar engu til farþega, hvorki í þægindum né hraða, en eykur áhættuna við að komast um borð í vagnana. Þetta er hundrað sinnum meira en bragginn frægi og líkast til tíu sinnum meira en Sorpuævintýrið. Í versta falli gæti þetta orðið 80 milljarðar. Og þar við bætist aukin slysahætta. Eigi að síður heldur undirbúningur áfram á fullum krafti. Búið er að benda á hvernig á að gera jafn góða létta borgarlínu á kostnaðarlega viðunandi hátt, en ekkert gerist nema öllum ráðgjöfum er haldið að þungu borgarlínunni með því er virðist ótakmörkuðu fjármagni.

Reykjavík fer á svig við samgöngusáttmálann

Á meðan situr allt annað á hakanum, samgönguráðherra taldi sig búinn að tryggja mislægu gatnamótin Bústaðavegur/Reykjanesbraut 2021, en nei. Því er frestað til 2025, það þarf að gera borgarlínu fyrst. Þessi mótþrói borgarstjórnar gegn mislægum gatnamótum situr jafn djúpt og barnatrúin. Einu rökin gegn þeim eru að þau séu ljót í umhverfinu, en í reynd geta þau verið mjög lík göngubrúnum sem borgarstjórnin er búin að byggja út um allt. Auk þess eru mislæg gatnamót eins og fegurð himinsins miðað við fyrirhugaða borgarlínubrú yfir Elliðaárósa, bara fyrir borgarlínu og enga aðra. Það hafa verið háðar hönnunarsamkeppnir af minna tilefni. Af hverju er þetta verkefni, að hanna umhverfislega viðunandi mislæg gatnamót, ekki sett í slíka samkeppni? Við þessu er ekkert svar nema eitt: Mótþróaröskun hins pólitíska meirihluta í Reykjavík, hún kallast mislæg gatnamótaþrjóska, hvað ætli sá sjúkdómur heiti á latínu? Ætli séu til pillur við honum? En nú fer að sverfa til stáls í þessu. Samkvæmt erlendum mælingum vaxa umferðartafir í Reykjavík hröðum skrefum. Þær eru út af öllum umferðarljósunum sem komin eru í stað mislægu gatnamótanna. Umferðartafir vaxa um leið og Covid-hömlum er aflétt og ferðamenn koma aftur. Meðaltafir, sem voru 13-16%, eru nú komnar upp í 22%. Hámarkstafir á annatíma eru komnar í 60%, það þýðir að 10 mínútna ferð tekur 16 mínútur. Ef fram fer sem horfir fjúka tafirnar upp í 100% þegar í haust. Þá mun það taka klukkutíma að komast frá Breiðholti eða Garðabæ inn á stóra vinnustaðasvæði höfuðborgarsvæðisins, sem er miðborgin, Landspítalinn og Háskóli Íslands.

Samfélagskostnaður vegna umferðartafa er að fara úr böndunum

Þessum auknu umferðartöfum fylgir mikill samfélagslegur kostnaður, 40-50 milljarðar króna á ári. Þetta er það sem mislæga gatnamótaþrjóskan kostar Ísland. Ekki bara íbúa höfuðborgarsvæðisins; sá sem vill fara ofan úr Borgarfirði og til Keflavíkur lendir í þessu líka. Borgaryfirvöld virðast ekki kunna á samfélagslegan kostnað af umferðartöfum. Skýrsla sem þeir birtu um samfélagslegan ávinning af borgarlínu reyndist röng. Sjá grein Ragnars Árnasonar prófessors í Mbl. 16. nóvember 2020. Höfuðviðfangsefni samgöngumála ætti að vera að lækka þennan tafakostnað. Engin sjáanleg merki eru um að slíkt verkefni sé í gangi. Enginn hefur bent á þetta nema ÁS. Sjá (https://samgongurfyriralla.files.wordpress.com/2021/03/ greining-umferdatafa_ebe-032021.pdf).

Alvarlegur galli í stjórnun samgöngumála

Þetta er alvarleg misfella í vinnu opinberra aðila við samgöngumál. Upphæðin sem þarna er um að ræða er 1% af þjóðarframleiðslu. Þetta mun hækka í 2% á örfáum árum nema eitthvað sé að gert. Slík lækkun á þjóðarframleiðslu er alvarlegt efnahagslegt áfall. Borgarstjórn Reykjavíkur er farin að verða of dýr. Ekki bara fyrir Reykjavík heldur allt landið. Þeir sem þurfa að koma vörum til og frá Keflavíkurflugvelli, eða Sundahöfn, lenda í þessu, hvað ætla þeir að gera?

Mislæg gatnamót eru nauðsynlegir innviðir

Ef Reykjavík rankar ekki við sér, rífur sig upp úr borgarlínudraumnum og byrjar að byggja þessi mislægu gatnamót sem reiknað hefur verið með síðan 1965 og allir vissu að þyrftu að koma þarf ríkisstjórnin að grípa inn í og bjarga sínum þjóðvegum frá hruni. Annars geta menn deilt út síldar- og þorskkvóta eins og þeir vilja, og vaxandi umferðartafir í Reykjavík éta það upp jafnóðum. Borgarstjórn Reykjavíkur getur glott út í annað og hugsað mér sér, að því meiri umferðartafir því meiri tekjur af borgarlínu, og ríkið borgar kostnaðinn. Fyrst með beinum framlögum í samgönguáætlun, síðar með tafagjöldum, sjá (https://samgongurfyriralla.com/2021/05/23/ minnisblad-vegna-fundar-medpawel-bartoszek/). En sannleikurinn er sá, að Reykjavík verður fyrsta fórnardýrið í þessari efnahagslegu umferðarkreppu, versnandi hagur þjónustufyrirtækja bitnar fyrst og fremst á Reykjavík. Það eru þau sem halda efnahag hennar uppi, og það er nákvæmlega það sem hún fékk smjörþefinn af í Covid-kreppunni. En þetta sér borgarstjórnin ekki. Hún heldur að með því að ríkissjóður borgi borgarlínu og hún hirði tekjurnar sé hún að skapa fjármagnsflæði sér í hag. Þá er bara ein spurning eftir: Ætla menn að gera eitthvað í þessu eða ekki? "

Samskonar offorsi er beitt gegn Reykjavíkurflugvelli.Meirihlutinn trúir því að hann geti selt landið undir flugvellinum en Ríkið eigi að byggja nýjan flugvöll á sinn kostnað ofan á næsta eldfjalli.

Þessi meirihluti verður ekki frelsaður úr heilkennum sínum með neinum þekktum pillum að lækningaaðferðum. Aðeins kosningarnar eftir ár geta frelsað oss frá illu og Borgarlínuheilkenninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband