Leita í fréttum mbl.is

Enn er kveðið úr haugnum

og kallað að sé af kögunarhóli.

Þorsteinn Pálsson kyrjar fullveldisfyrirlitninguna í nýrri grein í málgagni ESB á Íslandi í dag. Þar segir hann :

"Oft er árangursríkara í pólitík að hræða fólk frá stefnu andstæðinganna en að fá það með rökum til að aðhyllast eigin málstað.

Í sjálfu sér er eðlilegt í rökræðu að draga fram neikvæðar hliðar á málflutningi andstæðinga. En eins og í mörgu öðru eru það öfgarnar, sem eru hættulegar.

Þær koma helst fram í því að menn fara með staðlausa stafi um andstæð málefni og eyða ekki tíma í að færa fram rök fyrir eigin máli.

Fjölþjóðasamvinna

Andstaðan við öll stór skref, sem Ísland hefur stigið í alþjóðasamvinnu, hefur verið brennd marki slíkra öfga í hræðsluáróðri: Inngangan í Atlantshafsbandalagið, aðildin að Fríverslunarsamtökum Evrópu og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, sem veitti okkur aðild að innri markaði Evrópusambandsins.

Andófið gegn því að þjóðin fái sjálf að ákveða hvort stíga eigi lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu, byggist fyrst og fremst á að skapa ótta við breytingar.

Þeir sem eru lengst til hægri beita nú sömu ráðum í þessari umræðu og þeir sem voru lengst til vinstri og snerust öndverðir gegn aðildinni að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma.

Fullveldið

Fullveldið glatast. Þetta var og er algengasta staðhæfingin.

Reynslan af aðildinni að Atlantshafsbandalaginu sýnir hins vegar að hún hefur styrkt pólitískt fullveldi landsins.

Reynslan af þátttöku í Fríverslunarsamtökum Evrópu og síðar aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins, sem nú er kjarni Evrópusamstarfsins, hefur með ótvíræðum hætti eflt efnahagslegt sjálfstæði landsins og um leið fullveldi þess.

Hvers vegna ætti lokaskrefið, sem er minna en aðildin að innri markaðnum, að leiða til fullveldisglötunar? Enginn hefur sýnt fram á það með rökum.

Enginn þeirra sem halda því fram að Ísland myndi tapa fullveldinu með fullri aðild, treystir sér til að halda því fram að Danmörk, Svíþjóð og Finnland séu ekki fullvalda ríki.

Erlendu fiskiskipin

Þá er fullyrt að með fullri aðild fyllist Íslandsmið af erlendum fiskiskipum. Það er röng fullyrðing.

Raunveruleikinn er sá að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins byggir á reglu um svonefndan hlutfallslegan stöðugleika. Það þýðir að engin þjóð fær rétt til veiða nema unnt sé að sýna fram á veiðireynslu á næstliðnum áratugum.

Engin þjóð hefur slíka veiðireynslu. Íslandsmið verða því áfram aðeins fyrir íslensk fiskiskip. Og sérhver aðildarþjóð setur sínar eigin stjórnunarreglur. Ekki þarf því að breyta fiskveiðilöggjöfinni vegna aðildar.

Hrun landbúnaðarins

Því er haldið fram að landbúnaður og atvinna í sveitum hverfi með fullri aðild. Rétt er að full aðild yrði trúlega mest krefjandi fyrir landbúnaðinn.

En getur íslenskur landbúnaður komist hjá krefjandi aðlögun að nýjum aðstæðum?

Umræðuskjalið um nýja landbúnaðarstefnu, sem landbúnaðarráðherra kynnti á dögunum, sýnir að róttækar breytingar eru óumflýjanlegar hvort heldur Ísland fengi fulla aðild eða ekki. Aukin alþjóðleg samvinna er reyndar eitt af nýmælunum í því skjali.

Færa má gild rök fyrir því að aðlögun sveitanna að nýjum aðstæðum og kröfum yrði léttari innan sambandsins en utan. Ástæðan er fyrst og fremst mjög öflugt stuðningskerfi við breytingar af því tagi, bæði byggðaþróun og nýsköpun atvinnuhátta.

Óttinn og vannýttu tækifærin

Til þess að Ísland geti vaxið út úr kreppunni þarf fyrst og fremst stöðugan gjaldmiðil. Opna þarf fleiri tækifæri á erlendum mörkuðum fyrir unnar sjávarafurðir og nýsköpun í þekkingariðnaði. Viðspyrna ferðaþjónustunnar er líka fólgin í þessu.

Við höfum alltaf stigið ný skref í fjölþjóðasamvinnu þegar verkefnið hefur verið að vaxa út úr efnahagslegum kreppum eða lægðum.

Ein mesta hættan, sem við stöndum andspænis, er sú að hræðsluáróður, byggður á fölskum forsendum, komi í veg fyrir að við getum nýtt vaxtarmöguleikana eins og best verður á kosið.

Utanríkisráðherra lét vinna faglega skýrslu um ávinninginn af aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins síðasta aldarfjórðung.

Breytt ríkisstjórn gæti horft fram á við og látið vinna heildstætt mat á ríkari möguleikum Íslands í fjölþjóðasamstarfi nýs tíma.

Þannig má leysa hræðslupólitíkina af hólmi og opna málefnalega umræðu um ný tækifæri til verðmætasköpunar og aukins athafnafrelsis. " 

Merkilegt er að Þorsteinn virðist ekki viðurkenna að kvótinn á Íslandsmiðum gengur kaupum og sölum. Hann verður til sölu fyrir alla félaga okkar í ESB. Merkilegt að fyrrum sjávarútvegsráðherra skauti framhjá þessu.

Er það fjölþjóðasamstarf að ganga í tollabandalag 27 ríkja gegn meirihlutanum af veröldinni?

Hvernig á að endurgera landbúnaðinn íslenska ef fyrirheit Þorsteins ganga ekki eftir?

Hvernig ætlar Þorsteinn að endurgera fyrra fullveldi ef draumsýnir hans ganga ekki eftir?

Engin rök eru fyrir því að íslenska krónan hafi valdið kjararýrnun á Íslandi í hagsveiflum heimsins. Mörg rök eru fyrir því að hún hafi styrkt efnahaginn við þær aðstæður.

Það yrði skelfilegt af fullveldissalar á borð við Þorstein Pálsson komast í lykilsstöður úr haug sínum í næstu kosningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Já, alveg er það merkilegt hvað Þorsteinn fabúlerar gáleysislega um fullveldisrétt Íslendinga í sínum ESB-áróðri. Það yrði nú meiri loðmollan ef hann reyndi að svara því hvers vegna Skotar misstu yfirráðin í fiskveiðilögsögu Skota til Spánverja og fleiri þjóða á sínum tíma, svo dæmi sé tekið.  

Daníel Sigurðsson, 15.7.2021 kl. 15:33

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Já, hann mætti útskýra það fyrir okkur og hversvegna  það myndi ekki gerast hér að aðrir borgarar ESB myndu ekki vilja kaupa kvóta af Samherja eða Brimi  t.d.?

Halldór Jónsson, 16.7.2021 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband