Leita í fréttum mbl.is

Hvort er verra?

Covid19 eða hugsanlegur fylgikvilli sprautu?

"Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, hefur fullan skilning á því að foreldrar velti vöngum yfir bólusetningum barna. Vissulega geti bólusetning haft aukaverkanir í för með sér, en þær séu sjaldgæfar og sjaldan alvarlegar. Afleiðingarnar af því að smitast séu hins vegar miklu alvarlegri.
 

Í fyrradag hófust bólusetningar fyrir ungmenni, 12-15 ára. Foreldrar, sem jafnvel hugsuðu sig ekki um tvisvar þegar kom að bólusetningu fyrir þau sjálf verða allt í einu áhyggjufull og tvístígandi. Á samfélagsmiðlum er ýmsu kastað fram og þar getur verið erfitt að fylgjast með því hvaðan upplýsingarnar koma.

„Við verðum ekki mikið vör við það að fólk hafi efasemdir um bólusetningar barna. En það koma auðvitað upp spurningar og ég held að það sé alveg eðlilegt að fólk spyrji spurninga og velti vöngum yfir þessum bólusetningum,“ segir Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir og forstöðumaður fræðasviðs Barnaspítala Hringsins í viðtali í Sumarmálum á Rás 1. „Það er gott og umræðan er í sjálfu sér ágæt. En frá mínum bæjardyrum séð, sem barnalæknir og sérfræðingur í ónæmisfræði, þá liggur þetta tiltölulega ljóst fyrir þegar þú skoðar gögnin og niðurstöður vísindarannsókna.“

Hann segir að foreldrar vilji að sjálfsögðu vernda börnin sín. „Við getum verið vondar eða góðar manneskjur en það er hreinlega í DNA-inu okkar að vernda börnin okkar. Það gera öll dýr og við erum ein slík dýrategund.“

Þegar upplýsingaóreiðan eykst getur ákvarðanataka sem varðar hagsmuni barna orðið erfiðari. „Stundum er það þannig að fólk óttast það að gera eitthvað rangt. Þá hugsar það í kjölfarið: Þegar ég geri ekkert, þá geri ég ekkert rangt. Ef ég fer ekki með barnið í bólusetningu, þá ber ég ekki ábyrgð á mögulegum aukaverkunum.“

Spurningin ætti hins vegar að vera öfug, segir Ásgeir. „Á Íslandi gerum við margt mjög vel sem samfélag og eitt sem við gerum er að vilja vernda börnin okkar frá fæðingu og vernda þau fyrir alvarlegum sýkingum. Þetta gerum við saman sem samfélag og fáum okkar bestu fræðimenn og fagmenn til að ákveða hvernig við viljum vernda börn fyrir sýkingum. Það að ákveða að hafna þeirri vernd er virk ákvörðun og ég held að það þurfi að staldra við það. Sumir líta á það sem mikla ábyrgð að láta bólusetja barnið sitt en það má líka líta á það sem mikla ábyrgð að bólusetja það ekki og það sé hugsanlega útsett fyrir sýkingunni.“

Vissulega getur bólusetning haft aukaverkanir í för með sér, segir Ásgeir, en afleiðingarnar af því að smitast séu ávallt alvarlegri. „Það er auðvitað rétt og engin ástæða til að draga fjöður yfir það að það eru aukaverkanir af bólusetningum, þar með talið af Covid-bólusetningunni. Það eru þekktar aukaverkanir, sem betur fer sjaldgæfar og sjaldan alvarlegar, en við vitum líka að það að fá sýkinguna er miklu alvarlegra. Þegar menn velta þessu fyrir sér er kannski ekki rökrétt að setja það upp, ef ég bóluset barnið mitt getur það fengið aukaverkanir, þannig að ef ég sleppi því að bólusetja það fær það ekki aukaverkanir. Það er ekki alveg rökrétt. Ef ég bóluset það ekki þá er það útsett fyrir sjúkdómnum og einkenni sjúkdómsins eru oft svipuð og aukaverkanir af bólusetningu en bara miklu, miklu alvarlegri.“

Fyrir skemmstu var viðhorf foreldra til bólusetninga barna kannað þar sem í ljós kom að langflestir eru hlynntir því að bólusetja börn sín. Þar voru foreldrar barna 16 ára og yngri spurðir hvort þau myndu þiggja bólusetningu fyrir barnið sitt. Rannsóknin var gerð í febrúar og mars, áður en ákveðið var að fara í bólusetningu ungmenna. „Það var mjög afgerandi að langflestir sögðu líklega eða mjög líklega, innan við 10% sögðu nei. Þannig að það var mjög afgerandi afstaða þó þessi umræða væri ekki orðin mikil.“

Spurningin var einnig lögð fyrir foreldra barna 0-4 ára. „Þarna var líka mjög afgerandi afstaða, það voru að vísu fleiri sem voru óákveðnir, sem mér finnst mjög eðlilegt með svona lítil börn, um fjórðungur. En það voru tæplega 70% sem voru jákvæð og innan við 10% neikvæð.“

Ásgeir segir að það eigi að vera undir foreldrum komið hvort börn þeirra verði bólusett. „En mig grunar að börn, 12-16 ára, sem ekki eru bólusett verði í óþægilegri stöðu þegar það fara að koma upp sýkingar í skólum. Þá held ég að þeim líði ekki vel með það að vera óbólusett. En þetta er ákvörðun foreldra og ég ber fulla virðingu fyrir því. Foreldrar þurfa að ræða saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu ásamt barninu. Það á ekki að þvinga einn eða neinn til eða neins. Fyrir mér þá læt ég vísindin og niðurstöður rannsókna ráða en ég hef fullan skilning á foreldrum sem vilja velta þessu fyrir sér og vona að þeir komist að góðri niðurstöðu.“

Er ekki verra að taka áhættuna af því að gera ekki neitt?

Er ekki mislingasprauta, berklasprauta, lömunarveikisprauta, hlaupabólusprauta, inflúensusprauta, barnaveikisprauta, einhver áhætta?

Hvort er verra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband