Leita í fréttum mbl.is

Evrudollarakrónan

Ragnar Önundarson sá margvísi efnahagsfræðingur ritar ákaflega þarfa grein í Morgunblaðið í dag sem margir hefðu gott af að lesa vandlega.

Ragnar segir:

Kosningar fara í hönd. Sumir flokkar aðgreina sig með því að vilja taka upp stærri og stöðugri gjaldmiðil, sem mundi aga og siða þjóðina til í efnahagsmálum. Hún yrði nú knúin til að haga sér með hliðsjón af því að gjaldmiðillinn veikist hvorki né styrkist eftir aðstæðum og hegðun hennar, segja þeir.

Krónan

Átök eru um tekjuskiptinguna, við skiptum öðru hvoru á milli okkar meiri tekjum en til skiptanna eru. Gengislækkun og verðbólga eru aðferð til að taka svonefndar „óraunhæfar launahækkanir“ til baka. Líka til að mæta aflabresti, verðfalli á útflutningi og áfalli í ferðaþjónustu. Sjálftökufólkið heldur þó sínu, því laun og kaupaukar þess hækka eftir því sem hugur þeirra girnist. Kaupmáttur rýrnaði gjarnan um ca. 15% þegar svona „snúningur“ var tekinn á þjóðinni. Þetta dreifði högginu. Allir nema sjálftökufólkið missa kaupmátt, líka öryrkjar og aldraðir, sem engar óraunhæfar launahækkanir fengu. Þegar vel gengur styrkist gengið aftur á móti. Kaupmáttur alls almennings vex. Ekki bara launamanna, heldur líka öryrkja og aldraðra.

Sterkari króna heldur aftur af verðbólgu og skuldum heimilanna. Uppsveifla í gjaldeyrisaflandi greinum, s.s. sjávarútvegi og ferðaþjónustu, eykur gjaldeyristekjur landsins. Fyrirtækin kaupa krónur fyrir gjaldeyri, sem styrkir gengi hennar. Það lækkar verð gjaldeyrisins í krónum. Lífskjör almennings batna, því stór hluti okkar neysluvara er innfluttur.

Afkoma gjaldeyrisaflandi fyrirtækja versnar hins vegar. Með lægra andvirði gjaldeyris minnka tekjur þeirra. Velgengnin streymir frá fyrirtækjunum til þjóðarinnar. Þegar á móti blæs snýst þetta við. Þjóðin öll tekur höggið af gengislækkun og fyrirtækin þrauka fremur en að fara í þrot. Munum að það er auðvelt og fljótlegt að koma fyrirtæki í þrot, en afar erfitt, tímafrekt og áhættusamt að koma lífvænlegu fyrirtæki á fót.

Evra eða dollar

Hugleiðum nú hvað gerist ef við tökum upp evru eða dollar. Sjálftökufólkið færi sínu fram, ekkert mundi breyta því. Almenningur krefst sömu launahækkana. Eru einhver líkindi til að fólk sætti sig betur við það sem það telur óréttlæti með evru eða dollar? Verður meiri friður á vinnumarkaði?

Varla.

Hugsum okkur nú að það verði áfall, aflabrestur, verðfall sjávarafurða og samdráttur í ferðaþjónustu. Gjaldeyrisaflandi fyrirtæki taka þá höggið ein, engin gengisfelling kemur til hjálpar, hlutfallið milli tekna og launa lagast ekki. Fleiri fyrirtæki týna tölunni og starfsmenn þeirra missa vinnuna. Innflutningsfyrirtækin þrauka og starfsfólk þeirra og hins opinbera heldur vinnunni.

Flestir sleppa áfallalítið, en aðrir missa vinnuna og verða hart úti og taka höggið. Fleiri fyrirtæki verða gjaldþrota og af því að mikið mál er að stofna ný fyrirtæki, þó glaðni til á ný, varir atvinnuleysið lengur. Hugsum okkur loks að það batni í ári. Afli, verðlag og aðstreymi ferðamanna fer upp á við. Gengið breytist ekki, eigendur og starfsmenn fyrirtækjanna sem fá aukninguna hagnast fyrst og mest, en svo dreifast áhrifin smám saman um efnahagslífið.

Jöfnuður

Sveigjanlegt gengi er jafnaðartæki. Bæði andstreymi gengislækkunar og meðbyr gengisstyrkingar dreifast jafnar. Atvinnuleysi er mesta félagslega bölið. Að hafa atvinnu, verkefni og vinnufélaga er hamingjuuppskrift. Ég vil frekar krónu en evru eða dollar á meðan átök standa um tekjuskiptinguna. Mér er óskiljanlegt að flokkar sem vilja jöfnuð skuli setja allt sitt traust á að taka upp gjaldmiðil sem er alls ótengdur íslensku efnahagslífi og mundi valda aukinni misskiptingu og atvinnuleysi.

Ef þeir bara gætu skilið harðneskjuna sem þeir ætla starfsmönnum gjaldeyrisaflandi fyrirtækja mundu þeir ekki hafa þessa skoðun. Ef þeir gætu skilið að langan tíma, e.t.v. þrjú kjörtímabil, tæki að ná tilætluðum árangri mundu þeir hugsa sig betur um.

Flestir þeir sem vilja evru eða dollar eru opinberir starfsmenn, starfsmenn annarra fyrirtækja en þeirra sem afla gjaldeyris eða lífeyrisþegar. Fábreytni og óstöðugleiki efnahagslífsins og sjálftaka forréttindafólksins er hinn raunverulegi vandi. Hvers vegna leggja jafnaðarmenn ekki fram hugmyndir um lausn hans? Þegar ég var viðskiptafræðinemi 1972-6 og tekinn að fylgjast með efnahagsmálum voru læknar, flugmenn og forstjórar með ca. fimmföld lægstu laun. Svo er enn hvað lækna og flugmenn snertir. Forstjórar fákeppnisfélaganna taka sér hins vegar það sem þeim sýnist í krafti aðstöðu sinnar.

Samþjöppun til fákeppni er mestu vonbrigði EESaðildarinnar. Samkeppnisreglur ESB sem gilda hér eru byggðar á forsendu um alvöru, virka markaði. Þeir finnast varla hér á landi. Samkeppniseftirlitið samþykkir nær allar yfirtökur og samruna vegna þessara reglna. Eigendur útflutningsfyrirtækja hafa notið betri viðskiptakjara vegna EES og hagur þjóðarbúsins vænkast. Almenningur hefur öðru hvoru notið sterks gengis krónunnar, en misskipting hefur vaxið.

Það birtist m.a. í innflutningi erlends ódýrs vinnuafls, sem nú er á lægstu laununum og býr við þröngan kost. Á meðan kjörnir fulltrúar, þingmenn og ráðherrar, taka þátt í sjálftökunni mun ekkert breytast."

Níðingar krónunnar einblína á gjaldeyrisaflandi fyrirtæki. Þeirra tekjur sveiflist ef gengi krónunnar breytist. En sleppa þeir ekki ávallt að hugleiða hvernig fer með kostnaðarhliðina þegar útgjöld hækka. Laun, hráefni, aðföng?

Mér finnst Ragnar færa ótvíræð rök fyrir því að gjaldmiðlar sem Íslendingar eiga engan þátt í að stýra þurfi ekki að sveiflast að verðmæti eftir íslenskum forsendum. Mikilli eftirspurn eftir einhverju sérstöku eins og  ferðamennsku,skyndilegum tæknilausnum sem renna upp á Íslandi óháð öðrum löndum og svo framvegis.

Gjaldmiðill er einungis að mæla hlutfall kostnaðar á einstökum þáttum samkvæmt sérstakri sátt innanlands.

Viðskiptafrelsið hefur verið stærsta hagsmunamál Íslendinga allt frá dögum Jóns Sigurðssonar.

Evrudollarakrónan hefur því dugað okkur ágætlega ef við lítum yfir þjóðlífið og aðgætum hverju þessi þjóð hefur áorkað á sekmmri tíma en flestar aðrar.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband