Leita í fréttum mbl.is

Berið saman

þessa grein Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og skrif Gunnars Smára Egilssonar sjálfkjörins formanns Sósíalistaflokksins sem ætlar að breyta Valhöll í almenningssalerni með Björn Bjarnason sem klósettvörð.

Hvorn geta  menn hugsað sér frekar í ráðherrabústaðnum?

Bjarni skrifar í ESB málgagnið í dag:

"Þegar rætt er um framtíðarsýn er mikilvægt að bera skynbragð á stöðuna hverju sinni. Okkur gengur vel á flestalla mælikvarða. Kaupmáttur eykst stöðugt, vextir hafa lækkað mikið á kjörtímabilinu og tækifærunum fjölgar hratt samhliða átaki í nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Við erum á réttri leið út úr kórónukreppunni.

Atvinnuleysi minnkar mánuð eftir mánuð og efnahagsaðgerðir okkar fá góðan dóm í íslenskum könnunum, umsögnum OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lánskjör ríkissjóðs haldast hagstæð vegna þess að erlend matsfyrirtæki hafa trú á stefnunni, eins og kom skýrt fram í fréttum á dögunum.

Í nýbirtu hálfsársuppgjöri er afkoma ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins 27 milljörðum betri en áætlað var, og horfurnar góðar. Þetta má meðal annars rekja til markvissra efnahagsaðgerða, vaxtar í nýsköpun og vel heppnaðrar sölu hluta í Íslandsbanka. Með bankasölunni fengust ekki aðeins miklir fjármunir í ríkissjóð, heldur hefur verðmæti þeirra hluta sem eftir standa hjá ríkinu aukist verulega samhliða skráningu bankans á markað.

Með þessar staðreyndir í farteskinu er holur hljómur í rangfærslum stjórnarandstæðinga um að ríkisstjórnin ætli að „skera niður um 100 milljarða“. Vart þarf að ítreka að þar er einfaldlega talað gegn betri vitund. Ef við höldum áfram á sömu braut verður lítil þörf fyrir aðhaldsaðgerðir næstu misserin.

Skattahækkanir og skerðingar vinstristjórnarinnar milli áranna 2009 og 2013 eru þjóðinni þó enn í fersku minni. Og nú eru sömu brögðin boðuð með útblásnum útgjaldaloforðum, ESB-aðild, hækkun skatta og aukinni ríkisvæðingu. Verði sú hugmyndafræði ofan á mun Ísland lenda á ný í efnahagslegri sjálfheldu vinstrimanna með tilheyrandi skaða fyrir fólk og fyrirtæki.

Valkostirnir hafa sjaldan verið skýrari. Við Sjálfstæðisfólk ætlum ekki að draga kanínur upp úr höttum, heldur einblína á það sem hefur alltaf gefist best. Stórstígar framfarir í samfélaginu síðustu áratugi hafa grundvallast á gildum sjálfstæðisstefnunnar. Trú á fólkið, framtakssemina og réttlátt samfélag sem byggir á jöfnum tækifærum – ekki þvingaðri jafnri útkomu.

Ísland er land tækifæranna og þannig ætlum við að hafa það áfram. "

Telja menn  virkilega að Gunnari Smára sé treystandi til eins né neins nema að hafa eigingjarna afstöðu til eigin hags með tilliti til sögu sinnar.

Dettur mönnum það í hug ef menn bera saman þessa tvo stjórnmálamenn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Brynjar  Níelsson bætir snarpri athugasemd við á Fésbók:

Þegar litið er yfir pólitíska sviðið í dag er glundroði fyrsta orðið sem kemur upp í hugann. Útlit er fyrir að tíu flokkar eigi fulltrúa á Alþingi eftir kosningar. Sumir eins máls flokkar eða eins manns flokkar. Aðrir dæmigerðir tækifærissinnar, sem eru bara í upphrópununum og ala á tortryggni og öfund. Svo er flokkur á fleygiferð sem vill draga okkur inn í svarthol fortíðar og reynir að telja okkur trú um að þá hafi allt verið betra.

Allir eiga þeir sameiginlegt að ætla að auka útgjöld og umsvif ríkisins upp á tugi og hundruði milljarða á ári. Það á auðvitað að gera með því að skattleggja útgerðina enn meira, hækka fjármagnstekjuskatt og eignaskatta og sérstakan auðmannaskatt á eina prósentið. Miðað við loforðin um útgjöld munu þessir skattar duga skammt. Því þarf að taka frekari lán fyrir komandi kynslóðir að greiða. Það ætti að vekja unga kjósendur til umhugsunar.

Við núverandi aðstæður þarf að örva atvinnulífið. Það gerist ekki með hærri sköttum og álögum. Það mun draga úr innlendum og erlendum fjárfestingum, veikja samkeppnisstöðu okkar og auka atvinnuleysi. Á endanum mun það hafa verulega slæm áhrif á stöðu ríkissjóð og allt velferðarkerfið. Það dugir skammt að segja bara út í loftið að nóg sé til, eins og sumir gera. Við þurfum hvata til að einstaklingar og félög geti nýtt tækifærin, því enginn skortur er af þeim.

Glundroði hefur aldrei leitt til góðs. Hann mun ekki gera það í pólitíkinni frekar en annars staðar. Það er heldur ekkert nútímalegt við hann. Hvað þá að draga upp á yfirborðið fortíðardrauga sósíalismans, eins og margir flokkar á vinstri vængnum keppast um að gera.

234Þú, Baldur Hermannsson, Skúli Jón Sigurðarson og 231 til viðbótar

23 ummæli

4 deilingar

 

Líkar þetta

 

 

 

Skrifa ummæli

 

 

Deila

 

 

Halldór Jónsson, 8.9.2021 kl. 09:04

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Þegar auðurinn er úrsér genginn og borgarastéttin misst sjónir á þjóðlegum íhaldssömum gildum, bíður fram sminkaðar dúkkulýsur (af báðum kynjum) án innihalds, þá er þörf fyrir menn eins og Gunnar Smára.

Rætur hans liggja í Gamla testamentinu, hvort hann sé með styrk á við Jesaja spámann, eða sé ennþá í hópi grátspámannanna sem stóðu á kassa og skömmuðust, skal ósagt látið.

Hlutverk hans er að tukta ykkur til, koma ykkur aftur inni í raunveruleikann, fá ykkur til að vera annað og meira en innihaldslaus froða í þjóðfélagi þar sem allt gengur á sjálfstýringu regluverks Evrópusambandsins.

Það er ferskur blær í orðum Gunnars, svo langt er um liðið að síðasti verkalýðsstríðsmaðurinn var grafinn, að það sem var holróma þá, er ferskt í dag.

Það er hins vegar ekkert ferskt í kópý/peist greinum Óla Björns sem þú birtir reglulega á bloggi  þínu, alltaf sama rullan, alltaf sömu frasarnir, alltaf sama aðgerðaleysið gagnvart þeim ógnvaldi sem ræður og stjórnar öllu á Íslandi í dag.

Að vitna í Brynjar; "Við núverandi aðstæður þarf að örva atvinnulífið" er aðeins brandari, er ekki maðurinn búinn að vera á þingi frá því að þokkalega eldri menn muna??

Veit hann ekki hvað er að gerast og hefur gerst hér frá því vel fyrir Hrun??, veit hann ekki að við erum hjálenda, veit hann ekki hvað er að kæfa allt atvinnulíf??

Nei Halldór, gamlir menn eiga ekki að vera í baksýnisspeglinum, gamlir menn eru komnir út og yfir það að vera tengdir og háðir, þeirra er framtíðin í þeirri merkingu að þeir hafa engu að tapa við að berjast fyrir betri heimi, barnabarna sinna vegna.

Þið eigið að verja gömul gildi, það sé þróun tímans sem úreldi þau, en ekki geðþótti misviturs fólks í samtímanum, verja ræturnar, verja það sem vel hefur reynst, það sem vel hefur gefist, það sem vel hefur aflað.

Þið íhaldsmenn eigið ferska rödd, jarðtengda, rótfasta, byggir á gömlum gildum en hefur kjark til að greina vanda samtímans.

Arnar skrifaði grein í Moggann í dag, lestu hana, sérstaklega þar sem hann bendir á hvað regluverkið er að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem eru að fjölda svona 99,95% fyrirtækja þjóðarinnar.

Því svarið við skömmum Gunnars Smára er ekki að skammast í honum, svarið er að skilja af hverju fólkið hlustar á skammirnar.

Þar er lausnin, jafnt ykkar sem samfélagsins.

Kveðja úr sólinni að austan.

Ómar Geirsson, 9.9.2021 kl. 08:55

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Nei Ómar

"Það er ferskur blær í orðum Gunnars, svo langt er um liðið að síðasti verkalýðsstríðsmaðurinn var grafinn, að það sem var holróma þá, er ferskt í dag.

Það er hins vegar ekkert ferskt í kópý/peist greinum Óla Björns sem þú birtir reglulega á bloggi  þínu, alltaf sama rullan, alltaf sömu frasarnir, alltaf sama aðgerðaleysið gagnvart þeim ógnvaldi sem ræður og stjórnar öllu á Íslandi í dag."

Ég get ekki rætt málflutning Gunnars Smára í alvöru. Það var hægt að hlæja að Glistrup í gamla daga. Gunnar Smári er bara brandari sem bunar alskyns tölum úr sér en ekki dettur mér í huga að hann geti nálgast einn einasta hlut með þeim tilgangi að leysa eitthvað . Maðurin bunar bara dellu og slagorð þannig að fyrir mér er hann barasta lukkuriddari sem vill koma sér í þægilegt sæti. En að að hann hafi eitthvað til málanna að leggja dettur mér ekki í hug.

Og mér finnst hann ekkki einu sinni skemmtilegur þannig að ég nenni ekki að hlusta á hann.

Brynjar er skemmtilegur og hefur stærð til að hugsa út fyrir kassann. Það er munurinn á þessum mönnum.

Halldór Jónsson, 10.9.2021 kl. 15:35

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Óli Björn meinar það sem hann segir og hann trúir þvi sem hann akrifar. Gunnar Smári held ég að sé bara með eitt áhugamál. Það er að koma Gunnari Smára í aðstöðu til að að ná efnislegum gæðum fyrir sjálfan sig. Mér dettur ekki aitt augnablik að hann sé í pólitískri vegferð til að að gera eitthvað fyrir aðra en sjálfan sig.Hann er allt önnur týpa en Einar Olgeirsson var. Maður sem vildi breyta einhverju af því að hann trúði því að það væri hægt að bæta kjör alþýðunnart. Sá er munurinn á þessum mönnum .Einar var fyrir fólkið en Gunnar er fyrir Gunnar Smára og vitna ég þá toil viðskiptasögu hans sem ber þessu vitni. 

Halldór Jónsson, 10.9.2021 kl. 15:41

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Fyrirgefðu seint innlit, hef verið upptekinn við að hlúa að gömlum húsum á jörð feðra minna í Víkinni minni.

Nýjasti frasinn minn er "þú ert með þetta", og þú nærð Gunnari vel með samlíkingunni við Einar Olgeirs.

Breytir því samt ekki að þér er mjög umhugsað um hann, það er orðin frétt sem kæmist í Öldinni okkar ef þú minnist lengur á Píratagengið, og Steini Páls er orðinn eins og Fornleifur sem rétt grillir í á rúnum á fornum stein og forsögulegum tímum, í dag er það bara Gunnar Smári og aftur Gunnar Smári, jafnt í eigin pistlum sem og í athugasemdum sem þú ritar hjá öðrum.

Slík orka fer ekki í smámenni Halldór, og þú veist það.  Sem og þú innst inni veist að þegar málflutningur einhvers er fundinn allt til foráttu, þá er það vegna þess að hann pirrar, það er eitthvað í honum sem vekur þessi viðbrögð. 

Og Gunnar er beittur penni, það varst jú þú sem vaktir athygli mína á stílbrögðum hans, ekki les ég hann að fyrra bragði, fékk nóg af honum þegar hann þáði laun fyrir að skíta niður þjóð mína.

Hann er vöndur sem hirtir, eiginlega sá eini í dag.

Og eins og ég sagði í athugasemd minni, þá eru slíkir vendir nauðsynlegir fyrir ykkur í íhaldinu, það eru þeir sem ná því besta úr ykkur.

Og þú segir það að Óli Björn meini og trúi því sem hann skrifar, kannski gerði hann það þegar hann skrifaði grein sína fyrir um áratug síðan, en hvað þarf hann að kópera hana oft til að þú sjáir að þetta er alltaf sama greinin, alltaf sömu frasarnir.

Og afneitun hans á raunveruleikanum verður alltaf átakanlegri.

Arnar er með þetta, hann veit hvaðan fjandinn kemur, og hann berst gegn honum, lestu bara grein hans aftur og aftur, þá sérðu að allavega einn í ykkur röðum berst gegn því sem í kjarna er ógn við sjálfstæði þjóðarinnar, og skýrir flest það regluverk og skriffinnsku sem er að kæfa allan þrótt úr atvinnulífi þjóðarinnar.

Óli Björn, eins mætur og hann er og mikill hugsuður, hefur ekki þennan kjark sem Arnar hefur, þess vegna er grein hans innantóm, og hefur allavega verið það í um 10 ár.

Hann þorir ekki gegn EES samningnum, ekki frekar en Brynjar hinn skemmtilegi.

Og þér að segja Halldór, þá voru allavega Íslendingasögur ekki skrifaðar um kjarklausa menn.

Óþarfi hjá þér að bæta þar úr.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.9.2021 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband