Leita í fréttum mbl.is

Borgarlínurök

finnast mér koma fram í grein Elíasar B. Elíasarsonar verkfræðings í Morgunblaðinu 5. október s.l.

Þar segir hann:

Það að stuðla að minni losun kolefna út í andrúmsloftið var ein stærsta skrautfjöður Borgarlínu á sínum tíma. Þessi fjöður byggðist frá upphafi á áformum um að nota hreinorkuvagna í Borgarlínu og er þannig í reynd lánsfjöður frá strætó sem Borgarlína á að leysa af, en stefna Strætó bs. er að nýta hreinorkuvagna í framtíðinni.

Það að skreyta þungu Borgarlínuna þessari fjöður er að auki fölsun, því hún mun valda miklum töfum á annarri bílaumferð og þær tafir valda mikilli aukningu á loftmengun. Þessi mengandi áhrif þungu Borgarlínunnar sjást best ef litið er á þversnið Suðulandsbrautar eins og það er teiknað í frumdragaskýrslu 1. lotu Borgarlínu frá jan. 2021. Þar sést að sérakreinar Borgarlínu eru settar í miðju vegar og ein akrein fyrir aðra bílaumferð verður sín hvorum megin. Með þessu verða teknar tvær akreinar af almennri bílaumferð og hægt á hraða að auki, því hámarkshraði verður settur 30 km/klst., sem liggur neðan hins græna hraðasviðs (40 til 80 km/klst.)þar sem bílar nútímans nota minnst eldsneyti á ekinn km.

Flutningsgeta Suðurlandsbrautar er þannig minnkuð verulega og mun umferðin þá tefjast og leita að hluta á götur til hliðar þannig að leiðin lengist og verður seinfarin. Þannig mun öll almenn bílaumferð um Suðurlandsbraut og þar í kring tefjast og mengandi útblástur bílanna aukast verulega. Að auki mun vinstri beygja verða bönnuð víða, sem lengir leið margra sem þarna fara og eykur enn útblástur mengandi lofttegunda.

Til samanburðar þá yrðu sérakreinar léttu Borgarlínunnar settar sín hvorum megin fjögurra akreina fyrir almenna umferð Suðurlandsbrautar og hámarkshraði þar settur inni á hinu græna hraðasviði. Létta Borgarlínan mun því ekki valda aukinni mengun eins og sú þunga gerir.

Þeirra tafa sem þunga Borgarlínan veldur annarri umferð er hvergi getið í birtum skýrslum um Borgarlínu og sennilega hafa þær ekki einu sinni verið reiknaðar. Í skjóli þess hafa fylgjendur hennar getað haldið því fram að hreinorkuvagnar hennar myndu spara mengandi útblástur en þau vagnaskipti eru alveg óháð Borgarlínu, strætó mun taka upp hreinorkuvagna hvort eða er, þannig að hér er um óverðskuldaða lánsfjöður að ræða.

Orkuskipti í almenningssamgöngum eru verkefni innan orkuskiptastefnu ríkisstjórnarinnar og Borgarlínu óviðkomandi. Í aðdraganda nýliðinna kosninga kom ítrekað fram vilji, þvert á flokka, að taka nú til hendi í loftslagsmálum með alvöru aðgerðum.

Eins og að framan segir er þunga Borgarlínan neikvætt innlegg í loftslagsmálin og nauðsynlegt að snúa sér að þeirri léttu til að seinka ekki árangri í samdrætti á losun kolefna í landinu. Þó kolefnalosun vegna umferðartafa hafi ekki verið reiknuð út er ljóst að þar er um að ræða marga tugi þúsunda tonna kolefnisígilda og áhrif þungu Borgarlínunnar verða til að auka það umtalsvert.

Með því að fara leið léttu Borgarlínunnar sparast miklir fjármunir til fjárfestinga sem nota má til kaupa á hreinorkuvögnum en einnig til fjölgunar biðskýla fyrir strætó, t.d. skjólgóðra skýla með upplýsingatöflum sem auðvelda notkun strætó á höfuðborgarsvæðinu. Á þann hátt má fjölga notendum strætó til viðbótar þeirri fjölgun sem fæst með aukinni tíðni ferða.

Mikilvægt er að hratt vaxandi fjöldi erlendra ferðamanna verði hvattur til að fara útsýnisferðir með strætó í stað þess að keyra um höfuðborgarsvæðið á bílaleigubíl og auka þannig hið mengandi öngþveiti sem oft er í umferðinni. Stefna um skipulag höfuðborgarsvæðisins var samþykkt 2015 og átti Borgarlína að leika stórt hlutverk við þá umbreytingu þéttbýlisins sem þá var samþykkt. Undirbúningur þeirrar stefnumörkunar var m.a. sviðsmyndagreining þar sem borinn var saman kostnaður vegna léttlestar og „BRT-Gold“-kerfis, sem er þung Borgarlína.

Ódýrari möguleikar til að fullnægja þörfum fyrir almenningssamgöngur á svæðinu hafa, að því er fram hefur komið, ekki verið kannaðir enn. Inn í greininguna voru sett hástemmd markmið um breyttar ferðavenjur íbúa, sem síðan hafa sýnt sig að vera óraunhæf. Ábati fékkst einungis í þessari greiningu með því að reikna með að umferðartafir myndu minnka vegna hinna breyttu ferðavenja og bílum landsmanna mundi fækka samsvarandi aukinni notkun almenningssamgangna, sem er afar vafsöm forsenda svo ekki sé meira sagt. Þessi greining var því óraunhæf og rétt niðurstaða úr henni hefði átt að vera sú að gera ekki neitt.

Árangur þessa stórgallaða undirbúnings er sá að í stað þess að hefjast handa við að bæta biðstöðvar, skipta yfir í hreinorkuvagna og flýta för vagnanna þar sem þarf er nú áhersla lögð á rándýrar fjárfestingar í miðjusettum sérakreinum sem engin þörf verður fyrir næstu áratugi og auka vanda í loftslagsmálum. Af þessari leið ber að snúa og byggja þess í stað létta Borgarlínu með sérakreinar til hægri eftir þörfum."

Ekki er  að efa að þær Dóra Björt Guðjónsdóttir og Líf Magneudóttir munu geta sett á langt mál um ágæti þess að fækka akreinum og lækka hámarkshraða til þess að fá almenning til að flykkjast í Borgalínuna. Með fjölgun Borgarfulltrúa aukast líka líkur á því að mörg nýstirni geta lagt þeim þar lið í málflutningi áður en Dagur er kominn að kveldi.

Aðeins mikill fjöldi skoðanasystkina er fær um að byggja þá röksemdafærslu sem mun þurfa til að hrekja málflutning Elíasar og skoðanabræðra hans um að þrenging gatna auki ekki afköst þeirra. Líklega er áhrifamest að tala sem lengst og mest til þess að áheyrendur gefist upp í málefnaþreytu og Borgarlínan laumist í gegn með einhverju öðru sakleysislegu.

Hugsanlega hefur röksemdafærsla eins og fram kemur hjá Elíasi áhrif á kjósendur næsta vor en þó er það ekki víst þar sem Borgarlínurök sýnast vera meira í ætt við trúarbrögð hjá vinstrimönnum fremur en tæknilegar forsendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fáfræði og fortíðarhyggja dettur mér helst í hug. Hann virðist vita mjög lítið um Borgarlínuna og það sem hann þykist vita er að miklu leiti rangt. Það væri óskandi að þeir sem vilja mynda sér skoðanir á Borgarlínunni gerðu það að athuguðu máli en ekki í pólitískum pirringi eftir órólegan nætursvefn og meltingartruflanir.

Ég reikna fastlega með því að þegar bensínbíll hefur ekki verið fluttur inn í nokkur ár og Borgarlínan verður tilbúin verði viðhorf fólks og ferðahættir með öðrum blæ en í dag. Umhverfisvitund þeirra sem þá verða mest á ferðinni er önnur en þeirra sem koma frá síðustu öld með sínar umhverfisspillandi ferðavenjur og viðmið fortíðar. Borgarlínan er ekki hugsuð sem lausn fyrir fortíðina og eins og þið gamlingjarnir, sem varla lifið að sjá lok framkvæmda, virðist halda.

Vagn (IP-tala skráð) 7.10.2021 kl. 12:43

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Sífellt vex aðdáun mín á athugasemdum Kerrunnar. Þær lýsa svo eintökum hugarheimi sérvitrings  að það  þyrfti eiginlega að setja á þær þjóðminjasafn, svo einstöku afturhaldi og sérvitringshætti sem þær lýsa.En um sumt er hún merkilega upplýst og því hef ég gaman að því hversu hún leggur sig fram um að sýna fram á hversu gersamlegur heimskingi og íhaldsidjót  ég sé og að það sé hennar hlutverk að gera athugasemdir við það sem er er að bulla að hennar dómi í stað þess að berjast á einhverjum eigin alvöruvetttvangi. Hlýt ég eiginlega að þakka fyrir þessa einstöku eftirtekt. Að hún skuli nenna þessu og hvort hún haldi að hðún sé að bæta heiminn með þessum skrifum sínum.En endilega má hún halda áfram

Halldór Jónsson, 7.10.2021 kl. 16:15

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Mér gegnur illa með réttritunina stundum í flaustrinu

Halldór Jónsson, 7.10.2021 kl. 16:16

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Kostuleg er trúin á eigið ágæti:Ég reikna fastlega með því að þegar bensínbíll hefur ekki verið fluttur inn í nokkur ár og Borgarlínan verður tilbúin verði viðhorf fólks og ferðahættir með öðrum blæ en í dag. Umhverfisvitund þeirra sem þá verða mest á ferðinni er önnur en þeirra sem koma frá síðustu öld með sínar umhverfisspillandi ferðavenjur og viðmið fortíðar. Borgarlínan er ekki hugsuð sem lausn fyrir fortíðina og eins og þið gamlingjarnir, sem varla lifið að sjá lok framkvæmda, virðist halda.

Halldór Jónsson, 7.10.2021 kl. 16:18

5 Smámynd: Snorri Óskarsson

En ef CO2 áhrifin eru ofmetin og hlýnun jarðar af öðrum orsökum? CO2 er lífsnauðsyn fyrir grænan gróður og þörungalíf sjávar. Öll líkönin eru ekki endilega að styðja hamfarahlýnunina og Grænlandsjökull er ekki að hverfa. Á þessum dögum er stór borgarís við Hraunhafnartanga. Á Ísárunum áður voru sum árin íslaus. Sveiflur í veðrinu hafa alltaf verið og við landnám var hitinn á Íslandi hagstæður fyrir kornrækt t.d. Við erum að láta blekkjast af heimspeki lyginnar sem nota vísindi sem Trójuhest.

Snorri Óskarsson, 7.10.2021 kl. 16:31

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er líklegt að orkuskipti einkabílaflotans verði yfir staðin áður en svokölluð borgarlína kemst í gagnið, eins og þú bendir á Vagn.

Þá er spurningin, hvers vegna borgarlína, þegar allir eru komnir á hreinorkubíla? Hvers vegna ætti fólk að ferðast í stórum vögnum um borgina, vögnum sem að mestu verða knúnir metani eða vetni, í stað þess að nota litla rafknúna einkabílinn sinn?

Það þarf sjö sinnum meiri raforku til að framleiða vetni sem hefur sömu orkurýmd og rafmagnseining. Metan er tuttugu sinnum meiri hitavaldur í andrúmslofti en co2, eftir því sem loftlagsfræðingar segja.

Stefnum frekar að því að efla gatnakerfið. Nú þegar eru að koma á markað rafbílar, allt frá stórum pallbílum og jeppum niður í svo smá bíla að sumstaðar eru þeir ætlaðir unglingum. Verðin eru að sama skapi orðin fjölbreitt og fara lækkandi. Innan skamms tíma munu því flestir hafa efni á að eignast slíka bíla og eftir nokkur ár verða þeir taldir jafn nauðsynlegir og farsími.

Eftirspurn eftir stórum vögnum sem aka ákveðna leið mun því hverfa og sjálfsagt verða horfin áður en borgarlína verður að veruleika.

Gunnar Heiðarsson, 8.10.2021 kl. 07:57

7 identicon

Það er margt að breytast í umferðarmálum og viðhorfi fólks. Þeim fækkar stöðugt sem vilja eiga bíl og með tilkomu ýmissa valkosta er þörfin fyrir að eiga bíl minni. Fólk getur blandað saman mörgum ferðamátum eftir því sem hentar, t.d. rafskútu að strætó og svo deilibíl síðasta spölinn. Engin þrif, ekkert viðhald, engin dekkjaskipti o.s.frv.

Hverju er unga fólkið að venjast? Ekki því sem við vöndumst. Við hættum að leggja reiðstíga þegar við lærðum að nota bíla. Sennilega hafa einhverjir gamlingjar talið það hina mestu firru, allir munu vilja nota hesta áfram, bílar hafi ekki verið vinsælir og verði aldrei vinsælir.

Vagn (IP-tala skráð) 8.10.2021 kl. 15:21

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Athugasemd kerrunnar er sú furðulegasta sem maður getur ímyndað sér. Allir vilja eiga bíl og hann sem flottastan.

Eina ásæðan fyrir því að vilja ekki bíl er að hafa ekki ráð á því. Inga Sæland reddar því kannski og þá breytist margt.

Hver vill ekki geta keyrt í Nátthaga þegar gott veður kemur og skoðað hraunið án þess að bíða eftir strætó. Ég held að skoðun um æskilegt bílleysi standi stekki hvað meirihlluta fólks varðar,

Skyldi Kerran ekki vilja bíl ef hún ætti nægan skæs?  

Halldór Jónsson, 8.10.2021 kl. 21:38

9 identicon

"Allir vilja eiga bíl og hann sem flottastan"  Samkvæmt skoðanakönnun meðal miðaldra og eldri á bílasýningu í Brimborg.

"Skyldi Kerran ekki vilja bíl ef hún ætti nægan skæs"  Nei, mér finnst leiðinlegt að keyra og vesen að eiga bíl, ég á tvo af illri nauðsyn. Áhugi minn á Nátthaga er ekki meiri en svo að ég hef látið myndir annarra nægja, í öllum veðrum. Ég þyrfti að "eiga nægan skæs" til að geta ráðið skemmtilegan bílstjóra sem æki mér og sæi alveg um bílinn ef ég ætti að fá einhverja ánægju út úr bílaeign, og mín vegna mætti bíllinn vera ljótur.

Vagn (IP-tala skráð) 9.10.2021 kl. 16:59

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Skyldu bílar Kerrunnar vera á múmerum? Hún kemur mér aftur á óvart með þessum upplýsiongum

Halldór Jónsson, 10.10.2021 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband