Leita í fréttum mbl.is

Upplyfting

er að fáir skrifa um þessa hrútleiðinlegu pólitík á léttan og skemmtilegan hátt.

Það er ekki  öllum lagið að framkvæma slíkt. Stjórnmálamenn eru svo drepalvarlegir lengst af  að þeir geta ekki svo auðveldlega tekið grímuna niður sem er snýr að kjósendum og sýnir hversu drep uppteknir  þeir eru við að finna allskyns greiða til að færa þeim í þakklætisskyni fyrir atkvæðið.

En eins dauði er annars brauð er stundum sagt. Það er spurning hvort greiðann við þennan er ekki verið að taka  frá öðrum?

Villi Bjarna veltir því fyrir sér hvort stjórnmál séu ekki endalaus boðskapur um mismunun og skömmtun á einhverju sem er ekki á  hverju strái. Menn vilja gjarnan fá í vasann en vilja að aðrir borgi fyrir.

Villi skrifar þetta í Mogga dagsins. Það eru því miður margir sem ekki skoða Mogga daglega og gætu misst af þessari grein. Því set ég hana hér í heilu lagi:

"Fyrir 12 dögum fóru fram kosningar til Alþingis. Sá er þetta ritar hefur lifað 22 kosningar til Alþingis og man vel 19 slíkar kosningar. Lengi framan af snerust kosningar um það á hvern hátt væri hægt að sauma betur að þjóðinni með skömmtunarráðstöfunum og draga sem mest úr frjálsum viðskiptum.

Þá var það svo að alþingismenn urðu að vera reiðubúnir að ganga á mála hjá lyginni, alls staðar, í öllu og ávallt. Íbúar heilla sveita skrifuðu miða til síns þingmanns, sem hafði valdatækið skömmtun. Á miðanum voru óskir um mismunun og hagsmunafé sveitungum til handa. Í þeirri mismunun voru sveitungar misjafnlega jafnir. Jeppaleyfi var æðsta stig af hagsmunafé.

„Ísland úr NATO – herinn burt!“

Þá var einnig hrópað: „Ísland úr NATO – herinn burt!“ Mikhail Gorbachev tók Ísland úr NATO burt með því að öll fylgiríki Sovétsins gerðust aðildarríki NATO. Donald Rumsfeld tók svo herinn burt. Þá varð einn stjórnmálaflokkur, sem hafði ekkert til að berjast fyrir, og varð V... grænn!

Ekki var stríðsæsingurinn horfinn því nú vilja nokkrir í þeim flokki lýsa yfir hættuástandi í loftslagsmálum! Helst stríðsyfirlýsingu um loftslagsmál! Vopnið er skattar!

Óljóst er hver andstæðingurinn er. Svo virðist sem það sé venjulegt fólk, því hugmyndaauðgin um skattlagningu á venjulegt fólk á sér engin takmörk. Er ekki best að gera ekki neitt! Eins og flestum er kunnugt þá er það sem sýnist það sem er. Annað skiptir ekki máli!

Þannig lenti einn flokkur í mikilli tilvistarkreppu að þessu sinni. Hvernig átti flokkurinn að aðgreina sig? Það var erfitt. Því varð það spurning: Er ekki bara best að kjósa Framsóknarflokkinn? Og það svínvirkaði!

Í öllu falli á þá sem áður kusu Miðflokkinn, sem hafði orðið til úr tilvistarkreppu glataðs snillings! Sá flokkur hafði ekkert að berjast fyrir nema almenna heilsuvernd! Sennilega með loforði um eilíft líf. Líf þess flokks er nú ei líft! Sambandslaus flokkur og skiptir engu máli.

Sjálfstæðisflokkurinn rak sína kosningabaráttu á stuttum setningum án samhengis og kynnti helst frambjóðendur úr öðrum hreppum! Í það minnsta í mínu kjördæmi! Skal ósagt látið um niðurstöðuna!

Leiðinleg, skapvond og andleg auðn!

Einn flokkur skar sig úr frá öðrum flokkum í kosningabaráttunni. Það er turninn Samfylking!

Sambræðingur sósíaldemókrata, sósíalista og femínista! Eiginlega er flokkurinn ekkert af þessu! Flokkurinn er fyrst og fremst andleg auðn! Eiginlega ekki neitt og enginn vill bjóða þessum turni upp í dans! Formaðurinn alltaf í vondu skapi í ásýnd þjóðarinnar. Nokkrir frambjóðendur illgjarnir. Sífelldar hótanir um skattahækkanir og stýringu á öllu í mannlegu atferli með sköttum og álögum. Nokkrir sem sýna af sér yfirgripsmikla vanþekkingu. Fornaldarkratarnir eru horfnir!

Það sem einkennir turninn er ráðaleysi Kvennalista. Tómt flatbotna rím! Þó öllu ljúfara lið en margblaða Smári! Um það lið má segja að útlitið hafi verið innrætinu skárra og var þó með því alskuggalegasta! Eins og ræpan í nútímaskáldskap! Margt sagt eins og verið væri að klóra striga!

Kosningabaráttan var leiðinleg og ekki með hagsmuni almennings að leiðarljósi!

Hagsmunasamtök

Að þessu sinni voru það ýmis hagsmunasamtök sem gerðust stjórnmálaflokkar en buðu þó ekki fram til Alþingis. Öryrkjabandalagið og Sálfræðingafélagið gengu í bandalag. Alþýðusambandið taldi kjósendum trú um að hagfræðin væri úrelt vísindi því það er nóg til! Lögmál skortsins horfið!

Lífskjarasamningar snerust um kröfur gagnvart löggjafanum í skýrri andstöðu við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Afskipti hagsmunahópa með þessum hætti, þótt stéttarfélög séu, eru tilræði við lýðræði. Ef stéttarfélög vilja verða stjórnmálaflokkar, þá verða þau það, en sem stéttarfélög búin að vera. Þá verður erfitt að verja forgangsréttarákvæði í kjarasamningum. Enda standast þau ekki lög og hugmyndir um mannréttindi hvort eð er!

Hvað svo?

Eftir að kosningavíman er runnin af þjóðinni og þjóðkjörnum frambjóðendum rennur á alla óráð raunveruleikans. Hafrannsóknastofnun gefur von! Loðna sem aldrei fyrr. Sennilega vita allir að allt er á hausnum hjá hinu opinbera nema skattstofan. Opinberar skuldir eru sem næst 1.100 milljarðar. Um þessar skuldir var ekki kosið. Þetta eru að vísu mestan part skuldir okkar á milli. Þær þarf ekki að borga með útlendum peningum!

Í raun sannaðist það sem þingmaðurinn góði sagði eitt sin í sínu óráði: „Hvað varðar oss um þjóðarhag!“ Það var heldur ekki kosið um hvernig á að koma 3.000 bændum úr fátækt! Laxveiðihlunnindi bjarga nokkrum!

Flokkur fátækra fjallaði alls ekki um það, heldur beit í Borgara og fór í Stuð. Í óráði raunveruleikans sitja þrír flokksformenn og reyna að koma sér saman um óljósa framtíð. Einn flokkurinn er með nokkrar órólegar deildir. Hver og ein deild er með ófrávíkjanlegar kröfur. Stundum um stríð! Eins og loftslagsstríð! Stríð sem enginn bað um.

Það er margt auðvitað! Það liggur fyrir að langflestir þeirra sem hér búa nú ætla sér að lifa hér áfram. Til þess að geta lifað eðlilegu lífi þarf innviði. Innviðir eru sjúkrahús, skólar, vegir, virkjanir, flugvellir og svo má lengi telja. Ef innviðir eru fyrir hendi eru borgurunum margir vegir færir, svo fremi að lamandi hönd leggist ekki gegn frumkvæði. Það kann að orka tvímælis í hve ríkum mæli kjörnir fulltrúar geta tekið sér vald til að færa eignir á milli hópa í samfélaginu.

Hæstiréttur kveður stundum upp undarlega dóma. Þannig segir einn undarlegur hæstaréttardómur um lögmæti skattlagningar:

„Sökum þess að löggjafanum hefur verið játað verulegu svigrúmi til að ákveða þau sjónarmið sem búa að baki skattlagningu og að teknu tilliti til þess að auðlegðarskattur er tímabundinn er ekki næg ástæða að líta svo á að með þeim mun á skattleysismörkum, sem gerður er í ákvæðum til bráðabirgða XXXIII og XLVII, sé brotið gegn 65. gr., sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.“

Annaðhvort felur skattur í sér lögmæti eða ekki. Tímabundið lögmæti! Er það hlutverk Hæstaréttar að ákveða slíkt?

Eftir stendur að 30% skattgreiðenda greiða sem næst 80% af álögðum sköttum, þá er spurning hvort skattlagning sé almenn!

Eftir stendur almenningur

Nýliðnar kosningar snerust aldrei um hagsmuni almennings. Oftast gegn hagsmunum almennings. Við skulum vona að guð láti gott á vita og formenn vitrænna stjórnmálaflokka í óráði raunveruleikans hafi hagsmuni almennings að leiðarljósi í stjórnarmyndunarviðræðum.

Það er ekki á ungt fólk leggjandi að borga endalaust fyrir óskhyggju vegna góðmennsku í garð gamals fólks!

En hvurnin eiga karlmenn að skilja kvenmenn? Það eru ekki til ólíkari skepnur!Annaðhvort að trúa ykkur eða ekki!

Það er þó venjulegt fólk sem byggir þetta land!"

Mér varð upplyfting að lesa þennan pistil sem tekur mann aðeins út fyrir kassann og sýnir manni framan í sjálfan sig í spéspegli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær grein hjá Villa 

Kristmann Orn Magnússon (IP-tala skráð) 9.10.2021 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband