Leita í fréttum mbl.is

Athyglisvert viðtal

 
 
 
 
 
er í Morgunblaðinu við pólska sendiherrann.

Tengsl Íslands og Pól­lands hafa orðið æ nán­ari und­an­farna ára­tugi, einkum vegna þess mikla fjölda Pól­verja sem sest hafa að hér á landi um lengri eða skemmri tíma. Fyr­ir sitt leyti fengu Íslend­ing­ar kær­komna staðfest­ingu á þeim vináttu­bönd­um í miðju banka­hrun­inu, þegar Pól­verj­ar voru auk Fær­ey­inga ein­ir þjóða til þess að rétta Íslandi fjár­hags­lega hjálp­ar­hönd þegar önn­ur ná­granna­ríki og banda­menn sneru við því baki og þjörmuðu raun­ar sum að því.

Síðustu vik­ur hef­ur pólska ríkið hins veg­ar átt í erj­um við Evr­ópu­sam­bandið, sem á yf­ir­borðinu snú­ast um vald­mörk rík­is­ins og rétt borg­ar­anna. Af hálfu pólskra stjórn­valda er þar hins veg­ar um full­veldi rík­is­ins að tefla, gildi pólsku stjórn­ar­skrár­inn­ar og eðli aðild­ar Pól­lands að Evr­ópu­sam­band­inu. Af því til­efni ræddi Morg­un­blaðið við sendi­herra Pól­lands á Íslandi, Ger­ard Pokruszyñski.

„Við Pól­verj­ar erum mikl­ir Evr­ópu­bú­ar og stuðning­ur við Evr­ópu­sam­bandsaðild er nán­ast hvergi jafn­mik­ill eða um 85%. Það er meira en í Frakklandi eða Þýskalandi. En 78% Pól­verja eru jafn­framt þeirr­ar skoðunar að stjórn­ar­skrá Pól­lands sé æðri Evr­ópu­rétti.

Pól­land hef­ur notið góðs af E

vr­ópu­sam­band­inu á ótal sviðum. Það hef­ur gert okk­ur kleift að ná örum efna­hags­fram­förum eft­ir að landið öðlaðist frelsi á ný eft­ir 1989 [þegar kalda stríðinu lauk], opnað ná­granna­rík­in fyr­ir okk­ur og opnað Pól­land – 40 millj­óna manna markað – fyr­ir fyr­ir­tækj­um frá öðrum Evr­ópu­sam­bands­ríkj­um. Og ekki aðeins frá Evr­ópu­sam­band­inu (ESB) held­ur einnig öðrum ríkj­um eins og Íslandi, því Íslend­ing­ar eiga t.d. fisk­vinnslu í Póllandi.

Það hef­ur fært okk­ur frjálsa för fjár­magns, vöru, þjón­ustu og fólks. Fyr­ir 1989 sögðum við að Pól­verj­ar sem komust vest­ur yfir hefðu náð að flýja. Núna er það orðið al­vana­legt að pólskt fólk fari til annarra landa að vinna í 5-10 ár, kannski leng­ur, og snúi svo aft­ur heim.“

Pólsk­ir Íslend­ing­ar

Það kem­ur líka til Íslands.

Já, Pól­verj­ar eru lang­stærsti minni­hluta­hóp­ur á Íslandi. Og það má finna Pól­verja um allt land í alls kon­ar störf­um. Mikið í fisk­vinnslu hring­inn um landið og í sum­um fiskiðju­ver­um eru nær ein­vörðungu Pól­verj­ar að störf­um. Marg­ir hafa fest ræt­ur, börn­in þeirra eru í ís­lensk­um skól­um og tala ís­lensku, en við höf­um sums staðar skipu­lagt pólska skóla á laug­ar­dög­um til þess að kenna pólsku, pólska sögu o.s.frv.

Svo er líka gam­an að nefna hitt, að í Póllandi eru nokk­ur þúsund ungra Pól­verja sem hafa flutt þangað aft­ur með for­eldr­um sín­um, en kunna ís­lensku og sum­ir nota hana áfram sín á milli, hafa til­einkað sér ís­lenska menn­ingu og halda sam­bandi við vini á Íslandi. Margt af þessu unga fólki hef­ur svo komið aft­ur hingað til Íslands þegar það er orðið full­orðið. Það á sér þannig tvö heima­lönd og lönd­in tvö eiga að rækta með sér þetta sér­staka sam­band.“

Sjálf­stæðið og Evr­ópa

Þið metið sjálf­stæðið mik­ils.

„Já, og ein­mitt þess vegna er þessi deila við Evr­ópu­sam­bandið svo erfið. Eft­ir allt það sem á und­an er gengið í sögu lands­ins tök­um við full­veldið ákaf­lega al­var­lega. Við erum heils­hug­ar í Evr­ópu­sam­band­inu og eft­ir­lát­um því og stofn­un­um þess marg­vís­leg völd. En í full­veld­inu felst einnig ým­ist vald, sem við vilj­um ekki og get­um ekki fram­selt.“

Er Mateusz Morawiecki, for­sæt­is­ráðherra Pól­lands, ekki að ögra ESB?

„Nei. Þegar um er að ræða úr­sk­urð stjórn­laga­dóm­stóls Pól­lands um hvar dómsvaldið ligg­ur, þá hef­ur hann ekk­ert val um það.

En þá má ekki held­ur gleyma því að aðrir stjórn­laga­dóm­stól­ar í Evr­ópu hafa áður kom­ist að sams kon­ar niður­stöðu. Það hef­ur þýski stjórn­laga­dóm­stól­inn hvað eft­ir annað gert og sömu­leiðis í Frakklandi, Ítal­íu, Spáni, Dan­mörku og svo fram­veg­is.“

Hvað er þá málið?

„Þessi deila hófst með dómi stjórn­laga­dóm­stóls­ins um fóst­ur­eyðing­ar fyr­ir réttu ári. Á mál­inu geta menn haft ýms­ar skoðanir, en í dómn­um var vísað til af­drátt­ar­lausra stjórn­ar­skrárá­kvæða um friðhelgi manns­lífs­ins. Þá er deil­an um hvenær manns­lífið hefst og þá vand­ast í því, þar sem Pól­land er að miklu leyti kaþólskt land og mis­tök að líta fram hjá því.“

Gagn­rýn­end­ur benda á að stjórn­ar­flokk­ur­inn hafi skipað dóm­ara sér hliðholla í rétt­inn.

„Dóm­ar­ar í hann eru vald­ir með ná­kvæm­lega sama hætti og verið hef­ur all­ar göt­ur frá 1989, en þingið vel­ur þá. Þess vegna hafa þar oft verið dóm­ar­ar sem tald­ir eru hinn­ar og þess­ar­ar skoðunar, en þeir dæma eft­ir stjórn­ar­skránni og um það er ekki deilt.

Hins veg­ar er deilt um það hvort í Póllandi sé það pólskt dómsvald og pólsk stjórn­ar­skrá sem ráði, eða hvort Evr­ópu­rétt­ur­inn sé þeim æðri. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík mál koma fyr­ir rétt­inn, það gerðist líka 2005 og aft­ur 2010 þegar allt aðrir dóm­ar­ar skipuðu rétt­inn, en niðurstaða þeirra var hin sama um gildi stjórn­ar­skrár­inn­ar.“

Hver er þá mun­ur­inn?

„Mun­ur­inn er sá að nú vill Evr­ópu­sam­bandið setja sig ofar full­veldi Pól­lands og á það er ekki hægt að fall­ast.“

Ekki á för­um úr ESB

Þarna eru fleiri mál sem hafa valdið úlfúð í Brus­sel og víðar, t.d. um rétt­indi kynseg­in fólks, tján­ing­ar­frelsi og fleira. Hef­ur Pól­land anað út í menn­ing­ar­stríð við önn­ur lönd ESB?

„Mögu­lega, en í Brus­sel verða menn samt sem áður að sætta sig við að skoðanir Pól­verja séu eins og þær eru. Þær kunna að breyt­ast með tím­an­um, en hér erum við samt, hér og nú.“

Þið eruð ekk­ert á för­um þegar 85% styðja aðild?

„Nei, alls ekki. Við eig­um heima í Evr­ópu­sam­band­inu og þar vilj­um við vera.“

Sem skerpir skilning á skilyrðum Evrópusambands aðildar sem forkólfar fullveldis framsalsins á Íslandi virðast ekki skilja. Þýlyndi þeirra er svo algert að þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Krefjast algerrar tilbeiðslu.

Það er þjóðernisvitundin sem verður ekki upprætt. Það eru 27 fánar sem blakta í Evrópu Samvinna í atvinnumálum og verslun er allt annað og getur alveg þrifist án þess að ríkin verði Bandaríki Evrópu með einn fána einn her og alríkislög.Það skilur ekki Samfylkingin né Viðreisn. En svona samband verður aldrei án hnökra vegna þjóðarstoltsins á hverjum stað.

Fólkið segir hingað en  ekki lengra.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skoðanir Pól­verja skipta engu máli. Vilji þeir vera í ESB þá geta þeir ekki mismunað fólki eftir geðþótta og dæmt eftir duttlungum stjórnvalda. Réttindi þín eiga að vera jafn tryggð hvort sem þú ert í Þýskalandi eða Póllandi. Vilji Pólverjar það ekki þá er ekki hægt að hafa þá í félagi með þeim þjóðum sem tryggja öllum meðlimum sömu mannréttindi og óháð réttarkerfi. Samræmist skoðanir og hegðun Pólverja ekki ESB aðild þá verða þeir að taka því að verða hent út. Þeir fá ekki allt fyrir ekkert frekar en Bretar. Gæðunum fylgja skuldbindingar.

Vagn (IP-tala skráð) 28.10.2021 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 3420146

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband