Leita í fréttum mbl.is

Reykjavíkurbréf

Morgunblaðsins eru líklega þeir pistlar sem jafnmargir bíða með eftirvæntingu. Veldur aldur og reynsla höfundarins því þar sem vandfubndnir eru þeir Íslendingar hverra sögulega reynsla jafnast á við það sem samankomið er í þeim manni sem þar heldur á penna.

Bréfin eru auðvitað misáhugaverð en þegar vel tekst til eru þeir fáir sem sitja af sér að lesa.

Um þessa helgi vra einkar fróðlegt að lesa um kynni höfundar af sögulegum viðburðum úr samtíma hans.

Bréfið er svona í heild sinni og leyfir bloggari sér að feitletra það sem honum virðast punkti saliensi í textanum.

 

"Margur áhugamaður um það efni, hefur velt fyrir sér hvaða hæfileikar drægju lengst við að skipa mönnum í forystusæti í stjórnmálum og jafnvel svo að þeir eða sá fengi þann dóm að lokum að þar hafi farið fágætur stjórnmálaskörungur.

Dauðyfli sem drýpur af

Þekkt er sú kenning að ekkert eitt geti hjálpað meir þegar mjakast skal upp metorðastiga stjórnmála, en að hafið sé yfir allan vafa að maðurinn sem klifrar sé jafn leiðinlegur og hann sýnist, og bregðist sjaldan í því. Það sé óskeikult merki um alvörugefni og heilbrigða þrjósku sem öll gamansemi sem glittir í spillir. Og þetta styrkleikamerki stirðbusans hljóti að þurfa að vera afar fyrirferðarmikið hjá þeim sem fæst við alvörumál á hástigi, eins og það er að veita þjóð forystu eða leiðsögn lengur en aðrir eða á örlaga skeiði þar sem á forystuna reynir meira en endranær. Eitt er þó að vera leiðinlegur með traustinu sem slíku fylgir, og það jafnvel svo rækilega að það stafi frá viðkomandi langa leið og hitt að kímnigáfan sé í minna mæli.

Handtaskan skæðari en skriðdreki

Frú Thatcher hafði að mestu týnt kímnigáfunni eða fengið nauman skammt í vöggugjöf. En það þýddi ekki þar með að hún væri leiðinleg, öðru nær. Hún var mjög áhugaverð. Allir, landar hennar, sem erlendir starfsbræður sem stóðu á sama palli stjórnmála, urðu að hafa sig alla við. Hún vissi flest og einkum og sér í lagi þá vissi sú kona hvað hún vildi. Það er óumdeilt að fáir hafi skorið sig svo myndarlega úr og veitt breskri þjóð afgerandi forystu með öflugri hætti. Hefði hún tilkynnt hvert hún stefndi var rétt að gera sér grein fyrir því að allar líkur stóðu til þess að hún færi á leiðarenda. Það var eiginlega nýlunda í fari stjórnmálamanna. Og flest það sem hún hafði í gegn þegar handtöskunni var sveiflað sem handsprengja væri, reyndist vera til batnaðar fyrir þjóðina, sem hafði búið eilífan afturkipp um alllanga hríð. Að þessu bjó þjóðin og býr enn. Þess vegna var hún kosin á ný, aftur og aftur.

Og það herti sjálfstraust gamla heimsveldisins, sem hafði óneitanlega skroppið saman, að frúin knúði að auki fram hernaðarsigur í óvæntu stríði um Falklandseyjar, sem háð var í þúsunda kílómetra fjarlægð frá eyjunni norðan Ermarsunds. Þar var frú Thatcher lifandi komin.Og hún átti vin í Washington sem reyndist henni betri en enginn.

Frú Thatcher var spáð skammri valdatíð og kannanir fyrsta kjörtímabil virtust staðfesta þær væntingar. En hún blés á þær spár og út í buskann þær hurfu fyrr en síðar.

Dvergarnir sameinuðust gegn drottningunni

En það voru ekki pólitískir andstæðingar í öðrum flokkum sem bundu enda á tilkomumikla tíð. Þar voru einkum öfundarmenn í hennar eigin flokki og helst þeir sem töldu að frúin bugtaði sig ekki nægjanlega langt fyrir búrókrötum á meginlandinu.

Boris Johnson er með fyndnustu stjórnmálamönnum samtímans og hætt er við að frú Thatcher hefði þurft að fá sundurgreiningu á hvers vegna væri hlegið að einstökum efnistökum hans. Og þótt það yrði gert svo vel sem mætti, er alls ekki víst að hún hefði verið neinu nær. Kímnigáfan hafði gleymst þegar raðað var í hana mörgum og mikilfenglegum hæfileikum í öndverðu. En hún hefði hins vegar verið full aðdáunar á þessum snjalla eftirmanni sínum langt umfram aðra, sem gegnt hafa því starfi, fyrir það afrek að tryggja Bretum leið út úr ESB.

Edward Heath var lengi samsíða frú Thatcher í flokki þeirra og hún gegndi ráðherrastarfi í ráðuneyti hans. Hann þoldi hana hins vegar því verr sem lengri tími leið frá. Þó höfðu um hríð gengið sögur um að persónulegar tilfinningar hefðu kviknað þeirra á milli en ekki dugað í bál.

Heath var ákafamaður um samruna Breta við Evrópustússið. Hann var öflugur maður en varð bitur, óánægður og argur, sem hann gat helst ýtt dálítið frá sér er hann naut tónlistar, en hann var fær maður og áhugasamur á því sviði.

Sú saga er sögð að í forsætisráðherratíð Thatcher hafi Elísabet önnur boðað til fundar í nefnd sem átti undir krúnuna og í lok hans hafi verið ákveðin myndataka. Heath fyrrum forsætisráðherra, sem var í þessum hópi, var að leita að sínu plássi þegar hin stjórnsama, fyrrum gamla vinkona hans, benti honum á og sagði „þú átt að vera hægra megin við mig.“ Heath svaraði svo aðrir máttu heyra: „Það getur nú orðið erfitt.“

Nokkrir viðstaddra réðu ekki við sig, þótt virðulegir væru og orðum skrýddir og skelltu ósjálfrátt upp úr. „Nei,“ sagði frú Thather og benti enn ákafar „það er nóg plass þarna hægra megin við mig.“ Og þá losnaði um fleiri bönd og nær allur mannskapurinn hló hærra en vant var við slík tækifæri.

„Sagði ég eitthvað fyndið?“ spurði forsætisráðherrann og þá hækkaði enn í hlátrinum. „Ekki svo að Vér heyrðum,“ sagði Elísabet II. og datt þá allt í dúnalogn.

Hirðmeistari hrekktur

En allir sem þekkja til drottningarinnar vita að hún er glaðlynd og hefur ágætt skopskyn. Bréfritari hefur hitt hana nokkrum sinnum, en aðallega þó tvívegis sama daginn. Þá kom hún ásamt Philip prins, manni sínum, til að heilsa upp á borgarstjórn og æðstu embættismenn í Höfða, sem var þáttur í opinberri heimsókn hátignanna til Íslands. Þau stoppuðu sennilega svo sem 45 mínútur í Höfða og heilsuðu upp á hvern gest og spjölluðu við marga. Myndir sem til eru af atburðinum sýna að gestirnir voru með gleðibrag og mætti síðar segja sögur af því þegar það er við hæfi.

Um kvöldið var boðið til veislu um borð í flaggskipi Drottningar, Britannia, sem lá við bryggju í Gömlu höfninni í Reykjavík, glæsilegt skip og frægt. Þegar gestirnir höfðu fengið fordrykk barst út að gestgjafarnir kæmu fljótlega í hátíðarsal skipsins. Hirðsiðameistari, eða eitthvað því um líkt, kynnti að hátignirnar myndu heilsa gestunum í virðingarröð og hann og aðstoðarmenn hans tóku að raða innfæddum upp. Bretar eru frægir fyrir að elska það að standa í röð. Í borgum þar mega ekki tveir menn bíða eftir stætó án þess að skipa sér í röð! Slíkt myndi virka skrítilega á Íslendinga. En hvað sem því líður gekk vel að stilla upp röðinni í Britanniu og ljóst að þá væru aðeins um 10 mínútur eftir í að gestgjafar birtust. Ólafur biskup og borgarstjórinn voru saman í röð, góðir og gamlir kunningjar og tóku tal og skiptust á sögum og fréttum. Þá var slegið í bjöllu og allt þagnaði. Drottningin og maður hennar komu inn í fylgd hirðmeistara, sem kynnti hvern gest með titli. Þegar kom að Ólafi Skúlasyni biskupi sagði hirðmeistari: Borgarstjórinn í Reykjavík, herra Oddsson. „Er það virkilega,“ sagði drottningin, „hann hefur þá bæði lengst og grennst síðan í dag!“

Okkur Ólafi biskupi hafði tekist að rugla tveggja manna röð, sem er ekki auðvelt. Borgarstjórinn stakk krulluðu höfðinu fram fyrir bol biskupsins og þau hjón skelltu bæði upp úr og drottningin sagði, „það var það sem Vér héldum.“

En hirðmeistarinn horfði manndrápsaugum á borgarstjórafíflið og hefði örugglega látið kasta því í dýflissu í Tower of London hefði hann enn haft vald af því tagi.

Margt líkt með hinum ólíku mönnum

Árið 2005 kom út bókin Greatness, Reagan, Churchill & the making of extraordinary leaders. Ólafur Arnar læknir, heiðurskonsúll í Minnesota, og góður vinur, var svo elskulegur að senda mér bókina á sínum tíma. Og fyrir minn hatt má mæla með henni. Hún gamlast ekki mikið, því hún er að mestu bundin við fastan tíma, sem er ekki svo langt undan.

Bréfritari hitti Reagan og Gorbatsjev stuttlega saman í Höfða 1986 sem var mjög eftirminnilegt og er myndin af því atviki við vinstri öxl hans þegar þetta er skrifað. Það gafst svo dýrmætt tækifæri til að hitta Gorbatsjev á ný og ræða við hann í góðum tíma þegar fundum okkar bar saman í New York og þar sem við vorum að auki sessunautar í myndarlegum kvöldverði. Var þetta sérlega eftirminnilegt og styrkti álitið á þessum sögufræga manni. Ekki hefur vantað áhugann á Churchill. Varla er farið til London án þess að fá sér göngutúr til 28 Hydepark Gate sem er götustubbur, en í húsinu númer 28 dó Churchill, sama dag, en 50 árum síðar en að faðir hans lést. Sé tíminn nægjanlegur er skotist í Churchill-safnið, við hlið The War Rooms (örskot frá Downingstræti 10), þar sem forsætisráðherrann var þegar loftárásirnar dundu á London. Þar stendur allt óhreyft. Ríkisstjórnarherbergið, litla svefnherbergið hans og símaklefinn með beinu línunna til Roosevelts forseta í Hvíta húsinu.

Á vor- eða sumardegi er upplagt að skjótast suður til Chartwell, seturs Churchill og fjölskyldu hans, sem er ríflega klukkutíma keyrsla frá London. Og í hina áttina, í námunda við Oxford, er vel varið degi til að fara í Blenheim-kastala, þaðan sem Churchill átti svo ríkulegar bernskuminningar. Og örstutt frá glæsilegum kastalanum er litli sveitakirkjugarðurinn þar sem bjargvættur Bretlands er jarðsettur undir látlausum stórum steini, nærri föður sínum, konu og fjölskyldu.

Bréfritari var staddur vestra þegar Ronald Reagan lést og var boðið að vera við jarðarförina frá dómirkjunni í Washington. Þar var gamla vinkona forsetans, Margaret Thatcher, að fylgja mikilvægasta samstarfsmanni sínum og vini, nokkuð við aldur, en lét sig hafa að fljúga svo með kistunni til Kaliforníu og þar var hún viðstödd lokapunkt jarðarfarar forsetans, í félagskap frú Nancy Reagan, aðstandenda og vina. Allt var þetta eins og það átti að vera.

Því lengur sem blaðað er í fyrrnefndri bók styrkist myndin af því hvað þeir Reagan og Churchill áttu margt sameiginlegt, þótt hvergi sé dregið af að gera hinu, sem ólíkt var, góð skil.

Gæti lagast

En bæði austan hafs og vestan er ekki laust við að núverandi samanburður við þennan liðna þátt kalli á nokkurt vonleysi og dálitla undrun. Um alllanga hríð hefur verið rætt um Angelu Merkel sem „öflugan leiðtoga“. Hvernig lýsti það sér? Hún er þegar gleymd! Hún skildi Þýskaland eftir í vaxandi mæli orðið háð Kína, og auðvitað sífellt háðara Rússlandi Pútíns og með svokallað ESB í hálfgerðri klessu.

Ursula von der Leyen og einhver C. Michel eru sögð stjórna því. Seinasta stóra fréttin af þeim tveimur var um pínlegan slag þeirra um það, hvort þeirra fengi stól á fundi með Erdogan forseta Tyrklands!

Margoft er minnt á, að hvert ESB-land þurfi að samþykkja stefnu þess, til merkis um hina styrku stöðu lýðræðis innan sambandsins. En þegar eitthvert „smáríkið“ (Ungverjaland núna) hlýðir ekki strax þá er því eftir fáeina daga hótað að styrkir sem það gat vænst verði teknir af því!!!

Er allt í lagi í þessari ESB-veröld? Von der Leyen, sem þarna hikaði ekki við að hóta litla landinu, er fyrrum háttsettur ráðherra Þýskalands, sem vann hörðum höndum að því að gera land sitt algjörlega háð rússneskri olíu. Það er vandi dagsins. Á sama tíma þóttist Þýskaland hafa verið með harðar efnahagsþvinganir við Rússa frá 2014 til að ná Krímskaga aftur. Hvern er verið að plata? Og því miður gera íslensk yfirvöld sig að börnum þegar þau monta sig af því að hafa verið með efnahagsþvinganir við Rússa í átta ár. Halda þeir á Rauðarárstíg að við ein getum náð Krímskaga aftur? Hvar hefur þetta fólk haldið sig síðan 2014? Hefur enginn bent því á að Þjóðverjar og Frakkar voru í þykjustuleik í efnahagsþvingunum allt fram til miðs apríls síðstliðins? Og eru að mestu enn.

Þess vegna fengu leiðtogar þeirra að skríða undir langa borðið Pútíns í Kreml, sem sífellt lengdist, eins og nefið á Gosa.

Var það þess virði?"

Það eru ekki margir núlifandi Íslendingar sem hafa kynnst fyrirmönnum eins og ritari Reykjavíkurbréfsins þegar hann fer í minnisskjóðuna.Vonandi hættir hann hvergi í bráð að segja frá kynnum sínum af mönum og málefnum í Reykjavíkurbréfum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 3420141

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband