Leita í fréttum mbl.is

Evrópudellan

Það er oft gaman að hlusta á Jón Baldvin Hannibalsson. Á laugardagsmorgun  var hann í útvarpinu ásamt fleirum  í Krossgötum.  Þar lýsti hann því að Reykjavík væri amerísk borg, urban sprawl,með engar almenningssamgöngur og 3 bíla á hvert heimili. En hann vildi ganga í Evrópusambandið og finnst hann vera Evrópumaður, enda var Lenin Rússi og maður gleymir ekki pólitískum uppruna sínum.

 

Mér fannst þetta athyglisvert og leiddi hugann að mörgu sem ég skil í raun ekki.

Það er alltaf verið að tala um að við séum Evrópuþjóð, sem eigi að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru. Við erum líka alltaf að taka upp Evrópustaðla og reglugerðir og lepjum allt upp hrátt sem þaðan kemur. Frjálst flæði innflytjenda og hver veit hvað.

 

Hvað er Evrópusambandið ? Það er tollabandalag gegn Bandaríkjunum sérstaklega og svo öllum utan bandalagsins. Það er innbyrðis hagsmunasamband sem hefur gert margt gott fyrir bandalagsþjóðirnar og haldið friðinn milli Þjóðverja og Frakka-, enn sem komið er.

 

Jón Baldvin kemst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að við séum Evrópuþjóð, sem eigi að hanga aftan í Norðurlandaþjóðunum. Við séum hinsvegar varnarlaust rekald, sem er rétt..

 

Er þetta Evróputal ekki þráhyggja sem við erum hætt að efast um ? Erum við ekki miklu bandarískari að allri menningu og lífsstíl heldur en við tökum eftir. Væri okkur ekki hollara að taka meira mið af bandarískum stöðlum og reglugerðum heldur en að hanga svona í Evrópu.

 

Tölvan  og netið eru fædd í Bandaríkjunum. Bandarískir staðlar voru  langt á undan evrópskum stöðlum, sem eru í rauninni oft léleg stæling á bandarískum stöðlum, og auðvitað til muna ógreinilegri og þvælukenndari eftir að þýzkir grillufángarar hafa dritað í þá ótal breytum sem takmarkaða þýðingu hafa. Öll bestu burðarþolsforrit heimsins eru bandarísk og þau nota íslenzkir verkfræðingar . Þar þvælast bara evrópustaðlarnir fyrir þó að forritin verði sífellt betri og geti stillt sig á evrópskar kenjar sum hver. Allt þetta evrópukjaftæði bara stórspillir fyrir á flestum sviðum, til dæmis Rarik og Orkusalan, tveir reikningar fyrir einn og áfram má telja. Tveir einokunaraðilar í eigu sama aðila í stað eins með tvöföldum kostnaði er það sem Íslendingar hafa uppúr þessum eltingaleik við þessa Evrópuhugmynd.. En einkafyrirtækið Frumherji  hefur svo einkaleyfi á öllum orkusölumælum ! Hvaða evrópuformúla skyldi það vera. ?

 

Þetta er ekki bandarísk nálgun að rekstri. Bandaríkin eru svo langt á undan Evrópu tæknilega, að þar skilur himin og haf. En okkur er innrætt að líta niður á þau af því að Bush sé bjáni og þeir eigi ekki neinar fornsögur eins og við. Þessvegna megum við ekki nota hér bandaríska staðla samhliða evrópustöðlum, ekki reikna í þeirra einingum ef við viljum og svo framvegis.

Flugið er líka fætt í Bandaríkjunum og flugeiningar eru bandarískar, fet, hnútar, mílur etc. Samt lepjum við upp allt frá Evróusambandinu, gott eða illt gagnrýnislaust , en blásum á allt bandarískt, bæði próf, menntun osfrv.. Sem eru þó  mesta flugþjóð í heimi.

 

Mér finnst ég ekkert vera neinn sérstakur Evrópumaður. Mér finnst við Íslendingar séum ekki  nein sérstök Evrópuþjóð. Við erum frjáls þ.jóð sem liggur á krossgötum sem getur nýtt það besta úr báðum heimum. Við lifum í amerískum stíl, við hugsum eins og bandarískur kapítalisti þó við séum enn sannfærð um nauðsyn öryggisnets þjóðfélagsins.

 

Við erum bílaþjóð sem vill ekki keyra í strætó, lifa í þröngum miðbæjum með fylleríi og sukki á götunum. Við viljum vinna og græða peninga og  búa í úthverfum. Urban sprawl er það sem við viljum. Við viljum geta ferðast að vild en við viljum  ekki yfirfylla hér allt með gagnkvæmni í innflytjendafjölda.

 

Evrópusambandið getur enga ákvörðun tekið ef kemur að hernaði.Sjáið þið hvað það gat gert í Bosníu . Það var bara Kaninn sem gat leyst það mál þó að það stæði Evrópusambandinu nær.

 

Það er ekkert gagn í norskri orustuþotu, því það er ekkert á bak við hana sem einhver hræðist. Bandaríska flaggið þýðir bisness. Á bak við það er ein þjóð með eina stjórn, vitlausa stjórn eða ekki, það er stjórn sem getur tekið ákvörðun og framfylgt henni. Í Evrópusambandinu er öllu skotið í nefnd, sem auðvitað getur aldrei afgreitt neitt. Því er ekkert gagn í varnarsambandi við Evrópu öðru vísi en hægt væri að gera hernaðarbandalag við einstakt ríki, Frakka eða Þjóðverja. Það er bara ekki hægt. Því verðum við að treysta á Bandaríkin okkur til hjálpar ef til stykkisins kemur auk þess sem við ættum að treysta á okkur sjálf í ríkari mæli.

 

Eigum við ekki að velta þessu Evróputali aðeins betur fyrir okkur? Evrópa hefur aldrei getað leyst sín mál sjálf. Hún hefur alltaf orðið að treysta á Kanann sér til bjargar þegar í harðbakkan slær. Og auðvitað hreytt skít í hann í þakklætisskyni þegar ógnin er afstaðin. Blair reyndi þó að vera vinur vinar síns í Irak og þeir Dabbi og Dóri líka En af því að allt gengur ekki eftir plani, þá stöndum við og görgum gegn Bandaríkjunum. Ekki finnst mér okkur alltaf farast stórmannlega.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar L Benediktsson

Gott og vel, en er eftilvill kominn tími til að vitleysisjafna þetta ?

Ragnar L Benediktsson, 2.7.2007 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband