Leita í fréttum mbl.is

Haldið þið að þjóðin sé fífl ?

Nú eyða þeir tímanum okkar niðri á Alþingi í  að þvarga um hvort eða hvernig við eigum að sækja um aðild að ESB. Þeir gera akkúrat ekkert í að fást við vandmálin nema að koma bensíninu í 200 kall, hækka skatta og fleiri píslir sem kommarnir  eru nótt og dag að finna upp til að leggja á þá sem enn draga andann á landinu. 

Eitthvað um 18000 atvinnulausir eru núna í landinu okkar.   Atvinnuleysistryggingasjóður er tómur eftir 5 mánuði eða fyrr ef bótaþegunum fjölgar. Er þetta lið með réttu ráði yfirleitt ? Hvað ætla þeir að gera í október ? Væri þeim ekki nær að ræða um það ?

Hvort ekki sé rétt að reka AGS úr landi sem snarast og hætta að að láta erlenda rukkara stjórna hér öllu. Reka þennan norska leigustrák frá McKenzie úr Seðlabankanum hið snarasta og setja einhvern mann með viti þangað.   Við eigum nóg af Íslendingum til þess. Auk þess fyrir lægra kaup.  Þessi strákur hefur akkúrat ekkert gert nema gæta hagsmuna AGS  sem eru andsnúnir öllu sem  Íslendinga skortir núna.  Það erum við sem ráðum okkar málum. Sjálfstæð þjóð sem kyssir ekki á þessa útlendu rassa alla saman.  Sópa upp dellunni   frá því að  við felldum bankana okkar sjálfir í fljótræði  og vitleysu.   Frömdum fjármálalegt harakiri í stað þess að handtaka glæpamennina.  

Skynjaði Bjarni Ben. ekki það sem ég skynjaði á landsfundinum ? Að  95 % af Sjálfstæðisflokknum er á móti því að ganga í ESB.  Þetta fólk vill ekkert við þetta bandalag tala. Og það vill heldur ekki ljúga að virðulegu bandalaginu með því að sækja um eins til þess eins að vita hvað er í boði. Það vill vera  ærlegt gagnvart viðsemjendunum sem það ber virðingu fyrir.  Við erum  heiðarlegt fólk sem lýgur ekki og blekkir annað fólk með fagurgala um eitthvað sem við vitum að meirihluti  þjóðarinnar vill ekki.   Og þar sem eru 1600 manns af öllu landinu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar er skoðun meirihluta þjóðarinnar ekki langt undan. 

Kratarnir og  sporgöngumenn  þeirra niðri á þingi mega fimbulfamba um aðildarumsókn eins og þeir vilja. En ég og flestir aðrir Sjálfstæðismenn sem ég þekki viljum ekki sjá þetta. Við munum  berjast gegn nýjum sambandslögum Íslands af öllu afli.  Það felst í nafni flokksins okkar að við viljum sjálfstætt Ísland. Við erum handviss um að sjálfstætt Ísland á óendanlega meiri möguleika en þyngslabandalag stórveldanna í Evrópu með sína blóðugu sögu.   Við erum  frjálsborið fólk með þvílíka yfirburði auðlinda yfir þessar þjóðir allar,  að það er best að halda sig fjarri því að gefa þeim Grímsey eins og þegar Einar Þveræingur áttaði sig þegar  Evrópuógnin kom fyrst hingað  fyrir margt löngu. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins þarf ekkert á því að halda að vera í einhverjum vinsældaleik  þarna niður á Austurvelli .   Hann getur bara talað hreint út með sína sannfæringu.  Hann sagðist sjálfur vera sannfærður um að Íslendingum sé betur borgið utan bandalagsins.  Ég held að sandkassaleikur við Össur litla geri lítið formanni mínum og flokki til vegsauka. En auðvitað fylgi ég hans forystu og fer í viðræður  ef hann svo segir. En hann má alveg vita hvar ég stend.

Séra Þórir og Benedikt eru farnir úr flokknum vegna sannfæringar sinnar. Auðvitað virði ég það. Þetta eru yfirburðamenn að viti og vísi. En ég er líka sannfærður um að þeir komi  aftur þegar þeir sjá  að það er ekkert nema sjálfstæðisskerðing í boði í skiptum fyrir einhverja illskilgreinanlega  evruframtíð. Þegar og ef við uppfyllum Maastricht skilyrðin. 

Við höfum heldur ekki gert okkur grein fyrir hvaða afstöðu við höfum til hermálahugmynda bandalagsins. Það liggur á borðinu að bandalagið ætlar ekki að vera án hervalds.  Værum við orðnir aðilar, þætti mér  persónulega lítilmannlegt að ætla okkur að sitja hjá í einhverri sérstöðu þegar  Guð og kristin  siðferðislögmál  í vestari hluta  bandalagsins og   Allah og sharíalög í austurhlutanum en sameinuð í einhverju pólitísku réttlæti Evrópuráðsins í framtíðinni.

 Í alvöru !  Heldur einhver að Schumann hafi séð þennan trúmálanaglbít fyrir ? 

Mér finnst því allt liggja á borðinu hvað í boði er. Tilslakanir núna, eins og í fiskveiðimálum,  geta líka verið teknar aftur eins og hendi sé veifað. Og þá verður okkar rödd heldur mjóróma í stórum kór.  

Þjóðin mun í fyllingu tímans fella allt sem kratarnir eru núna  að reyna að ljúga inná okkur.   Þetta Evrópubandalag er í mínum augum aulabandalag sem verður aldrei annað en máttlaust tollabandalag gegn viðskiptafrelsi við afganginn af heiminum. Þetta bandalag gat ekkert gert í Bosníustríðinu í bakgarðinum heima hjá sér. Það var grenjað á Kanann rétt einu sinni sér til bjargar. Í  þriðja sinn síðan 1916. Evrópubandalagið er pólitískur vanskapningur með 27 þjóðfána sem koma sér ekki saman um neitt.  Þeir eru ekki og verða aldrei  Bandaríki Evrópu til jafns við  Bandaríki Norðurameríku. Sem eru ein þjóð með einn fána og eitt þing undir Guði þrátt fyrir allt.  

Er einhver  sem fékk einhverja Evrópuhugljómun við það að hlusta á Össur flytja sína Evróputölu á þinginu ? Skiptir einhverju máli að formenn Framsóknar og Íhaldsins séu að búa til einhver ný vers  til að  vera með í haltu mér slepptu mér leiknum gagnvart Evrópubandalaginu ? Mín vegna geta þeir alveg sleppt þessu. Ég og mínir líkar bifumst ekki í trú á sjálfstæði landsins og trausti  á Sjálfstæðisflokknum til að verja það. Hætti Sjálfstæðisflokkurinn að þora að segja sína skoðun  umbúðalaust  á Evrópubandalagsaðild Íslands  þá væri fyrst vá fyrir dyrum. 

Greiðum bara þjóðaratkvæði  um þetta Evrópusamband  hvenær sem er.  Ég er ókvíðinn

Þjóðin er ekki fífl ! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr.!

Þessi aulastjórn eða réttara sagt óstjórn, eyðir ekki miklum tíma í að laga hlutina í núinu, heldur er með óraunhæfa drauma og eyðir dýmætum tíma í að röfla um að einhver ESB aðild eftir 5-10ár reddi núverandi kreppu.þvílík firra og fábjánaskapur sem einkennir þessa aulabárða sem nú stjórna. 

Hvernig fær þessi aulastjórn það út að vesalingar sem skrimta í dag, sem er sennilega stærsti hluti þjóðarinnar, geti bætt á sig byrðar í formi aukinnar skattheimtu og hækkunar höfuðstóls lána vegna verðtryggingar sem er höfuð óvinur okkar sem erum með lán ILS sem og önnur lán. 20 milljón króna lán hækka um 100 þúsund við þessa skattahækkun, sem er eftir því mér er sagt ekki sú fyrsta hjá steingrími.

Pétur Halldórsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 10:44

2 identicon

Ekki sú síðasta, vildi ég segja

Pétur Halldórsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 10:45

3 identicon

bíddu nú aðeins hægur.Bensíngjaldið er 10 krónur en ólíufélögin fóru úr 162 krónur lítrinn í 187 ????? ætti ekki frekar að fara djöflast í þeim stórþjófum heldur en að skrattast í flokkunum sem þó þora að takast á við' afleiðingar fasistastjórnarinnar sem kom okkur á hausinn??? Krónan hefur styrkst en olíufélögin hækka samt!!! Úrásarglæpahundarnir eru enn að nauðga okkur og ég held að þegar þjóðin er margbúin að reyna ALLT  nema aðild að ESB þá ætti fólk að vera meira vakandi og skoða málin betur því ESB aðild er mikilvægur þáttur í að afla stöðugleika hérna heima.

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 10:49

4 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Það að "henda" IMF úr landi yrði örugg ávísun á ennþá meira hrun krónunnar og þá fyrst myndi bensín og annar innfluttur varningur hækka fyrir alvöru. Þetta viðurkennir meirihluti hagfræðinga, þar á meðal þeir íslensku.

Sjálfstæðisflokkurinn kom okkur þangað sem við erum nú, með hrunið bankakerfi og ónýtan gjaldmiðil. En ég skil vel að það sé erfitt fyrir ykkur Sjálfstæðismenn að horfast í augu við það.

Svala Jónsdóttir, 30.5.2009 kl. 15:04

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Nei Svala, við fengjum þessi lán annarsstaðar. Aðalmunurinn er að við myndum hætta að borga það sem þeir vilja láta okkur borga. Gengið myndi styrkjast við það.

Sjálfstæðisflokkurinn kom okkur ekki neitt nema áfram veginn til frelsis. Glæpamenn orsökuðu innlenda hrunið og þeir voru flestir í öðrum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn setti ekki heimshrunið af stað. En það skiptir ekki máli. Hvort viltu lifa í hafti eða ekki? Um það snýst málið.

Heimsarkaðsverð á benzíni hefur stórhækkað Ragnar. Það hækkar líka í ESB. Þú reynir allt einu sinni,. Margt geturðu reynt þrisvar áður en það tekst. En sjálfsmorð framkvæmir þú bara einu sinni.

Halldór Jónsson, 30.5.2009 kl. 16:30

6 identicon

"þeir voru flestir í öðrum flokkum"

áttu annan betri??????

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 16:32

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Jón Ásgeir,  Ólafur Ólafsson,  Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson eru allt Sjálfstæðismenn í þínum augum ?

Halldór Jónsson, 30.5.2009 kl. 18:45

8 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Góð færsla hjá þér Halldór,

Frosti Sigurjónsson, 30.5.2009 kl. 21:41

9 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Í haust er of seint að byrja byltingu.Ég setti smá athugasemd á bloggið mitt í gær,það er mín skoðun.Maður vill fá að vita hvort heilög Jóhanna er að ljúga að okkur varðandi AGS,þeir virðast vera farnir að stjórna hér og ef svo heldur áfram þá spyr ég bara i hvaða höndum munu okkar auðlindir lenda svo sem Landsvirkjun Orkuveitan og fiskurinn í kringum landið okkar.Svona vinnur AGS setja þvinganir á lönd og taka síðan veð í því sem dýrmætast er í hverju landi og koma því svo fyrir að aldrei sé hægt að borga og þá er veðskuldin tekin og nýtt til fullnustu.Mín skoðun er sú að senda AGS burt og það strax áður en það verður of seint,gera bankana upp stofna einn ríkisbanka hann dugar landinu alveg,sparisjóðirnir meiga halda sér og önnur smærri fjármálafyrirtæki.Við getum aldrei borgað þessar skuldir þessara pókermanna sem töpuðu og ef ríkisstjórnin ætlar að borga þetta þá eru öll okkar auðæfi farin fyrir eigin hagsmuni en ekki þjóðarinnar.Við þurfum að losna við þessa landráðastjórn strax og fá menn með dug og þor sem geta tekið ákvarðanir sem koma þjóðinni best.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 30.5.2009 kl. 22:43

10 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Í kvöldfréttum í gær var sagt að Baugur og tengd félög hefðu stutt SF landráðaflokinn með rúmlega 40 millum,er kannski tenging á milli 40 milljóna og þessa einharða áhuga á inngöngu í ESB ég spyr bara???Baugur og tengdar verslanir hér á landi eru sennilega um 60-80% af öllum verslunum hér á landi og þeirra mesti gróði væri að komast í ESB geta flutt inn vörur ódýrt og ekki versla við innlendan iðnað og framleiðslu og þar með setja það á hausinn.Þetta er manni farið að gruna án þess að vita,kannski vita einhverjir eitthvað meira hérna á blogginu??Mér finnst nú helvíti hart af þessari aumu ríkisstjórn að ætla að láta okkur borga fyrir fjárglæframennsku þessara manna og líka að koma okkur í ESB galeiðuna.Er ekki nóg komið nú held ég að þjóðin þurfi að taka völdin og koma landinu í lag aftur,það erum við sem getum það en ekki ESB einsog kvislingarnir halda eða reyna að segja þjóðinni það með hvítum lygum.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 30.5.2009 kl. 22:45

11 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Mjög góð færsla hjá þér Halldór, eins og þú átt vanda til.

Sigurður Þórðarson, 31.5.2009 kl. 00:18

12 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Halldór, það er hressandi fyrir andann að lesa pistil eins og þennan og veitir víst ekki af í öllum niðurrifs- og uppgjafartalinu. Með menn eins og Halldór Jónsson í Sjálfstæðisflokknum þarf þjóðin við fátt að óttast! Takk fyrir það.

Jón Baldur Lorange, 31.5.2009 kl. 00:20

13 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Sæll Halldór, og þakka þér fyrir að segja skoðanir þínar umbúðalaust.

Um langt árbil hef ég ekki haft minnsta áhuga á sjálfstæðisflokknum af ástæðum sem ekki tekur því að rekja öðruvísi en svo; hann er stór hluti vandans, en ekki lausn. Þetta innifelur þá skoðun mína að við höfum lengi stefnt í þær ógöngur sem við eru núna stödd í. Ég er alveg hjartanlega sammála þér um að ESB aðild er engin lausn á aðsteðjandi vanda, og til framtíðar horft er aðild að sambandinu hálfgerð hrollvekja.

Núna spyr ég - hvað ætlar sjálfstæðisflokkurinn að bjóða okkur uppá, hvað ER hann að bjóða okkur upp á? Með fullri virðingu þá er hann ekki að bjóða upp á nokkurn skapaðan hlut. Hann virðist vera hálfvolgur varðandi ESB aðild. Hann virðist skila auðu þegar kemur að því að móta hér boðlega og nothæfa peningamálastefnu. [það er ekki hægt að bjóða yngri kynslóðinni upp á verðtryggingarmorð húsnæðislána] og forsvarsmenn hans virðast ekki hafa neina framtíðarsýn í takti við stefnu flokksins. Þeir eru allstaðar hálfvolgir og ekki færir um að kveða uppúr um hvort að eldri gildi flokksins skulu verða ofan á, eða einhverjar gjaldþrota nýfrjálshyggjupælingar fyrir kúlulánaþega og braskara?

 Hvaða samleið eiga þú og Vilhjálmur Egilsson? 

Nú þekki ég lítið til innviða sjálfstæðisflokksins en horfi samt til hans núna þegar hér er allt komið í strand og allir flokkar farnir að gefa ESb aðild undir vænginn.  

Ólafur Eiríksson, 31.5.2009 kl. 01:57

14 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll Ólafur Viltu ekki byrja á að kynna þér sjálfstæðisstefnuna.Hún er ekki nema örfáar línur.Þá geturðu betur skilið innviði flokksins og hvaða samleið við Vilhjálmur Egilsson eigum. Okkur greinir frekar á um leiðiren ekki markmið.

Hvernig í veröldinni heldur þú að ég geti sagt þér hvað Sjálfstæðisflokkurinn muni bjóða uppá í framtíðinni ? Það verða flokksmennirnir sem móta stefnuna. Hugsanlega með þig í þeim hópi ef þú vilt reyna að berjast fyrir þínum áhugamálum. Það eru svo margir sem standa á hliðarlínunni og bara krefjast þess að leikmennirnir skori mörk en hreyfa sig ekki til að sparka boltanum inná  þó þess þurfi með stundum.

Sæll Jón Baldur Lorange, þakka þér fyrir þín orð. Þú og ég getum aðeins reynt að hjálpa flokknum okkar til þess að verða þj´+oðinni að gagni. Það verða þó ekki hæfileikar okkar sem einstaklinga sem sem skipta sköpum heldur hvernig öll hljómsveitin spilar. Hún spilar ekki án hljóðfæraleikaranna en þeir mynda hljómsveitina saman og þannig hljómar hún eins og við viljum heyra.

Og Marteinn Unnar,

mér finnst þú vera skarpskyggn maður og finnst þínar hugsanir vera mjög þarfar.Það er ástæða til að reyna að skyggnast bak við tjöldin og taka ekki við öllu sem að manni er rétt. Menn geta þegið eitruð peð í skák.

Halldór Jónsson, 31.5.2009 kl. 12:37

15 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Sæll Halldór, ég hef lesið sjálfstæðisstefnuna og er litlu nær. Það stóð hinsvegar ekki til að ruglast á þér og sjálfstæðisflokknum og ég bið þig afsökunnar á því. Auðvitað er engin sanngirni í því að rukka þig um svör við þessum spurningum öllum.

Kv.



Ólafur Eiríksson, 31.5.2009 kl. 20:59

16 Smámynd: GH

Eftir að lesa þennan pistil fór ég að efast um sannleiksgildi niðurstöðu hans -- a.m.k. ef höfundurinn er dæmi um henn venjulega Íslending!

GH, 2.6.2009 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 3420144

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband