Leita í fréttum mbl.is

Loksins lífsmark !

Ég reyndi mikið á mig til þess að ná athygli síðasta Landsfundar  Sjálfstæðisflokksins  míns á nauðsyn nýrra gjaldþrotalaga.  Þetta komst á dagskrá fundarins en ekki hef ég séð það á framkvæmdastigi.

Það er mér nokkuð áfall að verða að sjá þetta mál borið fram af VG og Borgaraflokknum án þess að minn flokkur komi þar nærri.

Fyrir þinginu liggur eftirfarandi mál:

 

09.
Þskj. 39  -  39. mál.





Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997.

Flm.: Lilja Mósesdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Björn Valur Gíslason,

 

Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir.


    

1. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem er ætluð til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Með lántaka er átt við einstakling. Með lánveitanda er átt við einstakling, lögaðila eða aðra aðila sem veita fasteignaveðlán í atvinnuskyni.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin taka til fasteignaveðlána sem stofnað hefur verið til fyrir og eftir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er samið í samræmi við samþykkt síðasta landsfundar Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Er lagt til að fasteignaveðlán geti ekki orðið grundvöllur aðfarar í öðrum eignum lántaka en þeim sem veðréttindin taka til en í því felst frávik frá þeirri meginreglu íslensks kröfuréttar að skuldari ábyrgist efndir fjárkröfu með öllum sínum eignum. Jafnframt á lántaki að vera laus undan persónulegri ábyrgð á greiðslu lánsins ef veðið hrekkur ekki til greiðslu þess. Ekki skiptir máli hvort veðsali er lántaki eða þriðji maður.
    Lánveitendur geta verið viðskiptabankar, sparisjóðir, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og aðrir aðilar sem veita fasteignalán í atvinnuskyni, þ.m.t. byggingaraðilar. Með fasteignaveðláni er átt við veðlán sem veitt er með veði í fasteign sem ætluð er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Það skilyrði er sett að lántaki sé einstaklingur.
    Staða margra íslenskra heimila hefur versnað til muna í kjölfar bankahrunsins sem haft hefur í för með sér hækkun skulda, rýrnun eigna, minni tekjur og skertan lánsfjáraðgang. Fasteignaveðlán vega almennt þyngst í skuldum heimilanna. Við núverandi aðstæður er hætta á að kröfuhafar sækist eftir auknum tryggingum eða geri fjárnám í óveðsettum eignum sem ekki getur talist sanngjarnt þar sem mörg heimili hefðu efnt skuldbindingar sínar undir eðlilegri kringumstæðum. Minna má á að ýmis úrræði hafa verið lögfest sem veita skuldurum færi á að leysa úr greiðsluvanda sínum án þess að til gjaldþrotaskipta þurfi að koma.
    Frumvarpinu er ætlað að gilda um fasteignaveðlánasamninga sem þegar hafa verið gerðir og óháð því hvort lánastofnun lýtur eignarhaldi hins opinbera eða einkaaðila.
    Með hliðsjón af lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið sé í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrár þar sem stærstu lánastofnanirnar eru nú í eigu ríkisins auk þess sem lögin heimila Íbúðalánasjóði að yfirtaka skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.
    Í lánaframkvæmd Íbúðalánasjóðs er ekki aðhafst frekar við innheimtu kröfu sem glatað hefur veðtryggingu nema sjóðurinn telji að krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota á lánareglu, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 119/2003, um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Skuldarar fá þó ekki fyrirgreiðslu á nýju láni frá sjóðnum fyrr en kröfur sjóðsins á hendur þeim hafa verið greiddar eða þær afskrifaðar, sbr. 4. gr. Frumvarpið gerir eins og áður segir ráð fyrir að krafa lánveitanda sem glatað hefur veðtryggingunni við nauðungarsölu falli niður.
    Til lengri tíma litið á frumvarpið að stuðla að vandaðri lánastarfsemi og hvetja til þess að lánveitingar taki mið af greiðslugetu lántaka.

 

Ef minn flokkur Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki þetta þjóðþrifamál þá styður þessi flokkur ekki lengur mínar hugsjónir.

Ég vona að til þess þurfi ekki að koma.

Þarna er loksins lífsmark í þeirri viðleitni  því að gera eitthvað löngu tímabært í því helfrosti skilningsleysis og afturhalds staðnaðrar evrópuréttarhugsunar sem staðið hefur þessum nauðsynlegu þjóðfélagsumbótum fyrir þrifum. 

Loksins lífsmark !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Einmitt veðið er það sem samið erum um.

Þetta er skref aftur á bak í rétta átt til þjóða sem virða mannréttindi í verki. 

Gírugir stöndugir lándrottnar geta bara beðið þangað til verð veðsins stígur. veðsverðtryggingarvextir eiga líka  að vera fastir [brilliant] eða breytilegir til leiðréttingar.

Neysluvísitala getur haldið áfram að þjóna skammtímalánum og  [óeðlilegum]væntingum. 

Íhaldsmennir [halda í Heimsveldið] stálu nú nafninu á sínum tíma. Sumir hafa alltaf verið sjálfstæðari en aðrir.

Lénsinsherrar og Feneyskir lánahákarlar eru ekki menningararfleið sannra Íslendinga. Samanber reglur um landnám. 

Júlíus Björnsson, 21.6.2009 kl. 22:49

2 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Já, Halldór hið pólitíska taflborð er allt að riðlast. Það hefði styrkt stöðu frumvarpsins ef allir flokkar hefðu staðið að því en vonandi sjá menn ljósið við afgreiðslu þess. Ef þeir hafa ekki séð ljósið ennþá þá eltast þeir sömu við villuljós. Það er hættulegt að fylgja þeim sem það gera.

Jón Baldur Lorange, 21.6.2009 kl. 23:35

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ánægjulegt að sjá þessa tillögu komna inn á Alþingi en verra að mega eiga von á því að hún verði kæfð með hagfræðilegum orðhengilshætti. Í dag eru kröfur lánastofnana á hendur skuldugum íbúðaeigendum komnar svo langt út fyrir allan raunveruleika að öllu venulegu fólki ofbýður. En þrátt fyrir allar þær augljósu skekkjur sem orðið hafa vegna skelfilegrar stjórnsýslu og allar verið skuldaranum í óhag þá styðja stjórnvöld þessar kröfur.

Undarleg viðhorf stjórnvalda okkar sem hafa svo djúpan skilning á kröfum erlendra ríkja á hendur þessari örbjarga þjóð fyrir hönd sinna þegna!

Árni Gunnarsson, 22.6.2009 kl. 00:13

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég fagna þessu frumvarpi, en hefði talið eðlilegt að það næði til bílalána líka.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2009 kl. 00:14

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það verður fróðlegt að sjá hvort lögin geti verið afturvirk.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2009 kl. 00:16

6 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Halldór, "flokkurinn minn" áfall að hann komi hvergi nærri, halló það getur ekki verið hvernig hlutirnir eru gerðir sem skiptir máli heldur niðurstaðan, mér sýnist að þessi afstaða að allt sem þessi flokkur gerir er gott og allt sem hinir flokkarnir gera er vont standa í vegi fyrir öllu á Íslandi. Fólk heldur dauðahaldi í flokkinn sinn sama hversu illa hann hagar sér. Kynnið ykkur staðreyndir, setjið markmið og dæmið eftir árangri, þá getum við byggt upp og komist fram á við. Málþóf, þras og fúll á móti er einungis til þess fallið að þrengja snöruna um hálsinn á þjóðinni.

Með von um betri tíð og lægri vexti 

Kjartan Björgvinsson, 22.6.2009 kl. 01:03

7 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Þetta er frábært frumvarp, en ef þetta fer ekki gegnum þingið þá vitum við að engin von er til þess að hér verði eitthvað gert til að bæta hag skuldara. Sammála þér Marinó með að bílalan yrðu einnig tekin fyrir í þessu frumvarpi. Ég spurði Þór Saari því í ósköpunum það var ekki gert þar sem bílalán er að slíga svo mörg heimili. Mér fannst svarið ekki uppá marga fiska, en það gekk út á það að þeim sem stóðu að þessu frumvarpi fannst rétt að sinna fyrst heimilum fólks. Ég var mjög hissa á þessu svari því við vitum að fólk hefur ekki þann tíma sem þarf til að bíða eftir endalausum frumvörpum og að bílalán eru hluti af heimilsrekstri fólks! Og vega næst mest eftir fasteignum. Og margir eru í vandræðum með afborganir af fasteignalánum sínum vegna þess að erlendu lánin á bílum fjölskyldufólks eru að setja það á hausinn.

Jón Svan Sigurðsson, 22.6.2009 kl. 11:52

8 Smámynd: Gunnlaugur I.

Meðan lykilstjórnendur Kaupþings tókst með einni samþykkt að afskrifa að fullu 50 milljarða af sjálfum sér vegna hlutabréfakaupa og virðast ætla að komast upp með það að fullu, þá er von að almenningur sé brjálaður.  Alveg eins og með manninn sem reif húsið sitt. Það versta var ekki að missa húsið til lánveitandans Frjálsa fjárfestingarbankans heldur það versta var að bankinn ætlaði sér ekki að láta það nægja. HAnn var settur á dauðalistann og yrði gerður gjaldþrota þrátt fyrir að bankinn fengi ekkkert útúr því. Síðan verið settur á vanskilaskrá bankanna til æviloka. 

Það er þetta sem er óþolandi að bankarnir eru bæði með belti og axlabönd í þessum lánveitingum sínum og síðan eru þeir með skotvopn líka til þess að drepa þig þegar þeir eru búnir að ná öllu af þér.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu máli framvindur í þinginu.

Gunnlaugur I., 22.6.2009 kl. 12:00

9 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ef þetta frumvarp fer í gegn verður enn von fyrir marga. Það er nefnilega eitt að vera gerður húsnæðislaus. Að hafa enga möguleika á að byrja upp á nýtt er öllu ömurlegra. Hitt er svo annað mál hvort bankarnir komi til með að fara eftir þessu. Þeir gætu hæglega haft þig á svörtum lista hvað sem lögin segja.

Ævar Rafn Kjartansson, 22.6.2009 kl. 14:20

10 Smámynd: Jón Sævar Jónsson

Þetta er auðvita frábært frumvarp og löngu tímabært og hafði einnig átt að ná til bílalána. En Halldór ef þú hefur fylgst með starfi þingmanna sjálfstæðisflokksins síðan þeir misstu stjórnartaumana þarft þú ekki að vera hissa á að þeir taki ekki þátt í þessu. Þeir hafa nefninlega tekið upp meinta stefnu Vinstri-Grænna að vera á móti öllu og eyða tíma þingsins í málþóf.

Jón Sævar Jónsson, 22.6.2009 kl. 16:32

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Erum við ekki allir með sömu hugsunina. Sá sem lánar á að passa sínar tryggingar sjálfur. Lána ekki meira en hann treystir sér til. Það er fífl sem lánar 100 % í markaðsverði fasteignar í uppsveiflu. Hann á að gjalda þess en ekki bara sá sem býr í fasteigninni.

En bílalán eru svo vitlaus fyrir lánveitanda að hann á skilið að eignast ónýtan bíl ef allt rekur uppá sker með veðið í bílnum.  Honum er mátulega í rass rekið ef druslan selst ekki. Hann á ekki að geta sótt aðrar tryggingar hjá fólki en samningsveðið. Það var hann sem vildi græða á því að lána.

Þetta á að gilda um öll lán og allar tryggingar. Aðeins það veðsetta getur verið veðandlag. Hitt er á ábyrgð lánveitandans eins og tíðkast hjá Fagin veðlánara þar sem maður stampar úrinu sínu fyrir brennivíni.  

Halldór Jónsson, 24.6.2009 kl. 00:11

12 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þetta á að gilda um öll lán og allar tryggingar. Aðeins það veðsetta getur verið veðandlag.

Þetta er alveg hárrétt. Hvað varðar breytilega vextir íbúðalána þá eiga þeir að miðast við þetta veðandlag eins og gildir hjá flestum þjóðum heimsins. Vextir tilleiðréttinga og til að dekka áhættu t.d.  Það að festa verðþróun á verði neysluvöru sem eina löglega grunn fyrir verðtryggingu á Íslandi var ósanngjarnt þar sem lán Íslenskra heimila eru 80% af íbúðarhúsnæðinu.

Júlíus Björnsson, 24.6.2009 kl. 00:49

13 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Ég bjó úti í 26 ár þar af 16 á bandaríkjunum. Hvergi er þessu hagað eins og hér og allstaðar er það eins og Halldór segir. Aðeins það veðsetta getur verið veðandlag. Það sem er gert hér er siðlausara en allt siðlaust og með ólíkindum að við höfum kosið yfir okkur stjórnmálamenn sem gera þjóð sinni þetta. Og  þjóðin jafn ótrúleg að sætta sig við þetta. Ekki lengur samt vona ég!

Jón Svan Sigurðsson, 25.6.2009 kl. 00:02

14 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

í bandaríkjunum átti þetta víst að vera :)

Jón Svan Sigurðsson, 25.6.2009 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband