Leita í fréttum mbl.is

Davíð afgreiðir bloggarana!

Davíð Morgunblaðsritstjóri vegur okkur bloggara á pundara sínum í leiðara Moggans í dag. Hann segir (með leyfi hæstvirts ritstjóra): 

( Ég endurprenta kafla úr leiðaranum vegna þess mikla fjölda sem sagt hafa Mogganum upp nýlega og þeirra sem ekki lesa blaðið þó að þeir noti bloggþjónustu blaðsins með bestu lyst)

 "Umræðan er dálítið þunglyndisleg núna. Þá er ekki verið að fjalla um svo kallaða bloggheima, sem iðulega eru stórundarlegir, þótt innan um og saman við sé þar læsilegt efni eftir skynsama og velmeinandi menn sem geta haldið á penna. Til hafa orðið nýjar upphrópanir sem eiga að merkja að umrót og tilfinningahiti sé í þjóðfélaginu, jafnvel af svo sem öngvu tilefni og sá gusugangur skipti hugsanlega einhverju máli. »Bloggheimarnir loga« heyrast stjórnmálamenn segja og verða þá þeir pastursminnstu í þeim hópi óvissir um stöðu sína og hvaða skoðun sé heppilegast að hafa næsta hálftímann til að teljast með. En sé betur að gáð kemur oftast ekki annað í ljós en að þeir orðljótustu á vefnum hafa þrútnað út örlítið meira en endranær og eru að reyna að yfirbjóða hvur annan með uppspuna og munnsöfnuði. Má þá ekki glöggt sjá hver sigrar. Ekki eru nein dæmi þess að þessar eldglæringar á blogginu hafi skipt neinu máli um nokkurn skapaðan hlut. "

Og enn segir Davíð:

"Hitt er ekki óþekkt að grandvarir menn og fróðir komi að upplýsingum í skrifum sínum, sem ekki hafa ratað inn í venjulega fjölmiðla og af þeim spinnist umræður sem í einstökum tilvikum hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru í þjóðfélaginu eða opni augu manna fyrir nýjum sannindum. Þá er allstór hópur manna, sem heldur úti vefsíðum af miklum myndarskap og hefur með skarplegum athugasemdum heilmikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna, sem kórstjórar bloggsóðanna hafa sem betur fer ekki. "

Ég skal alveg vera hreinskilinn með það af hverju ég er hérna á blogginu. Það var í tíð Styrmis ritstjóra að ég varð þess áskynja að Moggi nennti greinilega ekki lengur að birta greinar frá mér. Þær voru saltaðar og stundum birtar og stundum ekki. Í síðasta sinn kvartaði ég eftir þrjá mánuði og þá stofnaði Mogginn bloggsíðu handa mér og færði mér að gjöf. Það lá í orðanna hljóðan að ég mætti leika mér í bloggsandkassanum, en síður Morgunblaðsins væru líklega of verðmætar til þess að eyða þeim í blekbullara eins og mig.Auðvitað varð ég fúll og sagði Mogganum upp og hef ekki keypt hann síðan. Og les hann sárasjaldan líka. Fréttblaðið les ég, mér þó yfirleitt til leiðinda, þar sem það kemur óumbeðið og ókeypis innum lúguna. Það blað boðar einstefnu Evrópubandalagsins, ómengaðan Kratisma,  gæsku Baugs og Bónusar og hatur á Sjálfstæðisflokknum og öllu sem honum tengist. Það leiðist mér en les það samt.

Ég reyndi að fá greinar birtar í Fréttablaðinu í tíð Þorsteins en það fór eiginlega á sömu leið, þær hurfu og komu ekki fram fyrr en sumar seint og aðrar aldrei.

Ég hef því ekki í önnur hús að venda en á þessar bloggsíður. Þetta er ekki alvöru fjölmiðill að dómi ritstjórans. Ég hef reynt að halda uppi vörnum fyrir Sjálfstæðisflokkinn á þessum síðum. en auðvitað hefur það ekki minnstu áhrif þar sem þetta er ekki fjölmiðill í þeim skilningi.

Þetta blogg mitt er þó alveg tilgangslaust að mati fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins. Það eru bara lærðar greinar í Mogga sem hafa áhrif. Og Mogginn velur auðvitað sína skríbenta sjálfur. Og ég er ekki í þeim hópi. En ég er nú samt áhangandi flokksins og læt ekki ristjóra Mogganns ráða því fyrir mig.  

Hvað um það, ég hef gaman af þessu og verð þá ekki til vandræða annarsstaðar á meðan. Svo finnst mér að á blogginu sé miklu meiri hraði í öllum málum, það þarf ekkert að bíða í þrjátíu daga eftir birtingu um mál sem þá verður orðið úrelt.

Ég var kominn á fremsta hlunn með að gerast áskrifandi að Mogganum aftur þegar Davíð kom sem ritstjóri. En ég held að ég sé hættur við það. Meðan ég er ekki rekinn héðan, þá er ég hér.

Davíð eða ekki Davíð. Bloggið er komið til að vera.

Það er kannski meiri spurning um Morgunblaðið og Davíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Og ennþá flýja menn Bloggheima.  Mér finnst líka skemmtilegt að skrif hugsanir mína og tjá mig þannig við fólk sem ég þekki  eða ekki þekki. Ég hef nú samt trú á að sum blogg hafi einhver áhrif á stjórnendur landsins ef þau rata til þeirra.  Ég ætla ekki að láta Davíð ráða því hvort ég hætti að blogga eður ei.

Offari, 4.10.2009 kl. 23:14

2 identicon

En er þetta ekki bara satt hjá Davíð? Oftar en ekki eru þeir sem setja inn athugasemdir við blogg í slag um að yfirbjóða skoðanir. Hægri, vinstri, með eða á móti. Nú er hinn umdeildi Davíð kominn í ritstjórastólinn á blaði sem flestir hafa skoðun á. Ég kaupi ekki blaðið og hef ekki gert í mörg ár. Ástæðan, jú blaðið ritskoðaði alla umræðu þó svo að ein og ein aðsend grein fengi að sleppa í gegn. Bloggið hefur breytt öllu. Blogg verður ekki stöðvað, það verður ekki ritskoðað. Í löndum þar sem gífurlegum fjárhæðum er varið í "val" á efni flæðir umræðan milli fingra þeirra sem vilja stjórna. Tæknin og fjöldinn er ofviða allri handvirkri stýringu og mannlegum mætti. Ef Mogginn vil lifa þá er tækifærið fólgið að því að virkja fjöldann. En kjaftæðið þar sem sömu aðilarnir hamast í skoðanayfirboðum, skipta um hin nafnlausu auðkenni líkt og nærbuxur, og þvaðra í vonlausri tilraun til spuna á athugasemdakerfunum, slíkt er of ómerkilegt til að nokkur fjölmiðill hafi af því nokkurt gagn.

Menn eiga að vera stoltir af blogginu, það virkar. Smám saman mun myndast griðaristaður fyrir opna umræðu þar sem menn geta sagt skoðun sína á mönnum og málefnum án þess að vera reknir úr vinnu, eða lagðir í einelti. Þá verður nafnleysi óþarft. Vonandi styður Morgunblaðið með nýja ritstjóra þá eðlilegu og sjálfsögðu þróun.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 23:31

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk Offari,

Af hverju ertu með svona feluleik ? Ég svara yfirleitt ekki nafnleysingjum og finnst að nafnleynd eigi að banna á blogginu. Taktu bara ofan grímuna.Þú ert varla ljótari en græna myndin af þér hér að ofan.

Það er nafnleyndin Jóhann, sem veldur því áreiðanlega mestu um  að Davíð hefur þessa skoðun. Það vaða uppi geðsjúklingar á blogginu í skjóli nafnleyndar og setja svartan blett á það.

Niður með nafnleysingjana! Setjum þá á bannlistana !

Halldór Jónsson, 4.10.2009 kl. 23:38

4 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ég efast um að margir bloggarar stundi þessa skemmtilegu iðju til þess að hafa áhrif. Fyrir mér er og verður bloggið eins og kaffihús. Maður sest við borð, pantar kaffi og eplaköku með rjóma, svo er byrjað að þrasa. Ég get ekki ímyndað mér að spjall á kaffihúsi hafi bein áhrif á þjóðlífið, ekki nema þá hin margfrægu fiðrildisáhrif. Ég hef heldur ekki trú á því að greinar í Mogganum hafi áhrif. Vilji menn raunverulega leggjast djúpt í þetta flókna mál neyðast þeir til að lesa Stríð og frið eftir Tolstoy og pæla gegnum vangaveltur hans um hvað hafi áhrif og hvað ekki.

Á hinn bóginn er engin spurning að bloggið er stórkostlegt samskiptaform. Okkur býðst að ræða atvik dagsins við stóran hóp manna - eiginlega alla þá sem nenna að heyra skoðanir okkar. Sjálfur verð ég að segja að mér finnst afar fræðandi að kynnast skoðunum annarra hér á blogginu - og ekki bara skoðunum því oft eru hér fróðir menn á ferð með áhugaverðar upplýsingar.

Ég get með engu móti lesið út úr orðum Davíðs (ef það er hann sem ritar þennan pistil) neina allsherjar fordæmingu á bloggurum, þvert á móti bendir hann á að margir bloggarar vekja máls á áhugaverðum atriðum og koma þannig ýmsu til leiðar.

Baldur Hermannsson, 4.10.2009 kl. 23:57

5 Smámynd: Huckabee

Nafnleysingjar eru ok  ef þeir kunna mannasiði og ljóstra upp þörfum upplýsingum til samfélagsins.En gríðarlegt magn bull bloggs er hvimleitt og engum til sóma.Halldór ég hef gaman af bloggi þínu og greinum þó finnst mér þú hafa linast árunum varst mun  skömmóttari hér í den  

Huckabee, 5.10.2009 kl. 00:00

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Huckabee, af hverju ertu með þessa grímu ?

Ég er alltaf að reyna að bæta mig í kjaftinum en gengur misjafnlega. Kommatittirnir eru svo viðkvæmir.

Halldór Jónsson, 5.10.2009 kl. 00:04

7 Smámynd: Offari

Sæll Haldór. Offari er bara miklu opnari en Starri Hjartarson.  Því læt ég hann frekar um að tjá sig hér. Ég veit vel að nafnleysingjar hafa notað grímuna sem eitthvað skálkaskjól til að lát ýmislegt ósiðlegt flakka.

Allir geta séð hver ég er ef þeir kæra sig um það.  Ég hef oft fengið á mig skítkast fyrir nafnleyndina. En ég læt ekki þvinga mig til að koma fram undir nafni frekar en ég vil.  Ég hef semsagt verið dæmdur fyrir gjörðir annara en er skítt sama um það.

Mér er hinsvegar ekki sama um það að börnin mín verði dæmd fyrir gjörðir annara og látin bogaskuldir þessara óreiðu manna.  Ég veit ekkert hvort ég hætti hér ef nafnleysingjarnir verða bannaðir en líklega verð ég feimnari við að tjá mig.

Offari, 5.10.2009 kl. 00:10

8 Smámynd: Elle_

Er ég of nafnlaus til að fá að vera með kjaft?

Elle_, 5.10.2009 kl. 00:10

9 Smámynd: Björn Emilsson

Áfram Halldór, bloggið þitt er lesið. Því miður er það svo að dagblaðaútgáfa heyrir brátt sögunni til. Dæmi eru um allt að 600 athugasemdum á bloggsíðu New York Times . Bloggið er þegar orðið mun áhrifameira en dagblöðin. Vefurinn er framtíðin.

Björn Emilsson, 5.10.2009 kl. 00:14

10 Smámynd: Elle_

Og í New York Times og fjölda erlendra miðla er eðlilegur hlutur að nota ekki fullt nafn í commentunum.  Og enginn skammaður.  Það er séríslenskt að fólk ætlist til að maður skrifi undir fullu nafni í commentakerfi.

Elle_, 5.10.2009 kl. 00:21

11 Smámynd: Baldur Hermannsson

ElleE, gallinn er sá að alltof margir ritsóðar vaða fram í skjóli nafnleyndar. Ég hef líka séð svona athugasemdakeðjur í erlendum fjölmiðlum og þar sér maður aldrei svona sóðaskap.

Baldur Hermannsson, 5.10.2009 kl. 00:28

12 Smámynd: Birgir Rúnar Sæmundsson

Til að blogga verða ritstjórar að kunna að vélrita !

Birgir Rúnar Sæmundsson, 5.10.2009 kl. 00:29

13 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Við skulum bara horfast í augu við það að Davíð vill geta ráðið umræðunni, hvar sem hún fer fram.

Davíð svíður að mogginn haldi úti þessum vettvangi þar sem ritstjóratitillinn veitir engin völd.

Hvað ætli amma hans hefði um þennan vettvang að segja?

Sigurður Ingi Jónsson, 5.10.2009 kl. 00:37

14 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Halldór,

Bloggið heyrir framtíðinni til, ég, þú og Davíð erum fortíðin, gamlir kallar sem tuða og enginn hlustar á.  Hins vegar varðveitist bloggið okkar og eftir 100 ár verðum við taldir elstu og fyrstu bloggarar!  Enginn hefur þá áhuga á blaðargreinum, so over!

Andri Geir Arinbjarnarson, 5.10.2009 kl. 02:06

15 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Sæll Halldór og þakka þér margar góðar athugasemdir um menn og málefn.

Skoðanaskipti eru nauðsynleg og á meðan fjölmiðlar sinna ekki hlutverki sínu er það lífsspursmál að þessir bloggheimar séu virkir.

Ljótt orðbragð nafnleysingja má ekki verða til þess að umræðan fari á lægra plan - það þarf bara að hundsa skrif þeirra - eins og þú sagðir - svara þeim ekki.

Jákvæð blogg mættu gjarnan vera fleiri - benda á það sem uppbyggilegt og jákvætt í samfélaginu. Og jú - heilbrigð skynsemi mætti vera algengari - þar ferð þú framarlega í flokki og takk fyrir það.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 5.10.2009 kl. 06:15

16 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Davíð er úti í móa með þessa gagnrýni, þ.e. ef hún kemur frá honum. Hann er sjálfur nafnlaus bloggari með  sama aðgangsorð og einhver Haraldur uppi í Hádegismóum.  Annars er Davíð hörku bloggari og ætti að blogga undir nafni og leyfa athugasemdir. 

Sigurður Þórðarson, 5.10.2009 kl. 06:28

17 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Um daginn steig Björgvin Sigurðsson fram  og bar sig aumlega yfir því að "bloggar" hefðu í skjóli nafnleyndar borið á hann að hann héldi fram hjá konunni sinni og sæti öllum stundum á  börum þar sem hann drykki sig fullann.

Björgvin uppskar mörg samúðarandvörp og stunur samherja sinna og Ragnheiður Ríkarðsdóttir átti ekki orð til að lýsa hneykslan sinni. Enginn hafði samt séð þessi nafnlausu blogg eða gat vitnað í þau að öðru leyti.  Nafnlaus blogg er hægt að rekja ef mikið liggur við.

 Nú geng ég út frá að Björgvin sé bindindismaður og hafi aldrei hugleitt að taka framhjá.  En hvern fjandann myndi mig varða um það þótt hann drykki sig fullanna og yrði kvennasamur. Það væri líka skaðlaust fyrir þjóðina en það var aftur á móti ekki trassaskapur hans í starfi. 

Sigurður Þórðarson, 5.10.2009 kl. 06:48

18 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Kæri Halldór, bloggið er ekkert minna en bylting. Það er bloggurum að þakka að sannleikurinn um Icesave komst í dagsljósið og það er bloggurum að þakka að reiknað var út hver kostnaðurinn af þeim afglapa samningum er. Bloggarar eru miklu betra aðhald að stjórnmálamönnum en aðrir miðlar samanlagt.

Vitaskuld eru bjánar á blogginu, en þeir eru líka á gamaldags prentmiðlum og öðrum miðlum svo sem útvarpi og sjónvarpi. Þú þarft ekki annað en fletta eða hlusta til að komast að því.

Ég held að það sé hrein flónska að hætta að blogga á Moggablogginu vegna þess að nýr ritstjóri kominn að blaðinu. Hann hefur nákvæmlega ekkert að segja um það sem skrifað er á blogginu og því ættu andstæðingar hans frekar að stofna blogg þar en hætta.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 5.10.2009 kl. 07:46

19 identicon

Sæll Halldór.

 Þetta er nú ekki alls kostar rétt hjá smásagnahöfindinum Davíð, að bloggheimar hafi ekki áhrif, en kannski ekki svona beint á stjórnvöld. Hvað með "búsáhaldabyltinguna". Hvar fæddist hún ?.

það sem er gott við bloggheima er það að almenningur fær að tjá sig um allt og ekkert, og er það nýtt í okkar þjóðfélagi. margt gott er þarna og margt er miður.

Nei, elskurnar mínar. Ekki afskrifa áhrif bloggsins, hvort það er hér , á eyjunni eða annars staðar.

Kær kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 08:17

20 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Halldór Jónsson, þakka þér fyrir góða grein. Eins þykir mér athugasemd Andra Geirs Arinbjarnarsonar nokkuð hittin, en Andri er líka örugglega á förum til Eyjunnar, gæti ég trúað.   Andri bauð alltaf ákveðnum hóp í afmælin sín á unga aldri. Þeir sem voru púkó fengu ekki að koma með. Einvhern veginn fæ ég á tilfinninguna að moggabloggið sé að verða of Púkó fyrir Andra.

Ég hef aldrei skrifað neitt að marki um Davíð Oddson. Talaði eitt sinn um að sumir menn væru komnir með "Heiladabba", þ.e.a.s. Dabba á heilann. Ég veit ekki hvort þetta er vegna þess að hann er óinteressant í mínu augum, eða hvort ég hata hann ekki nóg. Persóna hans er í raun ekki svo áhugaverð á þessum síðustu tímum. Meining hans um suma bloggara læt ég sem vind um eyrun þjóta.

Ég er að blogga eins og sumir eru að prjóna. Stundum verður úr því vettlingur. Allir sem geta vettlingi valdið eru nauðsynlegir í þjóðfélagi. Og þótt menn hafi afhent trefil til ritstjóra Moggans og Fréttablaðsins, og ekki fengið hann birtan, ættu menn ekki að hengja sig í treflinum. 80% að aðsendu efni til fjölmiðla er nefnilega slátrað. Það er bara staðreynd. Ritstjórinn getur verið leiðinlegt fífl, og lélegur, en það getur aðsendi penninn svo sannarlega verið líka. Svo þarf líka að vera pláss fyrir auglýsingar og blaðamenn með mikilmennskubrjálæði.  

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.10.2009 kl. 13:46

21 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Ekki hissa á því, Halldór, að þú fáir ekki greinar birtar Mogga. Þú er það langt hægra megin við hann! En það er hugsanlegt að Davíð tæki nú eftir þig eins og eina grein. Það er þess virði að prófa......

Ómar Bjarki Smárason, 5.10.2009 kl. 15:19

22 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Halldór,

Davíð ætti nú betur að huga að eigin blaðamönnum en bloggurum.  Það læddist inn ansi neyðarlega villa í Moggann bls. 2 í dag eins og ég skrifa um á mínu bloggi.  Ég tek enga þóknun fyrir að leiðrétta villur í Mogganum!  

Andri Geir Arinbjarnarson, 5.10.2009 kl. 17:02

23 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Heill og sæll! ´Skrif þín eru alltaf áhugaverð.Ég lít á bloggið eins og Baldur nokkurskonar kaffihús,en finnst ég stundum vera eins og boðflenna, "má ég setjast hérna?"        Villur eru  að læðast inn,erfitt að komast hjá þeim.En í Mogganum í dag,síðu 14 er svohljóðandi fyrirsögn: "Enn kusu Írar aftur",gæti allt eins verið, "Aftur kusu Írar aftur".  

Helga Kristjánsdóttir, 5.10.2009 kl. 18:57

24 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk allir.En ég hef ekki sagt að ég virði ekki rétt Moggans til þess að velja sér skríbenta.Vonandi tekur Vilhjálmur það gilt.

En ég vil endilega enn hvetja til þess að menn hætti þessum dulnefnaleik. Það er hægt að reyna að skilja það að til dæmis menn, sem óttast pólitískar hefndir láti þeir í sér heyra, vilji ekki vekja á sér athygli. En þeir verða bara að gera annaðhvort, tala eða þegja. Baldur, þú hefur lög að mæla eins og oftast áður.

ElleE, ég sé þig fyrir mér sem franska femme fatale typu, ég er viss um að þú ert flottari en myndin sem þú lætur fylgja. Nema þú sért þá bara kall. Offarinn, heitir hann Starri Hjartarson?

 Ég nenni ekkert að njósna um ykkur og mér er alveg sama um þessi nöfn sem þið notið af því að þið eruð vinsgjarnleg og málefnaleg. En hitt er betra þó það sé gaman að vera á svona grímuballi með svona flottu nafni eins og ElleE.  

Við hinir sem höfum engu að tapa höldum bara áfram. 

Andir Geir. Skýrðu fyrir okkur þetta með pólska lánið . Ég skil þetta bara alls ekki.Hvernig við greiðum vexti fyrir að hafa fengið pólsk ríkisskuldabréf að láni í Varsjá, sjáum engan pening en borgum 500milljónir í vexti ? Næ þessu ekki. 

Björn Emilsson, gaman að heyra raddir að vestan. Hvernig gengur´kreppan hjá ykkur ? Er ekki allt að lagast í USA ?

Halldór Jónsson, 5.10.2009 kl. 23:48

25 Smámynd: Björn Emilsson

Heill og sæll Halldór.

Almenningur varð aldrei var við neina kreppu, sem slíka, Nema þeir sem spenntu bogann of hátt, rétt eins og á Gamla Fróni. Kapitalisminn virkar í stórríkinu, leiðréttir villurnar og jafnar út mismuninn. Því minna sem við sjáum afskipti ríkisins, því betra. Vona bara að ný stjórnvöld, láti fólk í friði og leyfi þjóðinni að ráða sínum málum.Sá tími mun koma.

Kannske eru menn alltof blindir af Icesave málinu. Það er ekki með eindæmum að fjármálaráðherra, skuli undirrita þennan algerleg ólöglega gerning, í myrkri nætur, eins og þjófur að nóttu. Enginn mátti sjá þetta ´snilldarverk´ þessara aumu snillinga. Þessir fóstbræður ættu að sitja bak við lás og slá.

Á hinn veginn er þetta verk Sigurjóns bankastjóra, sennilega algert meistaraverk. Greinilegt er þó að ekki hefur verið farið að lögum og reglugerðum, af hverju , spyrja menn. Lítur helst út fyrir að miskilningur ´a síðasta stigi málsins´ beiðni um ábyrgðir og símtöl hafi verið orsökin, Því fór sem fór. Kannske er Sigurjón efni í næsta fjármálaráðherra.!!

Björn Emilsson, 6.10.2009 kl. 02:38

26 Smámynd: Elle_

Fólk úr öllum heiminum skrifar í suma fjölmiðla heimsins, eins og the Economist og the New York Times.  Og ég þar á meðal.   Útlendingar geta nú ekki síður verið ritsóðar.  Virt blöð hafa vit á að stoppa það.  Það er bara allt svo slakt og veikt í landinu og útlendingar komast ekkert upp með níð og sóðaskap eins oft:

Comments on this story are pre-moderated. Before they appear, comments are reviewed by moderators to ensure they meet our submission guidelines.

http://www.cbc.ca/world/story/2009/10/05/nobel-prize-medicine-enzyme303.html

"Femme fatal", ha, ha.  Nei ég heiti bara flottu nafni!?!  Og ef Halldór Jónsson skrifaði undir sem DóriJ væri það ekki bara hálfur feluleikur?  Og gleður mig að vita að þú ætlir ekki að senda njósnalið eftir okkur Offara!  Hann er flottur.  Og fjöldi fólks líka sem kemur ekki fram undir nafni.  Og skiptir mig engu máli hvað menn heita, heldur hvað þeir segja.  Menn eru oftast bara að verja sig gegn persónuárásum og ég hef gert það líka.  Níð er ómerkilegt undir nafni og kannski enn verra úr felum.  Kannski, veit ekki.         

En er þessi skárri?:  Gal  Hitt er víst, fari ICE-SLAVE ekki að verða hafnað, læt ég inn mynd af betlara.  



Elle_, 6.10.2009 kl. 10:30

27 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Margir bloggarar standa sig betur í að koma með mikilvægar upplýsingar en íslenskir sem erlendir fjölmiðlar til samans, finnst samt vanta fleyri sem hafa skarpskyggnina til að skilja atburði líðandi stundar í stærra samhengi og eru ekki fastir í þröngu sjónahorni, tala tæpitungulaust og þora að synda á móti straumnum.

Mikilvægasta mál samtímans er að upplýsa fólk um það hvernig alþjóðlegir bankamenn og hergangaframleiðendur sitja að svikráðum við jarðarbúa með aðstoð glæpastofnanna á borð við CIA t.d. og AGS, uppgang fasískra (corporate) afla og draum þeirra um eina alheimsstjórn undir forræði þeirra ríkustu og valdamestu með einum miðstýrðum seðlabanka og einum gjaldmiðli. En margir vilja taka Pollýönnu á þetta áfram, fátt gagnast alþjóðavæðingarskúrkunum arðrænadi bertur en það.

Mæli með vald.org til að glöggva sig á hlutunum í stærra samhengi en smásmugulegt dægurþrasið og deilur um keisarans skegg geta gert.

Georg P Sveinbjörnsson, 6.10.2009 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband