Leita í fréttum mbl.is

Þjóðlygar kommatittanna.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur reynt allt hvað af tekur að bregða fæti fyrir uppbyggingu landsins í orkuframkvæmdum. Til þess hefur hún fengið í lið með sér fólk úr ýmsum áttum sem er tilbúið að gefa misvísandi upplýsingar til þess að rugla fólk í ríminu.Beitt þjóðlygum í þessu skyni.

Einn af þessum fræðingum kom nýlega fram með þá kenningu að orkan væri nánast á þrotum.

Það er því fagnaðarefni að fá grein eftir forðasérfræðing HS Orku hf í Baugstíðindum í dag. Ómar Sigurðsson segir:

" Sigmundur Einarsson skrifar grein um "Hinar miklu orkulindir Íslands" á vefritið Smuguna. Greinin er um margt ágæt í umræðunni um orkumál, en niðurstaða hennar er sú helst að ekki verði næga raforku að hafa eftir að virkjað hefur verið fyrir álver á Bakka og í Helguvík. Í síðari greininni "Orkudraumar á teikniborði Norðuráls" á sama stað fer Sigmundur meira út í að munnhöggvast vegna pistilsins "Yfirdrifin orka fyrir Helguvík" á heimasíðu Norðuráls. Sammerkt báðum greinum hans er að hann dregur mjög úr mati á mögulegri nýtingu jarðhitasvæða á Reykjanesskaga. Ekki hefur hann nein gögn því til stuðnings eða rök til að gera það heldur lætur þar meira eigin tilfinningu ráða. Þannig minnkar hann rafafl þeirra svæða um minnst 400 MWe, sem leiðir hann síðan að fyrrgreindri ályktun....

Ef skoðaðir eru þeir virkjunarkostir sem hann kýs að sleppa eða minnkar mat þeirra sem fyrir eru eftir eigin tilfinningu, þá er þar fyrst að nefna stækkun Reykjanesvirkjunar. Stækkun Reykjanesvirkjunar um allt að 100 MWe hefur þegar farið gegnum mat á umhverfisáhrifum og umsókn um virkjanaleyfi hefur verið lögð inn. Þar telur Sigmundur að virkjunarleyfi fáist ekki því niðurdráttur í jarðhitakerfinu sé talinn mikill af Orkustofnun, samanber tilvitnun í umhverfismatsskýrslu. Því er til að svara að þó að niðurdráttur hafi orðið sneggri í jarðhitakerfi Reykjaness en víðast í öðrum jarðhitakerfum á Íslandi er hann ennþá minni en t.d. í Svartsengi og meira en tvöfalt minni en þekkist í rekstri jarðhitakerfa erlendis. Líkanreikningar benda jafnframt til að eftir stækkun virkjunarinnar verði niðurdráttur þar vel innan ásættanlegra viðmiða og því engin ástæða að fella þennan virkjunarkost út sem orkuöflunarkost.

Í öðru lagi lækkar Sigmundur mat Rammaáætlunar fyrir Trölladyngju-Krýsuvíkursvæðið úr um 480 MWe í 160 MWe eða niður í 1/3 af mati Rammaáætlunar. Aftur hefur hann engin gögn til þess önnur en að honum finnist það eðlilegt. Mat Rammaáætlunar er hins vegar byggt á viðurkenndum aðferðum fyrir svæði þar sem takmörkuð gögn eru tiltæk. Þar er beitt svonefndri rúmmálsaðferð sem er viðurkennd aðferð til að gera fyrsta mat fyrir lítið þekkt jarðhitasvæði. Þar til frekari gögn liggja fyrir um Trölladyngju-Krýsuvíkursvæðið eru ekki fyrir hendi rök til að breyta þessu mati....

 

Á ágætum opnum fundi Samorku, sem haldinn var 21. október sl. um sjálfbæra nýtingu jarðhitans (sjá samorka.is) kom fram í erindi Ólafs Flóvenz, forstjóra ÍSOR, að jarðhitamat frá 1985 áætlaði að innan gosbeltisins væri til staðar varmaorka í efstu 3 km jarðskorpunnar sem gæti samsvarað rafafli yfir 36.000 MWe í 50 ár. Um 5-6% af flatarmáli gosbeltisins eru á Reykjanesskaga og aflgeta hans gæti þannig verið yfir 1.900 MWe í 50 ár. Ef bætt væri við varmaorkunni á 3-5 km dýpi myndi aflgetan á Reykjanesskaga meir en tvöfaldast og fara yfir 4.000 MWe. Á Reykjanesskaga og að Þingvallavatni er nú þegar virkjað rafafl í jarðhita rúm 500 MWe eða um fjórðungur þess sem áætlað er að megi vinna á skaganum innan 3 km dýpis og aðeins um 12% þess sem áætlað er að vinna megi niður á 5 km dýpi. Þá má nefna að í umhverfismat hafa þegar farið væntanlegir virkjanakostir á þessu svæði fyrir um 400 MWe.

Er það innantómur draumur að hægt sé að vinna þennan varmaforða á næstu árum? Vantar tækni til þess? Svarið er nei, tæknina vantar ekki. Við núverandi jarðhitavirkjanir eru boraðar vinnsluholur niður á allt að 3 km dýpi. Erlendis er algengt að bora holur niður á 5 km dýpi og hafa íslensk fyrirtæki tekið þátt í þannig borun. Þannig hafa fyrirtækin aflað sér reynslu og þekkingar sem slík borun krefst. Tæknin er þekkt og tækjabúnaðurinn til, en hann þyrfti að flytja til landsins. Talið er að lekt jarðlaga minnki með auknu dýpi vegna meiri samþjöppunar jarðlaganna. Því er ólíklegra að hitta á eins gjöfular vatnsæðar og nú eru nýttar því dýpra sem er farið. Hins vegar þarf það ekki að hamla nýtingu. Til er tækni til að brjóta berg á svo miklu dýpi og mynda þannig þá nauðsynlegu lekt sem flutningsmiðill varmaorkunnar þarf. Þó að þessi tækni (e. Engineered Geothermal Systems) sé enn talin í þróun, eins og reyndar öll tækni, þá er hún reynd og hefur sannað notagildi sitt. Það má t.d. benda á þannig "manngerð" jarðhitakerfi í Ástralíu. Til að beita þessari tækni hérlendis þarf lítið annað en að flytja inn tækjabúnaðinn til þess. Þetta er því ekki draumur.

Rannsóknarboranir eru nauðsynlegar til að meta nánar afl, nýtingarhæfni og hagkvæmni nýtingar orkulinda, en þær eru oft settar í þung og tímafrek leyfisveitinga-, umsagna- og skipulagsferli. Það eru því frekar tafir eða aðrar hömlur á rannsóknarborunum sem geta valdið því að ætlaðir virkjunarkostir séu ekki tiltækir þegar markaður verður fyrir hendi til að nýta þá. Rangt er að halda því fram að orkulindir séu ekki nægar eða að áhugi orkufyrirtækja á varfærinni nýtingu þeirra sé ekki fyrir hendi."

Það er nauðsynlegt að láta ekki villa sér sýn í því baráttumáli þjóðarinnar, að hún verður að nýta sér allar þær auðlindir sem í boði eru til þess að vinna þjóðina útúr þeirri kreppu sem hún nú er í. Svandís Svavarsdóttir er þegar búin að fremja mikil skemmdarverk á þeirri leið með frestun Suðurlínu, dreifingu rangupplýsinga um orkuforða landsins og afsal losunarkvóta Íslands til ESB. Því fyrr sem hennar embættistíð lýkur því betra fyrir þjóðina.

Trúum ekki þjóðlygum kommatittanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Ekki gera lítið úr stærsta þjófnaði Íslandssögunnar.  Kapitalistasvínin stálu fiskimiðunum og skammta sér svo arðgreiðslum af þeim.  Allt í nafni "vísindanna". 

Raðlögbrot samkeppnislaga er í boði Sjálfstæðisflokksins.

Sigurður Jón Hreinsson, 30.10.2009 kl. 10:11

2 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Þetta er nú því miður "orka í orði en ekki á borði" Halldór og þekking Ómars Sigurðssonar á þessum málum stendur þekkingu Sigmundar Einarssonar engu framar, Halldór, þó þú kjósir kannski fremur að trúa þeim fyrr nefnda.

Það þarf ekki að deila um það að orkan er til, en það var fróðlegt að hlusta á Ólaf G. Flóvenz í útvarpsfréttum eftir fundinn 21. október s.l. því þar viðurkenndi hann að tæknilega væri erfitt að ná þessari orku upp á yfirborðið. Fyrr en því skrefi er náð er nefnilega erfitt að virkja orkuna.

Ólafur G. Flóvenz sagði líka í viðtalinu í útvarpsfréttunum að það hentaði betur að virkja jarðhitann í smærri skrefum en stærri. Það er því greinilega álit hans eins margra okkar jarðvísindamannana, að betra sé að virkja háhitasvæðin í smærri skrefum og kynnast þannig vinnslugetu þeirra, fremur en að virkja í þeim stóru skrefum sem hentar stóriðjunni.

Það er mín skoðun að það sé glapræði að treysta á virkjanir háhitasvæða fyrir stóra áfanga í álverum. Það gæti á endanum kostað þjóðina meira en vitleysan í sambandi við bankana og útrásina. Því miður.

Ómar Bjarki Smárason, 30.10.2009 kl. 11:06

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég þekki afar vel hálærða jarðeðlisfræðinga sem eru afar hræddir við þá staðreynd að HS taki úr svæði sínu 35% meiri orku en heimild er til.  Orkustofnun hefur vítt þá fyrir þessa háttsemi en á ekki lögformleg víti sem þeir geti beitt.

Þetta hefur haft í för með sér, að fjárfestar í BNA sem hafa af sér gott orðspor, hafa dregið sig út og munu EKKI standa við Hlutafélagsloforðin, sem áður voru gefin.

Ástæðan, - Menn fara óvarlega í orkuöflun og því er ekki vogandi, að setja fé í slíka starfsemi auk þess, er það fyrir neðan ,,virðingu" eigenda þessara félaga ytra.

Við megum ekki taka upp hanskann fyrir þekkta umhverfissóða, það er fyrir neðan virðingu Íhaldsmanna -- sannra íhaldsmanna.

Hittt eru gróðapungar og dusilmenni.

MiðbæjarÍhaldið

Bjarni Kjartansson, 30.10.2009 kl. 12:24

4 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Þú veist áreiðanlega fullvel að alltof margir óvissuþættir eru á þessari framkvæmd til að hægt sé að rjúka í framkvæmdir. En þú notar tækifærið til að ata ráðherra auri til að koma á hana pólitísku höggi. Augljóst er að þarna helgar tilgangurinn meðalið og ef þú nærð að fá einhverja kjósendur á þitt band er tilganginum náð. Nokkrar staðreyndir eru borðliggjandi.

Fjármögnun er í algerri óvissu. Fái Landsvirkjun lán verður það á háum vöxtum og ekki bætir það stöðuna ef gengið gæti fallið enn. Fjármögnun á álverinu er í jafnmikilli óvissu. Óvissa er um línulögnina og áreiðanlega veldur staðsetning ( lega ) hennar mjög miklum deilum. Örkuöflunin, best að þú takir ábyrgð á henni.  Leggja þarf í mikinn kostnað vegna hafnarinnar í Helguvík. Stækkun álversins í Straumsvík gæti fullt eins orðið í forgangi. Er ekki allt í lagi að skoða þetta betur ? Þessi grein þín er lágkúrulegur pólitískur áróður.

Sigurður Ingólfsson, 30.10.2009 kl. 19:29

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Pólitískur áróður já, en bara andsvar valdalauss manns  við pólitískri gjörð andstæðingsins. Til þess er mér nauðsynlegt að beita þeim orðum sem mér sýnist eða hvað?

Þú ert hinsvegar með slíkar úrtölur og varfærni að seint yrði ráðist í nokkuð með slíkur hugarfari Sigurður minn. Það er óvissa um allt þangað til maður setur undir sig hausinn og reynir til þrautar. Þessvegna eru kommarnir ekki líklegir til að leysa nokkurn skapaðan hlut.

 Þessvegna vill helmingur þjóðarinnar fá Davíð aftur því hann tók ákvarðanir og kýldi  á það.

Ertu þú ekki bara í þeim hópi bjartsýnismanna Sigurður ?

Halldór Jónsson, 30.10.2009 kl. 21:10

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Ómar Bjarki, það er líka til vatnsorka.

Halldór Jónsson, 30.10.2009 kl. 21:11

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég bendi ykkur á að lesa blogg mitt á eyjan.is í dag um þessi mál.

Þar bætast Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson óvart í hóp þeirra Guðmundar Pálmasonar, Jóhannesar Zoega, Sveinbjörns Björnssonar, Stefáns Arnórssonar, Braga Árnasonar og Sigmundar Einarssonar um það hve ábyrgðarlaus núverandi virkjana- og stóriðjustefna er.

Ómar Ragnarsson, 30.10.2009 kl. 23:02

8 Smámynd: Halldór Jónsson

fann enga færslu þar Ómar

Halldór Jónsson, 31.10.2009 kl. 00:11

9 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Rétt er það að vatnsorkan er til og hún er um margt öruggari orkugjafi en háhitavirkjanirnar, alla vega svona fyrsta sprettinn. En þegar fram líða stundir og reynsla fæst á háhitakerfin, þá eiga þau vafalaust eftir að skila okkur sínu. Það þarf hins vegar að læra á þau og finna út hvernig best er að nýta þau.

Ég hef t.d. verið að reyna að opna augu Sunnlendiga fyrir því að virkja í Torfajökli og er á móti því að kotoristar í Reykjavík taki ákvörðun um að við Sunnlendigar fáum að bjarga okkur um orku. Þar mætti virkja í smáum stíl til að byrja með a.m.k. og koma fyrir virkjun á snyrtilegan hátt. Með þessu fengjum við góða vegi inn á þetta frábæra útivistarsvæði og gætum verið með túrsima þarna allt árið í kring með tilheyrandi gjaldeyrsitekjur og atvinnutækifæri.

Mér finnst hins vega ekki skynsamlegt að byggja virkjanir á láglendi Suðurlands. Vil miklu frekar hafa lónin inni á hálendinu. Og Gullfoss er okkur vafalaust verðmætari ósnertur, því hann dregur að sér gjaldeyri í stórum stíl með öllum þeim ferðamönnum sem hann heimsækja. Virkjun hans myndi því líklega verða peningalega neikvæð, þó líklega hafi það ekki verið reiknað út síðan á Orkuþingi 91.

En það er mín skoðun að við eigum að nota kreppuna til að hugsa okkar gang og sjá hvað annað er í spilunum en stórvirkjanir og álver. Við getum ekki endalaust bjargað okkur út úr vandræðum með því að taka lán fyrir dýrum framkvæmdum sem skapa tiltölulega fá störf.

Og til að skapa störf og bjarga okkur út úr vandanum á sem skjótastan hátt liggur beinast við að fara að tillögum Kristins Péturssonar og veiða meira. Þar þarf litlu að kosta til og aurarnir skila sér beint í kassann án stórrar lántöku.

Ómar Bjarki Smárason, 31.10.2009 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 127
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 77
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband