Leita í fréttum mbl.is

Staðarval Háskólasjúkrahúss.

Aldrei þessu vant gladdist ég við að fletta Baugstíðindum þennan morgun. Páll Baldvin skrifar ágætan leiðara um þau vandamál sem fylgja munu staðsetningu nýs Háskólasjúkrahúss á Landspítalalóðinni.

P'all segir:

..."Menn segja nú þegar lífeyrissjóðir ætla að fjármagna risaframkvæmd Landspítalans í sunnanverðum Þingholtum að það sé of seint að huga að nýju staðarvali fyrir húsaflæmið. En það er ekki of seint: umferðarmannvirki sem standa neðan við byggingarsvæðið eru tekin að sanna sig og raunin er sú að þau valda ekki þeirri umferð sem þar fer um, nýja Hringbrautin endar í tveimur þungum flöskuhálsum, bæði við Öskjuhlíðarháls og við gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar með tilheyrandi töfum, mengun og kostnaði. Fyrirsjáanlegt er að leggja verður í gríðarlegan kostnað við að grafa Miklubrautina niður í jörð og kemst hún þar varla fyrir. Svokallaður Hliðarfótur gerir fátt meira en bæta aðgang að stórum vinnustöðum og umferðarmiðstöð undir Öskjuhlíð og á sér enga útleið suðureftir nema enn verði lagt í jarðgöng. Staðarval nýrra mannvirkja fyrir Landspítalann kallar á uppbyggingu mikilla umferðarmannvirkja með stjarnfræðilegum kostnaði fyrir borgarbúa og raunar landsmenn alla: göng undir Miklatún, Öskjuhlíð og Kársnes. Eldri möguleikar fyrir Landspítalann voru Fossvogur og Vífilsstaðir: Fossvogssvæðið er farið og Vífilsstaðir því einir eftir.".....(leturbreytingar mínar)

..."Helsta röksemdin fyrir byggingu nýrra stórbygginga neðan við gamla spítalasvæðið er að þar séu fyrir byggingar sem nýta má áfram: menn eru einmitt að huga að nýjum byggingum vegna þess að rekstrarkostnaður í hinum eldri er óþægilega hár. Þá á eftir að endurnýja þær frá grunni með miklum tilkostnaði til annarra nota. Það eru því veik rök fyrir viðbótarmagni nútímahúsnæðis skammt þar frá. Nálægð við Háskóla er líka nefnd til: bílastæðaflæmið við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík svarar þeirri röksemd: gera menn sér virkilega vonir um að þeir sem koma á bílum á þessa tvo staði fari fótgangandi í tíma í kennslusjúkrahúsinu?...."(leturbreytingar mínar)

Í ljósi þeirrar staðreyndar, að yfirgnæfandi meirihluti fólks vill hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, þá er sú ráðstöfun enn furðulegri að þrengja sífellt að honum og stefna æ fleiri bílum inn á þetta úthverfi höfuðborgarsvæðisins. Það er þegar búið að taka of margar misráðnar ákvarðanir sem Páll Baldvin lýsir.

Það er ef til vill ekki of seint að endurskoða þetta staðarval?.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég hef lagt til, að sjúkrahúsinu verði fundinn staður aþr sem Björgun er núna og það flutt upp í Álfsnes eða á Kjalarnesið.

Verulegur sparnaður af því og að líkum verulegur léttir á mengun í Miðborginni, sem verður fljótlega aftur menningarsvæði og næturbúllunum verður útrýmt þaðan, líkt og í öllum alvöru menningarborgum.

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 18.11.2009 kl. 09:18

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ég hef aldrei skilið röksemdirnar fyrir því að byggja við Landsspítalann. Og röksemdin fyrir því að sameina Landspítala og Borgarspítala, sem sagt sparnaður og hagræðing, var kjánaleg.

Það var alla tíð ákveðin togstreyta milli þessara spítala og hún var af hinu góða. Skapaði hvatningu til að gera betur en hinn.

Núna er tækifæri til að byggja nýjan sjálfstæðan spítala. Landspítalinn getur verið Háskólaspítali áfram og nýi spítalinn getur verið spítali fyrir sjíklinga.

Sigurjón Jónsson, 18.11.2009 kl. 09:33

3 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ég hef aldrei verið hrifinn af þeirri hugmynd að troða nýjum spítala við Hringbrautina við hliðina á gamla spítalanum.  Ég held að menn sjái ekki vandamálin sem kemur til með að fylgja þeirri staðsetningu.

Ég get séð nýjan spítala fyrir mér í grennd við Vífilsstaði eða sunnan Rauðhóla.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.11.2009 kl. 11:07

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Hvar sem menn sjá fyrir sér nýjan spítala þá á hann ekki heima við Hringbraut. Það er augljós tímaskekkja og ekki skipulagshagræðing til framtíðar. Svo er spurningin hvort nýtt sjúkrahús sé forgangsverkefni dagsins í dag áður en menn vita hvernig heilbrigðiskerfið mun líta út eftir fáein ár. Það er amk víst að breytingar eru framundan á öllu kerfinu.

Gísli Ingvarsson, 18.11.2009 kl. 14:52

5 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Það er algjörlega út í hött  að byggja nýjan spítala  við gamla Landspítalann. Til þess liggja engin haldbær rök. Páll Baldvin hefur lög að mæla.

Eiður Svanberg Guðnason, 18.11.2009 kl. 16:22

6 Smámynd: Gústaf Níelsson

Merkilegt hvernig skynsamlegt vit getur stundum algerlega yfirgefið þá sem ákvarðanir taka. Mér er óskiljanlegt hvernig menn duttu niður á þá lausn að troða nýjum spítala niður við Hringbraut í stað þess að setja hann niður miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem samgönguleiðir eru greiðar og góðar t.d. í grennd við Vífilsstaði, eins og nefnt hefur verið. Af sama aulameiði er sú ákvörðun að troða Háskólanum í Reykjavík niður í Nauthólsvíkina, í stað þess að koma honum fyrir í landi Keldna við Vesturlandveg í austuhluta Reykjavíkur, þar sem samgöngur eru geiðar til stærstu íbúahverfa borgarinnar. Ríkið hefði ekki verið of gott til að láta landið af hendi til slíkrar ráðstöfunar. Hvernig ætli að það verði að komast í vinnuna þegar H.R og LHS hefur verið troðið af öllu afli í grennd við Háskóla Íslands, allt mörg þúsund manna vinnustaðir, innan nokkur hundruð metra radíuss?

Gústaf Níelsson, 18.11.2009 kl. 18:08

7 Smámynd: Hörður Halldórsson

Landspítalinn verður illa staðsettur miðað við dreifingu mannfjölda og umferðarþunga . Björn Zoëga sagði að slysadeildin eigi að vera þarna líka.Semsagt slysadeildin verður sennilega flutt í 101 ef ég skyldi Björn Zoëga rétt.(fréttatími rúv 4.nóv)Á að nota lífeyrissjóðs peningana til að halda uppi verð á fasteignum í 101 og þar í kring?

Hörður Halldórsson, 18.11.2009 kl. 20:43

8 Smámynd: Magnús Jónsson

Halldór: Fyrirsögnin hjá þér segir allt " Staðarval Háskólasjúkrahús", hvar annarstaðar en á milli Háskólana og við flugvöll?, men mega ekki láta eins og aldrei verði byggður annar spítali á Íslandi, og ekki gleyma því að yngri spítalinn okkar er að verða fimmtugur ef hann er ekki orðin það nú þegar, það skiptir nánast engu máli hver spítalinn kemur til með að rísa hann vantar og það sem fyrst, við getum svo reist annan þar sem rifrildisfólk telur að hann geti staðið en þessi á að standa sem næst Háskólunum báðum annað er della af verstu sort.  Svona til gamans þá er talað um að spítalinn verði um 60.000 fermetrar og það finnst sumum rosalegt, í júní fór ég á spítala sem heitir Karolinska í Huddinge, Svíþjóð, og sá spítali er litlir 800.000 fermetrar, og skapar gríðarlegar tekjur og hátt þjónustustig fyrir Svíþjóð, svo í guðanna bænum hættið að fjargviðrast út af staðsetningu Spítala sem mun hækka þjónustustig og halda heilbrigðiskerfi okkar í því stig sem best gerist í heimi, hér eftir sem hingað til.

Magnús Jónsson, 18.11.2009 kl. 22:26

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Magnús,

Meira að segja Mibbó finnst betra að spítalinn sé ekki í því sem sumir kalla miðbæ heldur  nær Vífilsstöðum. Mesta vitleysan var að kakka Háskóla Reykjavíkur niður á flugvöllinn og búa til það umferðarvandamál sem við eigum eftir að bíta úr nálinni með.

6 ha. bygging er nú svolítið mikið og meira hlutfallslega i þjóðarstærð en Huddinge sem er ekki í miðbæ Stokkhólms. Hvernig er aðfærslan og bílaparkeringin þar ?

Halldór Jónsson, 18.11.2009 kl. 22:48

10 Smámynd: Sturla Snorrason

Í þessari frétt á mbl frá ráðhúsinu sést hvernig borgarfulltrúar með 101. heilkennið ætlar að safna liði til að þagga niður í fagaðilum.

Arkitektinn Hilmar Þór Björnsson heldur utanum mjög faglega umræðu um Landspítala háskólasjúkrahúsið á bloggsíðu sinni.

Sturla Snorrason, 19.11.2009 kl. 00:08

11 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Þegar Landsspítalinn við Hringbraut var byggður þá var hann í austurhluta Reykjavíkur. Það hefur margt breyst síðan þá.

Að endurbyggja hann á sama stað, sem er núna í vestasta hluta höfuðborgarsvæðisins, og eins langt frá Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut og hægt er að komast, er óskiljanlegt.

Nær væri að byggja nýjan spítala t.d. á Hólmsheiði. Ef hún er nógu góð fyrir flugvöll þá ætti hún að duga fyrir spítala.

Sigurður Haukur Gíslason, 19.11.2009 kl. 01:48

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Fyrir skömmu var í Silfri Egils Guðrún Bryndís Karlsdóttir sem er lærður verkfræðingur og sjúkraliði.   Þekkir því málið frá tveim hliðum. Mig minnir að hún starfi sem verkfræðingur hjá VSÓ.

Í þættinum kom fram nauðsyn þess og áætlanir um að setja Hringbrautina í stokk á tveim hæðum, og þrem akreinum á hverri hæð (!), auk jarðganga undir Öskjuhlíð og Þingholtin!

Hlusta má á þáttinn hér http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4472541/2009/11/08/ og er viðtalið við Guðrúnu nokkuð aftarlega í þættinum.  Það er greinilegt að Guðrún Bryndís hefur skoðað málið mjög vel og er ljóst að ótrúlegt klúður er í uppsiglingu.

Guðrún Bryndís verkfræðingur hefur gert könnun á heppilegasta staðarvali miðað við umferð, tengingu við höfuðborgina, nágrannasveitarfélögin o.fl.  Hún varaði eindregið viðfyrirhugaðri staðsetningu. Gott ef hún var ekki að mæla með svæðinu nærri Steypustöðinni sem heppilegasta staðinn.

Auðvitað höfum við ekki efni á þessum jarðgöngum og niðurgrafinni tveggja-hæða þriggja-akreina Hringbraut.  Þarna verður ví um alla nánustu framtíð gífurlegt umferðaröngþveiti sem bitna mun m.a. á íbúum Vesturbæjar, nemendum og starfsfólki HÍ og öllum þeim sem eriindi eiga í miðborgina.
HR í Nauthólsvík bætir auðvitað ekki ástandið....

Ágúst H Bjarnason, 19.11.2009 kl. 13:59

13 Smámynd: Halldór Jónsson

Lesið svo úrkurðinn eftir þá sem ráða sem skrifa tvíhöfðagrein íMBL í dag.

Það er búið að ákveða þetta af því að starfsmennirnir eru minna 14 mín að hjóla eða ganga í vinnuna og nemendur þurfa að fara í háskólana líka.

Umferðaræðar eða göng skipta engu máli í þessu sambandi segja þeir tveir.QED  Og þeir ráða.

Halldór Jónsson, 19.11.2009 kl. 16:47

14 Smámynd: Magnús Jónsson

Halldór: varðandi umferð við Karolinska, þá varð maður sára lítið var við bílaumferð, eins var járnbrautarstöð í 500 metra fjarlægð, alla veganna mikið minni umferð en er hér á miklubrautinni. Umferðarvandinn hérlendis er heimatilbúið dæmi eins og allir vita, stór blokk var byggð út í miðja miklubraut á mótum lönguhlíðar og hindrar allar breytingar til batnaðar, vegna þess að Íslenskir ráðamenn telja ekki mögulegt að rífa hús???, þvæla síðan um stokka og göng en gera ekkert. Mér finnst men festa sig um of í því að bráðaþjónusta þurfi að veri á einum stað, hví má hún ekki vera til að mynda áfram í húsnæði Borgarspítala sem er óneitanlega vel staðsettur og einnig í fyrirhuguðum spítala? það er nú ekki eins og sú bygging sé risin , og ef þrasað verður mikið lengur um hvar hún á að rísa þá frestast hún bara engum til gagns, ekki má gleyma því að gömlu spítalarnir eru óhagkvæmir og viðhaldsfrekir, ásamt því að vera erfiðir fyrir starfsmen, því segi ég byggjum þennan nýa spítala sem fyrst, staðsetningin má ekki verða það þrætuepli að tefja nauðsynlega endurnýjun á húsakosti spítala , ( mér fannst ekki langt að fara til Svíþjóðar til að fá þá viðgerð sem gera þurfti á eyranu mínu) svo vegalengdir eru afstæðar þegar talað er um sem þjóna á sem skóli og sjúkrahús, þá er staðsetning nærri skólunum afar æskileg. 

Magnús Jónsson, 19.11.2009 kl. 20:40

15 Smámynd: Halldór Jónsson

Já Magnús,

Þó að blokkin sé falleg þá á það ekki að ráða. En það sem ég er að segja, að það er búið að ákveða þetta a einhverjum álíka klárum og Gísla Marteini til dæmis og þessum tveimur sem ég man ekki hvað heita og skrifa í Mogga. Það er bara ekki hlustað á neitt annað.

Halldór Jónsson, 19.11.2009 kl. 22:28

16 Smámynd: Halldór Jónsson

Sjáðu Magnús, svona fúnkérar þetta:(Frétt úr Mogga)

Tillaga um eflingu þekkingarþorps og háskólatengdrar starfsemi í Vatnsmýri var flutt í borgarstjórn í dag og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að vísa henni til borgarráðs.

Í tillögunni er lagt til að Reykjavíkurborg taki forystu um samstarf Landspítala, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík sem hafi að markmiði að tryggja að þau sóknarfæri sem skapist með kröftugri uppbyggingu nýs Landsspítala, kröftugri uppbyggingu háskólanna og annarrar þekkingarstarfsemi í Vatnsmýri verði nýtt til fullnustu.

Í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, kemur fram að Samfylkingin hafi lagt tillöguna fram.

Halldór Jónsson, 19.11.2009 kl. 22:30

17 Smámynd: Sturla Snorrason

Miðað við að deila ferðum á Landspítala við Hringbraut jafnt á höfuðborgarsvæðið. Talið er að sameinað sjúkrahús við Hringbraut dragi til sín 40 - 60 þúsund ferðir á dag.

Nú búa yfir 60% austan og sunnan við gatnamótin Miklubrautar og Sæbrautar, en aðeins 20% búa vestan við eða í nágreni við Landspítala á Hringbraut. Fyrir restina yrði vegalengdin svipuð.

Ef að nýtt sjúkrahús rís á Höfðanum en ekki við Hringbraut styttast vegalengdir 60% íbúa en lengjast hjá 20% sem þíðir 40% minni akstur. Frá Höfða að Hringbraut eru 5km sem gera 10km Fréttabréf VST 01-08-07 á ferð.

40% af 50 þúsund ferðum eru 20 þúsund ferðir eða 200.000 km á dag.

Ef meðaleyðsla er 10lítrar á hundrað í borgartraffík gerir það 1lítir á 10 km sem eru þá 20.000 lítrar á dag sem staðsetningin við Hringbraut kostar. Einhverjir koma í strætó sem lagar þetta dæmi eitthvað.

Ef samgöngumiðstöð fer á höfðann verður dæmið enn betra.

Þetta umhverfisvæna dæmi vilja þeir ekki sjá í ráðhúsinu og allra síst vinstri grænir.

Sturla Snorrason, 20.11.2009 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 108
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband