Leita í fréttum mbl.is

Frábær grein hjá Friðriki.

Friðrik Daníelsson skrifar frábæra grein í Mbl. í gær um loftslagssirkusinn væntanlega í Kaupmannahöfn. Þetta væri í sjálfu sér fyndið ef okkar ráðamenn væru ekki að afsala þjóðinni svo miklum verðmætum sem liggja í íslenzka ákvæðinu. En grípum niður í grein Friðriks:

"MAÐURINN er orðinn allsmáttugur, a.m.k. milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og Evrópusambandið (ESB) sem ætla nú að stjórna loftslaginu á jörðinni. Þau hafa boðað leiðtoga heimsins á loftslagssirkus í Kaupmannahöfn fyrir jól. Síðast sýndi sirkusinn á Balí og voru sýningar vel sóttar af skriffinnum og umhverfistrúarsöfnuðum. Flugfélögin og olíufélögin græddu vel.

 

Í sirkus eru trúðarnir skemmtilegastir og má reikna með að þeir keppi hver við annan í Köben: Stjórnmálamenn munu keppa um hver býður hæst í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að setja á kolefnisskatta. Umhverfisverndararnir munu keppa í krassandi heimsendaspám. Vísindamennirnir svo kölluðu munu keppa í spám um bráðnun íss og hækkun sjávar. ......

 Skriffinnarnir munu svo keppa í að koma sem mestum kvöðum og skrifræði á heimsbyggðina. Og kvótabraskararnir munu keppa í að fá sem flesta starfsemi undir losunarkvótakerfi....

 

Á sýningunni munu IPCC og ESB reyna að láta leiðtogana samþykkja að koma alheimsstjórn og kvótakerfi á koltvísýringslosun svo iðnaður vaxi ekki út um allar koppagrundir þar sem engin yfirstjórn er á hlutunum. Borið verður fé á þróunarlöndin, beitt hótunum og svo þrýstingi umhverfistískunnar sem fjölmiðlar hafa tekið að sér að sjá um. Hver heilvita maður skilur að ekkert vit er í að láta hvern sem er reisa iðjuver þegar hinn iðnvæddi, siðmenntaði heimur eins og ESB er að hætta því......

Mörg fyrirtæki hafa verið stofnuð í helstu fjárglæframiðstöðvum heims, eins og London og New York, af forsvarsmönnum »loftslagssamninganna« til þess að kaupa losunarkvóta og selja áfram til auðmanna. Í þessum nýju kvótamiðlunarfyrirtækjum er kominn góður fjárfestingarkostur og veitir ekki af eftir að fjárplógsgeirinn hrundi í fyrra. Ýkt sniðug fyrirtæki hafa sprottið upp til að versla með kvóta, t.d. Enron sem var því miður afhjúpað áður en kvótakerfið komst í gagnið. Helstu heimsendaspámennirnir eru stórhluthafar í kvótamiðlunarfyrirtækjunum. Kominn tími til að þeir græði, sumir eru búnir að basla við þetta eins lengi og Maurice Strong, Al Gore fer líka að komast til ára sinna og þarf að fara að græða á einhverju öðru en glærusýningum......

 Ríkisstjórn Íslands leggur sitt af mörkum til þess að sirkusinn megi takast sem best. Hún ætlar að lofa að minnka losun um 25% sem samsvarar því að bílaflotanum sé lagt - kominn tími til, bílarnir eru orðnir allt of margir. Hún ætlar ekki heldur að framlengja íslenska ákvæðið sem leyfði Íslendingum að byggja iðjuver með reyklausri orku. Enda óþarfi, það á ekki að byggja nein fleiri iðjuver, bara græna atvinnu. Ríkisstjórnin ætlar að fá losunarkvóta hjá sjálfu ESB sem ætlar að draga saman losun um 30%. Það tryggir enn frekar að engin iðjuver verða byggð.

Því miður hefur ekki verið hægt að bjóða til Köben þeim sem stjórna loftslagi á jörðinni enda óhægt um vik, langt að fara og engir stjórnmálamenn til að taka við boðsbréfum. Þetta eru Sólin, geislagjafar í geimnum, rykið í spunahölum Vetrarbrautarinnar og svo auðvitað Jörðin á sinni sveiflukenndu braut um sjálfa sig og Sólu. Og loftslagið hunsar alla loftslagssamninga og heldur áfram að kólna. En það gerir ekkert til, á sirkusnum í Köben verður hvort sem er ekki talað um raunveruleikann. "

Þetta er enn eitt skemmdarverkið sem þessi endemis ríkisstjórn ætlar að fara að vinna á þjóðarhag knúin af þeim uppblásna rembingi sem þykist vera handhafi stórasannleika um loftslagsmál án þess að styðjast við nein sannfærandi vísindaleg rök nema postulöt IPCC og ESB, hvað þá að hlusta á efasemdir Svensmarks og.Balunas svo einhverjir séu nefndir.  Hlaupið er eftir púkablístru poppgoðsins Al Gore, sem bandarískir kjósendur sýndu þá skynsemi að hafna á sínum tíma. En téður Gore er orðinn milljarðamæringur á heimsku þeirra sem tekið hafa þátt í loftslagssirkúsnum með honum.

Það er ömurlegt til þess að vita að maður sem Íslendingur sé teymdur sem varnarlaust fífl á foraðið af þessu liði sem ekki þolir nema andstöðu eða rökræður um neitt áður en unnin verður óbætanlegur skaði á þjóðarhag. Hvernig væri að stjórnarandstaðan á Alþingi reyndi að fá fram umræðu áður en Svandísi er sleppt lausri til Kaupmannahafnar?



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Frábært. Allt eins og talað út úr mínu hjarta.

Vilhjálmur Eyþórsson, 29.11.2009 kl. 16:53

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Góð grein hjá Friðrik Daníelssyni efnaverkfræðingi.

Hún birtist á sama tíma og mesta hneyksli okkar kynslóðar er í uppsiglingu.

Sjá athugasemd #21 hér.

Í Kaupmannahöfn verða ekki bara sirkustrúðar, heldur einnig sjónhverfingamenn, þ.e. ef þeir þora að láta sjá sig eftir það sem gengið hefur á undanfarna daga.

Ágúst H Bjarnason, 29.11.2009 kl. 17:09

3 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Já mjög góð grein.

Ragnar Gunnlaugsson, 29.11.2009 kl. 21:19

4 Smámynd: Kristinn Pétursson

Sirkus ...  er mjög gott orð yfir þessar ýktu mynd "vísindamanna"  af "hlýnun jarðar"...

þar sem  lítið virðist um varfærni en þeim m eira um einhvers konar áberusýki á hæsta stigi... ýkja upp sem "verst ástand"... til að ná athygli....

Friðrik Daníelsson er ekki bara góður. Hann er frábær. KP

Kristinn Pétursson, 29.11.2009 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband