Leita í fréttum mbl.is

Gengisfall stjórnmálanna.

Stundum finnst mér Kolbrún Bergþórs skrifa  af svolitlu viti. Hún skrifar ádrepu í Mogga á fimmtudaginn um gengisfall stjórnmálamanna  Alþingi. Ég hef verið að velta svipuðum hlutum fyrir mér nokkuð lengi. Mér finnst margt fólk hreinlega orðið pissað af bullinu í sumum pólitíkusum, sérstaklega niðri á Alþingi, þó margir ámóta spekingar séu líka á ferð í sveitarstjórnunum.

Grípum niður í grein Kolbrúnar:

Dræm þátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi hlýtur að vera til marks um vantrú fólks á stjórnmálamönnum. Engin ástæða er til að ætla að þetta áhugaleysi sé einungis bundið við sjálfstæðismenn, enda eru stjórnmálamenn í þeirra röðum hvorki betri né verri en stjórnmálamenn í öðrum flokkum.  Um þessa helgi fer fram prófkjör Samfylkingar í borginni og kjósendur þess flokks munu varla streyma að til að setja númer við missviplausa borgarfulltrúa eða nýliða sem virðast fátt hafa fram að færa. Enda er engin ástæða til að leggja í ferðalög nema maður sjái tilganginn með þeim og viti að maður hafi ánægju af ferðinni.  Upp til hópa eru íslenskir stjórnmálamenn svo ótrúverðugir að fólk nennir ekki að hreyfa sig úr stað til að gera upp á milli þeirra með því að setja númer við þá í lokuðum klefa. Einn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sagði í einkasamtali að það hefðu að stærstum hluta verið miðaldra karlmenn sem hefðu nennt að mæta til að kjósa í prófkjöri flokksins. Mann grunar að hjá Samfylkingunni verði það aðallega miðaldra »rétthugsandi« vinstrikonur sem mæti til að kjósa í prófkjöri. Niðurstaðan verður mjög sennilega í takt við það.  Meðan almenningur sýnir prófkjörunum áhugaleysi forðast hæft fólk að gefa kost á sér í stjórnmálastörf. Það er beinlínis orðið að þjóðfélagslegu vandamáli hversu andlega vanmáttugir íslenskir stjórnmálamenn eru. Þeir hafa ekki næga yfirsýn, geta þeirra er sannarlega takmörkuð og margir þeirra virðast hreinlega ekki nógu vel gefnir.  Í íslensku þjóðfélagi vinnur og starfar fólk sem býr yfir góðum gáfum, er hugmyndaríkt, kann að leysa úr vanda og þolir álag. En þetta fólk er bara svo vel gert að ekki hvarflar að því að fara út í pólitík þar sem menn verða að nenna að bulla, ekki bara tímunum saman heldur stanslaust í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði fram að næsta langa sumarfríi eða jólafríi. Vel upplýst manneskja með sæmilega sómakennd hefur einfaldlega ekki geð í sér til að taka þátt í þeim skrípaleik sem íslensk pólitík er orðin að.... .....Hvað eftir annað hefur íslenska þjóðin sent stjórnmálamönnum þau skilaboð að hún treysti þeim ekki. Stjórnmálamennirnir eru hins vegar orðnir svo vanir því að hlusta bara á það sem þeim líkar að þeir nema ekki þessi sterku skilaboð. Þeir halda bara áfram sínu tilgangslausa flokkspólitíska rausi. Þeir vilja ekki breyta sér enda sjá þeir engan tilgang með því. Þeim finnst þeir standa sig alveg ágætlega miðað við aðstæður. Meðan þeir lifa í þeim misskilningi er engin ástæða til að fara sérstaklega út úr húsi til að greiða götu þeirra.“ 

Við í Kópavogi  erum með prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum 20. Febrúar.  Án þess að ég sé með hrakspár finnst mér líklegt að við eigum von á dræmari kjörsókn en oft áður vegna þeirra hluta sem Kolbrún talar um. Hrunið hefur gert okkur öll tortryggnari en við vorum. Og við sjáum núna í gegnum helgislepjuna sem fólkið við Austurvöll skrýðir sig með, að það er bara allsbert undir henni eins og keisarinn hjá Andersen.

Mér finnst það fólk sem býður sig fram til sveitarstjórna allar virðingar vert. Launin eru miklu lægri en á Alþingi en stritið nóg. Þetta fólk er því drifið fremur af því að vilja láta gott af sér leiða í sínu nærumhverfi heldur en fólkið sem þyrpist á Alþingi. Yfirleitt láglaunalið sem fær verulega kauphækkun við að komast þangað.  

Sveitarfélögin eiga því mun erfiðara með að fá sitt hæfa fólk fram vegna þessarar vitlausu skiptingar milli ríkis og bæja. Ef sveitarfélögin færu með flest mál íbúanna og þarmeð tvöfalda núverandi veltu, fengjum við fleira fólk fram og gætum borgað því betur.  Þá yrði meiri áhugi um sveitastjórnarmál en nú er og Kolla er að lýsa í framangreindum pistli. Ég er þeirrar skoðunar að fólk í sveitarstjórnum sé síst vitlausara en þetta fólk niður við Austurvöll. Og það sem mestu máli skiptir. Það er lýðræðislega kosið með einu atkvæði á kjósanda. Slíkt fer fjarri við Austurvöll þar sem landsbyggðin heldur þéttbýlinu í gíslingu.

Alþingi Íslendinga er algerlega ólýðræðislega kjörin stofnun. Það er kolskakkt atkvæðavægi í landinu þannig að landsbyggðardelar eru að taka til sín peninga sem tilheyra okkur þéttbýlisbúum eins og bensíngjaldið. En landsbyggðin stelur af okkur þéttbýlisbúum milljörðum með því að hirða það til sín og bora göt í fjöll sem enginn notar hvað  þá borgar fyrir. Miklu fleiri dæmi má nefna.

Alþingi er að drullumalla í málum sem því kemur ekki við. Það er að sýsla með 70 % af öllu opinberu fjármagni landsins.  En sveitarfélögin, þar sem ríkir lýðræði og einn maður hefur eitt atkvæði, fá að fara með 30 % af fjármagninu. Það þarf að gerbreyta þessu öllu.  Alþingi á ekki að fara með nein önnur mál en utanríkismál , tolla-og ríkislögreglumál, auðlindamál og setja landinu nauðsynleg lög.  Hitt geta og eiga sveitarfélögin að fara með.  Sjálfsagt þarf að fækka þeim eitthvað og sameina,  búa hugsanlega til ömt eða fylki utanum þau minni að skandínavískri  eða þá „states“  að bandarískri  fyrirmynd sem er líklega enn betra og taka þá upp stjórnarskrá Bandaríkjanna í leiðinni.

Þetta klumsukerfi sem við búum við er orðið stór dragbítur á þjóðina með þetta tilgangslausa forsetaembætti yfir prumpi sem ekkert er. Setning  Alþingis með gullbryddaðan forseta eins og gleraugnakött í kirkjugöngu er í margra augum farsi sem ætti frekar heima í Afríku en hér á landi. Og bullið á Alþingi er löngum hætt að hrífa nokkurn áhorfanda á skjánum heldur vekur aðrar tilfinningar. Alþingi í núverandi mynd er tímaskekkja sem þarf að lagfæra.

Það er trúlega nóg að ríkið og Alþingi  fari með 30 % af opinberu fé. En lýðræðisleg sveitarfélögin og/eða  fylkin  fari með öll önnur mál hvert í sínu byggðarlagi eftir þeim lögum sem um það munu gilda. Svona er þetta á Norðurlöndum. Þar er norræna velferðarkerfið sem Steingrímur er sífellt að bulla um ekki  á hendi ríkisins heldur sveitarfélaganna, sem ráðstafa 70 % af öllu opinberu fé en ríkið aðeins 30 %  

Hér þurfa grundvallarbreytingar að koma til auk þess sem endurreisa þarf lýðræðið í landinu hvað kjör á þessum Alþingismönnum snertir. Þetta endemis lið utan af landi sem flýtur þar inn á atkvæðamisvægið með gáfnafar eins og Kolbrún lýsir, og engum dytti í hug að kjósa í Breiðholtinu, yrði þarmeð þjóðinni til minni skaða en nú er. Og allt bullið sem sparaðist þar með væri þjóðargæfa þar sem málum myndi fækka svo þar að stytta mætti vinnutímann um helming og lækka kostnaðinn þar með líka.

Ef við hugsum um það það er ein afleiðing hrunsins þessi:

Það hefur orðið gengisfall á stjórnmálamönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband