Leita í fréttum mbl.is

Kvótafyrningin og þjóðin.

Ég var á vönduðum fyrirlestri hjá Jóni Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann fjallaði um kvótann og boðaða fyrningu ríkisstjórnarinnar um 5 % árlega. Fundurinn var haldinn í Sjálfstæðishúsinu í Kópavogi og var fjölsóttur. Mér skildist að Jón myndi fara vítt um land með þetta erindi og tel ég það vel í alla staði ef menn vilja ræða kosti og galla málefnalega og án þeirrar uppivöðslu og alhæfinga sem mörgum er svo hætt við  að grípa til þegar kvótakerfið kemur á dagskrá.

Jón birti sem dæmi um kvótaþróun frá 1984 til þessa dags  yfirlit um kvótasögu Þórunnar Sveinsdóttur frá Vestmannaeyjum. Í upphafi fékk skipið úthlutað ca.400 tonnum af þorski 1984 við setningu kvótalaganna. Á fyrsta ári var sá kvóti rýrður um einhver 170 tonn. Í dag á skipið einhver 1200 tonn af þorski og heilmikið af öðrum tegundum eins og til dæmis skötuselnum. 95 % af heildarkvótanum hefur útgerðin keypt af öðrum. Skuldar sjálfsagt bönkum fúlgur vegna þessa. En fyrri vinstri stjórn "okkar framsóknarmanna" og m.a. Steingríms J. Sigfússonar og annarra kommúnista 1989 leyfði veðsetningu aflaheimildanna til þess að hjálpa útgerðinni að hagræða. Nú eru þetta bankaskuldir með veði í öllum eigum útgerðarinnar. Jón taldi að skuldastaða útgerðarinnar væri minni en margra annarra atvinnuvega og kom það mörgum á óvart.

Jón sýndi tölur sem sýndu að skipum hefði fækkað um helming frá því að kvótinn komst á. Jafnfram hefði rekstur sjávarútvegsins, sem stæði undir allt að fjórðungi landsframleiðslunnar þegar allt væri talið, orðinn sá besti í heimi og önnur lönd horfðu til Íslands sem fyrirmyndar um veiðistjórnun. Nú væri ríkisstjórnin að boða að innkalla 5 % af kvótanum árlega og taka hann allan til sín á 20 árum. Þetta á að gerast bótalaust. Nú vissu allir að það væri síðustu prósentin sem skiptu sköpum í öllum rekstri. Það stæðist því ekki að halda því fram að 5 % væru svo lítið að það skipti engu máli. Á tuttugu árum færi allur kvótinn frá útgerðinni en skuldirnar vegna kaupanna sætu eftir.

Svona væri ekki hægt að fara fram og fráleitt að fullyrða að veiðar á skötuselnum skiptu engu máli í þessu sambandi. Auðlindin væri eign þjóðarinnar, um það væri ekki deilt. Hvernig ætti að nýta hana taldi Jón vera auðsætt að það yrði best gert af þeim sem til þess hefðu tæki og reynslu. Sjávarútvegurinn greiddi auðlindagjald og yrðu breytingar á fyrirkomulagi að gerast með víðtækri sátt en ekki með 5 % árlegri fyrningarstefnu ríkisstjórnarinnar.

Fróðlegar umræður urðu að loknum fyrirlestri Jóns. Einn ræðumanna benti á að skötuselur væri flökkustofn og engan veginn íslenskur. Útbreiðsla hans við Ísland hefði breyst í seinni tíð. En ef breyting yrði til baka sagðist hann ekki vera í vafa um að Hafró myndi kenna um ofveiði eins og endranær þegar breytingar yrðu í sjónum. Fundurinn leystist því miður upp í stjórnlaust rifrildi utan úr sal þannig að málefnaleg umræða leið fyrir.

Mér þótti fyrirlestur Jóns hinn fróðlegasti í alla staði. En mín skoðun er sú að á fundum um svona stórt mál og tilfinningaþrungið, verði að vera ákveðin fundarstjórn, þar sem menn megi aðeins koma með skriflegar fyrirspurnir til frummælanda sem þeir mega lesa í pontu en ræðuhöld upptendraðra manna um einkaskoðanir sínar verði þá teknar á öðrum fundi sem þeir geta þá boðað til. Fyrirlestur Jóns var ágætur, vel undirbyggður  og fræðandi og slíku erindi er ekki við hæfi að svara með slagorðum heldur rökum sem verða að vera undirbúin og byggjast á staðreyndum.  En það eru auðvitað fá mál sem eru eins umdeild og "gjafakvótakerfið" svokallaða, þar sem þeir tala oft hæst sem eru búnir að selja sinn kvóta og vilja byrja uppá nýtt. Það er hinsvegar bráðnauðsynlegt að fólk almennt fari að velta fiskveiðistjórnuninni fyrir sér og með hvaða hætti megi skapa meiri sátt um hana.

Undirritaður hefur talið að auðlindagjaldið hefði verið sú sáttargjörð sem menn hefðu getað sætt sig við. Nýliðun í greininni verður allaf erfið, hefur alltaf verið erfið en ekki ómöguleg.  En þeir prédikarar sem hæst láta komast ekki frá fyrstu úthlutuninni, sem þeir telja ránsfeng hinna fáu. En var hægt að byrja kerfið einhvernvegin öðruvísi?  Það er greinilega ófær leið í sjávarútvegi, að hafa einskonar Landsútgerð sem nytji fiskimiðin eins og Landsvirkjun vatnsorkuauðlindirnar og Hitaveitur jarðvarmann. Það er hægt að segja allir mega veiða eins mikið og þeir geta á sem skemmstum tíma. Fjölgum skipum sem allra mest og veiðum aflamagnið á einum degi þar sem allir eigi jafnan aðgang. Eða hafa skipulagið eins og það er.

Skipin koma sumstaðar inn á mánudagsmorgni með 200 tonn af tiltekinni tegund og ekki ugga af neinu öðru. Vinnslan gengur eftir klukku og enginn hefur séð neitt frákast eða þannig lagað. Frystiskipin ganga með fjórföldum afköstum frá því sem áður var. Samherji hefur keypt upp mestan kvóta Breta og víða  gengur vel í sjávarútvegi nema hjá þeim útgerðum sem voru í verðbréfabraskinu með útrásarvíkingunum. Hefur nokkur velt fyrir sér af hverju þeir Bónusfeðgar voru ekki búnir að leggja undir sig útgerðina líka ? Þótti þeim hún vera of áhættusamur bransi?

Sá sem þetta ritar hætti við að taka til máls vegna upplausnarinnar á fundinum. En hann hefði þó viljað benda á tvennt:

1. Ef taka á kvóta af einhverjum sem hefur keypt hann á markaði og gera hann upptækann  til ríkisvaldsins, þá hljóta að koma fullar bætur fyrir samkvæmt stjórnarskrá. Ríkinu ætti þá að vera í lófa lagið að taka við veðskuldum vegna þessa og létta af gerðarþolum.

2. Hverjir eiga að kaupa kvótann sem losnar?

Undirritaður er ekki í vafa um það, að þegnar Efnahagsbandalagsins myndu ásælast að kaupa hann hvað sem svo liði einhverjum gervigirðingum.  Er það ekki einmitt í samræmi við pólitíska stefnu þeirra sem standa að þessari 5 % árlegu fyrningarleið að svo verði ?  Sjávarútvegurinn á hvort sem er að falla undir lögsögu Efnahagsbandalagsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna þegar í Bandalagið kemur.

 Er 5% x 20 ára fyrningin þá ekki í samræmi við boðaða stefnu Samfylkingarinnar ? Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópubandalagsins og sjávarútvegsmálum Íslendinga stjórnað í samræmi við hana ? 

Kvótafyrningin og Samfylkingin.

Eru þetta ekki kvistar á sama meiði pólitísks framsals sjálfstæðis landsins til Brüssel ?

Er það þetta sem þjóðin vill ?   

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Atli Hermannsson.

Ég hefði viljað vera á þessum fundi. En ég hef verið að hlusta á Jón Gunnarsson nokkrum sinnum að undanförnu í útvarpinu. Það sem helst kemur mér á óvart er hversu mikinn áróður hann rekur fyrir LÍÚ. Hann stendur sig að því leytinu mun betur en Friðrik Jón. Þetta er að því leytinu gott að margt fólk sem ekki hefur fylgst mikið með umræðunni um sjávarútversmál er að verða nóg boðið.

Þessi skefjalausi áróður Jóns Gunnars, Vilhjálms Egils og fleiri  mun því flýta fyrir nauðsynlegum endurbótum á kerfinu.

Varðandi lið 1. vil ég aðeins segja þetta sem ég veit að er þér auðskilið;

En því er stöðugt haldið að fólki að yfir 80% af aflaheimildunum hafi skipt um hendur og núverandi handhafar hafi “keypt” kvótann. Því verði að bæta þeim með einhverjum hætti skerðinguna ef t.d. fyrning kæmi til eins og stjórnarflokkarnir boða. Ég vil hins vegar benda á; að á löngu árabili eftir að framsalskerfið kom til sögunnar árið 1990, afskrifuðu allar stærstu útgerðirnar kvótakaupin hjá sér um 20% á ári - afskrifuðu á fimm árum. Þá lækkaði sú tala í 15% árið 1995. Þannig afskrifaði stórútgerðin öll kvótakaup til ársins 2003 og kom sér þannig hjá því að borga skatta. Eftir 2003 var skattareglunum breytt og ekki lengur hægt að draga kvótakaupin frá skatti. Því má með réttu segja að stórútgerðin hafi í raun aldrei greitt eina einustu krónu fyrir eitt einasta tonn sem LÍÚ þrástaglast á að hafi skipt um hendur og keypt dýrum dómum.

En ég er ekki hrifinn af fyrningunni því hún er enn eitt kákið á handónýtu kerfi sem ekki hefur skilað neinu af því sem kerfið átti að gera er það var sett á. Þá er að mínu mati algjört aukaatriði hvort útgerðin borgi  fáeinar krónur í auðlindaskatt eða veiðileyfagjald hér þegar hún er t.d. að borga Rússum 70 krónur fyrir að veiða í Barentshafi.

Það þarf með öðrum orðum að henda kvótakerfinu og taka upp sambærilegt kerfi og Færeyingar nota með góðum árangri. Þar er fókusinn allur á nýtingarstefnunni og notkun vistvænna veiðarfæra en ekki "eignarhaldinu"eins og hjá okkur.   

Nú þrástaglast stórútgerðarmenn á orðinu "afhendingaröryggi" og ekki megi gera nokkurt það sem raskað gæti því. En hvaða öryggi hafa aðrar atvinnugreinar eins og t.d. byggingafyrirtæki eða steypustöðvar svo dæmi sé tekið. Af hverju ættu handhafar veiðiheimilda að búa við eitthvað meira öryggi en íbúar einstakra byggða sem hafa það yfir höfði sér að vaknað upp einn morguninn við það að kvótinn í byggðalaginu sé farinn eitthvað annað. Hvaða tryggingu hafa t.d. íbúar Grindavíkur fyrir því að Þorbjörninn og Visir verði áfram þar eftir tvö ár. Nákvæmlega enga. 

Það sem þarf að gera og gera átti strax árið 1983; er að hafa togaraflotann og strandveiðiskipin aðskilin og ekki hægt að færa heimildir á milli. Þetta er ekki orðið of seint, heldur á að nota það svigrúm sem nú er og bæta við 70 þúsund tonnum í þorski og taka helminginn af því útfyrir sem deilt yrði á strandveiðiflotann og aðra þá sem sannarlega vilja nota vistvæn veiðarfæri... stórútgerðin vill hvort eð er ekki bæta við... vegna þess að hún getur ekki selt fastakúnnunum meira.

Atli Hermannsson., 28.3.2010 kl. 01:02

2 Smámynd: Júlíus Björnsson

Það sem þarf að gera og gera átti strax árið 1983; er að hafa togaraflotann og strandveiðiskipin aðskilin og ekki hægt að færa heimildir á milli. Þetta er ekki orðið of seint, heldur á að nota það svigrúm sem nú er og bæta við 70 þúsund tonnum í þorski og taka helminginn af því útfyrir sem deilt yrði á strandveiðiflotann og aðra þá sem sannarlega vilja nota vistvæn veiðarfæri... stórútgerðin vill hvort eð er ekki bæta við... vegna þess að hún getur ekki selt fastakúnnunum meira.

Þetta er fjöldavænt og rök. Fleiri græða.

Alþjóða aðilar sér ílagi EU fagna öllu sem lækkar verð á hráefnum og 1. vinnslustigs þeirra.  Innri kostnaður á Íslandi  er okkar mál á því sem Íslendingar éta sjálfir. 

Hinsvegar er það fullvinnslu samkeppni sem EU snýst út á og allir hefðbundnir Meðlima-Ríkja innri markaðir eiga sína fiskneyslukvótahefðir. Sem liggja til grundvallar hráefnaskiptingunni inn á Meðlima-Ríkjamarkaðina í þeirra fullvinnslu samkeppni.

Hugsið þroskað hugsið eins og Þjóðverjar. Þeir geta vanið sig af fisk áti.  EF við við viljum selja EU fullvinnslu verðum við að kaupa sama magn af henni. Fullvinnsla minnkar atvinnuleysi og skapar mestan innri virðisauka. Peningar eru ekki allt þegar upp er staðið í innri markaða viðskiptum Ríkja. Því einfaldari og kostnaðar minni sem afhending hrá efna til dreifingar á samkeppni markaði Meðlima Ríkja EU verður því minna kemur í hlut Íslands.  Upplýsingar um þetta er uppfærðar daglega enda fáir um sölu og útvegun og því auðvelt að gera áætlanir.

Best væri ef kaupendur á meginlandi EU teldu allt mjög dýrt hér og kostnaðarsamt og óarðbært.

Kristni er ekki ríkistrú í EU eða lög. Einfaldleiki borga sig ekki í arðbærum viðskiptum.  Það sem einfalt og ódýrt kallast lávara og hráefni hjá þroskuðum þjóðum og Ísland er eina landið í heimum þar sem aðilar geta grætt gífurlega á lágum innkaupsverðum.

Júlíus Björnsson, 28.3.2010 kl. 05:21

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Atli,

þakka þetta innleggþ Ég hafði ekki athugað þetta með afskriftirnar og skattamálin . Eiga þær þátt í slakri eiginfjárstöðu útgerðarinnar? Ég skal viðurkenna það, að ég á erfitt með að eygja leiðir til þess að breyta núverandi fiskiskortskerfi yfir í færeyskt kerfi nema með róttækum aðgerðum eins og Jón Krisyjánsson hefur lagt til. Afnema kvótann á einum degi og taka upp sóknarstýringu eftir tímabilum. Er það ekki áhættusamt við núverandi aðstæður? Allavega fengjum við ekki neina þjóðarsátt um það held ég. 

Halldór Jónsson, 28.3.2010 kl. 13:28

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikið óskaplega held ég að fyrirlestur alþingismanns úr Sjálfstæðisflokknum um stjórn fiskveiða hafi veri hlutlaus og málefnalegur!

Kannski næstum jafn málefnalegur og fundurinn á Ísafirði þarna á dögunum þar sem engar athugasemdir voru leyfðar.

Enga málefnalegri umræðu um stjórn fiskveiða hef ég heyrt en þá umræðu sem fýlarnir á bryggjunni á Króknum leyfðu mér að hlýða á í fyrrasumar.

Þá voru 30 trillubátar bundnir í smábátadokkinni en tvö risastór dragnótaskip voru að landa fullfermi af fallegum, spriklandi þorski á trailera frá Reykjavík. Þenna fisk höfðu þeir veitt með nýrri gerð af togurum sem kallast dragnótabátar! Og eru með 1000 ha. vélar.

Þarna voru þessi stoltu skip hagræðingarinnar í útgerð á Íslandi að veiða inni á Skagafirði í svona ámóta fjarlægð frá bæjunum að frúrnar gátu auðveldlega skutlað heitum kleinum inn um gluggann til skipstjórans í brúnni.´

Tveir trillubátar frá Króknum voru að basla við að sækja á handfæri vestur og norður á Hornbankann. Þeir gáfust fljótt upp vegna slæmrar veðráttu. Þeir höfðu auðvitað engan frið inni á Skagafirði enda er sá fjörður nú eign nokkurra góðra vina alþingismanna Sjálfstæðisflokksins sem vita að Ísland er ekki fyrir fólk heldur fyrirtæki í eigu réttra manna.

-Þetta gengur nú bara ekki- sagði gamall og geðvondur fýll úr Hegranesinu. -Haltu kjafti gamli kommatittur- sagði ungur kvenfýll norðan úr Ketubjörgum. -Þið þarna í Hegranesinu hafið ekki vit á nútúma hagfræði og hinu alvísa auga markaðshyggjunnar sem á eftir að skapa öllum þjóðum heimsins hagsæld.

Árni Gunnarsson, 28.3.2010 kl. 16:55

5 Smámynd: Atli Hermannsson.

Halldór. Það er almenn ánægja í Færeyjum með sóknardagakerfið, jafnt meðal útgerðarmanna, sjómanna og fiskverkafólks eins og þú veist. Hins vegar er þessu þveröfugt farið hér á landi. En þrátt fyrir það er enginn áhugi á því að kynna sér sóknardagakerfið. Þegar Einar k. Guðnason var formaður sjávarútvegsnefndar á sínum tíma bauð t.d. þáverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja nefndinni á koma í heimsókn og kynna sér kerfið, en því var af einhverjum undarlegum hvötum hafnað. Það lítur hreinlega út fyrir að það sé fyrir neðan virðingu okkar Íslendinga að líta til þeirra.

En ég vil minna á að þegar kvótakerfinu var komið á 1983 var samhliða sóknardagakerfi hjá okkur. Meirihluti þorskaflans var tekinn á sóknarmarksskipum allt fram undir 1990 að stjórnvöldum tókst að sannfæra síðustu útgerðamennina um að kvóta fyrirkomulagið væri betra. Ástæðan var einfaldlega sú að Hafró gekk bölvanlega að áætla og ráðleggja til um heildarveiðina og sögðu sóknardagana stefna "uppbyggingu" stofnananna í voða. Þá voru síðustu útgerðirnar, eins og t..d Ögurvík hf lokkuð yfir í kvótakerfið í skiptum fyrir frjálsa framsalið og öllu því braski sem það bauð uppá. Síðan höfum við haft hreint braskkerfi sem stjórnast af einkahagsmunum fárra, en ekki líf- og vistfræðiþáttum líkt og Færeyingar gera.      

Atli Hermannsson., 29.3.2010 kl. 00:07

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Atli,

Þetta var gott innlegg í umræðuna og rökvís.

Halldór Jónsson, 29.3.2010 kl. 08:12

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Árni

Hvað er þetta um Skagafjörðinn ?

Skemmtilegur fýlafundur hjá þér !

Halldór Jónsson, 29.3.2010 kl. 08:14

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta um Skagafjörðinn er kapítuli, einn af mörgum um stjórn fiskveiða á Íslandi. Það komst nefnilega einhver sprenglærður fræðingur á Hafró að það gengi ekki að hafa Skagafjörðinn fullan af fiski en enginn Króksari væri í einkavinafélagi LÍÚ.

Þess vegna var sjávarútvegsráðherra, Einar Kr. látinn gefa út leyfi handa dragnótabátum víðs vegar af landinu. Svona lagað er gert í skyni hagræðingarinnar sem er fólgin í því að aftengja fólkið í landinu auðlindum þess.

Umræddir dragnótabátar voru með svona helmingi aflmeiri vélar en togararnir bresku sem urðu efni sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á fyrri hluta síðustu aldar.

Ekki hef ég tölu á þessum togskipum en þau voru mörg og skörkuðu á firðinum í þrjá mánuði ef ég man rétt. Það var hlaðafli allan þennan tíma og vissulega væri fróðlegt að komast að því hversu mörg hundruð tonnum af fiski var ekið brott af svæðinu án þess að einn fiskur kæmi til vinnslu á svæðinu.

Árni Gunnarsson, 29.3.2010 kl. 11:46

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Já Árni, það er mikið dálæti sem stjórnmálamenn allra tíma hafa á dragnótinni. Hét hann ekki Ólafur einn útgerðarmaðurinn sem alltaf var skrifandi um nauðsyn þess að hann fengi dragnótaleyfi í Faxaflóa sem þeir voru að reyna að halda í friði fyrir honum. Það virðist framhaldið vera þarna í Skagafirði að togararnir þurrka fjörðinn og keyra fiskinum burt á trailerum en heimamenn sækja til Grímseyjar til að fá frið með handlóðir sínar.

Halldór Jónsson, 29.3.2010 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband