Leita í fréttum mbl.is

Eliot Ness

Ekki get ég sagt að ég hafi orðið uppnuminn að hlusta á leiðtoga stjórnmálaflokkanna ræða skýrsluna í Kastljósinu í kvöld.

Þarna þurfti maður enn og aftur að hlusta á fullyrðingar Jóhönnu og Steingríms um það, að hrunið hafi orðið vegna frjálshyggjunnar og stefnu Sjálfstæðisflokksins í fyrsta lagi og síðan í öðru lagi vegna þess að sami aðili hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu eftir að vera búinn ásamt samstarfsflokki sínum Framsóknarflokknum að afhenda ríkisbankana í ræningjahendur.

Þarna þurfti maður enn og aftur að hlusta á því haldið fram, að stefna Sjálfstæðisflokksins,sem var samin fyrir 80 árum og þeirra kalla frjálshyggju, hafi endanlega brugðist og eigi beina sök á hruninu.

Ég spyr þetta fólk, voru  AlCapone og Lucky Luciano frjálshyggjumenn ?  Ber að hundelta Eliot Ness og hans menn fyrir að vera svona lengi að stöðva þessa glæpahunda ? Ber að fordæma þá líka sem voru forsetar Bandaríkjanna á þeirra tímum og báru þar með  æðstu ábyrgð á þessum mönnum og gerðum þeirra þar í landi?

Af hverju geta menn þráttað svona lengi um hrunið og hver gerði og hver gerði hvað ekki ? Allt í stað þess að tala um hverjir það voru sem gerðu ? Hverjir voru mennirnir sem framkvæmdu bankaránin? Hvaða fjölskylda er  ábyrg fyrir að að helmingur alls eiginfjár bankanna hvarf ? Hvar eru peningarnir?  Hverjir stjórna meirihluta íslenskrar fjölmiðlunar og stýra fréttaflutningnum ? Hverjir fara með stærstu atvinnufyrirtæki landsmanna enn ? Hverja virðast núverandi stjórnvöld ætla að styðja til áframhaldandi valda og eignarhalds á helstu þeim fyrirtækjum sem almenningur er  upp á kominn ?

Skyndilega er ekki lengur talað um þjófana og bófana heldur af hverju Eliot Ness var svona lengi að stöðva þá?  Það er eins og það skipti höfuðmáli hversvegna ákveðnum kjölfestufjárfestum voru seldir bankarnir svo dómgreindarlaust sem raun bar vitni? Skiptir það minna máli að kaupendurnir reyndust vera ótíndir glæpamenn sem lugu og fölsuðu sín á milli allar staðreyndir um sjálfa sig og hvað þeir ættu af peningum ? Blekktu auðtrúa seljendurna beinlínis sem verða nú líklega gjalda  eigin heimsku með æru sinni ?

Er það skyndilega orðinn sá sem stolið er frá sem er orðinn sekari en þjófarnir sjálfir? Hafa þjófarnir og falsararnir líka ekki heri manns við þá iðju að snúa þessum staðreyndum við og sverta þá stöðugt sem seldu ? Er það ekki sá málflutningur sem almenningur verður að sitja undir í síbylju fréttaflutningsins? Holar ekki dropinn steininn?

Er ekki mesta áherslan lögð á það, að gera alla tortryggilega sem í einhverjum viðskiptum voru við þessa glæpabanka?  Skiptir það meira máli  en  að reyna að endurheimta þýfið hjá þjófunum? Á mönnum endalaust að líðast að valsa um glaðbeittir og tæma bankareikninga á undan lögheimtumönnum?. Eiga þessir menn  að hafa allt frelsi í heimi til að fela, svindla  og svíkja eins og ekkert hafi í skorist? Og nú síðast að fá eignarhald yfir sínu fyrra veldi  með atbeina ríkisvaldsins,  sem nú er búið að endureinkavæða bankana með nýjum eigendum sem enginn þekkir raunverulega hætishóti betur en í fyrra skiptið hverjir eru?

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er í tveimur greinum:

  • 1. „Að standa vörð um frelsi og sjálfstæði Íslands"
  • 2. „Að vinna í innanlandsmálum að þjóðlegri og víðsýnni umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum."

Þessi stefna hefur dugað stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar án þess að þurft hafi breyta einum staf í 80 ár á meðan vinstri flokkarnir hafa stöðugt málað yfir nöfn og númer eins landhelgisbrjótar gerðu eftir því sem vindarnir blása. Það er ömurlegt að hlusta á fólk sem hefur það sem æðsta pólitískt stefnumark, að koma Íslandi undir erlend yfirráð snúa út úr þessari stefnu og rakka Sjálfstæðisflokkinn með því niður í svaðið.

Þessi stefnuskrá hefur auðvitað ekki komið í veg fyrir að misjafnir sauðir hafi verið valdir til forystu í Sjálfstæðisflokknum.En löngum hafa þeir samanlagt reynst þjóðinni skár en margir forystumenn annarra flokka.Og svo mun enn verða því að hugsjónagrundvöllurinn er sá sami og hefur ekki breyst.Til Sjálfstæðisflokksins leitar frjálsborið fólk á öllum tímum, fólk sem hleypur ekki á eftir ismum og tískubólum heldur vill hafa báða fætur á jörðinni, trúa á landið sitt og treysta hvoru öðru..

Það er ömurlegt að hlusta á gamla kommúnista eins og Steingrím J. Sigfússon  vaða elginn og tönglast á því að frjálshyggjan hafi brugðist og því verði stjórnlyndið og frelsissviptingin að taka við undir þeirra stjórn. Menn sem bera hrundustu hugsjónaborgir heimsins á herðum sér vita núna allt um hvert þjóðfélagið skuli stefna þó þeir láti öðrum eftir bæði stýrið og kompásinn.Sigla aust-west eins og Oddur. 

Ísland mun þá fyrst rísa úr öskustó kreppunnar  þegar hin borgaralegu gildi ná aftur hljómgrunni meðal fólksins, þegar atvinna gefst aftur fyrir vinnufúsar hendur.Þegar eign fyrir alla verður orðin reglan í þjóðfélaginu en ekki undantekningin. Það verður hinsvegar ekki í tíð núverandi ríkisstjórnar, svo mikið er fyrirsjáanlegt.

Það er atvinnulífið sem öllu máli skiptir fyrir endurreisn þjóðarinnar. Þar verða allir að leggjast á eitt. Áfellumst því ekki Eliot Ness eða hans menn þó þeim hafi gengið seint að ná bófunum. Reynum  heldur að hjálpa þeim til góðra verka svo að borgarar landsins geti verið óhultir um sparifé sitt og snúið sér að þarfari störfum við uppbyggingu þá sem framundan er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Frjálshyggjan er að drepa allt í dróma, hérlendis sem erlendis. Hún átti að vera ópíum fólksins til vakningar. En reyndist vera dauðasprauta. Bæði hjá venjulegu fólki og atvinnulífinu.

Björn Birgisson, 14.4.2010 kl. 23:26

2 Smámynd: Baldur Hermannsson

Kerlingargarmurinn sat þarna og rorraði eins og steingeld rolla og það var hörmung að hlusta á vaðalinn sem vall upp úr henni. Kommarnir hljóta að vera orðnir uppgefnir á náhirðinni. Dagur Bergþóruson knýr hurðar.

Baldur Hermannsson, 14.4.2010 kl. 23:47

3 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Fíflarnir hverfa ekki nema rótin sé stungin upp...

...ekki fíflin heldur.

BURT MEÐ FLOKKAKERFIÐ!

Haraldur Davíðsson, 15.4.2010 kl. 04:57

4 Smámynd: Halldór Jónsson

ja hérna Björn

Það væri gaman að fá frá þér vandaða skilgreiningu á frjálshyggju. Hvernig þú álítur hana hafa tengst þínu lífi sem kapítalista.

Baldur,

beittur að vanda.Jóhanna situr þarna eins og hún hafi enga fortíð, aldrei verið með í neinu með Sjálfstæðisflokknum eða í eigin valdabraski í Þjóðvaka. Aðeins mærin frá Orleans. Gersamlega stikkfrí frá öllu nema kattasmölun.

Haraldur,

Pol Pot og Heng Samrín reyndu að stinga upp fíflana og rætur þeirra í Kamputseu. Hvernig sérðu fyrir þér afnám  flokkakerfisins?

Halldór Jónsson, 15.4.2010 kl. 07:49

5 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Hrunið varð vegna frjálshyggjunnar eða eins og líka má segja : fyrir tilstuðlan kjósenda sjálfstæðisflokksins,,þökk sé þeim".

Þórdís Bára Hannesdóttir, 15.4.2010 kl. 10:25

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Þórdís

Vilt þú skilgreina frjálshyggjuna úr því að Björn gerir það ekki?

Halldór Jónsson, 15.4.2010 kl. 11:25

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Já og hverjir stálu ?

Halldór Jónsson, 15.4.2010 kl. 11:26

8 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Pol Pot og Samrin...það er ekkert annað....fast að kveðið Halldór...fast að kveðið...

Samlíkingin kallar ekki á önnur svör. 

Haraldur Davíðsson, 15.4.2010 kl. 11:35

9 Smámynd: Baldur Hermannsson

Halldór er hinn dæmigerði verkfræðingur sem hefur allar staðreyndir á hreinu og gereyðir moðreyknum með gallhörðum rökum. Þannig eiga sýslumenn að vera, hefðu menn sagt hér í gamla daga.

Baldur Hermannsson, 15.4.2010 kl. 11:48

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Því má aldrei drepa á dreif að stjórnvöld bera á hvejum tíma þá ábyrgð að fylgjast með fjármálastarfsemi í samfélaginu.

Jafnframt að grípa til aðgerða þegar vísbendingar sjást um að reglum sé ekki fylgt eða jafnvel að þær séu brotnar. Ef við leyfum okkur að vonast til þess að hér rísi heilbrigt samfélag er það fyrsta verkefnið að þjóðin læknist af meðvirkni og tillitssemi í garð þeirra sem brugðust.

Ekkert er ógnvænlegra í mínum huga en þær sterku vísbendingar sem ég sé um að hér hafi orðið siðræn úrkynjun og ekki bara í stjórnsýslu og embættum heldur einnig í samfélaginu öllu.

Og ég sé ekki neitt sem hnikar þeirri skoðun minni. 

Árni Gunnarsson, 15.4.2010 kl. 12:41

11 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Kærar þakkir Halldór !

Grein þín "Eliot Ness" er frábær.

Kemur beint að kjarna málsins og ætti skilið að birtast í dagblöðum landsins svo fleiri geti fengið að lesa þín skrif.

Þetta er það besta sem ég hef séð hingað til.

Heill sért þú Halldór !

Sigurður Alfreð Herlufsen, 15.4.2010 kl. 13:04

12 Smámynd: Björn Birgisson

Það er til frjálshyggja og svo er til óheft frjálshyggja. Sú fyrri er varhugaverð og vandmeðfarin, en sú síðari steindrepur allt í kring um sig eins og dæmin sanna.

Björn Birgisson, 15.4.2010 kl. 13:39

13 Smámynd: Baldur Hermannsson

Það örlar á ónákvæmni í athugasemd þinni, Bjössi, hið rétta er að frjálshyggja er lífsnauðsynleg forsenda velmegunar og lífshamingju. Hins er svo að gæta að þaðeru fleiri menn breyskir en við Árni Gunnarsson, og auðvitað á samfélagið að fylgjast grannt með því að hentistefnumenn níðist ekki á kerfinu og misnoti frelsið.

Baldur Hermannsson, 15.4.2010 kl. 13:46

14 Smámynd: Svavar Bjarnason

Sá sem hleypir villidýrum lausum, er ábyrgur fyrir skaða sem þau valda. Jafnvel þó hann segi, sér til varnar eftirá, að hann hafi varað fólk við og sagt að þau væru að fara að valda skaða.

Svavar Bjarnason, 15.4.2010 kl. 13:49

15 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Björn Birgisson gerir sekan um slagorðanotkun og upphrópanir sleggjudóma án þess að færa rök fyrir máli sínu. Eins og litlu krakkarnir segja þegar röksemda er krafist : „Af því bara” .

Frjálshyggja er bara frjálshyggja Björn, annars er hún ekki frjálshyggja . Nazismi verður ekkert minni Nazismi þó hann sé kallaður NýNazismi. En það orð var fundið upp til að komast fram hjá banni við starfsemi Nazistaflokksns.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 15.4.2010 kl. 15:05

16 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta er bara staðreynd. 

Frjálshyggjan svokallaða er orsök þarna en það má segja að Sjallíska útgáfan af henni hafi dregið fram alla hennar vestu þætti.

Sjallar einfaldlega rústuðu landinu.  Það er niðurstða skýrslunnar,  þó höfundar hennar kunni ekki við að segja það berum orðum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.4.2010 kl. 15:09

17 Smámynd: Björn Birgisson

Predikari. Rök? Lestu Skýrsluna maður!

Björn Birgisson, 15.4.2010 kl. 15:32

18 Smámynd: Júlíus Björnsson

Hvað með útvíkkunar áætlun Brussel um útvíkkun og fylgjandi forréttinda nágrannasamninga sem fela í sér ávinning um tjáningarrödd í Brussel eða formlega þátttöku í samkeppni á innri samkeppni mörkuðum Meðlim-Ríkjanna. Grunnur samkeppni dreifingarnetkerfi milli helstu stóriðjuveraborga, kvóta skipting og sameiginleg öflum orku, hráefna og 1 vinnslustigs þeirra í fullvinnslur stórborganna.

Samþætting á þessu þróunarferli felst í lánafyrirgreiðslum  og meðmælum Seðlabanka Evrópu og Seðlabankakerfis Evrópu honum háð.  Evra verður ekki tekinn upp nema Seðlabanki Meðlima Ríkisins gefist á vald Seðlabanka Evrópu. UK vill ekki gefa sinn eða kaup hlut í Fjárfestingarbanka Evrópu og notar því pund. Þetta má líka kalla samvinnu um miðstýrðar stórframkvæmdir eftir stjórnmállegum leiðum. Umboðið í Brussel hefur nefnlega það hlutverk að sjá um grunninn.

Áróðurshluti útvíkkunarinnar felst í að nota tekjur af væntalegum meðlim til að kosta fræða setur [setið hálvitum] í viðkomandi Meðlima-Ríki.  

Seðlabanki EU bannfærði þann Íslenska 2006.

Það koma fram ný grunnlög um efnahagsreikninga í EU um 1990 í anda Regan-Thatcher, það var ekki nauðsynlegt að breyta höfuðstóli í eiginfé. Kapital er en við lýði utan Íslands.

Þessi breyting átti að gefa frelsi til meira braks og meiri áhættum samvara slökun á kröfum um raunverðmæti höfuðstóla.

Útfærslur fara svo eftir Meðlima-Ríkjum og áherslur eftir þroska, það er hvernig eigi að fara með valfrelsið. Bretar og Íslendingar mun hafa sýnt minnsta þroskann. Gleymt því að traustur  höfuðstóll hrynur aldrei, og áhættu á alltaf að miða við traustan höfuðstóll.

Allir hér gerðu mest lítið í samræmi við greindina, erlendu ráðgjafar og reglustýriverk EU réðu mestu um stefnumörkunina eða einstefnu sérfræðiþröngsýninnar aðal vanþroskarið ríkja það er sem ekki fullvinna á eigin markað og til útflutnings.

Lítilmenni hafa alltaf talið annarra verk sér til tekna í þá veru má kenna sér um hrunið líka.

Heldur sá er veldur sögðu forfeður úrkynjunar sem ræður hér ríkja.

Þroskuðu Ríkin vita að þau vanþroskuðu eru óábyrg: gera út á það.

Júlíus Björnsson, 15.4.2010 kl. 20:42

19 Smámynd: Guðmundur Guðbjarnarson

Ég þekkti varla Elliot Ness hann var víst úr sveit fyrir westan en ég var í sveit fyrir vestan í sömu sveit og pabbi hans Jonna frænda. Al Capone þekkti ég ekki hann var frá Napólí, en ég vann við höfnina þar var eitthvað um afbrotamenn, sumir höfðu lent á hrauninu aðrir á Kvíabryggju.  Ég hlustaði á Bjarna Litla-Ben í umræddum þætti  honum var umhugað og mikið niðri fyrir um ágæti stefnuskrár sjálfstæðisflokksins. Það var einhvern tíma spurt: ,,á ég að gæta bróður míns´´? Hvernig hefur nú Sjálfstæðisflokkurinn hugsað fyrir flokksbræðrum sínum og þá vopnabræðrum sínum Framsóknarmönnum? Ekki er annað að sjá en að þeir hafi gert sitt til að hjálpa þeim að græða og þegar þeir seldu fyrrverandi stjórnanda skipafélags banka þá var útrás og viðskiptaferli fyrrum skipakóngsins á líka lund og fyrr nema, hvað  allt var miklu stærra í sniðum. Annar skipakóngur hefur einnig gert garðinn frægan og þjóðina fátækari hann fer nú að mestu huldu höfði hann er ekki sjálfstæðismaður þökk sé SÍS. Hömlulausar veislur þar sem menn stærðu sig af kostnaði við veisluhöld, allt var uppá borðum varðandi hinn víðáttuvitlausa launakostnað. Hafi einhver haldið að það væri hægt að reka batteríið á þennan hátt þá var hann álíka vitlaus og varaformaður Sjálfstæðisflokksins þegar hún í júlí 2008 sagði menn þurfa endurmenntunar við sem héldu því fram að allt væri að fara í vaskinn menn sem hafa margfalt meiri menntum og meira vit á fé en hún. Svo geta menn nú gagnrýnt forsetann sem er alls ekkert saklaus af því að hrífast með sigurgöngu landsliðsins í fjármálaóreiðu svo ekki sé nú dýpra í árinni tekið. Auðvitað spilaði hann með eins og fleiri, það er samt ekki sanngjarnt að gera hann að einhverjum klappstjóra, þann titil á aðeins einn maður í þessum  harmleik, sem sagði og það eru til upptökur sem sanna það, við skulum ekki bara hrópa þrefalt húrra fyrir þeim heldur ferfalt húrra: HÚRRA HÚRRA HÚRRA HÚRRA. Þessi maður klappaði sig inn í seðlabankann.  Það að einhver stefnuskrá sé til þýðir ekki það að farið sé eftir henni. Ég skal fyrstur manna kvitta fyrir það að þessi stefnuskrá er mjög frambærileg fyrir alla flokka, eins og tekin upp úr Kommúnistaávarpinu hljómar eins og kosningaloforð og kannski er hún ekkert annað.

Ég veit ekki hvað er alltaf verið að tala um erlend yfirráð á þann hátt sem andstæðingar Evrópusambandsins tala, það er allt svo neikvætt. En þegar kemur að því að standa í stóriðjuframkvæmdum þá má slá af orkuverði, ganga á snið við íslenskar(Evrópu-)reglugerðir um réttindi og skyldur, um öryggi, lappirnar eru dregnar þegar athugasemdir eru gerðar við brot útlendinga, það er horft í gegnum fingur sé varðandi ÍSLENSKA náttúru. Hægri menn í Evrópu eru meiri umhverfissinnar en framsóknarmenn sem einu sinni gerðu sig út á að vera útverði landsbyggðarinnar.Hin góða stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins hljómar því miður líkt og allar góðar stefnuskrár allra annarra eins og grín. þegar 8000 manns hafa flúið til annarra landa í leit að atvinnu og 17000 eru á atvinnuleysisskrá þá bið ég þig að hlífa mér þeim hluta stefnuskrár flokksins þíns um atvinnufrelsi, sem og þeirri þjóðlegu og víðsýnu umbótastefnu í því ríkjandi ástandi sem ekki sér fyrir endann á og á sér enga hliðstæðu hérlendis. Frelsi og sjálfstæði virðast einnig vefjast fyrir þér, óstöðugleiki í efnahagslífi þjóðarinnar er ekki Evrópusambandinu að kenna þöggun í samfélaginu ( ef þú ert ekki sammála verður þú  rekinn) á stórum vinnustöðum svo sem á fjölmiðlum í stjórnmálaflokkum. Ég get nú viðurkennt að það sem maður varð vitni að í verkum GAMLA sjálfstæðisflokksins myndu margir nýfrjálshyggjumenn sennilega líkja við félagshyggju (sósíalisma). Ég vil svo taka fram að ég hef nú alltaf tekið það sem grín að íslendingar kusu Davíð Oddson stjórnmálamann 20.aldarinnar ekki það að ég sé Framsóknarmaður en ég hefði talið að Jónas frá Hriflu hafi gert nokkuð meira fyrir íslensku þjóðina en Davíð með þeim miklu umbótum sem komu fyrir hans tilstilli  inn í íslenskt samfélag  svo sem skólanir sem ruddu okkur langt út úr moldarkofunum þó svo að ekki hafi tekist að afmá höfðingja þóknunina og minnimáttarkenndina.

Guðmundur Guðbjarnarson, 15.4.2010 kl. 21:17

20 Smámynd: Halldór Jónsson

Guðbjörn

Hugsaðu nú málið áður en þú skrifar:

"þegar 8000 manns hafa flúið til annarra landa í leit að atvinnu og 17000 eru á atvinnuleysisskrá þá bið ég þig að hlífa mér þeim hluta stefnuskrár flokksins þíns um atvinnufrelsi, sem og þeirri þjóðlegu og víðsýnu umbótastefnu í því ríkjandi ástandi sem ekki sér fyrir endann á og á sér enga hliðstæðu hérlendis."

Hverjir eru í stjórn ? 

Halldór Jónsson, 15.4.2010 kl. 22:30

21 Smámynd: Halldór Jónsson

Fyrirgefðu Guðmundur Guðbjarnarson

Halldór Jónsson, 15.4.2010 kl. 22:30

22 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ertu viss um að Guðmundur kunni að hugsa?

Baldur Hermannsson, 15.4.2010 kl. 22:41

23 Smámynd: Björn Birgisson

Ja hérna!

Hverjir eru í stjórn?

Ertu viss um að Guðmundur kunni að hugsa?

Blámennirnir tútna út í framan, svo ánægðir með flokkinn sinn!

Sem er auðvitað ekki. Baldur Hermannsson vill skipta út helmingi þingliðsins, vegna vanhæfni. Veit ekki um skoðanir Halldórs á því.

"Þegar 8000 manns hafa flúið til annarra landa í leit að atvinnu og 17000 eru á atvinnuleysisskrá........."

Hvaða ríkisstjórn sat við völd og ásamt með ýmsu öðru, heimatilbúnu og utan að komandi, skapaði þetta ástand?

Var það ekki bara ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur?

Er ekki allt í lagi heima hjá ykkur?

Er sítrónið kannski búið?

Björn Birgisson, 15.4.2010 kl. 23:26

24 Smámynd: Halldór Jónsson

Björn minn,

ef þú fengir þér sítrón þá kannski áttarðu þig á því að það var ekki ríkisstjórnin sem stal öllum peningum úr bankakerfinu. Það var  líklega frekar þinn maður en Davíð. Það má skamma Davíð fyrir það að þetta gerist á hans vakt og Geirs. En lestu greinina svo þú skiljir muninn.

Halldór Jónsson, 16.4.2010 kl. 00:47

25 Smámynd: Björn Birgisson

Ég las greinina.

Björn Birgisson, 16.4.2010 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband