Leita í fréttum mbl.is

Tími prófkjöra liðinn?

Ég hef lengst af verið hlynntur prófkjörum til að raða á framboðslista flokksins míns. Uppstillingar eru með því versta sem ég hef lent í. Prófkjörslisti er óumdeilanlegur og útilokar klofningsframboð ef þeir eru virtir.   Ég hef mestan áhuga haft á sveitarstjórnarmálum í gegn um tíðina enda alltaf fundist að í sveitarfélögunum eigi fólkið að ráða sem mestu um eigið líf og næsta umhverfi.

Veikleiki Íslendinga almennt finnst mér vera að ríkið og Alþingi sé með alltof mörg mál á sinni könnu sem betur væri komin í héröðum. Til viðbótar er kosningaréttur til Alþingis svo brenglaður þar sem sumir hafa svo margfaldan kosningarétt á við aðra, að mér þykir það svo viðurstyggilegt að ég get ekki litið á Alþingi með nægilegri virðingu af þeim ástæðum og finnst jafnvel Forsetakjör skárra. Þess vegna sé nauðsynlegt að takmarka viðfangsefni Alþingis þess sem allra mest og losna við afskiptasemi landsbyggðarþingmanna af umferðarmálum í Kópavogi til dæmis. En Alþingi Íslendinga er að ráðstafa um 60-70 % af opinberu fé meðan sveitarstjórnir ráðstafa hinum hlutanum. En þetta hlutfall er jafnvel öfugt í öðrum löndum sem við jöfnum okkur til.

Bensíngjaldið sem við þéttbýlismenn greiðum er til dæmis rifið til framkvæmda á afskekktum stöðum í  héröðum samgönguráðherranna sem venjulega koma úr dreifbýlinu.  Völdin finnast mér því eiga að vera sem mest heima í héröðum þar sem hver maður hefur eitt atkvæði aðeins, en ekki niður við Austurvöll þar sem óréttlætið verður alltaf geigvænlegt meðan kosið er með óbreyttum hætti.

Ég hef hinsvegar haft vaxandi áhyggjur af þróuninni eins og hefur verið í peningaaustri og auglýsingamennsku prófkjöranna. Að þau atriði fæli fólk beinlínis frá þátttöku í stjórnmálum. Þannig fari fólkið á mis við krafta margs góðs fólks sem ekki vill eða treystir sér fjárhagslega til að taka þátt í þeim hráskinnaleik.Það er ekki æskilegt að aðeins efnafólk geti sóst eftir áhrifastöðum eins og maður sér til dæmis í Bandaríkjunum.

Í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kópavogi nú í vor fannst mér svo keyra um þverbak í því að opna prófkjörið uppá gátt og beinlínis smala fólki til þess að ganga að nafninu til í Sjálfstæðisflokkinn á kjördegi án þess að svo mikið sem greiða árgjald. 16 ára börnum var greinilega smalað úr íþróttafélögum og öðrum stjórnmálaflokkum til þess að kjósa þennan frambjóðandann og fella hinn. Ég tók þá persónulegu ákvörðun eftir að verða vitni að þessu að ég mun eftirleiðis ekki skirrast við að ganga í alla flokka til þess að taka þátt í að velja frambjóðendur þó svo að mér komi ekki til hugar að kjósa þá í kosningum.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig við gætum á annan hátt komist betur frá svona máli. Ef ég tek dæmi héðan úr Kópavogi, þá finnst mér að stjórnmálaflokkur geti með einum eða öðrum hætti fundið 22 frambjóðendur til framboðs til 11 manna bæjarstjórnar. Þessum lista sé stillt upp sem framboðslista flokksins. Kjósandinn merki við tölur frá einum upp í ellefu hverja hann vilji kjósa og í hvaða röð.  Þannig verða bæjarfulltrúar valdir. 1. maður, 2. maður og svo framvegis.

Á þennan hátt hefur raunverulegur kjósandi viðkomandi flokks úrslitaáhrif um val fulltrúanna.  Prófkjör og kjör samtímis. Engir aðrir en flokksmenn kjósa fulltrúa flokksins.  Fjársterkustu frambjóðendurnir sjálfir munu sjá um verulegan hluta kostnaðar af framboði flokksins á þennan hátt og í mun meira mæli en áður. Þeir sem eru frægir þurfa ekki að hrópa. Minni þörf verður því fyrir beina styrki til flokkanna en verið hefur.  

Til Alþingis má hafa auðvitað hafa sama lagið á. Tillögur þeirra sem vilja að kjósendur velji fólk af öllum listum finnast mér ekki góðar. Ég álít að stjórnmálaflokkar séu nauðsynlegar stofnanir og þeir sem vilja þá feiga séu ekki að gera sér grein fyrir eðli stjórnmála eða hvernig þarf seð geta náð markvissum árangri. Stjórnmálaflokkar eiga því að njóta ríkisstyrkja eftir einhverjum reglum til þess að draga úr þörf fyrir styrki frá greiðasækjendum. 

Mér finnst kominn fyllsti tími til að hugsa prófkjörin uppá nýtt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég vil að forsætisráðherra verði kosinn yfir sameiginlegar framkvæmdir kjördæma og utanríkisstefnu á 6 ára fresti. Skipar hann fagfólk undir til að gegna yfirmannsstöðum sjálfsábyrgra ráðuneyta [ráðherra], sem nýtur m.a. þjónustu framúrskarandi stofnanna Ríkisins. Þingfulltrúar til að samþykkja fjárlög faghæfa liðsins koma svo inn á þing úr kjördæmunum á 4 ára fresti. Líka mætti hugsa sér að fulltrúarnir bæru upp tillögur til skoðunar af faghæfa liðinu.

Núverandi kostnaður við þinghald myndi svo millifærast að hluta yfir í fagstofnanir drjúgur hluti til neyslu almennings.  Við erum að tala um svipað kerfi og í EU. Færa kjaftæðið heim í héröð [kjördæmi] og stofna embætti umboðsmanns þingfulltrúa til að trufla ekki faghæfa liðið.

Júlíus Björnsson, 16.4.2010 kl. 22:29

2 Smámynd: Jens Guð

  Ég er sammála rökum þínum fyrir því að tími prófkjöra sé liðinn.  Prófkjörin eru orðinn skrípaleikur og hafa þróast langt frá upphaflegu lýðræðislegu markmiði.

Jens Guð, 17.4.2010 kl. 00:20

3 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þeir sem voru í prófkjöri þegar langafar mínir voru upp , voru yfirleitt reynsluboltar og eða velgrunn menntaðir ágætis námsmenn. Flestir þekktu ættærni þeirra og bakland persónulega. Þá hafði almenningur líka efni á að styrkja sína flokka.

Þetta tryggði okkur frelsi frá Danska lokaða innri markaðinum og ótrúlegum raun hagvexti fram að eftirstríðsárum síðar heimstyrjaldar þegar menn hættu að skilja stjórnarskrána.

Hornsteinarnir græða, fyrirtækin græða, fjármálgeirinn græðir. Er eðlilegur tekjustofn þroskaðrar stjórnsýslu sem hefur efni á hæfum starfsmönnum. 

Kína byggir fjármálageira fyrst og launþegarnir koma á eftir þetta er toppur komma kapítalisma. Nánast sami hagstjórnagrunnur í framkvæmd er rekinn hér í nafni allra flokka. Sælir eru heimskir að sjá ekki hvað þeir eru vanþroskaðir.

Júlíus Björnsson, 17.4.2010 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband