Leita í fréttum mbl.is

Hugmynd um fisk.....

Þar kom að því að mér líkaði vel við skrif Guðmundar Andra Thorssonar. Grein hans í Baugstíðindum "Hugmyndin um fisk er ekki fiskur " er afbragð að mér fannst. Grípum niður í henni:

"Ósköpin hófust með kvótakerfinu. Þá fylltist allt af peningum sem voru ekki til, frá mönnum sem höfðu aflað þeirra með því að selja það sem þeir áttu ekki: óveiddan fisk. Eins og helstu hugmyndafræðingar þessa kerfis þreyttust ekki á að útskýra fyrir heimsbyggðinni á sólríkum ráðstefnum þá var kvótakerfið undirstaða hinnar svokölluðu velmegunar Íslendinga. Sú velmegun var í raun og veru óveidd, rétt eins og þorskurinn í sjónum - og blásin út, rétt eins og verðið fyrir aðganginn að hinum óveidda fiski.

Með öðrum orðum: ekki til. Hins vegar urðu til menn sem héldu að helsta hlutverk athafnamannanna í samfélaginu væri að græða peninga til að græða peninga, til að græða peninga. Til að græða peninga.

Kvótakerfið lagði grunninn að lyginni. Það bjó til glópagullið. Samkvæmt þessu kerfi voru búin til verðmæti úr réttinum til að veiða úr fiskistofnum sem eru sameign þjóðarinnar. Búinn var til eignaréttur á því sem aðrir áttu - og það sem meira var og enn afdrifaríkara: þann eignarétt var hægt að veðsetja.

Hugmyndin um fisk varð yfirsterkari hinum raunverulega fiski. En: Fiskurinn verður ekki að verðmætum fyrr en búið er að veiða hann og vinna. Það skapar ekki verðmæti í sjálfu sér að einhver eigi möguleika á að búa þau til. Það að ég gæti veitt fisk táknar ekki að ég sé búinn að því.

Væri svipað kerfi í gangi í bókmenntunum þá hefði ég fengið umtalsverðan kvóta vegna skáldsöguskrifa minna frá því fyrir 1990 og síðan þyrfti Eiríkur Örn að borga mér fúlgur fjár fyrir að fá að skrifa bækur vegna þess að ég ætti réttinn á að skrifa þær, og gæti gert það ef ég nennti en mér finnst náttúrlega þægilegra að láta Eirík puða við það úr því að hann er svo duglegur, svo að ég get þá veðsett þessa eign mína og slegið lán fyrir Wolverhampton Wanderers. Verðmætasköpun varð að verðmætaskáldun. Raunveruleg verðmæti urðu að pappírsverðmætum. Raunverulegir útgerðarmenn urðu að pappírsbarónum. Dugnaðarforkar urðu að iðjuleysingjum. Mannsefni urðu að landeyðum....."

" Allt var einhvern veginn óraunverulegt. Til varð lénskerfi þar sem fólk lenti í þeirri ógæfu að hafa skyndilega fullar hendur fjár sem það átti ekki skilið. Krónurnar komu bara. Mannkynssagan geymir ótal dæmi um að slíkur auður leiðir til ófarnaðar og eyðslusemi sem umfram allt er tjáning á örvæntingu: Kvóta-aðallinn sem var að rífa stóreflis hús til að reisa ný og enn þá ljótari var náttúrlega fyrst og fremst að tjá okkur hinum fyrirlitningu sína - á okkur, húsunum, peningum, sjálfum sér...."

Þetta er allsnörp ádrepa hjá Guðmundi Andra. Það er þessi úthlutun á sérréttindum sem skekkir allt samfélagið. Úthlutun stjórnmálaflokka á embættum frá Hæstarétti niður í rollufjölda og leigubíla. Styrkir mig í þeirri skoðun, að ólýðræðislegt Alþingi sé alltof máttugt í þjóðlífinu. Mikið af því sem það er að bauka með væri betur komið hjá lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum eins og víða annarsstaðar þekkist. Það er ekki endalaust hægt að benda á hvað Samherji sé flott fyrirtæki þegar menn athuga að það mun auðveldara að byggja upp flott fyrirtæki í skjóli einokunar og forgjafar.Samherji getur verið seldur á morgun til ESB með öllu, kvóta, sem öðru. Þessi auðlind Íslendinga getur gengið þjóðinni úr greipum ef eigendunum bíður svo við að horfa.

Einkakvóti í nýtingu náttúruauðlinda lands er íhugunarefni. Í Bandaríkjunum á ríkið alla veiði í vötnum og ám, ekki landeigendur. Af hverju eigum við Guðmundur Andri ekkert tilkall til neins þorsks í sjónum ? Af hverju getum við ekki selt okkar hugmyndir eins og athafnaskáldin í sjávarútvegi ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ástæðan fyrir því að það fýkur oftar í mig við þig en aðra bloggara er líklega sú að við erum svo fjandi oft sammála.

Ég hef þó á mér allan vara ennþá.

Árni Gunnarsson, 26.4.2010 kl. 09:26

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Halldór 
 
Nú er ég ekki vel inni í kvótamálum og skil ekki enn þessa umræðu til fulls svo ég vona að þú fyrirgefir mér fávísar spurningar.  

En hvað með landbúnað? Get ég gert kröfu til þess að rækta á jörð nágranna míns. Að fá að uppskera þar? Ef ekki,  er þá hér við Landnámu að sakast? Er þá Landnáma kvótakerfi Vikinga? Af hverju má ég ekki rækta á jörð nágranna míns?
 
Er hér munur á?
 
Geta ekki allir keypt fiskikvóta? Eins og jörð? Keypt veiðileyfi?
 
Kveðjur
 

Gunnar Rögnvaldsson, 26.4.2010 kl. 09:36

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Aðeins smá:

Í Bandaríkjunum eiga landeigendur alla olíu sem er í jörðinni. Bandaríkin eru stærsti olíuframaleiðandi heimsins frá upphafi. Enginn hefur pumpað upp eins miklu og landeigendur Bandaríkjanna.

Bændur á Íslandi eiga tilkall til að nýta þau hlunnindi sem jörð þeirra gefur. Vatnsafl, beit, varp, ber, skóg, gróður og svo framvegis.

Á að láta útgerðarmenn fjárfesta í dýrustu tækjum og svo kippa undan þeim jörðinni? Það væri eins og að taka himininn frá Flugleiðum. Þeir færu á hausinn.

Gunnar Rögnvaldsson, 26.4.2010 kl. 10:00

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll Gunnar,

Takk fyrir að líta inn. Ef þú átt jörð sem þú ekki nýtir sjálfur get ég sótt úm ábúða á henni til ræktunar skv. ábúðarlögum. Landnámið skilst mér var að menn festu sér lóðir, homestad eins og Íslendingar í Dakota. Hafið er öðruvísi eins og loftið. Allti mega fara um það. En lönd stýra þvúi hverjir nytja, Noregur með olíuna og síldina sína etc. Spánverjar sínum fiski en eru bara búnir með hann svo þeir vilja okkar.

Menn eiga olíuna undir þeim í USA og hér eiga bændur hitann og líka laxinn í ánni. Útgerðarmaður er útgerðarmaður af því að hann á skip.

Ef við ættum skip, af hverju skyldum við þurfa að borga honum fyrir hugmynd að fiski sem við viljum veiða, án þess að hann viti hvar hann geymir fiskinn eða hvort hann sé merktur Landsbankanum sem hann var búinn að veðsetja þessa tilteknu hugmynd að fiski.

Ef öll þjóðin á hafið og það sem í því er í landhelginni, þá er eðilegt að hún hirði afrakstur fyrir. Menn kaupi hugmyndir að fiski hjá henni allri en ekki einhverjum sérréttindagreifa sem fékk þessu úthlutað fyrir löngu og er búinn að kaupa og selja. Hafi hann keypt þá verður ríkið að kaupa það af honum til baka ef innkalla á leyfið. Hitt fékk hann bara lánað og á að skila því.

Það er hægt að komast út úr kvótakerfinu á þann hátt að auglýsa að allar fiskveiðar séu frjálsar frá og með morgundeginum.Vesgú allir Íslendingar og ESB mega veiða eins og þeir vilja. Öll veð sem útgerðarmenn skulda bönkum vegna sannanlegra kvótakaupa fara yfir til ríkisins og verður þess skuld, Fyrning í einu stökki

Í næstu viku eða síðar  bönnum við allar fiskveiðar nema menn kaupi fyrst aflaheimildir af ríkinu eða sóknardaga á ákveðnum svæðum. Þeir ganga fyrir sem eiga skip og fá að kaupa á vægu verði svipað og þeir áttu. Þeir verða að veiða allt sjálfir.

Hvort við verðum að ganga úr EES til að geta þetta kemur í ljós. Enda hefur sú aðild fátt  fært okkur nema hörmungar eins og annað yfirleitt sem af krötum hefur hlotist. 

Gengur þetta ekki upp  Árni ?

Halldór Jónsson, 26.4.2010 kl. 15:05

5 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Takk fyrir góðan pistil Halldór. Já, þetta með EES er mikið íhugunarefni. EES er náttúrulega ekkert annað en biðstofa fyrir lönd á leið inn í ESB en við erum ekki að fara þangað. Við hefðum verið betur sett með að gera tvíhliða samninga við ESB eins og Sviss gerði.

Magnús Þór Hafsteinsson, 26.4.2010 kl. 15:36

6 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Hvað með kvótabraskið Gunnar?

Hvað með þau útgerðarfyrirtæki sem flutt hafa fjármuni úr sjávarútveginum til allskyns óviðkomandi fjárfestinga (lesist brask ) ?

Þráinn Jökull Elísson, 26.4.2010 kl. 17:19

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill Halldór

ef menn hafa fylgst með skrifum Gunnars á blogginu undanfarin 2 ár þá er hann málaliði LÍÚ og hrunaaflanna á klakanum..  

Óskar Þorkelsson, 26.4.2010 kl. 17:39

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir þetta Halldór.

Eins og ég sagði hef ég ekki kynnt mér kvótakerfið. En heyrt margar sögur af því.

Ég skil ekki að argúmentið með að það megi ekki þurfa licens til að nýta náttúruauðlindir ef þau heita sjávarútvegur (sjávarbændur). Það er einmitt það sem reglan.

Þú getur ekki orðið bóndi án jarðar. Þú ert með afsal fyrir jörðinni og þú getur líka leigt hana út til annarra. Til dæmis til laxveiðimanna frá útlöndum. Braska með jörðina.

Og ekki orðið endurskoðandi án leyfis. Ekki byggingmeistari án leyfis. En þú mátt gjarna selja öðrum hlut í byggingarfyrirtæki þínu. Og þú mátt á sama tíma kaupa þér hlut í útgerð eða apóteki.  

Ég ég veit hinsvegar að síðast þegar ég bjó á Íslandi þá eltu 300 skip jafnmarga þorska og 30 skip gera í dag. Þá var útgerðin alltaf á hausnum og meira eða minna rekin eins og kommúnista fyrirtæki - og oft í eigu ríkisins sem kann ekki að fara men nein verðmæti. 

Ef menn vilja Sovétríkin aftur þá er sennilega ágæt leið að banna mönnum að "flytja fjármuni" á milli starfsgreina. Þá ættum við til dæims að banna öllum að fjárfesta í hlutabréfum allra nema sjálfs síns. Eins og bankarnir gerðu, en bara án þess að segja neinum frá því. 

Ég skil ekki þessa umræðu, verð ég að játa. En nú fæ ég tækifæri til að kynna mér þetta þegar ég flyst til landsins í næsta mánuði. 

Æ Óskar minn, fáðu þér eitthvað við þessu.  

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.4.2010 kl. 18:56

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fyrirgefðu Halldór hvað ég mæti seint í kaffið. Svar mitt er já, og það er vegna þess að málið er alls ekki eins flókið og reynt er að láta í veðri vaka. En eins og við báðir vitum þá verða engin mál leyst ef búið er að ákveða að þau séu óleysanleg.

Ég myndi alveg treysta ykkur Gunnari I. Birgissyni til að koma þessu í kring á einni kvöldstund. Ykkur væri velkomið að kalla mig til aðstoðar. Við fengjum okkur sítrón og svo yfirgæfi ég ykkur áður en þið færuð að tala frönskuna áð ráði.

Eiginlega finnst mér þessi hugmynd svo góð að ég legg til að henni verði hrint í gang. 

En Gunnar minn Rögnvaldsson. Þú ferð öfugu megin í samlíkinguna við kommúnismann. Þetta kvótamál er dæmigert  fyrir vinnubrögð sovétsins.

Þegar kerfið hrundi og reyndist ónýtt þá tóku valdhafarnir sig til og skiptu milli sín og vina sinna öllum auðlindunum og fóru að braska með þær.

Rétt eins og á Íslandi þegar þessi auðlind var hrifsuð frá fólkinu í sjávarþorpunum og afhent án endurgjalds mönnum sem seldu hana öðrum og hirtu gróðann. 

Árni Gunnarsson, 27.4.2010 kl. 07:33

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kæri Árni

Þið vitið meira um kvótamálið en ég. Þar á ég eftir að læra mikið. Ég er varla samræðuhæfur um þau mál. Þarf að kynna mér málið. Þyrfti að drekka mikið kaffi með þér og Halldóri. 

En það er kolrangt að bera saman fiskveiðimál Bandaríkjanna og Íslands. Fiskveiðar eru Íslendingum lífsnauðsynlegar. Það eru þær ekki fyrir efnahag Bandaríkjanna. Þar eru þær hobby snobb miðað við þýðingu þeirra fyrir efnahag Íslands.

Bandaríkjamenn veiða fisk fyrir 8 dollara á hvern Bandaríkjamann á ári. Íslendingar veiða fisk fyrir ca 3600 dollara á hvern íbúa Íslands á hverju ári.

Fyrir Ísland eru fiskveiðar mörgum sinnum meira viðri en öll iðnaðarframleiðsla Bandaríkjanna er fyrir Bandaríkjamönnum. Svo það er eins gott að fiskveiðar séu arðsamar á Íslandi.

Ég er mest smeykur um að þið gerið ykkur ekki grein fyrir því að fiskveiðar Íslendinga eru hátækniiðnaður. Frá þessum geira koma margar nýjungar og mörg ný fyrirtæki sem byggja á sjávarútvegi. Grunnur framtíðar Íslands veltur á fiski og orku. Þeir sem halda eitthvað annað eru ekki jarðtengdir.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 27.4.2010 kl. 10:55

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gunnar. Og til að gera langt mál stutt þá er það mikill óþarfi að hafa áhyggjur af því að við gerum okkur ekki grein fyrir öllum þáttum þessa máls sem klofið hefur þjóðina í fjórðung aldar.

Núverandi stjórnun fiskveiða á grunni vísinda hefur til dæmis orðið þjóðinni til þess ábata! að í dag veiðum við þriðjung þess þorskafla sem við veiddum við upphaf. Það hefði ekki þótt lofsverður árangur í lyfjaframleiðslu.

Þar á ofan hefur þessi ófögnuður nánast gengið af þeim byggðarlögum dauðum sem misstu sínar aflaheimildir.

Og ofan á það er talið að afskrifa þurfi 100-200 milljarða skuldir þessara metnaðarfullu stórútgerða.

Og þar á ofan er alkunna að einstaklingar hafa selt sig út úr atvinnugreininni, hirt sjálfir milljarðahagnað en skilið skuldasúpuna eftir.

Og þar á ofan eru fáir sem trúa því í dag að aflaskerðing sé byggð á grunni vísinda. Ástæðan er sú að það er bein tenging milli skorts á aflaheimildum og leiguverðs. Því hefur verið hvíslað að á Íslandi þrífist pólitísk spilling.( en farið lágt.)

Árni Gunnarsson, 27.4.2010 kl. 14:33

12 Smámynd: Halldór Jónsson

Gunnar,

Það sem Árni segir hér síðast er satt og rétt. 

" Guggan verður áfram gul "

Vinstristjórn Steingríms J. og Hermannssonar leyfði kvótaframsalið,  íhaldið veðsetninguna að hætti Hannesar Hólmsteins. Síðan var ekki aftur snúið. Það verður erfitt að breyta nokkru.

Á landsfundi Sjálfstæðismanna hefur LÍU alltaf sent herdeild af sínu fólki í sjávarútvegsnefnd. Þar kemst enginn upp með moðreyk í mótmælum.

Halldór Jónsson, 28.4.2010 kl. 07:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband