Leita í fréttum mbl.is

Ég held ég kjósi Ólaf

 

Ég var að hlusta á viðtal Arnþrúðar  og  Péturs við dr. Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á útvarpi Sögu núna í dag.

Ólafur lýsti ferðum sínum um Asíu og því sem hann hefur verið að bauka við. Hann lýsti einnig áhyggjum sínum yfir  því hversu Íslendingar sjálfir væru  að tala þjóðina og  landið niður. Við værum farnir að trúa því að við værum fyrirlitnir í allri veröld út af hruninu og enginn vildi tala við okkur af því að við værum svo smáir og fáir og þar frameftir götunum.

Allt þetta væri ekki rétt. Svo mikil væri ásókn erlendra þjóðhöfðingja í það að fá að koma í heimsókn til Íslands að það væri ekki nokkur leið að verða við öllum þeim beiðnum.  Forsetinn lýsti blaðamannafundum sínum og mörgum viðtölum við erlendar sjónvarpsstöðvar þar sem hann kynnti málstað Íslands. Hann sagði Íslendingum allstaðar vel tekið og við nytum viðurkenningar umheimsins fyrir margt sem við hefðum áorkað, til dæmis á sviði jarðhitavirkjana. Íslendingar væru til dæmis orðnir aðalsamstarfsaðilar Kínverja um slíkar virkjanir. Hann bað okkur lengstra orða að horfa til heimsins og hætta að tala okkur niður heldur bera höfuðið hátt og nýta tækifærin sem væru allstaðar.

Ég skal viðurkenna það að ég skipti mikið um skoðun á Ólafi og hans starfsemi allri meðan á þessu viðtali stóð. Ég hugsaði hversu hætt við vorum komin þegar Steingrímur Jóhann og Jóhanna voru nærri búin að hnýta Icesave beislinu upp í þjóðina og koma henni til fyrirsjáanlegrar fátæktar þegar þjóðin skoraði á forsetann sér til bjargar og hann varð við óskinni. Þjóðin hafnaði ógæfunni sem þessi ríkisstjórnarhjú voru að leiða yfir hana sem einn maður.

Þau skötuhjúin stritast samt enn við að  láta okkur borga og við látum þau enn sitja í stjórnarráðinu til áframhaldandi afglapa fyrir þjóðina.  Engin líkindi virðast mér því til þess að hér breytist neitt eða kreppan lini tök sín fyrr en búið verður að kjósa upp á nýtt til Alþingis, því núverandi samsetning þess virðist vera ófær um að veita leiðsögn út úr ógöngunum. Þingið sóar afli þjóðarinnar við deilur um það hvort koma eigi hér af stað pólitískum réttarhöldum yfir oddvitum stjórnmálaflokka fyrir það sem þeir gerðu eða gerðu  ekki fyrir löngu. Firringin er orðin slík að virðing Alþingis hrapar dag frá degi í hugum fólksins. Þegar svo er komið verð jafnvel ég að viðurkenna að tilvist öryggisventils eins og Forsetaembættið reyndist í Icesave málinu er eitthvað sem við getum ekki verið án.

Ólafur kom annars víða við í þessu ágæta viðtali og lýsti þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í heiminum. Það kom greinilega fram að hann sér stærri heim en Evrópubandalagið og hefur fulla trú á því að Íslendingar geti leitað fanga annarsstaðar en bara þar. Og geti samið um það sjálfir en þurfi ekki að fá sér talsmenn frá Brüssel til þess. Hann hafði  yfir heilræði frá kínverskum ráðamanni, að við Íslendingar þyrftum að læra það, að Kínverjum finnast 50 ár ekki vera langur tími. Við yrðum að horfa lengra en til dagsins í dag og reyna að gera áætlanir okkar miðað við líklega þróun heimsmála og umhverfis.

Ég viðurkenni að ég hef ekki alltaf verið samstíga Ólafi og haft um hann margar meiningar. En ef ég nú ber hann saman við aðra forystumenn þjóðarinnar, þá kem ég ekki auga á annan betri talsmann fyrir þjóðina. Þarna talar framsækinn markaðsmaður sem hvetur þjóðina til dáða. Og hefur auk þess meiri yfirferð en margir halda. Himinn og haf skilur hans málflutning frá boðskap Steingríms J. Sigfússonar og kommúnista um skattahækkanir, einangrun Íslands og vesældóm ríkissjóðs , nauðsyn hafta og hávaxta fyrir hnípna þjóð í vanda.

Svei mér þá ef ég er ekki tilbúinn að endurkjósa hann Ólaf sem forseta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll; fornvinur góður !

Vel mælt; hjá þér Halldór, sem oftar.

Tek í flestu; undir þínar rösklegu ályktanir, verkfræðingur góður.

Með beztu kveðjum; sem jafnan, vestur yfir fjallgarð  /

Óskar Helgi

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.9.2010 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 3420142

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband