Leita í fréttum mbl.is

Auglýst eftir peningastefnu?

er heiti á enn einni áróðursgrein í Baugstíðindum grein eftir Valgerði Bjarnadóttur. Höfundurinn hefur dvalið lengi í Brüssel og þekkir innviði Evrópusamstarfsins innanfrá. Núna er hún þingmaður fyrir þá stefnu að ganga í Evrópusambandið.

Frúin segir m.a.:

,,," afgreiðslu AGS á efnahagsaðstoð til okkar segir að nú verði kveðið á um að við þurfum eða verðum að móta okkur peningastefnu til frambúðar...."

Hvernig eru hlutir til frambúðar yfirleitt ?

 

......"Krónan hefur ekki reynst okkur vel, það liggur í augum uppi og það sýna rannsóknir. Væntanlega eiga enn fleiri rannsóknir eftir að sýna það, og útlista alls konar villur sem gerðar voru við stjórn peningamála undanfarin ár og jafnvel áratugi...."

Hvort kom á undan, hænan eða eggið? Ég er sammála henni um að villur voru gerðar í peningamálum. Sú stærsta var að keyra upp vexti innanlands og örva innstreymi fjármagns frá Evrópusambandinu án þess að stöðva dreifingu þess innanlands. En þetta keyrði gengi krónunnar upp og gerði hana að sterkasta gjaldmiðli í heimi. Þann eina sem hægt var að geyma og ávaxta án verðrýrnunar sem eignir í erlendum gjaldmiðlum voru undirorpnar. Þessu hefði verið hægt að stjórna en var ekki gert og helstu fjárhagslegu kostunarmenn  Samfylkingarinnar fóru fremstir í flokki í þessum dansi. 

Krónan reyndist okkur vel þá. Henni var steypt bæði af af utanaðkomandi og innanaðkomandi áhrifum. Þau seinni voru beinlínis Baugstengd sem má tengja beint við Samfylkinguna og áhrif hennar þar sem Valgerður unir sér best. Krónan sjálf hefur ekkert með þetta að gera.

....."Stjórnmálamenn sem mæla fyrir aðild okkar að Evrópusambandinu verða ekki sakaðir um stefnuleysi í peningamálum. Aðild að sambandinu myndi færa okkur inn í myntsamstarfið þótt við gætum auðvitað ekki umsvifalaust skipt á krónu og evru. Aðild að ESB er hins vegar forsenda fyrir því að við getum nokkurn tímann skipt krónunni út fyrir evruna....."

Já, það er rétt hjá Valgerði, Evrópusinnarnir eru sem betur fer flest samankomnir í einum flokki,- Samfylkingunni. Hjálparmenn eins og Steingrímur J. og Þorsteinn Pálsson eru ekki tákn um stuðning annarra flokka við þá stefnu. Kratar eru duglegir við að búa til Evrópuarma í Sjálfstæðisflokknum út á nokkrar hjáróma raddir sem þar heyrast auðvitað. En Sjálfstæðismenn hafa séð hvað þessi þjóð getur ef hún stillir saman strengi sína, sem því miður er of sjaldan.

Nú eru tímar þjóðarsáttar og skilningur á að halda aftur af taxtahækkunum til kjarabóta og verðlagslækkana líklega liðnir en tími guðmundanna  kominn með ófyrirséðum afleiðingum.

Enn segir Valgerður:

...."Í mínum huga þurfum við að hugsa þetta í tveim eða kannski er réttara að segja þrem skrefum. Fyrst þurfum við að brúa bilið þangað til við komumst inn í hið svokallaða ERM II. Það gerum við með því að losa um gjaldeyrishöftin eins og kostur er. En við neyðumst til að hafa þau áfram í einhverri mynd. Evrópusambandsríki sem ekki uppfylla skilyrði til að taka upp evru geta verið í ERM II, það er annað skrefið. Þá tengist gjaldmiðillinn evru með vikmörkum upp á 15%. Ef útlit er fyrir að gengið sveiflist út fyrir vikmörkin kemur Evrópski seðlabankinn sjálfkrafa til hjálpar.

Þegar Maastricht-skilyrðin hafa verið uppfyllt tökum við síðan upp evru, það væri þriðja skrefið.

Auðvitað verður hvorki lífið sjálft né efnahagslífið eilífur dans á rósum við að ganga í ESB, en það mun sannarlega verða auðveldara að ráða við - allavega það síðarnefnda. Þau þrjú skref sem ég nefndi eru stóru mikilvægu skrefin. Vissulega þarf svo alls konar ráðstafanir og krúsidúllur í kring, en það er allt miklu auðveldara viðfangs.

Annað hvort þetta eða áframhaldandi gjaldeyrishöft fyrir barnabarnabörnin.

Það er ekki þeirra sem vilja halda samningaviðræðunum við ESB áfram að segja fyrir um einhverja aðra leið í peningastjórn þjóðarinnar.

Það er hinna, þeirra sem ekki vilja fara ESB-leiðina, að segja okkur hvernig þeir hugsa sér að losa um gjaldeyrishöftin og halda efnahagslífinu hér stöðugu. Við bíðum spennt - að minnsta kosti ég."

Við eigum eftir að vinda ofan af jöklabréfunum sem halda genginu í lás. Stjórnvöld eru að reyna að halda sjó með höftum. Útflutningurinn gengur sem aldrei fyrr og smátt og smátt mun þessi fangelsisvist sem við erum nú í minnka þrýstinginn. Spurningin er hvað verður hér eftir að þeirri styrjöld lokinni?  Ellilífeyrisþegar, öryrkjar og innflytjendur  stjórna landinu en vinnufæra og menntaða íslenska fólkið farið úr landi?

Peningastefna með fljótandi gengi gengur upp ef innanlandsforsendur eru í lagi. Ef hér verða knúnar fram skammtíma taxtahækkanir til forréttindahópa þá fellur gengið. Þjóðarsátt hækkar gengið og lækkar verðlag. Og það er alveg sama hvaða peningaseðlar verða hér í umferð. Evruseðlarnir hverfa við þær aðstæður og atvinnuleysið leggst yfir landið eins og á Spáni, Grikklandi og Írlandi svo eitthvað sé nefnt. Krónuseðla prentum við sjálf og gjöldum þannig lausung við lygi.

Þessi fabúla frúarinnar um framtíðina er algerlega óraunhæf og mun ekki ganga eftir. Nema Valgerður geti samið við alla guðmundana til frambúðar.Þá myndu ERM-skilyrðin skapast og við gætum gert allt sem við vildum í þessum peningamálum sem frúin hefur áhyggjur af.

Ég myndi hafa meiri áhyggjur af atvinnumálum til skemmri tíma en svona fabúlum um framtíðina. Hún er nefnilega í besta falli engin frambúð. Það eru næstu ár hinsvegar og þau eru dimm ef helstefna og peningadraumórastefna ríkisstjórnar Valgerðar Bjarnadóttir fær að leika hér lausum hala.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Þú segir hér að ofan:

"Sú stærsta var að keyra upp vexti innanlands og örva innstreymi fjármagns frá Evrópusambandinu án þess að stöðva dreifingu þess innanlands. En þetta keyrði gengi krónunnar upp og gerði hana að sterkasta gjaldmiðli í heimi. Þann eina sem hægt var að geyma og ávaxta án verðrýrnunar sem eignir í erlendum gjaldmiðlum voru undirorpnar. Þessu hefði verið hægt að stjórna en var ekki gert og helstu fjárhagslegu kostunarmenn  Samfylkingarinnar fóru fremstir í flokki í þessum dansi. "

Vextir voru keyrðir upp af ríkisstjórnum og Seðlabankanum frá 2002.  Seðlabankinn er ábyrgur fyrir stöðugleika í peningamálum.

"Sterk" króna sem er komin langt upp fyrir jafnvægisgengi sitt getur ekki annað en fallið!  Það vita allir.  Sterk króna var í raun "veik" króna enda var hún löngu hætt að endurspegla atvinnulífið sem sást best í ótrúlegum viðskiptahalla.

Seðlabankinn er ábyrgur fyrir því að varðveita stöðugleika í peningamálum en samt styrkti hann krónuna þannig að hún var á tímabili 35% fyrir ofan jafnvægisgildi sitt!  Hún gat ekki annað en fallið og þarna brást Seðlabankinn hlutverki sínu.

Sterk króna gat bara verið raunveruleiki svo lengi sem erlendir aðilar voru tilbúnir að lána Íslandi sífellt meira til að geta haldið áfram erlendri skuldasöfnun.  Hefðu lánveitingar stöðvast eða minnkað, þá hefði krónan gefið eftir.(eins og gerðist)

Jákvæðir raunvextir af sterkri krónu voru því skammtímafyrirbæri sem átti sér enga möguleika til lengri tíma.

Baugur er ekki ábyrgt fyrir peningamálum þjóðarinnar!  Til þess er kosið Alþingi, sem velur forsætisráðherra(Geir Haarde) sem velur síðan Seðlabankastjóra(DO & co) til að fara með það hlutverk.

Lúðvík Júlíusson, 18.1.2011 kl. 09:26

2 Smámynd: Guðmundur Ingi Kristinsson

Þú auglýsir eftir penngastefnu. Að lifa ekki um efni fram. PÚNTUR. Það er að segja að banna stjórnmálamönnum að taka lán til að kaupa sér stundarvinsældir bæði í landsstjórn og héraði. Að vera á fitti til eilífðarnóns er ekki peningastefna heldur eyðslufyllirí á kosnað annara.  ( ALLTOF MIKLIR SKATTAR) Gott dæmi barnalánið sem engin virðist muna eftir eða er í þöggun allra.

Guðmundur Ingi Kristinsson, 18.1.2011 kl. 10:01

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Lúðvík

Baugur var ábyrgt fyrir stuldinum úr sparisjóðnum BYR og svindlinu á stofnfjáreigendunum og þjófnaðinum úr Glitni sem setti skriðuna af stað. Hann dró alla niður sem nálægt komu og olli Sjálfstæðisflokknum vandamálum sem hann er ekki enn kominn útúr. Já, já ég veit alveg hver var Seðlabankastjóri og niðurstaðan  batnar ekkert við það..

Guðmundur, auðvitað er þetta rétt hjá þér. Það er ekki hægt að banna stjórnmálamönnum neitt því þeir setja reglurnar. Þeir eru algerlega samviskulausir flestir og hugsa mest um eigin hag og stundarvinsældir. Þeir myndu flestir veðsetja ömmu sína ef þeir gætu fyrir framhald valda sinna.  

Halldór Jónsson, 18.1.2011 kl. 12:52

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Auðvitað!  Peningastefna!

Þú hlýtur að skilja þetta sem Lúðvík er að segja Halldór minn 

Svissneski frankinn eins og íslenska krónan er algerlega ónýtur gjaldmiðill. Það sjá allir. Hann hefur nefnilega hækkað um rúmlega 30% gagnvart evru. Til að svara þessari glæpsamlegu eftirspurn eftir betri blómum í haga en illgresið það sem nú vex tryllt um hálsinn á evrunni, þá hafa Svisslendingar ákveðið að sprengja seðlabanka lands síns í loft upp. Gálgar hafa þegar verið byggðir til opinberrar aftöku allrar stjórnar seðlabankans nú um páskahátíðina.

En eftir sitja Evrubúar með sárt ennið, til dæmis í Austurríki, en þar freistuðust menn til að taka húsnæðislán sín í svissneskum frönkum svo græða mætti sárin vegna evrunnar, vaxtabyrðarinnar þar. Þessir tifa nú eins og tímasprengja. Seðlabanki Austurríkis hefur bannað lántökur í erlendum gjaldmiðli => sett gjaldeyrishöft á Austurríkismenn.

Ergó. Peningastefnumenn á evrusvæði keyrðu upp vextina og flæmdu fólk í fangið á . . . tja .. á hverjum? 

Gegni svissneska franka 1 okt 2007 til 6 jan 2011

Mynd: gengi svissneska franka (CHF) gagnvart evru frá 1. október 2007 til 6. janúar 2011 (vísitala). Svo mikið hefur CHF hækkað í verði gagnvart evru, eða rúmlega 30 prósent. 

Gunnar Rögnvaldsson, 18.1.2011 kl. 13:19

5 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Gunnar,

takk fyrir þessar áhugaverðu túlkun en þú kemst að rangri niðurstöðu.

Gengi íslensku krónunnar var hækkað af ástetningi með hærri stýrivöxtum sem ýtti undir gríðarlega erlenda skuldasöfnun og viðskiptahalla sem gat ekki gengið til lengdar!  Íslenska krónan endurspeglaði ekki styrk íslenska hagkerfisins heldur vilja stjórnmálamanna til að ýta vandanum á undan sér í stað þess að leysa hann.

Peningastjórnun Sviss er með allt öðrum hætti.  Það er ekki verið að styrkja svissneska frankann til að kæla hagkerfið og Svisslendingar eru ekki heldur að safna skuldum.  Svissneski frankinn endurspeglar styrk svissneska hagkerfisins.

Lúðvík Júlíusson, 18.1.2011 kl. 13:41

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Lúðvík 

Hagstjórn í landi eins og Íslandi sem er EKKI elliheimili og sem enn er að byggja upp innviði hagkerfisins, sem er með yngsta massa fólks í landinu (sterkustu neytendur), með einn mesta hagvöxt Vesturlanda og mestu kaupmáttaraukningu Vesturlanda á síðustu 15 árum fyrir hrun, miklar framkvæmdir og einnig áhugaverðustu fjárfestingakosti Vesturlanda fyrir hrun - er óendanlega miklu erfiðari en hagstjórn í dauðum hagkerfum á borð við Evrusvæðið sem á núverandi heimsmet í núllvesti og stöðnun hagkerfa landa OECD.

Svo geri ég líka ráð fyrir að þú hafir heyrt um hina ómögulegu þrennu - "the impossible trinity"

Þetta fáránlega hjal um Seðlabanka Íslands og gjaldmiðil okkar á þessum nótum er vitfirring. Hún verður að hætta.  

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 18.1.2011 kl. 13:55

7 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

þetta verðurðu að útskýra betur Gunnar.  Hvaða "fáránlega hjal" ertu að tala um?

Það var tekin ákvörðun um að hækka stýrivexti, til að styrkja krónuna og til að kæla hagkerfið.  Þetta átti að vera gert með því að taka erlend lán fyrir neyslu.  Þetta stendur svart á hvítu í skýrslum Seðlabankans frá þessum tíma.

Það var ekkert tekið á því hvað ætti að gera til að lagfæra hagkerfið að þessu loknu.

Auðvitað er hagstjórnin erfið.  Hins vegar er nauðsynlegt að taka á þeim vandamálum sem eru til staðar.  Það var ekki gert á Íslandi.

Lúðvík Júlíusson, 18.1.2011 kl. 14:11

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þú hefur ekki þekkingu á þessu máli Lúðvík fyrst þú segir

"það var tekin ákvörðun um að hækka stýrivexti, til að styrkja krónuna og til að kæla hagkerfið"

fimm mínútum eftir að ég benti þér á hina "ómögulegu þrennu"

Frekari umræða er því tilgangslaus, er ég hræddur um.

Hint; enginn tekur ákvörðun um að styrkja frjálst fljótandi gjaldmiðil með stýrivaxtahækkun. Þeir (stýrivextir) eru notaðir til að berjast við verðbólgu (ofhitnun) eða verðhjöðnun (alkul).

EN (þetta er mikilvægt) þegar þú ert með frjálst fljótandi gjaldmiðil þá eru aukaverkanirnar þær að þetta hefur áhrif á gengið þ.e.a.s ef frelsi fjármangsflutninga er í gildi. Þú vilt kannski afnema það frelsi að fullu og öllu.

Það er ekki bæði hægt að hafa mél í munni og blása á sama tíma.

Gunnar Rögnvaldsson, 18.1.2011 kl. 14:25

10 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Gunnar minn,

ég fór ekki með hagstjórn á þessum tíma.

Peningamál 2003/1 “Mat á þjóðhagslegum áhrifum fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda og möguleg hagstjórnarviðbrögð við þeim”

Það helsta úr greininni:

“Hækkun gengis í aðdraganda [stóriðju]framkvæmdanna er því eðlileg og var Seðlabankinn og fleiri reyndar búnir að spá því að svo myndi verða.  Gengishækkunin er reyndar hluti af markaðsviðbrögðum hagkerfisins vegna framkvæmdanna.  Um leið hjálpa þau hagkerfinu til að rýma fyrir þeim án kollsteypu í efnahagsmálum.  Gengishækkunin dregur úr verðbólgu og eykur slaka í hagkerfinu áður en framkvæmdirnar hefjast af fullum krafti og því myndast minni spenna í hagkerfinu en ella” (Pm2003/1, bls 35)

“Ofangreind hækkun gengis kemur hins vegar ekki í stað vaxtahækkana af hálfu Seðlabankans, enda byggist hún að hluta á væntinum um þær.” (Pm2003/1, bls 35)

Gunnar, nú skaltu dæma hagstjórn Seðlabankans, ekki mig.

Lúðvík Júlíusson, 18.1.2011 kl. 15:15

11 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

"Gengið hækkar einnig sakir þess að framkvæmdirnar
skapa væntingar um hækkun Seðlabankavaxta
þegar nær líður. Það hækkar langtímavexti
strax þar sem þeir eru í meginatriðum samsettir
úr væntum skammtímavöxtum í framtíðinni.
Það eykur vaxtamun gagnvart útlöndum á langa enda
markaðarins, sogar inn erlent fjármagn og hækkar
þannig gengið."(Pm2003/1, bls 35)

Lúðvík Júlíusson, 18.1.2011 kl. 15:57

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já og Lúðvík?

Markaðsviðbrögð eru þau að gengi gjaldmiðilsins stjórnast mest af eftirspurn eftir gjaldmiðlinum sbr. dæmið frá Sviss hér að ofan; þar sem evrulandabúar flýja með fjármuni sína í skjól heilbrigðs gjaldmiðils. Þeir selja evrur og kaupa svissneska franka. 

En þetta setur Sviss vissulega í vanda því þetta gerir útflutning þeirra erfiðari því gengið hækkar og svo hefur SNB selt mikið af frönkum og keypt evrur til að reyna að lækka gengið frankans aftur og situr uppi með evru sem eru að breytast hratt í vafasaman gjaldmiðil í hirslum seðlabankans. En allt kemur fyrir ekki. Frankinn lækkar ekki því það er svo mikil eftirspurn eftir honum. Seðlabankinn getur ekki stýrt þessu því þetta er of stórt. Ekki frekar en seðlabanki Evrópusambandsins gat stýrt 30% hruni evrunnar frá 2001-2003 og svo eftirfarandi og eyðileggjandi 100% hækkun hennar á næstu fimm árum þar eftir.  

Sama gildir um krónuna, gengi hennar ræðst af eftirspurn á gjaldeyrismörkuðum (við venjulegar aðstæður þar sem höft eru ekki til staðar). Háir stýrivextir auka eftirspurnina ef menn álíta að sú áhætta sé þess virði að taka hana. Annars ekki. Þeir sem tóku áhættuna eiga svo að standa og falla með gjörðum sínum. 

En sem sagt; stýrivextir eru aldrei notaðir til að stýra gengi; áhrifin á gengið eru hins vegar óhjákvæmilegar aukaverkanir sem menn verða að lifa með ef þeir vilja hafa frjálst flæði fjármagns. Sum lönd Asíu eru farin að hefta þetta flæði.  

Gjaldeyrisspákaupmennska er hættulegasta spákaupmennska sem stendur fólki til boða. Þetta þurfa menn að vita.  

Gunnar Rögnvaldsson, 18.1.2011 kl. 16:02

13 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Gunnar, já og er að Seðlabankinn hækkar vexti meðal annars til að hafa áhrif á gengið.  Styrking gengisins hjálpar til, ástamt vöxtum, að kæla hagkerfið.

Þú ert orðinn hættulega smámunasamur ef þú heldur því fram að styrking gengisins, sem Seðlabankinn býst við að sé afleiðing hærri vaxta, sé ekki vegna þess að Seðlabankinn hækkaði vexti heldur vegna markaðsviðbragða.  Samt hefðu þessi markaðsviðbrögð átt sér stað nema vegna vaxtahækkunar.

Hvort kemur á undan, hænan eða eggið?

Lúðvík Júlíusson, 19.1.2011 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband