Leita í fréttum mbl.is

Ræða Bjarna

við setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins féll í góðan jarðveg.

 Formaður kom víða við og tók á vandamálum þjóðarinnar. Hann rakti hvernig vandi heimilanna hefði vaxið ár frá ári frá hruni en ekki minnkað eins og stjórnarliðar halda fram.  Þá eru fjárfestingar á landinu minni en þær hafa verið nokkru sinni frá stofnun  lýðveldisins. Hann rifjaði upp hvernig staða flokksins hefði verið þegar hann tók þá ákvörðun að nú væri komið að sinni kynslóð að leggja eitthvað af mörkum þegar hún mætti sinni fyrstu kreppu efir að hafa búið við góð kjör alla sína tíð. Með þetta í huga hefði hann boðið sig fram þó hann hefði vitað að erfið ganga væri framundan. Síðan hann hefði orðið formaður hefði fylgi flokksins aukist úr 23 % í 36  % Hann hefði gefið sig allan í þetta starf og væri reiðubúinn að gera það áfram með ykkur. Bjarni varð oft að gera hlé á ræðu sinni vegna lófataks fundamanna.

Bjarni fór yfir atvinnuleysi 12000 landsmanna og tölur um langtíma atvinnuleysi fólks sem hefur verið án vinnu 6 mánuði eða lengur.   Þessi hópur væri því miður að stækka. Í sumum byggðarlögum væri atvinnuleysi 11 %  Undirrituðum fannst Bjarni þarna sleppa ríkisstjórninni of billega með því að tala þarna ekki um tölurnar um landflóttann þegar hann ræddi þessar atvinnuleysistölur, sem hefði gert þennan kafla mun ískyggilegri.  Þó Bjarni vissulega gerði áhyggjum sínum af landflóttanum skil síðar í ræðunni, þá finnst þessum skrifara betra að að horfa á þetta tvennt í samhengi.

Bjarni fór yfir hlut sinn og þingflokks í Icesave I. Þeir hefðu verið sakaðir um ólýðræðislega vinnubrögð af stjórnarliðum fyrir að vilja ræða málin í stað þess að skrifa undir. Það hefði þó leitt til undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðis. Hann rakti Icesave ll og III og minnti á að þeir hefðu alltaf tekið fram að þeir teldu að þjóðin ætti að segja síðasta orðið við samninginn  þó að þeir hefði samþykkt þann síðasta 12 en 5 verið á móti eða setið hjá og þannig hefði meirihluti þingflokks ekki viljað vera á móti því að reyna að leysa málið eftir að það var orðið 400 milljörðum betra í það minnsta en það sem Steingrímur hefði viljað samþykkja strax í Icesave I.

Bjarni rakti sögu fyrstu pólitísku réttarhaldanna á Íslandi  sem ríkisstjórnin hefði hrint af stað sem væri Landsdómsmálshöfðunin yfir Geir Haarde sem hún vildi koma í fangelsi. En Geir hefði beitt sér fyrir setningu neyðarlaganna, sem núverandi stjórnarliðar hefðu margir ekki samþykkt(Steingrímur J Sigfússon var víst einn ! innsk. skrifara) sem líklega hefðu núna bjargað þjóðinni frá því versta af Icesave. Bjarni sagði þessa málshöfðun vera þeim til eilífrar skammar sem að henni hefðu staðið. Þó svo að aðalmálsatvikunum hefði nú verið vísað frá þá léti ríkisstjórnin ekki laust og vildi í það minnsta hafa af Geir Haarde æruna þó hún hún nái líklega ekki öðru.    Bjarni fullvissaði Geir um það persónulega að hann stæði  órofa þétt að baki hans og eftir ákafar undirtektir  fundarmanna gat hann bætt við að Geir gæti heyrt það að svo væri um fleiri.  Bjarni fékk skyndilega eitthvað í hálsinn eftir þessa tilfinningasþrungnu stund og fékk sér tvisvar vatn áður en hann hélt áfram eftir stutt hlé og var ekki laust við að undirritaður hefði líka þegið vatnssopa þegar samkenndin með Geir flæddi um salinn.

Bjarni hélt svo áfram af stígandi krafti. Hann lýsti ráðleysi ríkisstjórnarinnar á öllum sviðum. Í bankamálum væri staðan sú að 80 milljarðar rynnu til vogunarsjóðanna sem hefðu fengið bankana en heimilin fengju ekki neitt. Ríkisstjórnin væri heillum horfin, hefði engar lausnir í atvinnumálum og það eina sem Steingrími dytti í hug í ríkisfjármálum, væri að hækka skatta og segði um þau mál:"You aint seen nothing yet!".

Aðildarviðræðurnar við ESB væru ekki sæmandi af okkar hálfu þegar viðsemjendunum væri ljóst að hugur ríkisstjóraninnar fylgdi ekki máli, sérstaklega þegar VG hefði álíka mikinn hug á að ganga í ESB og að ganga úr NATO.  Sjálfstæðisflokkurinn hefði viljað þjóðaratkvæði um viðræðurnar.

Bjarna varð tíðrætt um gildi sjálfstæðisstefnunnar fyrir land og þjóð og vitnaði meira til hennar en aðrir formenn hafa gert sem ég minnist.  Hann sagði sjálfstæðisstefnuna samofna þjóðinni, hún boðaði einstaklingsfrelsi manna sem virtu lýðræðisreglur, og lagði áherslu á orðin "stétt með stétt" og "gjör rétt þol ei órétt" sem eru líka einkunnaorð flokksins. Hann sagði að hefði tekist að eyðileggja Sjálfstæðisflokkinn hér um árið þegar atsóknin og óeirðirnar stóðu sem hæst, þá hefði flokkurinn verið stofnaður aftur á morgun. Svo mjög þarfnaðist þjóðin sjálfstæðisstefnunnar. Því sjálfstæðisstefnan væri stál sem hert hefði verið í eldi baráttunnar í 80 ár.

Ræðunni lauk svo með þessum orðum :

"Framundan er mikil barátta. 
Baráttan fyrir því að koma núverandi vinstristjórn frá völdum og stefnumálum okkar
sjálfstæðismanna til framkvæmda.


Við skulum öll standa saman í þeirri baráttu. 
Þessa baráttu vil ég leiða sem formaður Sjálfstæðisflokksins og berjast við hlið ykkar
fyrir hugsjónum okkar allra og fyrir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn inn í nýja tíma – til
glæstra sigra.


Ég mun hvergi draga af mér.  Því heiti ég ykkur.

Við skulum berjast sem einn maður gegn vinstriöflunum sem nú eru við völd í þessu
landi, því þegar við sjálfstæðismenn stöndum saman, stenst enginn stjórnmálaflokkur
á Íslandi okkur snúning.


Við skulum nýta þennan landsfund sem upphaf þeirrar baráttu.
Ég veit að barátta okkar mun leiða íslensku þjóðina út úr erfiðleikunum.

Sjálfstæðisstefnan er verkfærið sem gerir Íslendingum kleift að nýta tækifærin.

Barátta okkar mun skapa nýja framtíð, nýtt upphaf !

Kæru vinir,
Fertugasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins er settur. "

Bjarni sagðist í skýrum orðum vilja leiða baráttuna fyrir því að þjóðin nýtti tækifærin og sækti fram til sigurs og að hann sæktist eftir endurkjöri .

Var honum ákaft fagnað í lok ræðunnar og mátti heyra á máli manna í salnum, að þarna hefði foringi Sjálfstæðisflokksins  flutt ræðu sem virkilegt bragð væri að.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

"stétt með stétt" og "gjör rétt þol ei órétt"

Standa við stóru orðin.  Þetta var mín barnatrú.

Skipta við þau ríki sem borga mest næstu 30 ár sem flest utan EU. Ríkur almenningur á Íslandi [án Schengen og ESS og EFTA] geturlétt undir með EU með eyða þar gjaldeyri í námi og fríum.  Það er komið nýtt árþúsnd  þar sem PPP og CPI vegur þyngra en [EU] OER og HCIP.

Júlíus Björnsson, 18.11.2011 kl. 02:42

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Eg held að Bjarni sé ágætis maður en þegar ég þurfti mikið á honum að halda þá brást hann.  En ekki bara það, hann skoðar allt framyfir helgi ens og Jóhanna og segir svo ekki neitt.

Ég held að stelpan sé betri. 

Hrólfur Þ Hraundal, 18.11.2011 kl. 03:50

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta. Ég næ ekki öllum skammstöfununum svona óundirbúið Júlíus.

Hrólfur,

Það getur vel verið að stelpan sé betri á einhvern hátt. En mey skal að morgni lofa og hún situr ekki enn á þingi sem ég get ekki séð að gangi upp fyrir formann. Eða hvernig á hún að verja flokkinn þar?

Halldór Jónsson, 18.11.2011 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 61
  • Frá upphafi: 3418280

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband