Leita í fréttum mbl.is

Fyrst kaupir maður banka

með ríkistryggingu á innistæðum. Svo fer maður með innlánsbankann í krafti stjórnarvalds síns á honum í fjárfestingarstarfsemi undir sömu merkjum. Það voru engar hömlur eða eldveggir á milli þessara tveggja tegunda bankastarfsemi fyrir hrun og eru það heldur ekki eftir hrun. Maður lætur svo gæðastimpla þetta allt fyrir sig og gefur til menningarmála( mútar) og auglýsir eigið ágæti sem aldrei fyrr. Þannig sköpuðust forsendurnar fyrir bólunni sem svo varð að þeirri kreppu sem við þekkjum í dag. Smátt og smátt fer all í sama farið aftur og sagan endurtekur sig. Skuldsettar yfirtökur, eignfærð viðskiptavild og óefnislegar eignir prýða efnhagsreikningana sem aldrei fyrr með uppáskrift endurskoðunarfyrirtækja með löngum útlendum nöfnum sem enga ábyrgð bera á sannleiksgildi innihaldsins eins og dæmin úr BYR og SpKef sanna.

Við sáum í myndinni "Inside Job"(Innanbúðarránið) sem búið er að sýna tvisvar á RÚV hvernig afnám hafta á milli þessara bankategunda leiddi til hrunsins um víða veröld. Í okkar litla samfélagi horfðum við á þegar Jón Ásgeir og vinir hans ná undir sig Glitni og nýta síðan bankann í eigin þágu. Innistæðueigendur voru varnarlausir og hefðu tapað öllu sínu nema fyrir björgunaraðgerðir ríksisins. Í Landsbankanum var farið eins að og Björgólfsfeðgar leiddu bankann í þrot mest í eigin þágu og vina sinna. Í Kaupþingi var sama sagan uppi á teningnum nema enn stærri í sniðum.

Núna birtast litfagrar auglýsingar frá öllum þessum bönkum, sem nú leyna eignarhaldi sínu sem best þeir geta, sem eiga að læða því inn hjá okkur sauðsvörtum almenningi, að þessar stofnanir séu sérstakir vinir okkar. Ekkert er auðvitað fjarri sanni. Lán er yfirleitt ekki lán heldur ólán þess sem það tekur. Banki er aldrei vinur neins skuldara frekar en Fagin gamli var. Hann segist vera vinur þess sem leggur inn en reynir alltaf að raka það af honum sem hann getur. Bankinn er holdgerfingur græðginnar en ekki þjónustuaðili í þína þágu, hvað þá vinur þinn. Þetta rándýra kerfi sem við Íslendingar höldum uppi með þreföldum mannskap og kostnaði miðað við USA, er skrímsli í þjóðfélaginu sem þarf að skera niður við trog og koma umfram starfsliðinu í arðbær störf. Auðvitað er það nauðsynlegt að hafa lágmarksbankakerfi en það verður að halda þétt utanum það að það verði ekki sjálfnærandi eins og fram kemur í myndinni. Því peningar eru alltaf freisting sem fáir standast þegar á hólminn kemur. Gullhringurinn á Gnitaheiði fær ekki lengi að vera þar ef reiði Fróða konungs færist undan.

Bankastarfsemi okkar venjulegs fólks byggist mest á greiðslumiðlun nú til dags, kreditkortunum eða hringferð peninganna á gíróseðlum og í heimabönkum þegar allir eru að rukka hvern annan með bankann sem millilið. Bankinn tekur við launapeningum okkar og geymir þá á neikvæðum vöxtum og lánar þá út með miklum vaxtamun til þeirra sem ekki geta án lánsfjár lifað. Þannig eru hlutirnir í besta falli. Í bankastjórninni fer hinsvegar allt svínaríið fram, þar sem afskrifað er á vildarvinina, lánað út til annarra vina í fjárfestingar sem oft borga ekkert til baka. Sparisjóðahugsjónin í gamla daga var öðruvísi þegar fátækt fólk sameinaðist til sjálfshjálpar og menn vöndust því að greiða til baka það sem þeir fengu lánað. En henni var stolið í heilu lagi og hún kemur líklega aldrei aftur.

Við Íslendingar höfum ekkert lært af bankahruninu en öllu gleymt. Það eru góðar fréttir þegar einhver peningagutti kaupir sér íslenskan banka. Aftur góðar fréttir þegar sami guttinn fer að kaupa upp fyrirtæki í stórum stíl. Enginn spyr frekar en í fyrrnefndu myndinni fyrir hvaða peninga sé verið að kaupa. Það eru bara kaupin sjálf sem skipta máli,ekki hver geti tapað á þeim.

Það er saga útaf fyrir sig hvers vegna við Íslendingar gerum ekkert til að skilja á milli viðskipta-og fjárfestingarbankastarfsemi þrátt fyrir reynsluna sem við fengum 2008. Heldur kaupir maður sér bara fyrst banka, og svo...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einu sinni var ráðherra sem lét ráðuneyti sitt hefja undirbúning fyrir aðskilnað  fjárfestingastarfsemi frá viðskiptabönkunum.

En núna er þessi sólbrúni maður ekki lengur ráðherra.

Það kemur í ljós hvað arftaki hans jarðfræðingurinn gerir.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.1.2012 kl. 16:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband