Leita í fréttum mbl.is

Ráð-og rökleysur

verða fólki ljósar við lestur greinar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í Morgunblaðinu í dag. Þar fjallar hann um áform ríkisstjórnarinnar um að trufla Forsetakosningarnar með spurningavagni um 115 greinar stórnlagaráðsritgerðarinnar, sem er mikill doðrantur, líklega 10 sinnum meira lesmál en núverandi stjórnarskrá og 100 sinnum lengri en stjórnarskrá Bandaríkjanna. Skiljanlega því óunninn að flestu leyti og því gersamalega óhæfur til notkunar sem stjórnarskrá í nokkru landi.

Grípum niður í grein Guðlaugs:

"...Við gerð spurninga í skoðanakönnunum og þá sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslum er alger forsenda að þær séu skýrar og að allir sem koma til með að svara skilji þær á sama veg. Ef það er ekki gert er hætta á að niðurstaðan verði marklaus.

Þetta er þverbrotið í öllum spurningum ríkisstjórnarinar, að undanskilinni spurningu 5. Á sama hátt má ekki gefa sér - líkt og þarna virðist gert - að allir sem svari hafi sömu þekkingu á því sem spurt er um. Spurningarnar eru allt of víðar, óskýrar og hugtakanotkun er óljós og fyrir marga mun hún hljóða flókin.

Spurningar ríkisstjórnarinnar
1. spurning
Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Þess má geta að tillögur stjórnlagaráðs eru í 115 greinum.
Augljóst er að skilgreina þarf viðfangsefnin mun betur; hvað er átt við með að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar? Óbreyttar? Í heild? Að hluta og þá að hve miklu leyti? Hvaða tillögur? Er það skýrt í hugum fólks sem mætir á kjörstað hvaða tillögur er verið að tala um, hvað þær innihalda og þýða?
Og svo á að svara já eða nei... Segjum sem svo að kjósandi þekki 115 tillögur stjórnlagaráðs og telji sig tilbúinn til að svara; hvað ef kjósandanum finnst tillögurnar misgóðar; gæti alveg hugsað sér að tillögur x, y og z væru lagðar til grundvallar? Hvort ætti kjósandinn þá að segja já eða nei?
En það veit enginn hvað er átt við með því að tillögurnar verði »lagðar til grundvallar«. Þýðir það að ný stjórnarskrá mun taka mið af öllum tillögum stjórnlagaráðs, að öllu leyti, eða bara hluti þeirra, og þá að sumu leyti en ekki öðru... og að hvaða leyti þá?

2. spurning
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Já eða nei.

Hvað átt er við með »náttúruauðlind«, er það hafið? Fiskurinn? Jarðvarmi? Fallvötnin? Fallegir staðir sem nýta má í þágu ferðamanna?

Og hvað er »þjóðareign«? Skúli Magnússon, dósent við lagadeild HÍ, hefur t.d. bent á að: ,,Í ákvæði stjórnlaganefndar felst að »þjóðareign« vísar ekki til eignarréttar í lagalegum skilningi - hvorki ríkiseignar né sérstaks (nýs) eignarforms. Þvert á móti vísar hugtakið til þeirrar hugmyndar að náttúruauðlindir Íslands séu gæði sem þjóðin öll hefur ríka hagsmuni af (ekki ósvipað því að við, þjóðin, »eigum« tungu, bókmenntir, landslið í handbolta, o.s.frv.). Af þessu leiðir að auðlindir í þjóðareign geta lagalega verið háðar eignarrétti einkaaðila, eign ríkisins eða verið eigendalausar.«

Og sama og í spurningu 1: Já eða nei.

Hvað ef kjósandi hefur mismunandi afstöðu til fiskveiða og jarðvarma? Hvað um fólk sem hefur ólíkan skilning og mismunandi afstöðu til »þjóðareignar«?

3. spurning

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Já eða nei.

Þjóðkirkja hvað? Hvernig ákvæði? Er verið að vísa til skilgreiningar á þjóðkirkju líkt og hún hefur verið skilgreind fram til þessa? Hvernig hefur hún verið skilgreind fram til þessa? Er það skýrt í hugum fólks? Hafa allir sama skilning á því?

4. spurning
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Já eða nei.

»Persónukjör« - hvað þýðir það? ...heimilað í meira mæli en nú«? í hve miklum mæli og hvernig væri því háttað? Þetta þarf að skýra. Hér er um að ræða óskýra hugtakanotkun og ekki fyrirfram gefið að allir skilji á sama veg.

5. spurning

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Já eða nei.
Þetta er óvenju skýrt.

6. spurning
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Já eða nei.

»Tiltekið hlutfall« - hve hátt hlutfall geti krafist þess að »mál« - hvernig mál? - Öll mál? Fari í »þjóðaratkvæðagreiðslu«? Hvernig verður því háttað?
Sitjandi ríkisstjórn hefur í kringum sig hjörð fræðimanna sem um leið eru álitsgjafar, þetta fólk hefur greiðan aðgang að fjölmiðlum þar sem þeir tjá sig gjarnan um hin ýmsu mál. Þeim hefur til að mynda orðið tíðrætt um vinnulag í kringum stjórnarskrána. Þessir aðilar ýmist kenna aðferðafræði eða hafa góðan aðgang að slíku fólki. Það vekur því furðu að enginn úr þessum hópi hafi bent á hið augljósa: að spurningar í kosningum og skoðanakönnunum þurfa að standast aðferðafræðilegar kröfur. Það gera spurningarnar í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu ekki. Það eru því yfirgnæfandi líkur á að jafnvel þótt hún færi fram yrðu niðurstöður hennar markleysa."

Þarna er sýnt fram á með skýrum hætti að útilokað er að svara margræðum spurningum með já eða nei.Aðeins 5. spurning er til þess hæf.

Þessi áform ríkisstjórnarinnar um truflun þýðingarmikillar stjórnarskrárbundinnar athafnar sem er um kjör Forseta Íslands, er bæði illyrmisleg ef ekki ólögleg og stjórnarskrárbrot og svo afspyrnu órökvís hvað varðar uppsetningu spurninganna, að aðeins væri við að búast af slíku liði sem nú situr stjórnarráðið.

Guðlaugur Þór á þakkir skildar fyrir að vekja athygl á þessu með svo skýrum hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband