Leita í fréttum mbl.is

Páskahelgi

í Biskupstungum var það sem við tók eftir Orlando dvölina.

Það var hrein veðurblíða sem heilsaði okkur þar alveg til í dag, að það var hálf kalt og blástur þó nokkur. Auðvitað er veðrið hér allt öðruvísi en var í Flórídu. En viti menn, eftir þessar vikur í sólinni og hitanum vorum við bara búin að fá nóg og þótti þetta íslenska veður gott og hressandi. Auðvitað er það átak að yfirgefa þetta góða land Flórídu þar sem vískíflaskan kostar þúsundkall og bensínið rúman dollara lítrinn. Bensínið var að hækka meðan við stóðum við, fór úr 3.77 dollar á gallónið í heila 3.97. Viskíið hækkaði ekki neitt þessa daga og hafði heldur ekki hækkað síðan fyrir ári. Mér fannst samt matur hafa hækkað eitthvað en miðað við verðlagið hérlendis þá drottinn minn, hvílíkt haf og himinn er þarna á milli í verðlaginu hér og þar. Smér, ket, bílar, heimilistæki, hús. Pí-lögmálið mitt er í gildi ennþá í þessari okurbúllu sem Ísland er orðið, norræn velferðarstjórn eða ekki.

En á svona helgi í Tungunum þá fer maður skiljanlega í sund. Þarna eru margar sundlaugar sem hvergi eru fleiri og betri í útlöndum. Það er hinsvegar margt sem þarf að bæta. Búningsaðstaðan á Flúðum er hundléleg, bara snagar og engir skápar og húsið lélegt. Sturturnar sæmilegar en vatnslitlar þegar margt er.Hægt er að stilla hitastigið frá köldu í heitt. Laugin á Flúðum er þokkaleg 25 metra laug þó auðvitað vanti 1.metra dýfingabretti til að framleiða íþróttamenn af ungu kynslóðinni, þar sem vatnsdýpið í lauginni býður upppá það. Þar var lokað á föstudaginn langa en þá var opið í Reykholti. Þetta lið sem rekur þessar laugar þarf að skilja það að laugar verða að vera opnar sem lengst til að fólk sæki þær. Margir vilja synda fyrir vinnu og gefa ekkert fyrir opnanir kl 14.00.

Í Reykholti er þokkaleg 25 metra grunn laug plastklædd eins og á Flúðum. Hún er yfirleitt hrein og sandlítil í botninum þar sem þeir eiga vélmenni sem hreinsar þegar hann er settur í, sem er kannski of sjaldan.Stundum er hún köld og stundum er hún frekar heit. En plastið er orðið frekar snjáð og virkar óhrjálegt eins og raunar líka á Flúðum þar sem það er heldur verra ef nokkuð er. Í Reykholti eru búningsklefar góðir með frekar fáum skápum og klefum sem eru því of fljótir að fyllast og snagar verða eina úrræðið eins og er á Flúðum. Sturturnar í Reykholti eru óstillanlegar, sami hiti eða kuldi fyrir alla. Þetta er kannski í lagi þegar hitastigið er bærilegt en almennt vilja menn fá að stilla sína sturtu sjálfir. Sturtuklefinn er þrifalegur og flottur. Þarna var sett ein köld sturta eftir mikla baráttu.

En heldur fer í verra þegar út er komið í Reykholti. Þar er einn pottur stór og rómgóður og er yfirleitt þéttsetinn. Heitir Aragjá. Potturinn annar alls ekki mannfjöldanum sem í hann kemst, þar sem innrennslið er mjög dauft og er til viðbótar á sama stað og útrennslið. Það myndast því fljótlega brák af fitu og hárum í pottinum þegar margir koma og úr verður ógeðslegt svínarí. Til viðbótar var svo plastið rifið núna þannig að opið er inn í myrkviði og Guð veit hvaða ógeð þar fyrir innan er. Algerlega súbstandard þessa helgi og eiginlega aldrei í lagi nema þegar enginn kemur.

Á báða staðina vantar útiþurrkaðstöðu sem þeir ættu báðir að geta lagað.

Í Reykholti er góð rennibraut sem krakkarnir eru vitlausir í. Engin rennibraut er á Flúðum en þar eru á móti góðir pottar og annar með vatnsnuddi.Þetta ættu Reykhyltingar að setja upp hjá sér þar sem nóg er plássið.

Þessi pottur Aragjá er búinn að vera lengi svona til vandræða þarna í Reykholti. Hann þolir hreinlega ekki aðsókn. Og það er miklu alvarlegra en heimamenn virðast gera sér grein fyrir. Með tilkomu nýja vegarins yfir á Flúðir velja menn sér verslunarstað mikið eftir ástandi sundlauganna. Ef hlutirnir eru ekki í lagi í sundlauginni í Reykholti, þá fara menn annað að kaupa sér pylsur og ís eftir sundferð. Ég vildi biðja vini mína í Tungunum að velta þessu vel fyrir sér og hafa einhvern metnað fyrir sína heimabyggð. Þeir eru í samkeppni við Flúðir og Minniborg.

Minniborgarlaugin er lengra í burtu en hún er glæsileg og ný og góð. Þar er manni bannað að dýfa sér af palli. En rennibrautin er fín og vinsæl. Þó getur verið hált í sturtuklefunum og veit ég um fólk sem hefur farið þar illilega á hausinn án þess að heimamenn hafi gert neitt til að laga þetta.

Sund er almenningsíþrótt Íslendinga. Við eigum að leggja metnað okkar í að aðstaðan hjá okkur sé sú fínasta í heimi. Ekki bara á Páskum heldur alltaf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæl! Datt í hug að eitt skemmtilegasta tæki sem barnabörnin mín komust í,er á svæði Orkuveitunnar víð Steingrímsstöð. Tækið er spranga,svipuð þeirrar sem er í Vestmannaeyjum,en auðvitað enginn hamar eða klettaveggur. Fullorðnir og krakkar æpa af gleði við fiðringinn í þessu tæki,sem sveiflar þeim fram og til baka. Foreldrar eru ekki minna spennt að fara salibununa.

Helga Kristjánsdóttir, 10.4.2012 kl. 03:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418404

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband