Leita í fréttum mbl.is

Sjávarútvegsumræða í Kópavogi

hélt áfram í venjulegum farvegi á fimmtudagskvöldið.

Í Kópavogi það kvöld var haldinn fundur til að skýra afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki. Þar átti Einar Kristinn að hafa framsögu. En hafði skyndilega eitthvað þarfara að gera og af einhverjum ástæðum hljóp Tryggi Þór í skarðið fyrir hann, sem aftur hugsanlega leiddi af sér að menn sáu ekki Jón Gunnarsson á fundinum sem þó talar margt um sjávarútveg og ekki alltaf vitlaust.

Tryggvi teiknaði upp dæmi í því sem hann kallaði fiskihagfræði. Þetta átti að sýnda hagkvæmni einokunarinnar einkar vel. En teikningin komst illa til skila og tölurnar innbyrðis í litlu samhengi og þessi hluti fór fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum. Helmingi færri skip koma með sama aflamagn að landi og allir græða meira bæði sjómenn og útgerðarmenn þegar kvótakerfið er viðhaft. Tryggvi sagði að kvótakerfið vaæri upprunnið af nauðsyn þess að stjórna almenningum. Það væri einkaleyfiskerfi viðurkenndi hann fúslega. Þar sem væri fyrir hendi takmörkuð auðlind yrði að skammta aðgang ef ekki ætti að fara allt í vitleysu. Kvótakerfið væri því einkaleyfi í auðlindanýtingu sem væri nauðsynlegt ætti ekki illa að fara eins og annarsstaðar hefði sannarlega gerst.

Vigfús Geirdal lýsti því hvernig hann hefði upplifað kvótakerfið í þrjátíu ár. Sem sjómaður hefði hann byggt upp aflareynslu fyrir marga útgerðarmenn sem svo hefðu fengið kvótann en hann ekki neitt. Nú væri hann að kaupa kvóta af þessum eigendum í landi á hverjum degi til að geta róið á sínum bát.

Hann taldi margt óvitað um hegðun fisks í sjónum og dró í efa að alltaf væri allt vitað. Nú væri til dæmis miklu meiri þorskur í sjónum en Hafró vildi vera láta. Hann sagði að hann og aðrir starfsbræður væru að greiða mikið fé til rannsókna á fiski en Hafró hirti það allt og ráðstafaði af sínum geðþótta en ekki til þess sem þeir greiðendurnir teldu brýnast.

Geirdal sagði líka frá því að hann og vinir sínir væru að kosta rannsóknir í þorski á eigin vegum þar sem fjarbúnaður fyrir 600 þúsund væri hengdur á einn þorsk. Eftir mánuð losaði búnaðurinn sig og færi til yfirborðsin og segði söguna af ferðalagi fisksins á þessum tíma. Hann sagði þetta vera að byrja en þegar hefðu komið óvæntir hlutir í ljós um ferðir þorsksins. Hann sagðí svo mikinn þorsk í sjónum að hann hefði nú í ár lagt tvö grásleppunet í sjó til að fá fisk í þessar merkingar og dregið þau eftir tíu mínútur með eitt og hálft tonn af boltafiski á móti kannski 10 fiskum árið áður eftir tvo tíma í sjó.

Finnbogi Vikar sagði frá störfum sínum í sáttanefnd og vonbrigðum með það hvernig stjórnnvöld hefðu farið með það mikla starf. Hann taldi æskilegt eins og fleiri að meira en 30 þúsund tonn færu á fiskmarkað eins og nú er. Finnbogi sagði frá reynslu sinni sem sjómaður og hvernig hann upplifði kerfið þá og nú. Hann taldi einboðið að við yrðum að veiða miklu meira af makrílnum sem væri hingað kominn að éta okkur út á gaddinn annars. Evrópubandalaginu kæmi þetta ekkert við hvað við gerðum í sjálfsvörn.

Öllum leist fummælendum fremur illa á sérsköttunarleið ríkisstjórnarinnar sem nú eru til umræðu. Sjávarútvegur ættiað vera rekinn eins og annar atvinnurekstur. Mögu mætti breyta til batnaðar en margt væri gott í kerfinu eins og það væri í megindráttum. Marga agnúa mætti sníða af til að sætta þjóðina betur við þetta kerfi, sem þó aldrei verður í uppáhaldi meðal hennar.

Umræður urðu miklar á fundinum en sýndist sitt hverjum eins og alltaf þegar þessi mál eru rædd. Kerfið væri líklega komið til að vera þar sem enginn gæti sýnt fram á annað betra kerfi sem myndi skila meiru í þjóðarbúið með minni kostnaði. Það væri hinsvegar létt verk að minnka arðinn af hverjum sjómanni með því að fjölga bæði þeim og skipum eins og væri í raun að gerast og stefnt væri jafnvel að.

Undirritaður benti á fáránleika þess að vera að ræða veiðigjald við þær aðstæður að gjaldeyrishöft ríktu í landinu. Útgerðin væri algerlega háð gengi gjaldmiðlanna. Hún hefði ekki grætt mikið 2008 þó hún rakaði saman núna þegar helmingi meira fengist fyrir hvern útflutningsdollar í krónum. Ekki vildu frummælendur mikið gera með þetta heldur héldu áfram kveinstöfum sem sumir fundarmenn vildu túlka sem að LÍÚ hefði útibú í Sjálfstæðisflokknum og flokkurinn stæði því í vegi fyrir öllum breytingum á kvótakerfinu. Þessu mótmæltu frummælendur og minntu á stuðning flokksins við sáttanefndina og efnhagstillögur flokksins. Hann væri hinsvegar valdalaus um þessar mundir.

Tryggvi sagði að Svarta skýrslan hefði lagt grunninn að fiskveiðistjórnarkerfinu. Ekki hefði þá fundist önnur betri leið og svona væri þetta því í dag. Undirritaður spurði hvort Svarta skýrslan hefði endilega verið rétt frekar en ýmislegt sem Hafró hefði sett fram og minnti á að grásleppan hefði verið utan verndar alla tíð og lifað af. En ekki var tekið undir það frekar en annað sem undirritaður landkrabbi sagði.

Sjálfstæðisflokkurinn er kvótaflokkur og hananú. Og það er ekki tóm vitleysa heldur því víst hefur útvegurinn skilað frábærum árangri og þýðingarmestum þegar allt hrundi hjá okkur sem hrunið gat. Og segir ekki Murphy að menn eigi að láta vera að gera við það sem ekki er bilað?

Allir vita að útgerðin er skuldum hlaðin. En margt af því er vegna kvótakaupa sem hefur þá verið veðsett bönkunum. Bankarnir eiga allan kvótann. Þeir geta hinsvega ekki veitt hann. Fólk er mest pirrað útí þá sem fengu allt gefins í upphafi og líka þá sem hafa stungið af með stórar fjárhæðir en skilið byggðirnar eftir. Og svo hafa sveitarfélög líka selt kvótann sinn og byggt sundlaugar fyrir og standa svo uppi núna og jarma á byggðakvóta sem eigi þá væntanlega að taka af einhverjum öðrum. Spurning er hvort betra sé að Steingrímur hafi kvótann til ráðstöfunar eða útgerðarmenn?

Hefur einhver getað bent á betra kerfi en kvótakerfið í meginatriðum sem myndi skila meiri árangri fyrir þjóðarbúið? Jón Kristjánsson sá vísi maður segir að sóknarstýring eða sem frjálsust sókn sé betri kostur og bendir til Færeyja. En það er líka hægt að benfa á annmarka á því kerfi.

Enda sagði Adam Smith að allir vildu eiga einkaleyfi fyrir sig og sín fyrirtæki. Og svo sagði hann Adam líka að í hvert sinn sem þrír menn kæmu saman á fund úr sömu starfsgrein þá byrjuðu þeir á samsæri gegn almenningi. Og líklega hefur Adam haft rétt fyrir sér þvi því sem öðru eins og sést best í samsæri bankanna gegn almenningi en þeir hafa með sér grímulaust félag fjármálafyrirtækja þar sem allir geta séð samræmd viðskiptakjör fyrir heimskan almúgann sem trúir auglýsingaskruminu um einhverja þjónustu sem þier kalla okrið ö0ðru nafni.

Það þarf að skera bankakeerfið upp og taka af þeim völdin yfir peningamagninu eins og Frosti Sigurjónsson hefur bent á. Bankakerfið er löngu ofvaxið skrímsli sem situr yfir hvers manns disk í þjóðfélaginu. Þeir eru ekki vinir neins þó þeir mæli fagurt því þeir hyggja flátt og eru oftar óvinir fólksins en vinir.

Fundarmenn fóru heim meðvitaðir um það, að kvótakerfið er bölvað og ekki í anda Sjálfstæðisflokksins um "einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi með hagsmuni allra stétta fyrir augum". Það er auðvitað hægt að afnema það á einni nóttu og gera kvótann verðlausan.

En hvað tekur þá við? Ekki væri hægt að hleypa öllum lausum til að veiða meira á fleiri skipum. Það yrði að stýra dánartíðni fiskanna á einhvern hátt. Og þá er spurt hvernig. Hvað er líka best eins og hann Árni heitinn Oddsson sagði stundum.

Sjávarútvegsumræðan er endalaus. Allir fundir enda á rifrildi og allir eru fúlir nema kvótagreifarnir sem halda áfram að verða ríkari með ári hverju. Almenningur getur engu ráðið. Aðrir atvinnuvegir verða að koma til svo að eðlilegt rekstrarumhverfi í gengismálum myndist. Þá verður útvegur jafnsettur öðrum atvinnurekstri. Núna greiðir þrautpíndur almenningur fyrir auðsöfnun og skuldaniðurgreiðslu útgerðarinnar þó að Tryggvi Þór vildi ekki gera neitt úr þeim þætti.

En Ísland er núna horfið bak við járntjald kommúnismans í atvinnumálum þaðan sem ekki verður auðvelt að komast til baka. Því valdataka þeirra og samstarf við efnahagslega örvita í Samfylkingunni á Íslandi er búið að eyðileggja möguleika á því að nokkur treysti Íslendingum um langan aldur héðan í frá. Allt traust er horfið úr íslenskum stjórnmálum, innanlands sem utanlands. Það er sú arfleifð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem lengst mun sjá stað.

Þessvegna leiðir þessi stöðuga sjávarútvegssíbylja sem streymir úr fjölmiðlum til lítils árangurs nema að leiða hugann frá hinum alvarlegri málum meðal fjöldans. Því margt bendir til að kreppan, atvinnuleysið og gengisfasisminn í anda CheCuevara marxistanum í Seðlabankanum sé að herða tökin á almenningi sem búinn er að klára varasjóði sína. Þessvegna er hver mánuður sem þessi ríkisstjórn situr tapaður tími sem ekki kemur aftur.

En því miður er engin lausn í sjónmáli fyrr en vorið 2013.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Vel skrifað Halldór, eins og þín er von og vísa. En er ekki nóg komið af þessu rugli með fiskveiðarnar og efnahag landsins yfirleitt? Menn eiga að opna gluggann og líta bæði í austur, vestur og norður, þ.e. hvað nágrannarnir eru að gera. Bandaríkin, Noregur og Rússland, allt velstæð stórveldi í fiskveiðum, juku aflaheimildir sínar uppí 1.000.000 tonn - milljón tonn. Ekki islenskar krónur heldur milljón tonn af fiski. Við hvað eru menn hræddir. Farið að ráðum Jóns Kristinssonar, sem er mest metni fiskifræðingur heimsins. Inni dæmið kemur auðvitað Frosti Sigurjónsson, ásamt fleirum með vit á fjármálum. Loksins má þó sjá lífsvon með löndum, þe að binda skip sín við bryggju og sigla hvergi fyrr en mál eru leyst. Steingrímur búandkarl og hans hyski hafa ekkert að gera í sanna Íslendinga og Vestmannaeyinga. Ekki verður trúað öðru, en að þessi fjósamaður verði sendur til baka til síns uppruna og hætti að skipta sér af málum sem hann hefur ekki hundsvit á. Svo ekki sé minnst á, að honum er að takast að skapa draumlandið Sovét Island. Megi það aldrei verða.

Björn Emilsson, 2.6.2012 kl. 22:42

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það er margt í þessum pistli þínum sem ætti að vekja fólk til umhugsunar. Ekki ætla ég að telja það upp, enda verður það að draga sínar ályktanir sjálft.

Eitt er þó óumdeilt og það er að einkanýtingarrétturinn hefur sýnt sig og sannað hvað varðar hagkvæmni greinarinnar. Hitt er síðan að ef menn vilja nýta hagkvæmni greinarinnar til fullnustu, verður að koma til afgjald. Þetta er einn af hornsteinum einkanýtingarréttarins. Það sem borgað er fyrir slíkt er að hinir hæfustu lifa.

Það má alveg koma því að í umræðuna að fyrir 15 árum eða svo byrjaði innflutningur á vinnuafli í fiskvinnsluna, fólk getur síðan velt því fyrir sér af hverju það var og hvort slíkt sé enn í gangi í öðrum atvinnugreinum.

Sindri Karl Sigurðsson, 2.6.2012 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband