Leita í fréttum mbl.is

Þorsteinn Pálsson

skrifar í Fréttablaðið að vanda um helgina.

Skrif Þorsteins eru yfirleitt í sérflokki í því blaði hvað vöndun efnistaka og yfirgrip sjóndeildarhringsins snertir og eru til muna meiri en þeirra annarra sem í það rita hvort þeir eru prófessorar eða aðrir lærðir menn á snærum Samfylkingarinnar. Merkilegt að Samfylkingunni sem leitar nú ákaft að formannsefni skuli yfirsjást sterkasti valkosturinn til að halda Samfylkingunni saman sem stjórnmálafli?

Skrif Þorsteins eru hinsvegar ekki yfir gagnrýni hafin. Í þetta sinn er hægt að festa fingur á nokkrum atriðum.

Þorsteinn segir:

... "Með hæfilegri einföldun má segja að pólitíska ástandið sé svona: Samfylkingin segist vilja evru en er um leið með margvíslegum efnahagslegum ákvörðunum að færa Ísland út af þeirri braut sem gerir það mögulegt. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar evrunni en segist vilja þá efnahagslegu stefnubreytingu sem gæti gert upptöku hennar færa. Forystumenn beggja flokka útiloka samstarf. Dýpri getur stjórnmálakreppa einnar þjóðar varla orðið.

Stjórnmál eru í eðli sínu jafnvægislist valdatafls og málefnabaráttu. Sú pólitíska kreppa sem við blasir skýrist meðal annars af því að forystumenn tveggja stærstu flokkanna hafa lagt miklu þyngri lóð á vogarskálar valdataflsins en málefnabaráttunnar. Fyrir vikið skortir samkvæmni og trúverðugleika í málflutninginn.

Efnahagskreppan leysist ekki ef enginn vill leysa stjórnmálakreppuna. Þar veltur mest á þingmönnum þessara tveggja flokka. Þeir þurfa því að sýna þjóðinni nýja hugsun.

Á þessu stigi máls er fátt mikilvægara en rétt tímasetning ákvarðana. Rökrétt er að draga þá ályktun af skýrslu Seðlabankans að einmitt núna sé ekki réttur tími til að taka endanlega ákvörðun um evruna. Formaður Sjálfstæðisflokksins kaus hins vegar að velja nákvæmlega þennan tímapunkt til þess að slá evruna út af borðinu með kröfu um tafarlaus slit á aðildarviðræðunum.

Það eðlilega er að hægja á aðildarviðræðunum með það að markmiði að ljúka þeim á miðju næsta kjörtímabili. Þá verður framtíðarskipan myntsamstarfsins orðin skýrari. Hitt væri glapræði að hafa áður en þar að kemur ýtt þeim kosti út af borðinu, nema þá sem fjarlægu skoðunarefni. Það heitir að loka leiðum, tapa tíma og fórna tækifærum....."

Þarna liggur veikleiki málflutningsins hjá Þorsteini Pálssyni. Hann talar um Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna sem nokkurskonar jafningja. Hann er hinvegar aðeins að tala um veröld sem var. Fylgishrun Samfylkingarinnar er þegar orðið svo gríðarlegt að aðeins kraftaverk virðist geta forðað hinum frá því að verða lítill einsmálsflokkur sérvitringa. Þorsteinn talar um framtíðina útfrá þeim þingmannfjölda sem nú situr og viðhorfin til ESB eins og þau birtast um þessar mundir.

Það er lítið marktækt í slíkum bollaleggingum. Stjórnarflokkarnir tveir munu gjalda fyrir verk sín og vonbrigði kjósenda með efndir loforðanna. Það getur varla farið öðruvísi en að margir þeirra leiti annað. Það er hinsvegar innhverft íhugunarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn hversvegna þeir koma ekki hlaupandi þangað en leita með loganda ljósi að einhverju öðru.

Það er lenska hjá fleirum en Þorsteini Pálssyni að mikla fylgið við Evrópusambandið fyrir sér innan Sjálfstæðisflokksins. Þar er nefnilega ekki um að ræða neina arma Evrópusinna eða fylkingar. Þar fara aðeins fáeinir sérvitringar saman með takmarkaða krafta nema í talfærunum.

Þorsteinn veltir fyrir sér framtíðinni eins og hér takist á grundvallarfylkingar í gjaldmiðlamálum:

.... " Skoðun á liðnum atburðum kristallar þessa klípu. Á síðasta áratug var gengi krónunnar svo fjallhátt að hún var einhver sterkasta mynt í heimi. Það setti útflutningsgreinarnar í spennitreyju. Þegar alþjóðlega fjármálakreppan skall á hrundi krónan meðan aðrar myntir veiktust. Ekkert af þessu var pólitískur ásetningur. En Ísland var með mismunandi hætti verr sett en samkeppnislöndin bæði fyrir og eftir hrun og býr nú fyrirsjáanlega eitt við varanlegar takmarkanir á viðskiptafrelsi. Hvers vegna?..... "

Þetta lýsir því hversu Þorsteinn er innmúraður í núverandi valdahlutföll. Það er bara ein leið til, leið núverandi ríkisstjórnar. " Varanlegar takmarkanir " á viðskiptafrelsi.

Á Sprengisandi kom fram sú skoðun Lilju Mósesardóttur og Árna Þórs að höftin væru komin til að vera. Þau sjá ekkert annað en veruleika dagsins í dag. Að tala um að hrun krónunnar meðan aðrir bara veiktust er líka villandi. Krónan hélt velli en veiktist bara meira en hinar myntirnar. Hún á að öllum líkindum eftir að fara í stórar sveiflur en að öllum líkindum mun hún sanna sig sem jafningi evrunnar og gott betur. Það kemur af auðlindastöðu landsins sem er miklu meira en Evrópu.

Þorsteinn segir enn eftir að tala um málefnabaráttu á milli hinna stóru fylkinga þegar hann veltir fyrir sér efnahagslegri framtíð landsmanna:

..."Annars vegar krónu með fullri sjálfstjórn í ríkisfjármálum og peningamálum en takmarkaðra viðskiptafrelsi og þar af leiðandi minni líkum á lífskjörum sem eru sambærileg við grannríkin. Hins vegar evru með takmörkunum á sjálfstjórn í ríkisfjármálum og peningamálum en meira viðskiptafrelsi og betri líkum á bættum efnahag... "

Enten eller. Bara tvennt til í stöðunni. Samþykkkja aðild eða koðna niður.
Þorsteinn setur svo fram spásögn fyrir framtíð Sjálfstæðisflokksins ef hann fari ekki eftir því sem Þorsteinn segir::

...." Einhver hrapallegustu utanríkispólitísku mistök þjóðarinnar fram til þessa voru kolrangt stöðumat í viðræðum við Bandaríkjamenn um framhald varnarviðbúnaðar hér, sem endaði með því að þeir fóru með öllu. Verði stöðumat formanns Sjálfstæðisflokksins í peningamálum ofan á nú munu þau mistök taka hinum fram...

Af skýrslunni má ráða að einfaldar lausnir finnast ekki, því síður töfralausnir. Allar leiðirnar hafa bæði kosti og galla. Haldi evran gildi sínu og stöðu að tveimur árum liðnum má ætla að pólitíska matið snúist um tvennt:

Annars vegar krónu með fullri sjálfstjórn í ríkisfjármálum og peningamálum en takmarkaðra viðskiptafrelsi og þar af leiðandi minni líkum á lífskjörum sem eru sambærileg við grannríkin. Hins vegar evru með takmörkunum á sjálfstjórn í ríkisfjármálum og peningamálum en meira viðskiptafrelsi og betri líkum á bættum efnahag....."

Valdatíma þessarar ríkistjórnar sem ætlaði að ganga í ESB og taka upp evru er senn á enda. Eftir næstu kosningar mun blasa við gerbreyttur pólitískur veruleiki. Það væri með ólíkindum ef ríkisstjórnin muni halda velli.

Þorsteinn Pálsson hefur gert sitt til þess að stjórnin fari ekki of illa út úr slagnum. En hann gæti líka auðvitað gert mun meira og við virðum það við hann ef hann lætur það ógert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Þorsteinn Pálsson er í hópi þeirra  Sjálfstæðismanna sem halda áttum í þessu máli.  Forystan er hinsvegar á villigötum, en mun átta sig áður en yfir lýkur og þá hverfa frá villu síns vegar. - Eins og hún gerði í EES- málinu þegar  flokkurinn tók 180° beygju á  á þeim örfáu mínútum sem það tekur að  sigla út í Viðey.

Eiður Svanberg Guðnason, 23.9.2012 kl. 22:10

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Eiður Svanberg Guðnason er á villigötum eins og hann hefur alltaf verið.

Sigurgeir Jónsson, 23.9.2012 kl. 22:45

3 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

  Þá erum við ÞP á sömu villigötunum, Sigurgeir.  Ég veit  að það er óþægilegt fyrir suma Sjálfstæðismenn að minnt skuli á kúvendinguna  í EES-málinu , en það var skynsamlegt hjá  DO á sínum tíma.

Eiður Svanberg Guðnason, 23.9.2012 kl. 22:50

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Eiður minn, láttu þér ekki detta í hug að sjallarnir hafi ekki verið búnir að að ákveða að ganga í EES þó að þið haldið að þið hafið fattað upá því og JBH grobbi sig af því að hafa gert það einn.

Nú standið þið hinsvegar í því að brjóta samninginn á hverjum degi og ætlið að halda því áfram næstu 10 árin eða svo.

Halldór Jónsson, 23.9.2012 kl. 23:21

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Það tæki meiri menn en krata að turna DO til einhvers sem hann vill ekki sjálfur

Halldór Jónsson, 23.9.2012 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 3418232

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband