Leita í fréttum mbl.is

Hvorki Hádegismóinn

Bjarni Ben, né ég virðumst hið minnsta hafa skynjað hvað þjóðin var að hugsa í þessari stjórnlagakosningu. Okkar sjónarmið voru kolfelld þrátt fyrir hetjulega baráttu. Alveg sama þótt fullt af liði sæti heima. Þjóðin vill örugglega breyta stjórnarskránni á þann veg sem þessi 101 klúbbur þeirra Þorvaldar Gylfasonar og Ómars Ragnarssonar vill. Það er bara svoleiðis.

Eftir á að hyggja hefði það verið skárra fyrir okkur sjallana að við hefðum skipulega setið heima svo að kjörsóknin hefði sýnst aðeins minni. En það er of seint að deila um visku formannsins eftir á, en hann sagði okkur að fara og kjósa og segja nei. Við skítlágum í því.

Þá er það eftirleikurinn. Ætlar Jóhönnuliðið að gusast strax í stjórnarskrárbreytingar og láta önnur mála danka? Má sjálfsagt einu gilda fyrir þjóðina þó ekkert gerist frekar það sem eftir er þessa þings. Hálft ár í eymdinni og úrræðaleysinu í viðbót líður líka. En að það verði lengra er meiri martröð sem mig persónulega langar ekki í.

Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn voru alfarið upphafsmenn þessa stjórnlagakafla 2009 hvað sem einhverjum seinni sinnaskiptum líður. Það er eðlilegt að þeir hugsi sinn gang með stjórnarmyndunarviðræður eftir nokkra mánuði. Eðlilegt framhald fyrir þá er að ganga í þessa stjórn og taka þar forystu í stjórnarskrármálum sem öðru.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að ganga afgerandi eitt né neitt. Hann er líka í vanda vegna deilna útaf einstökum mönnum, sem sumir eru að hætta en aðrir eru ekki að hætta sem sumum finnst að ættu að hætta flokksins vegna og enn aðrir leggja ekki í framboð meðal annars vegna brjálaðs kostnaðarins sem skal vera óbreyttur hvað sem nýjum skipulagsreglum líður.Stórkostleg fylgisaukning hefur ekki séð dagsins ljós.

Framundan eru núna ströng prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum sem munu að vanda skilja eftir sig einhver sár meðan litlu flokkarnir hlýta miðstýringu og kynjakvóta við uppstillingu á lista. Svo kemur Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar sem getur sprungið í loft upp við minnsta neista. Fuglinn Fönix flaug að vísu hugsanlega aldrei betur en þegar hann reis uppúr eldinum og vissulega skal ekki vanmeta mátt hreinsunareldsins. En hann verður að loga en ekki liggja falinn undir skán. Hálfvelgja er ekki gott veganesti inn í nýjar kosningar.

Að Sjálfstæðisflokkurinn nái vopnum sínum að fullu er eitthvað sem andstæðingarnir auðvitað vilja síst af öllu. Sterkur Sjálfstæðisflokkur er það eina stjórnmálaafl sem vinstri menn óttast. Það er hinsvegar þjóðin sem á mest undir styrk Sjálfstæðisflokksins. Nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki 28 þingmönnum verður Sigmundur Davíð líklega næsti forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn utan stjórnar.

Hádegisgismóinn og Bjarni formaður og þingmenn flokksins bila auðvitað aldrei í baráttunni og herðast við hverja raun. Ég og hinir fótgönguliðarnir verðum líka að reyna okkar besta til að vinna góðum málum framgang og berjast við forynjur afturhaldsins hvar sem þær er að finna. Framtíð Íslands betur komin undir sjálfstæðisstefnunni heldur en undir brekánshorni Evrópusambandsins í boði kratanna og kommanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Eins og stjórnmálin eru að þróast, þá er allt útlit fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn verði eini valkosturinn fyrir þá sem ekki vilja vinstri stjórn.En Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki vita af því sjálfur.Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að hlífa Framsóknarflokknum í þeirri kosningabaráttu sem nú er að hefjast.

Sigurgeir Jónsson, 21.10.2012 kl. 20:52

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hlífa?

Helga Kristjánsdóttir, 21.10.2012 kl. 21:23

3 Smámynd: Björn Emilsson

Það er furðulegt að ekkert skuli vera minnst á helstu og einu aðalástæðu á ´nauðyn breytingar á stjórnarskrá´ sem er aðeins ein og mjög svo alvarleg, svo ekki sé meira sagt, þeas nauðsyn að breyta stjórnarskránni til að gera Jóhönnustjórninni kleift að innlima Lýðveldið Island í Evrópubandalagið og þar með afnema 68 ára Fullveldi Islands. Island er ekki eins og ´eitthvað smáriki í Evrópu´ sem enga þýðingu hefur og er sennilega betur sett undir armi Stór Þýskalands. Island er stórríki í Atlantshafi með 200 mílna lögsögu, miklar auðlindir, flugvelli og hafnir, staðsett miðja vegu milli Washington og Moskva, Takist Evrópusambandinu að innlima Island, ná þeir langþráðum aðgangi að norðurslóðum og þar með lykilvaldaaðstöðu í heiminum. Það er bara spurning hvort þeir verði á undan kínverjunum.

Björn Emilsson, 21.10.2012 kl. 22:14

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það er rangt hjá þér Halldór minn,  að bara þeir sem mætu á kjörstað  telji, það eru tölur í báðar áttir.   Þegar þjóð neitar ítrekað að taka þátt í atlögu að máli eins og að henda stjórnarskrá, þá er ekki hægt að segja að atkvæði Samfylkingarinnar séu atkvæði þjóðarinnar.

  Reynið ekki að gera þessa þjóð svo ómerkilega sem Jóhönnu . 

En það er rétt hjá þér að Íslendingar eru þverhausar og berjast með þrjóskunni í huganum, en að öðru leiti eru þeir ekki bardaga hæfir sem dæmin sanna.  

En ætli Jóhanna að rústa fyrir okkur grundvelli til framtíðar þá verðum við sjálfir að fara að kasta grjóti eins og skríllinn hanns Steingríms og hennar Álfheiðar hafði allar heimildir til.

Enn það er orðið ljóst að Bjarni dugar ekki, fáum stelpuna. 

  

 

Hrólfur Þ Hraundal, 21.10.2012 kl. 23:51

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Sigurgeir, það skyldi þó ekki vera að menn átti sig á því að stefna Sjálfstæðisflokksins og grunngildi eru ofar einstökum talsmönnum? Eru menn ekki alltof mikið að fókuséra á menn en ekki málefni?

Helga, ég hugsa að þú skiljir alveg um hvað málin snúast.

Björn minn, mikið vildi ég að fólk almennt myndi átta sig á þessu sem þú talar um. Ríkidæminu, sérstöðunni og svo ekki síst arfleifðinni sem vissir hópar gefa þó skít í.

Hrólfur,

Bjarni getur alveg dugað ef hann reynir sitt besta og við bökkum hann upp. Og það gerum við ef hann hleypir í okkur eldmóðnum. Manstu hvað Churchill sagði um þjóðina sem hafði ljónshjartað meðan hann sjálfur hafði aðeins það hlutverk að stjórna öskrinu.

Halldór Jónsson, 22.10.2012 kl. 06:54

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Það er svolítið gaman að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn og sjálfstæðismenn misstu gjörsamlega stjórn á sér þegar þjóðin rétti þeim puttann.   Viðbrögðin eru skemmtilega óskynsamlegt og skaða flokkinn mikið í augum meirihluta þjóðarinnar. Þar hafa formaður og fyrrum formaður farið með himiskautum og hafa gert upp á bak....takk fyrir það

Jón Ingi Cæsarsson, 22.10.2012 kl. 15:09

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það er bara einn flokkur sem ráðskast með eigur almennings eins og hentar banka/lífeyrissjóða-glæpaliðinu. Sá flokkur er skipaður elítunni úr öllum "flokkum"!

Á hátíðis og tyllidögum dettur þessum elítu-mafíu-foringjum í hug að kenna sig við einstaka flokka, til að blekkja almenning til að kjósa þessa mafíu. Aftur og aftur!

Nú þarf að sýna rönguna á blekkingarklæðunum hvítflibbuðu og stífpressuðu! Þar eru margir lausir og illa frágengnir spottar, sem mafíuforingjarnir toga í þegar þeim dettur í hug!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.10.2012 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband