Leita í fréttum mbl.is

Verðtryggingarvitleysan

er möluð dag og nótt af allskyns fólki sem reuynir að koma því inn hjá fólki, að maður sem fær lánaðan mjólkurlítra eigi aðeins að skila einum lítra af undanrennu. Það sé hæfilegt.

Það er allt annað mál að innlend verðtryggingarvísitala má ekki mæla skattahækkanir ríkisvaldsins.

Án verðtrygginar er hinsvegar erfitt að uppfylla þarfir langtímafjármögnunar. Hvernig á að varðveita getu lífeyrissjóðanna til að greiða lífeyri? Eða er það ekki lengur tilgangurinn þegar hægt er að skattleggja þá eða braska með þá að vild?

Á Deiglan.com birti Jón Steinsson 19. mars 2006 grein um verðtryggingu.

Eftirfarandi punktar koma þaðan þegar Jón veltir fyrir sér neikvæðri umræðu um verðtryggingu á Íslandi:

"Þessi almenna skoðun Íslendinga er mjög á skjön við niðurstöður hagfræðinga.
Hagfræðingarnir John Campbell (Harvard) og Joao Cocco (London Business School)
birtu fyrir nokkru ýtarlegan samanburð á ágæti mismunandi húsnæðislána fyrir
neytendur.*

Campbell og Cocco báru saman þrenns konar húsnæðislán: 1) Lán með
föstum nafnvöxtum; 2) Lán með breytilegum nafnvöxtum; og 3) Lán með föstum
raunvöxtum (þ.e. verðtryggð lán).

Ein helsta niðurstaða þeirra er að verðtryggð lán séu umtalsvert hagstæðari fyrir neytendur en óverðtryggð lán.

Campbell og Cocco benda á að eðli áhættunar sem fylgir mismunandi gerðum
húsnæðislána sé mismunandi. Lánum með föstum nafnvöxtum fylgir miklar sveiflur í heildarverðmæti lánsins. Þetta er vegna þess að verð á skuldabréfum til þrjátíu ára með föstum nafnvöxtum er mjög næmt fyrir breytingum á langtímavöxtum. Annar ókostur við lán með föstum nafnvöxtum er að þau bera að jafnaði hærri vexti en lán með breytilegum vöxtum. Kosturinn við slík lán er hins vegar að raungildi afborgana slíkra lána eru mun stöðugri en raungildi afborgana lána með breytilegum vöxtum.

Helsti ókostur lána með breytilegum nafnvöxtum er að raungildi afborgana slíkra lána getur breyst mjög hratt ef langtímavextir hækka vegna væntinga um aukna verðbólgu í framtíðinni. Annar ókostur er að sá sem tekur lán með breytilegum vöxtum ber áhættu sem fylgir sveiflum í raunvöxtum. Á móti kemur að slík lán bera að jafnaði lægri vexti og að heildarverðmæti þeirra sveiflast mun minna. Hættan á því að verðgildi lánsins verði hærra en verð húseignarinnar er því minna en þegar lán með föstum nafnvöxtum eiga í hlut.

Campbell og Cocco benda síðan á að verðtryggt lán verji lántakanda gegn sveiflum í heildarverðmæti lánsins sem fylgja sveiflum í nafnvöxtum án þess að hann þurfi að taka á sig áhættuna sem fylgir sveiflum í raungildi afborgana og áhættuna sem fylgir sveiflum í raunvöxtum. Þeir benda einnig á að vextir af verðtryggðum lánum séu að jafnaði lægri en vextir af lánum með föstum nafnvöxtum þar sem tímaróf raunvaxta sé flatara en tímaróf nafnvaxta og einnig vegna þess að rétturinn til þess að greiða lánið upp sé ekk
i jafn dýr (þar sem hann er ekki jafn verðmætur).

Campbell og Cocco meta þann hag sem bandarískir neytendur myndu hafa haft af því að hafa haft aðgang að verðtryggðum lánum á tímabilinu 1962-1999 og komast að því að hann sé talsverður. Hagur íslenskra neytenda af verðtryggðum lánum er ef eitthvað er meiri en hagur bandarískra neytenda þar sem verðbólga á Íslandi hefur verið og mun að öllum líkindum halda áfram að vera sveiflukenndari en verðbólga í Bandaríkjunum."(* “Household Risk Managment and Optimal Mortgage Choice,” Quarterly Jour)

Það vantar átakanlega í þessa umræðu alla, hversu fólki sem vill leggja fyrir og eiga aurana sína trygga í verðbólgubálinu er gert erfitt fyrir. Samráð og samsæri íslenskra banka gegn almenningi birtist í því meðal annars að þeir eru samstillitir í að taka ekki við verðtryggðum innlánum nema til 3 ára. Vandalaust ætti að vera að bjóða upp á verðtryggðar bækur til skemmri tíma, til dæmis með núll eða mínus vöxtum. Þá sæi sparandinn strax hvernig hans fé reiðir af í verðbólgunni til skemmri tíma. Hvatinn til að eyða féinu myndi minnka. En svo merkilegt sem það er, finnst Íslendingum verðsamráð og markaðsmisnotkun í lagi þegar bankar eiga í hlut. Slíkan þrælsótta bera þeir fyrir bankavaldinu að þeir láta bjóða sér hvað sem er, bara ef þeir fá að halda Visakortinu.

Það er fullkomlega óábyrgur málflutningur sem ýmsir leyfa sér að krefjast þess að verðtrygging verði bönnuð. Muna menn ekki lengur hetjulega baráttu Jóhönnu Sigurðardóttur, þá þingmanns Alþýðunnar, fyrir upptöku verðtryggingar til varnar almenningi?

Nú kalla menn þetta verðtryggingarvitleysu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

Verðtryggingarvitleysan er því miður þannig hér á landi Halldór að þú færð lánaðan mjólkurlíter og þarft að borga fjóra til baka. Þetta eru dýrustu og óhagkvæmustu lán í heiminum. Þarf ekki langa fílósfíu skólaspekings varðandi þessi einföldu sannindi.

Jón Magnússon, 31.12.2012 kl. 14:40

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Stutt dæmisaga:

Árið 1976 tók ég óverðtryggt lán til 24 ára hjá lífeyrissjóðnum mínum að upphæð kr. 2.757.780. Gjalddagi var einn, í júlí hvert ár. Þetta voru auðvitað gamlar krónur.  Ætli þetta hafi ekki verið því sem næst árslaun.

Þegar ég greiddi af þessu óverðtryggða láni í október 1980 voru vextir hvorki meira né minna en 952.261 sem voru ef ég man rétt um 3ja mánaða laun.   Greiðslubyrðin var því mjög erfið og í september 1980 breytti ég af þeim sökum yfir í verðtryggt lán, en þá voru eftirstöðvarnar komnar niður í kr. 2.667.397.
Hvílíkur léttir. Greiðslubyrðin varð nánast engin fannst mér, en á móti kom að höfuðstóllinn fylgdi verðbólgunni en rýrnaði ekki.

---

Um svipað leyti stóð ég í því að koma þaki yfir höfuðið. Það var fyrir daga verðtrygginga og voru einu bankalánin sem völ var á víxlar, oft til 3ja mánaða og upphæðin svosem ein mánaðarlaun (ca 300 þús.). Að loknum þessum 3 mánuðum var oft hægt að semja um að greiða t.d. 1/3 og framlengja eftirstöðvarnar til næstu 3ja mánaða. Allt kostaði þetta viðtöl við sjálfa bankastjórana.

Þegar ég sótti um víxillán hjá Landsbankanum mætti ég klukkan átta að morgni og stóð í biðröð í Austurstrætinu í kulda og trekki til klukkan 9 eða 9:15 þegar skjálfandi mannskapnum, bláum af kulda, var hleypt inn í hlýjuna. Þar tók við bið í óvissu í a.m.k. klukkustund eða þar til bankastjórinn kallaði einn og einn inn til sín og menn stundu óstyrkir upp erindinu. Auðvitað mættu menn í sparifötunum. Oft komu menn niðurlútir og niðurbrotnir af þessum fundi,  en stundum fengu menn hálfa þá upphæð sem beðið var um, og það til 3ja mánaða.

Svona var lífið fyrir verðtryggingu. Engir peningar til í bönkunum til að lána út, því fólk vildi ekki láta peningana brenna upp á bankareikningi sem var með neikvæða vexti.

Það er ljóst í mínum huga, að ef lán eru óverðtryggð, þá þurfa útlánsvextir að vera breytilegir og á hverjum tíma hærri en verðbólgan.  Einnig þurfa innlánsvextir að vera hærri en verðbólgan, því annars verða ekki til peningar í bönkunum til að lána út. 

Gleðilegt ár frændi.

Ágúst H Bjarnason, 31.12.2012 kl. 15:09

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Sælir heiðursmenn og takk fyrir innlitið.

Jón, ég held að við séum ekki fjarlægir í skoðunum hvað varðar áhrif hrunsins á mjólkurlítrana. Það blasir við að lánin ruku upp en það sem keypt var féll. Millistétt Íslands varð eignalaus. Það er ömulegt til þess að vita að heil kynslóð skuli eiga minna en ekki neitt vegna hrunsins. Við ætlum okkur að reyna að gera eitthvað alvarlegt í þessu landsfundi.

Í verðtryggðu lánunum er ófært að láta ekki höfuðstólinn lækka um leið og verðbætur og vextir eru greiddir. Það tíðkast hvergi að bæta vöxtum ofan á höfuðstól og hækka skuldina. Afborganir verða þá óviðráðanlegar fyrir marga en þá sést hver vandinn er strax og þá verður gert eitthvað í því en ekki látið malla svona áfram auðvaldinu einu til dýrðar.

Ágúst frændi. Ég kannast við lýsingarnar. Ég hef þrisvar borgað af húsnæðislánum til enda.Í seinna skipti tók ég erlent lán og borgaði restina upp. Tvöfaldaði svo höfuðstólinn í hruninu og tapaði húsinu. Lánið var svo dæmt ólöglegt en stofnunin sem lánaði fór á hausinn svo ég sat bara uppi með niðurstöðuna og fékk enga leiðréttingu aftur í tímann. En önnur lán sem ég skuldaði sömu stofnun skiluðu sér til nýs yfirtökubanka í eigu vogunarsjóðanna sem rukkaði mig svikalaust. Hinsvegar vísaði þessi nýja kennitala fyrri viðskiptum frá sér þar sem gamla kennitalan eða stofnunin sem átti allar kröfurnar var farin á hausinn og kom honum ekki við.

Ég vil elska mitt land!

Halldór Jónsson, 31.12.2012 kl. 15:34

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Halldór, þetta er einmitt verðtryggingar vandamálið í hnotskurn; þegar mjólkurpottur er fenginn að láni  á að endurgreiða mjólkurpott.  Plús hæfilega ávöxtun.

Mjólkurpottar heyra undir neysluvísitölu.  Það er að vísu nógu slæmt að verðgildi mjólkurpotts sé mælt eftir skattlagningu hins opinbera á brennivíni, tóbaki, olíu og bensíni.

En það er ekki í lagi að mæla verðtryggingu húsnæðislána eftir geðþóttaskattlagningu stjórnvalda á neysluvörum.

Gott innlegg hjá Ágúst - ég man þessa tíma líka, þetta með bónarveginn að bankastjórum til þess að fá víxillán, sem fengust svo aðeins greidd að frádregnum forvöxtum.  Allt of margir trúa því að víxlakynslóðin hafi aldrei þurft að greiða lánin sín.

Kolbrún Hilmars, 31.12.2012 kl. 16:29

5 Smámynd: Höfundur ókunnur

Hver veit, kannski nær aldurshópurinn 30-45 (sk. sjálfhverfa kynslóin) í gegn að verðtryggð lán verði óheimil og næstu 5-10 ára hópur fer allur í óverðtryggð: í kjölfar þessa styrkist krónan og verðbólga verður neikvæð eða engin.

Þá umpólast umræðan aftur og verðtryggð lán verða sá gyllti kaleikur sem lánþegar vilja?

Ég veit þetta hljómar ólíklega en til millilangs tíma erum við í nokkuð góðum málum og sérstaklega í samanburði við önnur lönd. Viðskiptajöfnuður er þokkalegur. Við erum að þokast í rétta átt og innflutt verðhjöðnun er ekki útilokuð: Þótt olía sé þverrandi þá er tímabundin ofgnótt af gasi og af miklu meiru að taka; knýja má stóra bílaflota af þessum miðli. Þetta ylli þá tímabundinni (3 ár?) lækkun á olíu sem er til grundvallar á meiru og minna öllum neysluvörum.  Auk þess er kaupmáttur evrópu og bandaríkjamanna minnkandi og harðnandi samkeppni þvingar niður verð á mörgum neysluvörum. 

Öðrum þræði þá segi ég þetta því einpóla umræður eru alltaf vondar og því er þessi færsla þín góð. Takk fyrir hana, Halldór.

Höfundur ókunnur, 31.12.2012 kl. 16:57

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Eitt óréttlætið í þessu er síðan að sá gjaldmiðill sem lántakinn hefur til umráða til að borga mjólkurlítrann, er þeim annmörkum háður að ef gefin fjárhæð af honum dugar til að borga einn 1 lítra af mjólk í dag, eru allar líkur til þess að hann einungis keypt 0,8 lítra af mjólk eftir eitt ár, fyrir sama vinnuframlag.

Að þessu eina ári liðnu er samt ætlast til að hann borgi 1,2 lítra af mjólk, eða í raun 1,4 lítra vegna virðisrýrnunar "mjólkurinnar" sem hann vann sér inn sjálfur.

Theódór Norðkvist, 1.1.2013 kl. 10:36

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Jón Sólnes bankastjóri og alþingismaður, sá afburðaskemmtilegi gáfumaður, lýsti einu sinni upplifun sinni sem barns af gengisfellingu. Það var þegar hann varð var við að móðir hans hafði blandað vatni í mjólkina til þess að öll börnin fengju nóg. Hún hafði ekki aðrar bjargir. Norðkvist er að lýsa þessu.

Davíð Stefánsson kveður svo í frumgerð eins kvæðis síns:

"Hver stjórnarskrá í heimi er gerð úr gylltum hlekkjum, við göngum undir okið það er frelsið sem við þekkjum.

Að kvölum okkar linni ef við krjúpum ef við grátum

í kirkjum þeirra háu, það er trúin sem við játum.

Þér öreigar og þrælar, sem enga gleði þekkið,

Drekkið

Vodka brennivín"

Hver ætlar að varðveita virði gjaldmiðilsins? Prentarinn? Ræninginn? Eða sá sem vantar hann?

Lamb er lamb og flaska er flaska sagði Vigfús bóndi í Flögu.

Safnið yður ekki verðmætum á jörðu sem mölur og ryð...

sagði annar.

Ekkert varir, allt streymir,-panta rei-, sögðu fornmenn.

Halldór Jónsson, 1.1.2013 kl. 11:12

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Er ekki viss um að ég skilji alveg hvert þú ert að fara, en ætla að reyna.

Í fyrsta lagi er gjaldmiðill ávísun á verðmæti. Mér sýnist við vera sammála um það. Í raun mælir, síðuhafa hlýtur að geðjast að nota það verkfræðilega hugtak.

Til dæmis ef ætlunin er að malbika 100 kílómetra, en malbikið dugar bara fyrir 90, er ekki hægt að breyta skilgreiningu kílómetrans til að malbikið dugi.

Vinna er aftur á móti ekta verðmæti, sem greitt er fyrir með peningum, sem eru ávísun á verðmæti.

Við getum líka litið á lánsfé sem verðmæti, þ.e. sá sem lánar vill geta keypt það sama fyrir sitt útlánsfé eftir eitt ár lánstímans og hann gat í upphafi hans. Að viðbættum einhverjum vöxtum. Allt í lagi með það.

Hinsvegar á það sama að gilda fyrir þann sem selur verðmæti í formi vinnu. Hann fær greitt í sama gjaldmiðli, útgefnum af Seðlabankanum. Krónurnar hans (ávísanirnar á verðmæti) eiga líka að elta hin áþreifanlegu verðmæti.

Ef þú ert að segja að EKKI eigi að varðveita virði gjaldmiðilsins hlýturðu að vera að segja að það eigi hvorki að varðveita gjaldmiðil lánveitandans né launþegans. Því enn sem komið er er það sami gjaldmiðillinn*. Ekki ertu að segja að það eigi bara að varðveita peninga lánveitandans, en ekki launþegans?

*Athugasemd. Sumir hafa viljað tala um tvo gjaldmiðla, verðtryggða krónu og óverðtryggða. Ég horfi framhjá því hér.

Theódór Norðkvist, 1.1.2013 kl. 11:40

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég er ekki sammál skoðunum um verðmæti vinnu  sem ég held að sé ættuð frá gamla Marx. Vinna er háð eftirspurn og framboði. Kaup hækkar með launaskriði í eftirspurnarbólu. Menn eru reiðubúnir að bjóða niður þegar lítið er að gera. Eða finnst þér að menn megi ekki gera það?

Krónan og kaupgjald  eru því ekki tengd. Kaupgjald sem er ákveðið at gunpoint hefur ekkert á bak við sig nema vald byssunnar. Á markaði er það lægstbjóðandi sme ræður. Hveer vill selja fyrir fæstar krónur.

Malbikið hækkar í verði eða lækkar af margvíslegum ástæðum.

En króna sem ég vil fá lánaða hjá þér er háð samningi milli okkar. Viltu lána mér hana ef ég borga þér ekki þá mjólk sem hún kaupir í dag. Við semjum um mjólkurvísitölu? Eða hversu marga dollara hún kaupir í dag og hversu marga þegar gjalddagi er.

Verðtryggð króna er sterkur gjaldmiðill. Það er æskilegt að fólk vilji eiga sterkan gjaldmiðil. Þessi króna er langtímakróna. Hún lýtur öðrum lögmálum en stutttíma  veltukróna. Veltikróna ber háa vexti. Langtíma króna ber lága vexti en hún er verðtryggð miðað við eitthvað verðmæti. Sem getur alveg eins lækkað eða hækkað. Við tökum áhættu af því.

Halldór Jónsson, 1.1.2013 kl. 17:25

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Jú jú, auðvitað eru öll svokölluð verðmæti háð lögmálum markaðarins og huglægu mati fólks. Ég kaus samt að tala um algild verðmæti þó þau séu sennilega ekki til, til að gera greinarmun á vörum og þjónustu - verðmætum sem látin eru af hendi í skiptum fyrir peninga annarsvegar - og peninga sem ávísun á einhver verðmæti hinsvegar. En vitanlega eru skilin ekki alltaf skörp þarna á milli.

Ég sé að þú hefur gert aðra færslu, ætla að kíkja á hana. Takk fyrir skoðanaskiptin hér.

Theódór Norðkvist, 1.1.2013 kl. 20:18

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Eitt enn, ef enginn á að ábyrgjast verðsveiflur á vinnu - sé ég engin rök fyrir því að nokkur maður og allra síst lántakar, eigi að ábyrgjast verðsveiflur á mjólk gagnvart lánveitanda.

Því mjólk sveiflast líka í verði, a.m.k. á frjálsum markaði, burtséð frá niðurgreiðslum. Ef t.d. margir óttast óhollustu mjólkur sem oft er verið að boða, þá minnkar eftirspurnin eftir henni og salan dregst saman.

Theódór Norðkvist, 1.1.2013 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband