Leita í fréttum mbl.is

Helgi í Góu og Hægri Grænir

eiga nú samleið. Margt sem Helgi segir er beinskeytt og maður hlustar þegar hann talar.

Grípum niður: 

".....Ég hef gagnrýnt stjórnendur sjóðanna um margra ára skeið og sjálfur gekk ég í lífeyrissjóð árið 1964. Það er ótrúlegt að stjórnendur hafi sumir hverjir þrjár milljónir í laun á mánuði og aki um á lúxusjeppum.

 

...Í auglýsingunum hef ég spurt hvort hugmynd mínar um að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í búsetuúrræðum fyrir aldraða hefðu hugsanlega verið betri fjárfesting, en að gambla í spilavíti hlutabréfamarkaðarins...... heldur ættu eingöngu að hámarka arðsemi og taka áhættu. Nú það væri arðsamasta fjárfestingin eftir allt saman.

......Í annarri auglýsingu bendi ég á að tekjurnar í Gildi, annars af tveimur stærstu lífeyrissjóðum landsins, voru um 21 milljarður en útgreiddur lífeyrir var hins vegar aðeins 7,8 milljarðar. Tveir þriðju af tekjunum urðu því eftir í sjóðnum. Hrein eign Gildis var þá um 241 milljarður. Sú upphæð ein og án vaxta myndi duga til útgreiðslu lífeyris í 30 ár og 11 mánuði....

 

.....Greidd iðgjöld í Lífeyrissjóð verzlunarmanna, annars af tveimur stærstu lífeyrissjóðum landsins um árið, voru tæpir 16 milljarðar. Alls voru tekjurnar um 34 milljarðar en útgreiddur lífeyrir var aðeins rúmir 6,8 milljarðar króna. Aðeins um fimmtungur var greiddur út.

..............Ég hef kynnt mér stefnuskrá Hægri grænna, flokks fólksins, og get ég ekki séð annað en að þarna sé kominn stjórnmálaflokkur sem ætlar sér að taka á lífeyrissjóðunum og gera eitthvað fyrir gamla fólkið. Ég er hrifinn af eftirfarandi 10 atriðum hjá þeim:

 

1) Kjaraskerðing aldraða sem tók gildi 1. júlí 2009 verði afturkölluð.

 

2) Lífeyrir aldraðra verði hækkaður um 20% vegna kjaraskerðingar aldraðra.

 

3) Afnema skerðingu tryggingarbóta vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.

 

4) Skattleysismörk verði hækkuð og ekkjuskattinn burt.

 

5) Stöðva allar hugmyndir um að selja Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna.

 

6) Lífeyrissjóðir fjárfesti og fjölgi búsetuúrræðum fyrir eldri borgara.

 

7) Hækka lífeyri aldraðra svo hann dugi fyrir framfærslukostnaði.

 

8) Erfanleg lífeyrisréttindi eins og í Frjálsa lífeyrissjóðnum.

 

9) Sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum verða að fá atkvæðisrétt um stjórn á sínum eigin sjóðum.

 

10) Lífeyrisgreiðslur í almenna lífeyrissjóðakerfinu eru eign lífeyrisgreiðandans og ættu maki hans og börn að fá allan lífeyrinn greiddan við fráfall.

 

Staðreyndin er að verkafólk og ellilífeyrisþegar fá ekki nóg út úr lífeyrissjóðunum sem eiga þó nóg af peningum. Íslenskur verkalýður verður að setja hnefann í borðið! Hvaða þýðingu hefur það að safna í digra sjóði meðan eldri borgarar þessa lands svelta? Setum X við G og kjósum Hægri græna í vor, þeir eru með lausnirnar. "

Ja hérna, ef maður staldrar ekki við eins og oft áður þegar maður heyrir í Helga.

Hvað býður minn Sjálfstæðisflokkur sem jafnast á við þetta? Ég kannast við áætlun hans um 5.). Hann ætlar að selja.  Skyldi hann ætla að gera eitthvað annað í hinum  níu atriðunum sem eftir standa? 

Kemur það ekki í ljós á Landsfundi?  Verður hann Helgi okkur gamlingjunum þar fyrirmynd?

Helgi í Góu er víst orðinn Hægri Grænn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum líka með margt gott fyrir unga fólkið.

Nýtt húsnæðislánakerfi - lægri óverðtryggðir vextir – 3,75% – 4%

Hægri grænir ætla að koma upp nýju húsnæðislánakerfi sem veitir ný húsnæðislán til þeirra sem eru að kaupa sér íbúð eða hús í fyrsta eða annað skipti á 3,75% - 4% óverðtryggðum vöxtum. Aðferðin er auðveld, en hún fellst í því að setja upp nýjan sjóð í Seðlabankanum við hliðina á „Kynslóðasáttarsjóðnum“ (sá sjóður er björgunarsjóður sem leiðréttir gömlu verðtryggðu lánin). Má segja að þessir óverðtryggðu vextir og vaxtamismunurinn, (Seðlabankinn lánar sjóðnum á 0,01% og sjóðurinn lánar út á hærri vöxtum) ganga til fólksins og fjölskyldnanna í landinu og nær fram ódýrari valkosti fyrir neytendur, m.ö.o. markaðsvextir eru niðurgreiddir án skattálagningar sem fólkið nýtur. Í dag renna vextirnir óskiptir m.a. til bankanna (hrægammasjóðanna). Það er kominn tími til þess, að heimilin fái að búa við lánafyrirkomulag sem er sambærilegt og í nágrannalöndum okkar og fólkið í landinu sem með réttu hefur myntsláttuvaldið og þ.a.l. myntsláttuhagnaðinn í gegnum Seðlabankann, nýti sér hann í eigin þágu og gefi það ekki frá sér eins og gert er í dag.

http://www.afram-island.is/efnahagsmal/nytt-husnaedislanakerfi/

Hægri grænir, flokkur fólksins (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 09:25

2 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Að venju er af nægu að taka ef svara á ruglinu í Helga þegar hann fjallar um lífeyrissjóði. Að sinni læt ég eitt atriði duga:

Hann jafnar saman iðgjaldagreiðslum og útgreiðslu lífeyris. Iðgjöld í dag eru greidd í sjóðina til að geyma og ávaxta og greiða síðar út til þeirra sem greiða iðgjöldin. Lífeyrir sem greiddur er út í dag samanstendur af iðgjöldum sem þeir lífeyrisþegar greiddu og ávöxtun þeirra. Eðlilega  eru iðgjöldin nú hærri en útgreiddur lífeyrir, iðgjaldagreiðendur eru fleiri en lífeyrisþegar og greiða iðgjöld af hærri tekjum í flestum tilvikum. Það er undarlegt að átta sig ekki á þessum grundvallaratriðum. Hvað er þá með annað?

Já, og: Er ekki ástæða til að kanna fortíð sjóðvörslu forsvarsmanns Hægri grænna áður en mælt er með honum?

Þórhallur Birgir Jósepsson, 7.2.2013 kl. 10:20

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Þórhallur minn,

allir eiga einhverja fortíð. Ég hef ekki séð að frosvarsmaðurinn sé eftirlýstur vegna fortíðar sinnar. Ég er ekkert viss um að Helgi í Góu fari með tómt rugl. Hann sýnist mér vera greindur maður og sannleiksleitandi . Og dugnaðurinn maður, farðu og skoðaðu Góu.

Hvort hefði verið betra að tapa 500 milljörðum á bréfaruglinu eða eiga svona 25 þúsund íbúðir fyrir aldraða? Ef þú ert frekar með bréfaleiðinni þá er ágætt að vita það og hvað þú hefur fyrir þér í því.

Húsaleigan af þessum íbúðum gætu verið að gefa af sér 2.5 milljarða á mánuði með vægri húsaleigu.

Veistu, ég er ekki tilbúinn að vísa þessu út í hafsauga sem einhverju rugli.

Halldór Jónsson, 7.2.2013 kl. 10:41

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er sama hvernig á málið er litið, lífeyrissjóðakerfið er komið á endastöð. Það þarf að taka það til algerrar endurskoðunar.

Fyrir það fyrsta þarf að safna saman færustu sérfræðingum til að skoða kerfið og koma með tillögur um breytingar eða hreinlega nýtt kerfi. Þar þarf að hafa að hafa í forgrunni aðkomu sjóðsfélaga að stjórnun þess kerfis sem yrði ofaná. Að láta einhverja "sérvalda" höndla með fé launþega á þann hátt sem hingað til hefur tíðkast, mun aldrei verða samþykkt. Þetta er eitt af þeim málum sem mesta gagnrýni hefur fengið og mestan efa hefur myndað í hugum fólks. Efa sem grefur undan kerfinu, hversu gott eða slæmt sem það er.

Í öðru lagi þarf að slíta öll tengsl milli greiðslna úr lífeyrissjóðum við aðrar tekjur, hvort sem þær koma frá ríki eða öðru. Eins og staðan er í dag, þar sem ríkið tekjutryggir sínar greiðslur til ellilífeyrisþega, er með öllu tilgangslaust fyrir hinn venjulega launamann að safna í lífeyrissjóð. Hann fær í raun ekki krónu af því fé til baka.

Í þriðja lagi þarf að fara fram skoðun á rekstri allra lífeyrissjóða allt frá síðustu aldamótum til dagsins í dag. Þessi rannsókn verður að gera af ótengdum aðilum og að þeir fái vald til að skoða hvern krók og kima. Komi eitthvað misjafnt í ljós, á að sjálfsögðu að láta þá svara til saka sem til saka hafa unnið.

Launþegar munu ekki láta bjóða sér áframhald þess kerfis sem nú er við lýði og breytir þar engu þó Gylfi Arnbjörnsson maldi í móinn. Hann er jú innvígður í þetta kerfi og berst fyrir því fram í rauðann dauðann. Hann er í þeirri baráttu, eins og svo mörgum öðrum, á eigin forsendum gegn sínum umbjóðendum.

Gunnar Heiðarsson, 7.2.2013 kl. 10:43

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Svo vil ég bara segja að það þarf helv.. sterkan einstakling til að gagnrýna Helga í Góu. Það er leitun af manni sem hefur sýnt meiri stjórnvisku. Fyrirtæki hans ber þess merki.

Mér þætti gaman að vita hvað Þórhallur Birgir Jósefsson hefur unnið til dáða svo hann geti haft slík orð um Helga, er hann ritar hér fyrir ofan.

Gunnar Heiðarsson, 7.2.2013 kl. 10:51

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Einhver allra besta fjárfesting  er 6 milljón krónu framlag ríkissjóðs í vöktun síldarinnar í Breiðafirði.

Ríkissjóður þyrfti að semja við lífeyrissjóðina um að fjármagna vöktun fleiri fiskitegunda.

Sigurður Þórðarson, 7.2.2013 kl. 10:54

7 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Lítið eitt um 500 milljarðana. Sú tala var búin til hjá úttektarnefnd LL með því að færa hrunið til frá október 2008 til fyrsta janúar 2008. Ég hef ekki heyrt eða séð þess getið að sá mælikvarði hafi annars staðar verið notaður. Ég hef ekki heldur heyrt þess getið að sá mælikvarði hafi verið notaður um annað en lífeyrissjóði, væntanlega í þeim tilgangi að stækka svosem mögulegt var tjón þeirra af hruninu. Í ofanálag hafa fjömiðlar, og þið, rúnnað töluna af úr þeim 480 milljörðum sem nefndin bjó til í 500 milljarða, svona eins og 20 milljarðar séu smámynt sem skiptir ekki máli.

Lífeyrissjóðir landsins greiða nú yfir 70 milljarða króna á ári  til lífeyrisþega. Tryggingastofnun ríkisins ríflega 50 milljarða. Fyrir um áratug greiddi TR hærri lífeyri en sjóðirnir. Þeir eru komnir yfir vegna þess að réttindi lífeyrisþega í sjóðunum aukast ár frá ári og sjóðirnir eflast. Ef þeir verða nú slegnir af, eins og þið virðist vilja, þá þarf væntanlega að tína þessa 70-80 milljarða upp einhvers staðar. Ég sé ekki að það verði gert nema með skattahækkunum og með stöðugt hækkandi aldri þjóðarinnar verða hlutfallslega stöðugt færri til að standa undir þeim skatt6greiðslum. Ég verð að játa að mér finnst það ekki álitleg framtíð.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 7.2.2013 kl. 11:29

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Gunnar Heiðarsson

Það sem þú segir í fyrri dálki þínum er allrar athygli vert. Helgi nefnir það í grein sinni að Alþingi hafi samþykkt að láta taka út lífeyrissjóðina en ekkert gert í því.

Þessi setning er eiginlega spurning til Þórhalls:

" Eins og staðan er í dag, þar sem ríkið tekjutryggir sínar greiðslur til ellilífeyrisþega, er með öllu tilgangslaust fyrir hinn venjulega launamann að safna í lífeyrissjóð. Hann fær í raun ekki krónu af því fé til baka."

Vill Þórhallur þá að lífeyrissjóðirnir leysi TR algerlega af? (Ekki er ég á móti því en hvað verður þá um alla kratana sem þar hafa unnið mann fram af manni? )

Seinni pistillinn þinn stendur sjálfur.

Þórhallur,

Hvernig væri að leyfa fólki að velja mína leið með að greiða inn á séreignarreikning í Seðlabanka í stað lífeyrissjóðs? Þá gætum við fjármagnað kerfi hægri-grænna með ábyrgð Seðlabanka.

Halldór Jónsson, 7.2.2013 kl. 12:07

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Siggi,

ég næ ekki tengingunni með síldinni. En mér finnst að þarna sé einhver óútskýrð reikningsskekkja Hafró á ferð sem hún þarf að skýra út betur.

Halldór Jónsson, 7.2.2013 kl. 12:08

10 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

"Hvernig væri að leyfa fólki að velja mína leið með að greiða inn á séreignarreikning í Seðlabanka í stað lífeyrissjóðs? Þá gætum við fjármagnað kerfi hægri-grænna með ábyrgð Seðlabanka."

Þegar ég er spurður að þessu svara ég venjulega með annarri spurningu: Hvað ætlarðu að verða gamall?

Taktu eftir: Hvað ÆTLARÐU að verða gamall?

Það er ágætt fyrir auðmenn og sterkefnað fólk að halda sig við séreignarsparnað eingöngu. Þarf ekki að óttast að grípa einn daginn í tómt, sjóðurinn búinn.

Fyrir venjulegt fólk með venjulegan fjárhag (ég tel mig tilheyra þeim allmikið stærri hópi) er þessi leið einfaldlega ófær til að tryggja afkomuna eftir að starfsævinni lýkur.

Ef ég hef eingöngu séreignarsparnað að styðjast við, verð ég að áætla fyrirfram hve mikið ég get tekið út á mánuði. Þá þarf ég að vita hve marga mánuði ég á ólifaða. Er það mögulegt?

Samtryggingarsparnaður, eins og almennt er í íslensku lífeyrissjóðunum, fórnar séreigninni fyrir afkomuöryggið. Það þýðir að lífeyrisréttindin erfast ekki nema að hluta. Á móti kemur að ellilífeyrir er tryggður til æviloka hvort sem ég verð 70 ára eða 100 ára eða næ einhverjum enn öðrum aldri.

Sá hluti sem erfist er maka- og barnalífeyrir. Samtryggingarkerfinu fylgja líka réttindi til örorkulífeyris og það eru bæði mikil og góð réttindi. Þú ert til dæmis ekki krafinn um lífsstílsvottorð (reykirðu? drekkurðu? ertu of feitur?) eða önnur persónuleg skilyrði sett. Þú vinnur þér réttindin eftir almennum og gegnsæjum reglum.

Þetta kerfi er sniðið að þörfum hins almenna borgara og skipulagt í víðtæku samráði aðila vinnumarkaðarins (sem þú hefur efalaust átt þátt í á sínum tíma Halldór, eða var það fyrir þína tíð? 1969 var það) og með samspili löggjafans. Um þetta ríkti víðtæk sátt þá og hefur í stórum dráttum gert þar til nú koma fram menn sem sjá ofsjónum yfir þeim sjóðum sem safnað hefur verið og vilja komast með lúkurnar í þær krukkur.

Ég skal fúslega játa að mér finnst afskaplega holur hljómur í því þegar vellríkir  menn eins og Helgi Vilhjálmsson láta vaða allskyns illa ígrundaðar aðfinnslur og leggja til að kerfið verði rústað til þess einsað fjármagna áhugamál hans. Tillögur hans um séreignarsparnaðarlífeyri geta ekki þjónað hagsmunum annarra en hans líkra: Vellríkra manna, hvað svosem hefur gert þá auðuga. Algjörlega er ljóst að slíkt þjónar enganveginn hagsmunum venjulegs fólks.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 7.2.2013 kl. 12:47

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Þórhallur minn,

ég er ekki að tala um þvingun heldur val. Ef ég hefði mátt velja þegar kerfið var sett á upphaflega, þá vantreysti ég því og var viss um að það myndi verða fyrir áföllum þá hefði ég lagt inn í Seðlabankann á kannski 3.5 % raunávöxtun eins og lífeyrissjóðirnir eiga að skaffa. Ég borgaði í þá í einhverja fjóra áratugi.

Ég fæ sirka ekkert af ellilaunum frá TR, give or take mér skilst vegna lífeyrissjóðsins. (ég nenni ekki að fylgjast með þessum útreikningum þeirra nákvæmlega)

Með 10 % lífeyrisgreiðsluiðgjaldi yrðu uppsafnað 10 % iðgjaldið að 8.8 földum verðtryggðum árslaunum á 40 árum.

(1.035^40+1.035^39+1.035^38+1.035^37+1.035^36+1.035^35+1.035^34+1.035^33+1.035^32+1.035^31+1.035^30 = 36.88686019174601 = laun fyrsta áratugar í lífeyrissparnaði með 3.5 % ávöxtun, 36 földun)

1.035^29+1.035^28+1.035^27+1.035^26+1.035^25+1.035^24+1.035^23+ 1.035^22+1.035^21+1.035^20 = 23.342995463908178 = 23földun næsta áratugar

1.035^19+1.035^18+1.035^17+1.035^16+1.035^15+1.035^14+1.035^13+ 1.035^12+1.035^11+1.035^10 = 16.548288652706376 = 16 földun þar næsta áratugarlauna

1.035^9+1.035^8+1.035^7+1.035^6+1.035^5+1.035^4+1.035^3+ 1.035^2+1.035^1+1.035^0 = 11.7663931606034877 = tæplega tólfföldun síðasta áratugarlauna eða 88 földun allra mánaðrlauna sem þýðir þá með 10 % iðgjaldi = 8,8 földum árslaunum liggjandi á sérreikningi í Seðlabanka.)

(Nú er ekki lengur borgað 10 % heldur meira)

Hefur einhver lífeyrisþegi náð meiru út úr lífeyrissjóði en þetta? Full laun í 9 ár? Hálf laun í 20 ár? Ef hann mætti taka þetta út á segjum 15 árum þá myndi þetta endast einhver ár í viðbót vegna vaxtanna. Ef hann lifir lengur getur hann þá ekki farið á verðlaunaframfærslu 82 ára gamall ef kerfið myndi jafna út eftir einhverjum aðferðum ef þetta erfðist ekki til annarra en eftirlifandi maka?

Halldór Jónsson, 7.2.2013 kl. 14:15

12 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Halldór minn!

Þú segir: "Ég fæ sirka ekkert af ellilaunum frá TR, give or take mér skilst vegna lífeyrissjóðsins."

Þetta er ekki vegna lífeyrissjóðsins, heldur vegna  laga sem sett voru á Alþingi, fyrir ekki löngu, og ekki man ég eftir umræðum um þau, né að nokkur hafi verið á móti þeim. Hins vegar get ég verið þér sammála um að þau eru ranglát, mér finnst ekki réttlætanlegt að skerða svona krónu á móti krónu, en mér finnst líka undarlegt að geta ekki greint orsökina og kenna lífeyrissjóðunum um.

Seðlabankinn já. Hvernig nærð þú samningum um 3,5% raunávöxtun hjá Seðlabankanum? Þegar ég sat í húsnæðismálastjórn á 10. áratugnum  geymdi Húsnæðisstofnun ríkisins talsvert fé í Seðlabankanum og fékk allranáðarsamlegast 2% nafnvexti á það fé. Það semsagt rýrnaði.

Ég skal játa að ég átta mig ekki á hvað þú ert að fara með þessum útreikningum. En þetta get ég bent þér á varðandi lífeyrisrétt þeirra sem eru núverandi og verðandi lífeyrisþegar, t.d. í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, þar sem ég starfa (og þér er sjálfsagt kunnugt um):

Lífeyrisþegi sem hefur greitt iðgjald í sjóðinn á starfstíma sínum getur vænst þess að fá sem nemur meira en helmingi launanna sem hann hafði á mánuði (hef hlutfallið ekki allskostar á hreinu, enda nokkuð mismunandi, algengt rúmlega 60%). Lífeyrir, sem greiddur er út er um það bil að hálfu höfuðstóll (iðgjöldin) og að hálfu ávöxtun.

Sá maður er snjall sem getur aflað öflugri sparnaðarkerfis fyrir heila þjóð. Mér nægir ekki að menn bara segist geta það. Mér nægir ekki heldur til að efast um okkar lífeyriskerfi að heyra (eða lesa) menn æpa órökstudd gífuryrði, jafnvel ekki þótt þau séu oft endurtekin. Það er meira alvörumál en svo að hafa í slíkum flimtingum að véla um afkomu almennings á efri árum.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 7.2.2013 kl. 15:06

13 identicon

Sæll Halldór; æfinlega - sem og aðrir, þínir gestir !

Þórhallur Birgir !

Þú ert; borubrattur hér, á síðu fornvinar míns, Halldórs verkfr.,, þó svo, þú þorir ekki, að leggja til atlögu, við okkur Svein Rosenkrantz Pálsson, á minni síðu, ágæti drengur.

Þú veist ofurvel; Þórhallur minn, að þú hefir vonda villu að verja - og ættir því, að biðja Halldór - sem okkur aðra gesta hans, afsökunar stórrar, á gengdarlausri vörn þinni, til handa Smákóngum Lífeyrissjóðanna - og þess óþverra, sem þeir baða sig í, frá degi til dags, aldeilis.

Ekkert; ekkert verðskuldar tilvist, þessarra sjálftöku- og þjófabæla, Þórhallur minn !!!

Með; öngvu að síður - beztu kveðjum úr Árnesþingi, til Halldórs og annarra - þurrum fremur til þín, Þórhallur Birgir /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 16:13

14 Smámynd: Halldór Jónsson

60 % segir þú. Mig minnir að það gæti stemmt í þeirra tíðar krónum fyrir rúmum áratug. En það eru bæði verðbólga og skerðingar vegna síðari tapa.

Ég væri betur settur með mínu kerfi.

Og ég fann ekki upp 3.5 % töluna heldur þeir sem settu kerfið á fót. Þeir sögðu að sjóðirnir ættu að ná í það minnsta þessari tölu. Það er þessi tala sem er grunnurinn að allri vaxtaógæfu landsmanna þar sem Seðlabankinn byrjar allata með hana sem núllpunkt..

Lífeyrissjóðirnir hafa skrúfað upp vaxtastigið í landinu almenningi til stórra búsifja.

Halldór Jónsson, 7.2.2013 kl. 16:39

15 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Halldór. Ég hef ekki myndað mér skoðun um Hægri Græna.

Ég hef hins vegar fyrir löngu síðan, myndað mér mjög skýra skoðun á Helga Vilhjálmssyni í Góu. Hann er að mínu mati heiðarlegur, sanngjarn, skynsamur, réttsýnn og hörkuduglegur maður, sem hefur alla tíð haft sanngirni og réttlæti að leiðarljósi.

Það toppar enginn Helga í Góu!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.2.2013 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 3419716

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband