Leita í fréttum mbl.is

Vindmyllurnar

snúast við Ísakot. Ég fór að berja þær augum í kvöld. 

Það sem mér fannst fyrst merkilegast þegar ég kom keyrandi neðan úr Landssveit, að ég ætlaði aldrei að koma auga á þær. Fyrst sá eg tvö ljós í fjarskanum sem blikkuðu. Annað sást ekki í svona 3-5  km fjarlægð. Ég fór svo að geta mér til að þetta væru vindmyllurnar og blikkið kæmi þegar blöðin færu fyrir ljósin. Þegar ég kom nær í kannski 1-2 kílómetra fjarlægð sá ég  hreyfinguna og að þetta væru myllurnar. Svo nálgaðist ég meira og kom að Ísakoti og þá sýndust mér þær ekkert vera neitt stórar eða áberandi. Þar heyrði ég ekkert í þeim heldur þó að vindurinn stæði beint á mig í svona tvöhundrað metra fjarlægð.

Svo fór ég alveg að þeim og fór út úr bílnum. Það var hávaða rok. Ég  hlustaði en heyrði varla neitt í þeim. Tígulegar fannst mér þær og fallegar. Fylltist eiginlega lotningu við að horfa á þær vinna svona létt og fallega. Ég hvet ykkur til að fara inn á www.Enercon.de og sjáið hversu gríðarleg tækni er á bak við smíðina.

Ég fór að  velta því fyrir mér að þessar myllur eru bara 2 MW. Hundrað svona myllur dyttu fyrirhafnarlaust í víðáttuna þarna uppfrá. Þær myllur sem nú eru mest framleiddar gefa svona sjö sinnum meira afl þannig að 30 slíkar myllur framleiddu 200 MW eins og mig minnir að Búrfell l hafi verið.   Þær sæjust varla í landslaginu. En Þjórsá, Búrfellsstöð, Ísakot,  lónin og línurnar sjást svo sannarlega.

Fallvötnin okkar eru á ákveðnum stöðum. Vindurinn er hinsvegar allstaðar.

En vindurinn var þarna var sjálfur í dag  að gefa margfalt allt upprunalegt afl Búrfellsvirkjunar. Ég fór að reyna að gera mér grein fyrir öllu þessu afli  sem var á ferðinni en bara gat það ekki. Það hefði hvergi séð högg á vatni í afli hans þó þúsund, tíuþúsund eða hundraðþúsund myllur hefðu snúist þarna í dag. 

Ég skynjaði eiginlega fyrst hvaða reginafl er í vindunum þegar ég horfði á myllurnar snúast. Það er óendanlega miklu meira en alls vatnsfallsins og mannvirkjanna þarna í kring.   Með algerlega afturkræfum hætti beljar þetta afl sem ég stjórna ekki og get ekki stoppað.  Vindurinn hættir að blása þegar honum hentar og myllan stoppar. Maður skrúfar mylluna niður og degi seinna sjást engin ummerki á staðnum. Búrfellsvirkjun hefur svo sannarlega breytt öllu umhverfi virkjunarinnar frá því ég var strákur þarna á rjújpnaskítteríi. Hana skrúfar sem betur fer enginn niður. Þjóðin á hana núna skuldlaust eftir tæpa hálfa öld í rekstri. Ég man enn sönginn í kommunum þegar átti að byggja hana. Allt ómögulegt.

Þegar ég fór fyrst í sveit 7 ára gutti  þá fékk ég að vera bremsustjóri á vindmyllunni á bænum í Borgarfirðinum. Ef kom rok þá varð að stoppa hana. Þetta var bara rella á hlöðuþakinu sem hlóð batterí svo hægt var að hlusta á fréttirnar og hafa einhverjar ljóstýrur stundum. Þetta var samt mikil bylting í sveitunum frá olíuljósunum.Ég man að myllan hét Whittaker KARI og pabbi minn flutti þær inn og seldi um allar sveitir. Svo kom rafið næsta eða þarnæsta  sumar og þá breyttist allt í sveitunum. Mjaltavélar, súgþurrkun, birta og ylur.

Nú veit ég til þess, að einn maður vildi setja upp vindmyllur á eigin spýtur á Skeiðunum síðasta sumar. Hann er búinn að veltast með þetta milli Herodesar og Pílatusar í bráðum ár og fá núna eiginlega endanlegt afsvar. Vindmyllur þjóðarinnar upp við Ísakot kosta skattgreiðendur  600 milljónir. Voru hjúkrunarfræðingar spurðir um leyfi ? Þessi maður keypti sér land og ætlaði að kosta sínar vindmyllur sjálfur.  Búinn að kosta kynningar og skipulagstillögur úr eigin vasa eftir leibeiningum yfirvalda. Senda ótal erindi, halda ótal fundi. Nei takk!  Einn sumarbústaðaeigandi  harðneitar og hinir íbúarnir standa hjá. Engar vindmyllur á Skeiðin takk. Vantar heildstæða vindmylluáætlun fyrir landið í heild. Án þess að benda á hver eigi að framkvæma eða kosta.

Samt  segir aðalskipulag Skeiða-og Gnúpverjahrepps að stuðla skuli að orkuvinnslu í sveitarfélaginu. Blablabla.  Burt með þig og þinar hugmyndir eru kveðjur sveitarstjórnarmanna til þessarar einkaframkvæmdar í beislun vindorku. En þeir sjálfir virðast snúast í afstöðu sinni og afgreiðslum eins og vindhanar frá fundi til fundar. Búnir að gefa mörg fögur fyrirheit en snúast svo jafnan óvænt í aðra átt þegar á reynir.

Þúsundir vindmylla snúast nú um allan heim. Hreinasta orka sem til er. Þýskaland getur ekkert annað en sett upp fleiri vindmyllur því frú Merkel vill ekki Atomkraft. Frakkar setja upp Atom á landamærunum og selja henni þann straum sem Ruhr-héraðið vantar. Mannkynið allt kallar á meiri orku og hreina orku því Al Gore segir að annars hlýni í heiminum og allir virðast trúa honum. En svo eru orkumannvirkin svo ljót að það fæst ekki að byggja þau vegna sjónmengunar eins og það er kallað.

Við þessar aðstæður mun mér þykja merkilegt ef  Íslendingar ætla engar vindmyllur að leyfa hjá sér nema sem opinberir aðilar reisa.  Bara af því að einhverjum finnst að þær séu hugsanlega ljótari en háspennuturnarnir og línurnar sem eru helstu einkennistréin og laufið á flatlendinu á Skeiðunum. Var ekki kveðið: Lítilla landa, lítilla sæva, osfrv.

DonKíkóti barðist við vindmyllur á sinni tíð. Hafi riddarinn haft sigur þá hefur það varla verið á Skeiðunum 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Vindmyllur eru einhver hryllilegasta „sjónmengun“ sem þekkist. Fólk sem býr nálægt þeim hefur orðið að leggast inn á geðdeildir vegna hvinsins, auk þess að margir virðast þola illa að horfa á stöðugan snúninginn í þeim. Auk þess hafa þær drepið mikið af fuglum og leðurblökum. En fyrst og fremst er hryllingur að hafa þennan ófögnuð nærri sér og ég skil vel frændur mína á Skeiðunum.

Vilhjálmur Eyþórsson, 13.2.2013 kl. 22:49

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll frændi.

Það er eitt sem gleymist oft í umræðinni um vindorkuver er að þau framleiða að jafnaði aðeins brot af uppgefnu afli.

Notkunarstuðullinn eða capacity factor reiknað yfir árið er kannski ekki nema u.þ.b. 0,25 eða 25%. Þannig framleiðir vindrafstöð sem er gefin upp sem 1 megawatt aðeins álíka mikið að jafnaði yfir árið og 0,25 megawatta eða 250 kílówatta  vatnsorkuver, því notkunarstuðull þannig virkjana er nærri 90%.

Þetta gerir það að verkum að raforkan frá vindrafstöðvum er mjög dýr.

Annað sem hefur áhrif á kostnaðinn, er að  vindurinn er óstöðugur. Stundum er hann nægur, en það koma tímabil þegar algert logn er. Þá þurfa að vera tilbúin orkuver sem að jafnaði eru stopp en í viðbragðsstöðu og hægt er að ræsa til að framleiða jafnmikla raforku og vindmyllurnar sem snúast ekki.

Því miður hafa menn oft vanreiknað þetta og síðan vaknað upp við vondan draum.

Hér er áhugaverð grein:

Capacity Factor ofWind Power
Realized Values vs. Estimates


Abstract
For two decades, the capacity factor of wind power measuring the mean energy delivered by
wind turbines has been assumed at 35% of the name plate capacity. Yet, the mean realized value
for Europe over the last five years is closer to 21% thus making levelized cost 66% higher than previously thought. We document this discrepancy and offer rationalizations, emphasizing the longterm variations of wind speeds. We conclude with the consequences of the capacity factor miscalculation and some policy recommendations.

-

Á Englandi eru reynslutölurnar 27%  "annual capacity factor".   Sjá bls. 5 hér.

Vindmyllur geta hentað sums staðar, en erlendis hafa menn víða verið of bjartsýnir í upphafi og dæmið ekki gengið upp án ríkisstyrkja og niðurgreiðslu á vindorku. Sjá t.d. Wall  Street Journal hér, og The Telagraph hér.

Ágúst H Bjarnason, 13.2.2013 kl. 22:50

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þessi staðsetning við Búrfell einn þeirra staða sem hagkvæmt gæti verið að rekka vindorkuver á íslandi. það stafar fyrst og fremst af því að lína til byggða er fyrir hendi og þarna er vindur 2 x meðalvindur á íslandi.

Vindorkuver í súmarhúsabyggð á Skeiðum er hinnsvegar einver vitlausasta hugmynd sem ég hef heyrt lengi.

Guðmundur Jónsson, 14.2.2013 kl. 09:55

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Vilhjálmur og Guðmundur, þið eruð eindregnir í skoðunum og ekki þarf ég að ræða lengi við ykkur. Þið eruð stjórnlyndir báðir og viljið hafa vit fyrir fóki eins og þessum landeiganda. Sjálfsagt að hafa vit fyrir einstaklingnum er jú aðalsmerki félagshyggjufólks eins og þið haldið þarna á lofti.

Ágúst frændi. Já ég er mér alveg meðvitaður um þetta sem þú nefnir. Ég held að Landsvirkjun reikni með einhverjum 0.4. Í Þýsklandi hef ég heyrt tölur uppá 0,3. Ideal notkun væru kansski til dæmis frystigeymslur sem eru ekki uppnæmar fyrir tímabundnu logni. Heimavirkjun fyrir stórnotanda eins og þú þekkir er stórkostleg, kaupa rafmagnið af sjálfum sér á daginn og sleppa við að borga RARIK en neyða þá til að kaupa allt á nóttunni þegar maður þarf ekki rafmagn.

Ég veit ekki hvað kallinn á Skeiðunum ætlaði að gera nákvæmlega en ég þykist sjá að til dæmis lýsing í gróðurhús kæmi til greina. En það er víst búið spil hjá honum.

Halldór Jónsson, 14.2.2013 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 3419712

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband