Leita í fréttum mbl.is

Ahyggjur af ungum drengjum

hafði Bryndís Loftsdóttir á fundi Sjálfstæðismanna í Kópavogi í morgun, Hún taldi að verið væri að þrengja að þeim atvinnulega séð. Þeir hefðu í færri hús að venda en stúlkur með atvinnu meðfram skóla. Það væri búið að setja reglugerðir sem takmörkuðu þeim til dæmis aðgengi að byggingavinnu, hugsanlega til að vernda þá frá bakmeiðslum. Stúlkur gætu frekar fengið vinnu við afgreiðslustörf og þess háttar en drengir og þeir yrðu jafnvel utanveltu á vinnumarkaði. Hér áður komust allir strákar í byggingavinnu  og tóku á af öllum kröftum.

Bryndís gerði afstöðu Íslendinga til vinnunnar og atvinnurekenda að umtalsefni. Hún sagðist óttast að við værum að ala upp hópa langtímatvinnuleysingja sem vildu ekki lengur vinna.Hún rifjaði upp bóksalaár sín þegar hún var að ráða tugi aðstoðarstúlkna í desember. Ungu stúlkurnar flykktust í störfin hjá henni til að vinna sér inn aura. Svo fór eitthvað að breytast í þjóðfélaginu og fólkinu þótti eitthvað minna til koma að fá vinnu.Hún sagðist hafa fyrst tekið eftir þessu þegar ein liðsaukastúlkan sagði henni að hún vildi auðvitað fá frí á Þorláksmessu og fyrir hádegi á aðfangadag. Þá skynjaði hún að ekki var allt með felldu í þróuninni á vinnumarkaði.

Ég minnist með sjálfum mér ára minna í byggingavinnu. Það var oft þrælapuð að keyra steypuhjólbörur frá Ásta, Kjarra eða Bjössa á lyftibílnum. Það versta sem ég lenti í 19 ára var að hræra sem handlangari á bretti fyrir tvo fíleflda múrara sem voru að hrauna þriggja hæða hús. Það var sama hvað ég djöflaðist þeir geltu mig alltaf. Enga hrærivél, bara skóflu, sand í hrúgu og bretti af pokasementi. Mér þótti fúlt þegar þeir komu niður til að hjálpa mér að hræra. Mér fannst ég aumingi.  Þó var ég það vel á mig kominn þá að ég bar 2 fimmtíu kílóa sementspoka í fanginu upp á þriðju hæð í beit og fékk aldrei í bakið.En mikið var þetta gaman svona eftirá og fjölbreytt hjá honum Halldór Halldórssyni múrarameistara og Snorra trésmíðameistaraí Húsasmiðjunni, þvílíkir öðlingar sem þeir voru og sérstæðir. "Aðeins meira í norður, suður, austur eða lýðræðisátt" kallaði Halldór þegar var verið að steypa. En hann hafði nokkuð frekar dálæti á Rússum en Ameríkönum í kalda stríðinu sem þá geisaði. Karakterarnir sem maður kynntist voru stórfenglegir sem maður man og þekkti alla tíð. Það er brjálað ef hindra á unga drengi frá því að vinna á byggingastöðum, slíkur skóli sem það er.

Jón Gunnarsson þingmaður útlistaði stefnu Sjálfstæðisflokksins í kosningunum. Flokkurinn vildi auka framkvæmdir og fjárfestingu í þjóðfélaginu. Ráðast í gerð Norðlingaölduveitu sem væri ódýrasta orkuframkvæmdin sem skilaði afli Búðarhálsvirkjunar á hálfu verði hennar. Virkja í Neðri Þjórsá sem fyrst. Koma Helguvík gang og skoða álver á Bakka. Ekki seinna heldur strax. Það væri alger rangsnúningur að halda því fram að heimiln  niðurgreiddu orkuna fyrir stóriðjuna, því væri öfugt farið því orkuverð heimilanna væri langlægst á Íslandi miðað við löndin í kring. Landsvirkjun væri þvílíkt gullegg sem væri að skila þjóðarbúinu risaverðmætum og borgaði hratt niður skuldir sínar.

Rætt hefði verið að selja hluta úr Landsvirkjun til að grynnka á skuldum ríkisins. Fram kom á fundinum að Norðmenn hafa selt hlutabréf dreifðum almenningi hlutabréf í Olíusjóðnum sínum þó ríkið eigi áfram 70 % á kauphöll og margaldað virði hans með því. Jón sagði rangt að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að selja Landsvirkjun heldur hefði Landsfundur ályktað í aðra átt. Sjálfstæðisflokkurinn vildi aðgerðir strax í málefnum eldri borgara sem hefðu ekki tímann fyrir sér að bíða eftir að loforð yrðu efnd eins og verið hefði hér frá stóru skerðingunni 2009 sem sagt var að væri tímabundin en er ennþá.

Elín Hirst sagði að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að lækka skatta eins og tryggingagjaldið, auðlegðarskattinn, bensíngjaldið, staðgreiðsluskattinn. Lækkun skatt þýddi breikkun skattstofna til lengdar litið. 

Fundurinn var fjölsóttur og mikill hugur í mönnum og umræður líflegar. Misræmið í lífeyrisréttindum landsmanna kom á dagskrá, en Steingrímur og Jóhanna eiga hvort um sig inni 200 milljóna óskerta eftirlaunaskuldbindingu  með ríkisábyrgð sem þau hafa aldrei greitt auðlegðarskatta af. En þau hikuðu ekki við að leggja þennan raunverulega eignaupptökuskatt  á samborgara sína sem hafa flestir þolað jafnvel 30 % skerðingu á lífeyrisréttindum sínum.

Einn fundarmanna líkti Sjálfstæðisflokknum við brimbrettasiglingu fólks  sem þar sem frambjóðendur stæðu núna efst á grængolandi öldunni eins og hún sést flottust í Hawaíþáttunum sem stefndi óðfluga á land og myndi brotna í fjörunni á laugardaginn kemur og þeyta Sjálfstæðisflokknum langt upp á land. Sá sem hér skrifar spáir Sjálfstæðisflokknum ekki minna 35 % fylgi í kosningunum.Það hefur nefnilega ekkert verið talað við okkur gömlu vitleysingana sem eru ekki teknir með í skoðanakönnunum. Við munum ekki kjósa pirata eða einhver önnur skringiframboð svo mikið er víst.

Vonandi þurfum við ekki lengur að hafa áhyggjur af atvinnuleysi ungra drengja eða annarra eða eymd úrræðaleysisins  eftir að núverandi kyrrstöðutimabili lýkur með því að stjórnarflokkarnir verði sendir í það frí sem þeir hafa unnið til. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 3418294

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband