Leita í fréttum mbl.is

Góður Guðmundur

Gunnarsson í Kjarnanum. Ég hef nú yfirleitt ekki verið mikill aðdáandi Guðmundar þar sem hann var nú yfirleitt herskár í kjarabaráttunni. En enginn frýði Sturlu vits þó ..

Grípum niður í grein Guðmundar:

" Þegar sigurvegarar kosninganna í vor tóku við í byrjun sumars voru áberandi yfirlýsingar um að þeir vildu ná góðu sambandi við aðila vinnumarkaðarins. Síðasta ríkisstjórn skilgreindi verkalýðshreyfinguna sem einn af sínum helstu óvinum, þrátt fyrir að hún væri eina vinstristjórn þessa lands. Hún sleit nánast öllu samstarfi við hana og valdi frekar samstarf við sjálfskipaða fámenna hagsmunahópa.

Þær voru súrrealískar yfirlýsingar þáverandi ráðherra, þegar þeir töldu sig þekkja betur vilja félagsmanna verkalýðsfélaganna en forsvarsmenn þeirra gerðu. Í þessu sambandi er vert að halda því til haga að málsvarar hinna sjálfskipuðu hagsmunahópa buðu allir fram í síðustu kosningum en náðu einungis fylgi um 1-2% kjósenda.Allir kjarasamningar á Íslandi renna út fyrir áramót og vinna við endurnýjun þeirra er komin af stað. Hagvöxtur á Íslandi í ár stefnir í að verða aðeins rúmt prósent. Hagvöxturinn í fyrra var líka undir væntingum, um 1,6 prósent.

Gjaldeyrishöftin voru nauðsynleg þegar þau voru sett en eru í dag farin að valda vaxandi vandræðum og bólumyndun. Stéttarfélögin hafa bent á tilgangsleysi þess að gera kjarasamninga í mynt sem stjórnvöld eigi auðvelt með að nýta til þess að „leiðrétta of góða kjarasamninga“. Íslenskt samfélag vantar sárlega aukna verðmætasköpun og verður að ná hagvaxtarauka sem svarar aað minnsta kosti um 3% áári, eigi að nást það lífsnauðsynlega markmið að grynnka á skuldum ríkisins og lækka árlegan vaxtakostnað ríkissjóðs um 30-50 milljarða...

Kjararáð úthlutaði í sumar nokkrum opinberum embættismönnum 15% afturvirkri launaleiðréttingu. Á sama tíma ákváðu bankarnir og fjármálastofnanir að leiðrétta laun sinna starfsmanna með myndarlegum bónusum. Þessar ákvarðanir eiga vafalítið eftir að reynast örlagaríkar setji maður upp Karphúsgleraugun.

Augljóslega telja margir launamenn að þarna hafi lágmörk komandi  kjarasamninga verið sett. Þegar komið er á kaffistofur vinnustaðanna er áberandi sú krafa að nú sé komið að millitekjuhópunum. Kjarasamningar frá aldamótum hafa umfram annað einkennst af sérstakri hækkun lægstu taxta, sem höfðu dregist langt  aftur. Þar má t.d. benda á að lægstu taxtar iðnaðarmanna hafa það sem af er þessari öld verið hækkaðir um 50% umfram umsamdar lágmarkslaunahækkanir. Fyrir liggur að slök launakjör hafa leitt til landflótta af vinnumarkaðinum og margir segjast vera á á förum verði kaupmátturinn ekki lagfærður og tekið á gjaldmiðilsmálum til framtíðar.  ..

Fram hefur komið hjá þeim sem vinna að fjárlagagerð að ríkisstjórninni er þröngur stakkur sniðinn og kosningaloforð um skattalækkanir og skuldaleiðréttingu þrengja hann enn meir. Þar til viðbótar liggur á borði fjármálaráðherra auk annarra himinhárra skulda ríkissjóðs 600 milljarða ógreiddur reikningur ríkissjóðs í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Í því sambandi verður ekki komist framhjá kraftmikilli kröfu launamanna á almenna vinnumarkaðinum um jöfnum lífeyrisréttinda, þeir sætti sig ekki við að búa við skerðingar á meðan opinberir starfsmenn búi við ríkistryggingu á sínum lífeyri. Fyrirliggjandi lausn í þessu máli kallar á hækkun iðgjalda og að ríkissjóður geri hreint fyrir sínum dyrum gagnvart opinberu lífeyrissjóðunum. ...

Núverandi ríkisstjórnarflokkar héldu því fram í kosningabaráttunni í vor að þeir réðu yfir aðferð til þess að lækka húsnæðisskuldir fólks án þess að skattgreiðendur og sjóðsfélagar almennu lífeyrisjóðanna þyrftu að borga brúsann.Nánast allir hagfræðingar landsins hafa dregið þetta í efa og nær væri ef hún á annað borð fyndist að nota þá fjármuni til þess að lækka svimandi skuldir ríkissjóðs....

Staðan í dag bendir þannig eindregið til þess þess að stjórnmálamenn muni enn eina ferðina ætla sér að leysa hnútinn í Karphúsinu með gengisfellingu krónunnar og meðfylgjandi verðbólguskoti. Samningamenn aðila vinnumarkaðarins hafa sagt að ekki sé hægt að setjast að samningaborðinu fyrr en ríkisstjórnin hafi lagt fram skýra efnahagsáætlun og hvernig hún hyggist taka á  gjaldmiðilsmálunum til framtíðar.

Talsmenn stéttarfélaga opinberra starfsmanna krefjast þess að 15% leiðréttingin komi strax óskert til allra og má leiða að því líkur að þeir muni því leiða kjaraumræðurnar í byrjun. Hér ræður því ríkjum ástand óvissunnar.

Ríkisstjórnarinnar bíður mjög erfitt og flókið verkefni á næstu vikum og hætt er við að kosningaloforðin frá því í vor verði henni þungbær. Margt bendir til þess að hér gætu orðið harkaleg átök á vinnumarkaðnum í vetur.Launamenn hafa undanfarin misseri sýnt skilning og þolinmæði í kjölfar hrunsins en nú vilja þeir fá þær leiðréttingar sem þeir telja sig hafa lagt inn með því að sitja á sér í launakröfum fyrir síðustu misseri. "(Leturbreytingar eru mínar)

Hér bregður mér öðruvísi til. Í stað þess Guðmundar sem ég kallaði með mér í gamni Guðmund Bolsévíkk talar skynsamur maður af yfirvegun um alvarlega hluti sem eru framundan. Það er svo greinilegt að ákvörðun kjararáðs er einhver sú óheppilegasta sem fram hefur gengið og er að ef ekki búinn að eyðileggja allan grundvöll fyrir þjóðarsátt sem þó hefði legið á borðinu þar sem fólk veit betur en að hækkun geti alveg eins þýtt lækkun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 3418439

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband