Leita í fréttum mbl.is

Jón Magnússon

lögmaður og vinur minn skrifar grein um skólamál í Mbl.í dag sem mér finnst allrar athygli verð.

Jón segir: 

" Við erum að komast á botninn í Evrópu í öllum greinum grunnskólans, samanber að 30% drengja koma ólæs út úr 10 ára grunnskóla. Um aldamótin 1900 er talið að 5-10% landsmanna væru ólæs á meðan prestar landsins sáu einir um fræðslu með tilstyrk heimilanna. Með tilkomu kennaraskólans og almennrar skólaskyldu tókst á skömmum tíma að útrýma ólæsi og nærri því allir gátu lagt saman 2 og 2 og þekktu húsdýrin og meira að segja ljón, fíl og asna.

Bárður Halldórsson, vinur minn, fyrrverandi menntaskólakennari, segir að lestrarbók Þórarins Böðvarssonar handa alþýðu, langafa Vigdísar forseta, hafi menntað þjóðina meir en allt kennslufræðingastóð nútímans samanlagt.

Áfram heldur Bárður og segir að það megi jafnvel segja að breyttu breytanda líkt og sr. Árni Þórarinsson sagði um Ásmund frænda sinn, síðar biskup, sem hann sagði að gæti afkristnað heilt sólkerfi ... að kennslufræðingarnir hafi rústað íslensku skólakerfi með dellukenningum frá Frakklandi um skynjunarnám ( Piaget).

 

Í stað þess að taka þrjá fyrstu bekkina í það að kenna lestur, skrift og reikning var farið að halda áfram föndrinu úr leikskólanum og öll áhersla hefur verið lögð á leik en ekki vinnu samkvæmt kenningum sósíalista að vinnan sé böl og öllum eigi að líða vel við leik ....

Annað gerist jafnhliða þessu: Lærisveinar Piaget, Andri Ísaksson og Wolfgang Edelstein, sannfærðu Gylfa Þ. Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra, illu heilli um nauðsyn skólarannsóknadeildar. Á sama tíma fengu kennarar þá hugmynd að hægt væri að hækka launin með lengra skólanámi, sömuleiðis var sumarfríið stytt án þess að kennt væri meira, en þess í stað fundað meir og námskeiðum fyrir kennara fjölgað.

Skólastarfið var byggt á þeirri forsendu að öllum ætti að líða vel í skólanum - ekki aðeins nemendum heldur kennurum ekki síður og jafnvel miklu frekar. Niðurstaðan hefur orðið sú að flestum líður verr. Árangur af skólastarfi sekkur niður í hyldýpishaf máttvana meðalmennsku. Það væri e.t.v. leið að leggja skólarannsóknadeild niður og draga sérkennslu verulega saman og skipta í bekki eftir námsgetu og nota próf sem mælikvarða.

 

Ekki verður séð að háskólavæðing Kennaraskólans hafi skilað árangri. Ef til vill væri rétt að taka hann út úr háskólaumhverfinu og stytta hann og kenna verðandi kennurum vel kennslugreinar grunnskóla. Þá mætti hækka laun kennara með því fé sem sparast við dellumakarí námskeiða og funda sem yrði skorið niður um 80-90%.

 

Vonandi hefur menntamálaráðherra kjark til að bjóða föndur-, námskeiða- og sérkennsluliðinu byrginn og snúa við þróuninni. Þá fengjum við betri skóla, þakklátari kennara, sem væru betur launaðir vegna þess að fé yrði betur nýtt.

Eftir að hafa kennt í rúm 10 ár á yngri árum er ég þeirrar skoðunar að afraksturinn í skólastarfi sé í öfugu hlutfalli við fjölmenni í yfirstjórn, fundi kennara og námskeið. Í fátækt og örbirgð gat íslenska þjóðin lært að lesa, skrifa og reikna auk þess að vera vel að sér í náttúrufræði. Stöðugt kall sérkennslu- og námskeiðaliðsins á meiri peninga þýðir því ekki aukna eða betri menntun.

 

Eftir vel heppnaða byrjun á endurreisn millistéttar með hugmyndum um skuldalækkun vona ég að borgaralega sinnuð stjórn framkvæmi fleiri nauðsynlegar aðgerðir. Uppstokkun í fræðslumálum er þar forgangsverkefni.

 

En ekki síður að fella niður verðtryggingu af neytendalánum þegar í stað, sem er forsenda fjárhagslegrar endurreisnar. "

Hvert orð finnst mér gullvægt í þessari grein nema auðvitað síðasta tuggan hans Jóns í stíl Cato gamla, sem heimtaði alltaf að Karþagó yrði lögð í eyði. En það varð svo loksins gert en aðeins til þess að ný höfuð uxu á Medúsu sem eyðilögðu Rómaríki. Mér finnst Jón þurfa að hugsa afstöðu sína til verðtryggingar aðeins betur. Eins og hann skilur skólamálin betur en margir aðrir þá gæti hann samt bætt við sig í skilningi á þennan þátt fjármála.

Ég spurði unga dömu í tíunda bekk hvort hún kynni margföldunartöfluna. "Nei" sagði hún hiklaust. "Þarf þess ekki, ég hef reiknivél."

"En ef þú ert nú stödd úti á víðavangi, ert ekki með reikninvélina  og þarft að vita hvað sex sinnum níu er?" "Það er ekkert mál , það er reiknivél í símanum mínum" sagði hún á sinn algerlega yndislega hátt.

Er þetta ekki  umhugsunarefni fyrir fleiri gamla fauska en Jón Magnússon og mig? 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég hitti Jón Magnússon í morgun og sagði honum eftirfarandi sögu: Faðir minn útskifaðist með kennararéttindi 18 ára gamall og hafði þá verið innan við þrjá vetur í skóla og mundi ekki til að hafa lært þar neitt að gagni, því afi sem var óskólagenginn hlýddi börnum sínum yfir meðan smalað var eða önnur færi gáfust. Að loknum farsælum ferli var honum boðið að hækka í launum með því að "taka kúrsa" (fara á námskeið) hjá fyrrum nemendum sínum "öppdeita módern teoríur" (tileinka sér nýustu kenningar) í kennslusamræðum og hópefli að sænskri fyrirmynd. Þessar breytingar keyrðu um þverbak að sögn föður míns á sjöunda og byrjun áttunda áratugarins. Þá hafði starfsmönnum skólanna fjölgað þrefallt miðað við nemendafjölda. Við Austurbæjarskólann störfuðu ýmsir sérfræðingar, einn Maoisti sem skilgreindi ölla vandamál út frá baráttu stéttanna, einn femínisti sem kyngreindi öll vandamál osf. Þetta endaði með að hann fékk sér aðra vinnu.

Sigurður Þórðarson, 10.12.2013 kl. 13:57

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Siggi, ekki ertu sonur Þórðar Magnússonar sem kenndi mér þar í den, bróður Siga sæta?

Halldór Jónsson, 10.12.2013 kl. 15:08

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Sigga sæta, Sigurði Magnússnar löggu, kennar og blaðafulltrúa?

Halldór Jónsson, 10.12.2013 kl. 15:09

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Jú hárrétt Halldór

Sigurður Þórðarson, 10.12.2013 kl. 15:19

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Siggi sæti, gaf mér allar Íslendingasögurnar, ættargrip sem langafi (Sigurður Þórðarson), hafði gefið honum.

Sigurður Þórðarson, 10.12.2013 kl. 15:37

6 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll.

Jón má eiga það að hann kom þessu vel frá sér. Þegar ég lærði til stafs tók kennarinn okkar sig til og fór í gamlar hirslur Menntamálaráðuneytis og gróf upp Elías Bjarna. Lærðum aldrei neitt annað og eftir að ég fór upp í gaggó, man ég hreint og beint ekki eftir því að ég hafi lært neitt meir í íslensku.

Sama með blessuðu mengjafræðina, þessu var hent út um gluggan og reiknuð hefðbundin dæmi í stað bullsins sem hún var og er.

Í dag eiga krakkar að finna upp aðferðir sjálf til að reikna stærðfræðidæmið....

Þessi endalausa tilraunastarfsemi verður að leggjast af. Gamla aðferðin virkaði fínt og það á ekki breyta hlutum bara til þess að breyta þeim. Tala nú ekki um eftir að breytingarnar munu hafa sýnt sig að hafa valdið ómældum skaða, ómældum vegna þess að það verður ekki ljóst fyrr en sú kynslóð sem situr þennan ófögnuð, tekur við þeirri sem slapp við hann.

Sindri Karl Sigurðsson, 10.12.2013 kl. 15:46

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Vonandi vekur grein Jóns Magnússonar upp verðskuldaða umræðu. Orðið framþróun hefur ferskan blæ og íhaldssemi þykir gamaldags. Hringavitleysan er sú að ef menn breyta því sem er "nákvæmlega ágætt", verða breytingar ekki gerðar án þess að um afturför sé að ræða.

Sigurður Þórðarson, 10.12.2013 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 3418323

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband