Leita í fréttum mbl.is

Af hverju ekki samstaða þjóðar?

spyr maður sig þegar menn eru að mótmæla því að Forsetinn megi hafa skoðun á því sem fleiri málum.

Það virðist vera að Forsetinn pirri fyrrum skoðanbræður sína  á vinstri vængnum mest með ávarpi sínu á nýjársdag. Hagfræðiprófessor telur að verðbólgutímar hafi fært þjóðinni meiri kaupmátt. Höfðu aðrir þá haldið því fram að 4000% taxtahækkanir hefðu skilað kaupmáttarlækkun þegar upp var staðið. Þessvegna hefðu menn ráðist í þjóðarsátt sem krafðist þess að Ólafur Ragnar sem ráðherra ógilti gerðan samning sinn við BHM. En Stefán Ólafsson miklar ekki fyrir sér að halda hinu gagnstæða fram og færir talnarök fyrir þeirri skoðun sinni. En hallar hann hvergi máli né segir öðruvísi til? Til eru þeir sem vilja fara ofan í þær fullyrðingar.

Ég minnist þess að við upphaf þjóðarsáttar var hér kreppa sem stóð til 1994. Hvergi var peninga að fá til eins né neins. Það var erfitt um vinnu. Það ríkti stöðnun og eftirspurnarleysi. Svo lagaðist það og Davíð Oddsson upplifði það fyrstur íslenskra forsætisráðherra að sjá dollarann fara úr 60 krónum  í 110 og svo aftur niður fyrir 60. Skyldi  betra gengi krónunnar ekki vera besta kaupmáttaraukningin fyrir launþega meðan útflutningurinn getur hagrætt á móti? Lækkar ekki verð á nauðsynjum ef gengið hækkar? Trúði ekki Jón Þorláksson á gengishækkun og lét hækka það stöðugt þangað til að sjávarútvegurinn þoldi það  ekki og allt fór í strand? En kom ekki heimskreppan þar líka við sögu áður en sölutregðan á fiskinum kom til?

Hefði Seðlabankinn getað gert annað frá árinu 2000 til hruns annað en að hækka sífellt stýrivexti?  Hertu vstýrivaxtahækkanirnar ekki á innflæði jöklapeninga? Gat hann ekki dempað þesnluna betur á annan hátt? Sumir segja að hann hefði getað bundið gjaldeyrinn í stað þess að horfa á bankana lána þá út á lágum vöxtum. Sem var ólöglegt ef textinn í lánsskjalinu minntist á íslenskar krónur.  Af hverju sagði enginn neitt?

Ekki fannst mér neitt að orðum Ólafs Ragnars um gagnsemi samstöðu þjóðar.  Ég var á Þingvöllum í rigningunni 17.júní 1944.  Var ekki samstaða þjóðar um að stofna lyðveldið?  Var ekki þjóðin samtaka um að hafna Icesave í tvígang þegar okkur var sagt af leiðtogum okkar að samþykkja? 


Einblínum við ekki um of á hagsmuni skuldara þegar við hrópum niður verðtrygginguna?  Látum vera þó sérreglur gildi um íbúðalán. En hví skyldum við fordæma verðtryggingu? Velur ekki fólkið hana umfram breytilega óverðtryggða vexti hjá Íbúðalánasjóði? Og er víistalan endilega að mæla sanngjarnt?

 Þurfum við ekki að hugleiða verðtryggingu fyrir þá sem vilja geyma fé sitt til skemmri tíma en þriggja ára? Bankarnir hafa greinilega  sér (ólöglegt?) samráð um verðtryggð kjör. Pétur Blöndal segir hina tekjulægst spara mest. Þeim er því refsað fyrir ráðdeild sem aðra skortir. 

Ég held að samstaða um þjóðarsátt á vinnumarkaði sé eftirsóknarverð.  Við þurfum að vernda krónuna og gengi hennar. Hækkandi gengi hennar kemur öllum vel með lækkandi verðlagi á neysluvöru og eldsneyti. Það kemur þeim lægstlaunuðu líka til góða.

Á ekki verðtrygging að vera valkvæð leið?  Eigum við ekki að hugsa um þá sem vilja spara en eki að fletta þá vísvitandi eins og bankarnir gera núna?

Ef þjóðin stendur saman er margt hægt að gera. Við getum hamið verðbólguna saman. Við getum aðeins hindrað sjálftöku þrýstihópa með samstöðu.   Við getum saman slegið á putta græðgishópanna í bönkunum og stórfyrirtækjunum, einkareknum sem  opinberum, Við getum unnið á spillingunni saman en ekki sitt í hvoru lagi.

Samstaða þjóðar hefur sýnt sig að vera til góðs hvenær sem hún tekst. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbeinn Pálsson

Í dag eru stýrivextirnir einungis mælikvarði á hve Már bankastjóri og félagar eru hræddir við Hrægammana. Það flæða milljarðar úr landi af skuldsettum gjaldeyrisforða vegna ofurstýrivaxta hræddra manna, sem síðar gæti endað með þeirra verðskuldaðra rimlavist. Allt yfir 0,5% stýrivöxtum er hrein óþjóðhollusta hræddra manna. Uppréttir menn hefðu aldrei látið sér detta í hug að skaffa hrægömmunum gullstraum til útlanda í formi gjaldeyris, (sem við tökum að erlendu láni) með því að halda uppi fáránlega háum stýrivöxtum í þágu þeirra. - Hvað hefði sparast í gjaldeyrisstraum til útlanda ef stýrivextir hefðu strax verið settir í 0,5%?

Kolbeinn Pálsson, 6.1.2014 kl. 22:33

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst gott að forsetinn hafi hverju sinni skoðanir og láti þær í ljósi. En það að dollarinn fór niður í 60 krónur var byggt á sandi og tilbúnum verðmætum. Það skapaði falska velmegun og neysluæði með tilheyrandi lántökum út yfir öll raunhæf mörk. Þess vegna hrundi þetta allt.  

Ómar Ragnarsson, 6.1.2014 kl. 23:16

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Halldór og gleðilegt ár.

Það er margt gott í þessum hugleiðingum þínum. Auðvitað getur samstaða aldrei leitt til annars en góðs og nærri fyrra að nokkrum manni skuli detta í hug að reyna að snúa út úr orðum þeirra sem slíkt boða.

En samstaða næst ekki nema allir komi að borði, þannig verður til þjóðarsátt. Að ætla að mynda slíka sátt með þáttöku einungis launafólks gengur einfaldlega ekki upp. Sumir vilja kenna nýgerðann kjarasamning við einhverskonar þjóðarsátt, en til að hægt sé að gera slíkt verður fleira að koma til. Því miður er það ekki sjáanlegt.

Það hefur einungis ein þjóðarsátt orðið til í okkar þjóðfélagi og hún var leidd fram af þeim frábæra manni Einari Oddi, vorið 1990. Síðan hafa verið gerðar a.m.k. tvær tilraunir til að endurtaka þann leik, sumarið 2009, meðan afleiðingar hrunsins stóðu sem hæðst og aftur við kjarasamninga vorið 2011. Báðar þessar leiðir misheppnuðstu með öllu og má kannski kenna stjórnvöldum mest þar um, en þau gengu í fararbroddi þeirra sem ekki stóðu við gerða samninga. Launafólkið sat eftir með sárt enni. Núverandi kjarasamningur er af svipuðum meið.

En skoðum aðeins söguna á síðari hluta síðustu aldar.

Í upphafi áttunda áratugar var verðbólgan orðin nokkuð stöðug, þ.e. hún virtist vera orðin föst á bilinu 20 - 40%. Þannig leið sá áratugur og undir lok hans þótti mönnum nóg boðið, enda töpuðu flestir á þessu rugli og ákveðið var að setja hina merku verðtryggingu á. Fyrst í stað voru bæði lán og laun verðtryggð.

Það er skemmst frá að segja að við þá aðgerð fór verðbólgan þráðbeint upp og eftir nærri þriggja ára verðtryggingu var verðbólgan á hraðleið yfir 100%. Þá var gripið inní og verðtrygging launa aftengd. Við þetta færðist verðbólgan niður á svipað plan og áður, 20 - 40% og hélst á því bili það sem eftir var níunda áratugarins.

Um veturinn 1990 steig fram maður að vestan, þáverandi stjórnarandstöðuþingmaðurinn Einar Oddur. Hann hóf þá vinnu að sameina alla aðila þjóðfélagsins að sama marki, ná niður verðbólgunni. Til þessa verks fékk hann sér til aðstoðar þáverandi forseta ASÍ og voru þeir í nánu samstarfi við þáverandi fjármálaráðherra.

Verk Einars var fjarri því að vera einfallt en hann hafði þó vit á að byrja á réttum enda. Þegar honum hafði tekist að ná til þessa verks stjórnendum fyrirtækja, verslana og þjónustu, þegar hann hafði náð með sér stjórnsýslunni, bæði ríkis og bæja og þegar hann hafði náð til þessa verks bankastofnunum og menntaelítunni, var snúið sér að ná launafólki að borði.

Það var fjarri því einfallt verk og sumum sárt. Sumir launþegar höfðu þá þegar samið um kauphækkun miðað við undanfarna verðbólgu. Flestir þeirra urðu að sætta sig við kjaraskerðingu og var undirritaður einn þeirra. Þurfti að gefa eftir umsamda launahækkun upp á 10% á pappír en nærri 20% í raun.

En Einari tókst þetta verk og gerðir voru kjarasamningar um litla launahækkun með vitund um að fyrsta ár kjarasamning yrði veruleg kjaraskerðing, en ef allt gengi upp kæmi hún til baka. Þetta gekk eftir, þó kannski heldur lengri tíma hafi tekið að vinna upp það tap en menn höfðu vonað.  

Það sem gerðist í kjölfarið var að á næstu fimm árum náðist verðbólgan undir 5% og fljótlega eftir það enn neðar. Þannig hélst hún allt fram undir hrun, utan smá skot um aldamót, þegar netbólan sprakk, en þá fór verðbólgan stutta stund yfir 5%.

Þessi saga segir manni að verðtryggingin er ekki tæki gegn verðbólgu, þvert á móti virkar hún sem eldsneyti fyrir hana. Hins vegar hefur samstaða og friður á vinnumarkaði mikil áhrif gegn þessari vá.

Það er auvitað rétt að verðtrygging hefur lítil áhrif á lán fólks þegar verðbólga er lág. Því var kannski ekki mikið verið að spá í hana meðan allt lék í lyndi.

Það væri einnig hægt að skoða hver áhrif verðtryggingar hefur á innlán fólks, versus útlán. Þar gildir auðvitað sama lögmál, meðan verðbólga er lág eru áhrif verðtryggingar litlar. Ég gerði mér það að leik, meðan verðbólgan var í hámarki eftir hrun, að fara á reiknivélar bankanna og láta þær reikna fyrir mig nokkur dæmi. Ég tók sem dæmi eina milljón til fimm ára. Þessa milljón lét ég reiknivélarnar fyrst reikna sem lán, annars vegar verðtryggt og hins vegar óverðtryggt. Síðan lét ég vélarnar reikna þetta sem innlegg, bæði á verðtryggðum reikning og óverðtryggðum. Sem viðmið verðbólgu notaði ég þá verðbólgu sem var þá stundina sem útreikningur fór fram og þá vexti sem þá giltu, annars vegar fyrir verðtryggða reikninga og hins vegar fyrir óverðtryggða. Reiknivélum bankanna kom nokkuð saman um niðurstöðuna.

Það er skemmst frá að segja að verðtryggða lánið hækkaði verulega yfir þessi fimm ár en vaxtalánið mun minna.  Þetta kom svo sem ekki á óvart, stemmir við raunveruleikann. Það sem kom á óvart var aftur hvernig þessar reiknivélar komu fram með innleggsreikningana. Sú upphæð sem þeir söfnuðu yfir þetta tímabil var mun mun lægri og nánast enginn munur á verðtryggðum reikning og óverðtryggðum. Það eru því ekki innleggseigendur sem njóta góðs af verðtryggingunni, heldur bankinn sjálfur og það veglega.

En aftur að kjaramálum, enda þau mér nokkuð hugleikin.  Persónulega tel ég að stjórnvöld eigi aldrei að koma að kjarasamningum, heldur eigi þeir að fara fram milli launþegans og fyrirtækisins. Þannig geta betur stödd fyrirtæki borgað hærri laun og valið betra starfsfólk. Það eflir það fyrirtæki enn frekar. Hin fyrirtækin, sem illa eru rekin sætu þá uppi með verra starfsfólk og munu að lokum leggja upp laupanna. Verkefnin myndu þá annað hvort færast til betur reknu fyrirtækjanna, sem þá gætu fjölgað fólki, eða þá ný fyrirtæki yrðu stofnuð um þau verkefni, af fólki sem er betur að sér á sviði fyrirtækjareksturs. Þetta myndi skapa mestann virðisaukann og framleiðni myndi aukast til muna. Þetta kostar auðvitað að stjórnendur fyrirtækja séu meðvitaðir um getu síns fyrirtækis og greiði laun samkvæmt því, að ekki sé farið offari né vanfari á því sviði. Þannig getur myndast gagnkvæm virðing milli stjórnenda og eigenda fyrirtækis og launþega, að allir keppi að sama marki.

Undantekningin frá þessari meginreglu er einungis ef ástand er komið á þann veg að grípa þurfi til aðgerða og þá á að nota aðferð Einars Odds við slík inngrip. Hins vegar tel ég að aldrei kæmi til slíkra aðgerða ef vinnumarkaðurinn væri heilbrigður.

Öll afskipti stjórnvalda má skoða sem niðurgreiðslu launakostnaðar fyrirtækja. Þegar gengið er til kjarasamninga á þeim grunni að verst stöddu fyrirtækin ráði ferð og það látið ganga þvert á línuna og stjórnvöld koma að málinu með enhverjum hætti til að þau fyrirtæki geti staðið við kjarasamninga, er verið að niðurgreiða launakostnað fyrirtækja sem vel eru rekin og þurfa ekki á slíkri niðurgreiðslu að halda.

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að það sem stjórnvöld leggja fram til kjarasamninga er haldlítið til lengdar. Þetta var kannski einna skýrast á síðasta kjörtímabili, þegar þáverandi stjórnvöld fóru að krukka í ýmislegt sem var í raun hluti kjarasamninga. Má þar nefna afnám verðtryggingar skattleysismarka, afnám sjómannaafsláttar, og krukk í allskyns bætur til barnafólks. Allt voru þetta hlutir sem komu til vegna kjarasamninga og voru notaðir til að liðka fyrir gerð þeirra á sínum tíma.

Því fer best á því að halda stjórnvöldum utanvið gerð kjarasamninga og láta einfaldlega markaðslögmálið gilda á því sviði. Þannig verður vinnumarkaður heilbrigður.

Grunnur samstöðu byggir á trausti og virðingu. Heilbrigður vinnumarkaður, byggður á trausti og virðingu, leiðir til samstöðu.

Gunnar Heiðarsson, 7.1.2014 kl. 09:00

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú fyrirgefur mér þessa löngu athugasemd Halldór. Ég áttaði mig ekki á hversu löng hún var fyrr en ég var búinn að senda hana frá mér.

Gunnar Heiðarsson, 7.1.2014 kl. 09:01

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Kolbeinn, já það má líta á að menn hafa veri að bú til þægindi fyrir erelenda fjármagnseigendur, reyna að fá þá til að vea kyrra með því að greiða þeim vexti.

Ómar, ég held að 60 hafi verið rétt verð á dolaranum. það er ekki rétt verð á dolaranum núna af því að því er haldið uppi með handafli og hræðslu. Ef eki væri snjóhengjan,væri dollarinn á 60 plús og annað eftir því. Það eru ekki normal tímar.

Gunnar Heiðarsson, þú ert hugsandi eins og áður og síst eru þínar hugleiðingar of langdregnar fyrir mig.

Sérstaklega er frásögn þín af þjóðarsáttinni sem þú upplifðir fyrstu hendi áhugaverð og nauðsynleg. Ég er mjög ánægður með þessa fráögn þína og vildi óska að þeir sem hæst hrópa um afnám verðtryggingar sem einskonar slagorð sem þeir líklega skilja ekki einu sinni sjálfir frekar en evruna eða upptöku candadollars af því að þeir þekkja ekki söguna eins og þú.

Á sama tíma sem þeir tala um hvað Danir eigi gott að fá húsnæðislán til 30 ára á 3.5 % án þess að taka það með að þessi dönsku lán eru erlend lán.

Við höfðum erlend lán á 4-5 % hér fyrir hrun. Svo allt í einu var það allt ómögulegt ´Hæstarétti og svo ekki í næsta dómi hans. Ringulreið sem lætur fólk halada að öll erlend lán séu dæmd ólögleg.

Takk fyrir allir

Halldór Jónsson, 8.1.2014 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband