Leita í fréttum mbl.is

Óli Björn Kárason

rekur harða kosningabaráttu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Þó hann sé að vísu ekki í framboði til borgarstjórnar, þá er málflutningur hans með þeim hætti að borgarbúar ættu að leggja eyrun við.

Sjálfsagt rennur Óla Birni til rifja umkomuleysi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í kosningabaráttunni sem ætti að vera á fullu þessa dagana. Fortíð flokksins á síðustu kjörtímabilum er honum áreiðanlega fjötur um fót þar sem kjósendur detta ekki beinlínis um afrek flokksins og afstöðu einstakra fulltrúa í veigamiklum málum.

Ól Björn skrifar svo í Morgunblaðið í dag:

 Engu er líkara en að meirihluti borgarstjórnar hafi einbeittan vilja til að koma einkaframtakinu fyrir kattarnef. Undir forystu Jóns Gnarr og Dags B. Eggertssonar eru tækifærin nýtt til að leggja steina í götur sjálfstæðra atvinnurekenda. Þrengt er að starfsemi þeirra eða þeir eru hreinlega flæmdir í burtu.

 

 

Vinstri meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar [BT] hefur lítinn áhuga á öðru en að þétta byggð, draga úr valmöguleikum borgarbúa, telja skref að sorptunnum, byggja fuglahús við umferðargötur og hækka álögur. Einkaframtakið er fleinn í holdi þeirra og einkabíllinn skal útlægur gerður.

 

 

Það ætti því fáum að koma á óvart að lagt sé til atlögu við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli. Í Fluggörðum eiga aðsetur flugskólar, flugklúbbar, fyrirtæki og einstaklingar og eru hluti af þekkingarþorpi flugsins sem hefur orðið til við Reykjavíkurflugvöll. En ekkert af þessu skiptir meirihluta borgarstjórnar máli - ekki frekar en lífsviðurværi á annað þúsund einstaklinga sem vinna á flugvallarsvæðinu. Flugvöllurinn skal víkja fyrir íbúðabyggð og Fluggarðar þegar á næsta ári.

 

 

Þekkingarþorp flugsins

 

Alfhild Nielsen, talsmaður hagsmunaaðila á Fluggarðasvæðinu sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir skömmu að svo virtist sem stefnt væri að »eignaupptöku á mannvirkjum en Reykjavíkurborg hefur lítið sem ekkert samráð haft við þinglýsta eigendur mannvirkja á svæðinu«.

 

 

Jóhannes Bjarni Guðmundsson flugmaður heldur því fram í Morgunblaðsgrein 4. apríl sl. að þeir sem eiga eignir og starfa í Fluggörðum finni »fyrir hroka og yfirgangi borgaryfirvalda gegn flugvellinum og allri þeirri starfsemi sem þar þrífst«. Hann bendir á að ótrúlegur fjöldi Íslendinga byggi afkomu sína með beinum eða óbeinum hætti á flugi sem sé í »raun ein af grunnstoðum í velmegun okkar«:

 

 

»Í Fluggörðum og á Reykjavíkurflugvelli eru m.a. uppeldisstöðvar okkar fagfólks. Flugmenn, flugumferðarstjórar, flugvirkjar og fjöldi annarra stíga sín fyrstu skref í þekkingarþorpi flugsins sem Reykjavíkurflugvöllur er og hefur verið í marga áratugi.«

 

Röksemdir af þessu tagi eru léttvægar í huga meirihluta borgarstjórnar og forystumenn Samfylkingar og BT hafa ekki áhyggjur þótt verið sé að setja allt kennslu- og einkaflug á Íslandi í uppnám.

 

 

Rótgrónum fyrirtækjum

bolað burt

 

 

Skeytingarleysi vinstri meirihlutans í Reykjavík einskorðast ekki við starfsemi Reykjavíkurflugvallar. Kaupmenn á Laugaveginum eru í vörn. Umferð hefur snarminnkað á síðustu árum - þrengingar, sumarlokanir og fækkun bílastæða hafa komið illa niður á viðskiptum. Léleg lýsing og umhirða bæta ekki ástandið.

 

Rüdiger Þór Seidenfaden, eigandi Gleraugnasölunnar, sagði í samtali við Morgunblaðið að borgaryfirvöld væru hreinlega að útrýma íslenskri verslun við Laugaveginn:

 

 

»Hér er verið að bola burtu rótgrónum fyrirtækjum. Það verður ekkert eftir nema hótel og ferðamannaverslanir.«

 

 

Það er ekki nóg að borgaryfirvöld hagi skipulagi þannig að einkaaðilar eigi erfitt uppdráttar heldur er beinlínis komið í veg fyrir að sjálfstæðir atvinnurekendur fái að bjóða þjónustu sína. Þannig var einkafyrirtæki neitað um leyfi til að safna lífrænum úrgangi frá heimilum í Reykjavík, á þeirri forsendu að um »grunnþjónustu« væri að ræða sem sveitarfélag ætti að veita. Í huga hins umhverfissinnaða vinstri meirihluta skipti engu þótt Reykjavíkurborg sinnti ekki þessari þjónustu og mundi ekki gera á næstu árum.

 

 

Með sama hætti þótti það óviðunandi í huga forystu vinstrimanna að borgarbúum stæði til boða endurvinnslutunnan frá Gámaþjónustunni. Því var nauðsynlegt að fara í samkeppni við einkaaðilann - bláa tunnan varð til sem íbúarnir neyddust til að greiða fyrir í formi hærri fasteigna- og sorphirðugjalda.

 

 

Aðferðir sundrungar

og missættis

 

 

Það er merkilegt að þeir stjórnmálamenn sem hæst og oftast tala um íbúalýðræði, samráð og samræður ganga harðast fram við að ná markmiðum sínum - beita aðferðum sundrungar og missættis. Skiptir engu hvort um er að ræða skipulag grunnskóla, eins og foreldrar hafa fengið að kynnast, eða breytingar á aðalskipulagi borgarinnar.

 

Guðmundur Magnússon blaðamaður Morgunblaðsins benti á í nýlegri fréttaskýringu að þegar fyrsta eiginlega aðalskipulag fyrir Reykjavík var samþykkt fyrir tæpum 50 árum hefði ríkt um það full samstaða allra borgarfulltrúa. Allar götur síðan hafi verið lögð áhersla á að endurskoðun aðalskipulagsins væri í góðri sátt, þvert á stjórnmálaflokka. Þetta var fyrir tíma samræðustjórnmála.

 

 

Nú er öldin önnur undir stjórn Samfylkingar og BT. Nýtt aðalskipulag er afgreitt í miklu ósætti og í engu er tekið tillit til óska og skoðana íbúa. Undirskriftir um 70 þúsund landsmanna sem vilja Reykjavíkurflugvöll á sínum stað hafa engin áhrif á meirihluta borgarstjórnar. Borgarbúar gerðu athugasemdir við 250 atriði í aðalskipulaginu. Þeim athugasemdum var hent út í hafsauga.

 

 

Hugmyndafræði vinstrimanna í skipulagsmálum borgarinnar er ekki aðeins til þess fallin að draga úr þrótti einkaframtaksins heldur einnig að fækka valkostum borgarbúa. Þétting byggðar skal vera á kostnað úthverfa, almenningssamgöngur og hjólreiðar skulu efldar á kostnað einkabílsins. Öllu er stillt upp sem andstæðum.

 

 

Í stað þess að fjölga valkostum borgarbúa er þeim fækkað. Í þessum efnum má segja að vinstrimenn séu samkvæmir sjálfum sér. Þeir trúa því ekki að öflugar almenningssamgöngur fari vel saman við að greiða leið einkabílsins. Þeir eru sannfærðir um að blómleg úthverfi séu á kostnað öflugs miðbæjar.

 

 

Gangi stefna meirihluta borgarstjórnar eftir í skipulagsmálum mun yfirbragð Reykjavíkur breytast á komandi árum. Í litlu verður tekið tillit til óska íbúanna, hagsmunir sjálfstæðra atvinnurekenda verða fundnir léttvægir, úthverfi verða sett í frost og ný samgöngumannvirki ekki byggð enda á einkabíllinn lítið erindi í draumsýn þar sem allir ferðast í Strætó eða fara um á reiðhjólum. Þegar Reykjavíkurflugvelli verður endanlega lokað hefur Reykjavíkurborg sagt sig frá skyldum sem höfuðborg allra landsmanna.

 

 

Eftir stendur fátæklegri borg sem stjórnað er af stjórnmálamönnum sem eru í hjarta sínu á móti fjölbreytni. Vilja takmarka valmöguleika, fækka þeim kostum sem eru í boði hvort heldur er í samgöngum eða búsetu. "

 

 Niðurlag bloggarans.

Hér farið yfir margt af því sem upp úr stendur af athöfnum Bestaflokksins og Samfylkingarinnar síðasta kjörtímabil. Hvergi er þó listinn tæmandi og vonandi lætur Óli Björn ekki staðar numið í upprifjuninni.

 

Ég hef áður skrifað um það hér á síðunni hversu ásýnd Borgarlandsins hefur breyst í valdatíð Dags B.Eggertssonar.  Mannsins sem nýtur yfirburðafylgis Reykvíkinga til að verða næsti Borgarstjóri eftir því sem kannanir sýna.

 

Maður sér það glöggt þegar ekið er úr Kópavogi til Reykjavíkur um Ögurhvarf hversu ásýndin breytist. Umhverfið verður ótótlegra og snyrtimennska lætur undan síga. Öllu viðhaldi hjá Borginni hefur hrakað í tíð þeirra vinstrimanna.

 Höggvin hafa verið tré meðan aðrir setja niður.Götur eru þrengdar meðan aðrir reyna að greiða umferð og snyrta umhverfi.Skólamál er afgreidd með valdboðum meðan aðrir reyna að stunda íbúasamráð og þannig má lengi telja. Fluggarðar skulu rifnir bótalaust og Íslendingar geta bara farið og lært sitt flug í útlöndum er boðskapur S.Björns Blöndals. Aðalskipulagið skal keyrt í gegn hvað sem hver segir enda þó nokkrir Sjálfstæðismenn í fylgdinni.

 

Maður hefði haldið að í öllum þessum málum fælust sóknarfæri fyrir stjórnmálaflokk í minnihluta.  Vonandi ná Sjálfstæðismenn vopnum sínum fyrir kosningar.

 

Ekki skal skorta hvatningar frá okkur óbreyttu fótgönguliðum ef hinir vopnfimu menn eins og Óli Björn vilja leggjast á árar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband